Sigló hf.
Föstudaginn 05. maí 1989

     Fyrirspyrjandi (Jón Sæmundur Sigurjónsson):
    Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. fjmrh. fyrir mjög greinargóð svör. Það sem hér liggur fyrir er skólabókardæmi um það hvernig einkavæðing forklúðrast alveg gersamlega. Þetta fyrirtæki var selt á sínum tíma sem ríkisfyrirtæki vegna þess að það var í stöðugum taprekstri og ríkið þurfti að veita stöðuga styrki til að reksturinn mætti ganga. Nú hefur ríkið aftur og aftur þurft að fresta því að taka inn greiðslur vegna þessara kaupa. Það er ekki bara ríkið sem hefur rekið fyrirtækið áfram heldur þjónustuaðilar, sveitarstjórn og ýmsir aðilar á Siglufirði sem þurfa að bera yfir 100 millj. kr. vegna reksturs þessa fyrirtækis. Það kemur þar að auki. Meðan fyrirtækið var ríkisrekið á sínum tíma stóð fyrirtækið í skilum við alla þessa aðila og veitti tugum manna á Siglufirði örugga atvinnu. Nú er úti um það.
    Það fór mikil hneykslunaralda um allt þjóðfélagið þegar þannig stóð á að ekki höfðu liðið nema tveir tímar frá því að fyrirtækið var lýst gjaldþrota þar til sömu aðilar höfðu sett upp nýtt flagg, nýtt merki, nýja kennitölu, en að öðru leyti allt hið sama og ætla sér að reka fyrirtækið áfram. Eftir standa skuldir við heimamenn yfir 100 millj. kr. og fyrirtækið sjálft er komið í gjaldþrot með skuldir upp undir 300 millj. kr. Inneign í Verðjöfnunarsjóði upp á 60 millj. kr. bætir þar engu um og þetta fyrirtæki hefur ekki fengið aðra meðferð í Verðjöfnunarsjóði en önnur fyrirtæki svipaðs eðlis um allt land.
    Ég vil því þakka hæstv. fjmrh. mjög rækilega og vel fyrir greinargóð svör.