Sigló hf.
Föstudaginn 05. maí 1989

     Friðrik Sophusson:
    Virðulegur forseti. Ég vil fyrst harma þær dylgjur sem komu fram hjá hv. fyrirspyrjanda og biðja hann um að kanna það, sem hann ætti vel að vita, að sumir af eigendum fyrirtækisins eru a.m.k. yfirlýstir flokksmenn annarra flokka. Vil ég þar t.d. minna á fyrrv. bæjarstjóra á Ísafirði sem búsettur er í Kópavogi sem er einn af aðilum þessa fyrirtækis. Dylgjur hans og ég leyfi mér að segja lygi, nota það orð hérna, virðulegur forseti, ætti hann því að spara sér í þessari umræðu jafnvel þótt hann sé einn af þeim gæðingum sem telja sig græða á þessu máli þar sem hann kemur frá Siglufirði. Ætti hann kannski frekar að snúa sér að því að reyna að gera eitthvað til bóta fyrir þann stað sem hann hefur verið búsettur á eða var á sínum tíma.
    Í öðru lagi vil ég segja það að þegar húsið sem Siglósíld var í var selt þurfti að kosta verulega mikið upp á þetta hús og finnst mér að það ætti kannski að fylgja með í umræðunni hvað kaupendurnir fóru illa út úr þeim kaupum. Ég minni á það og mér er vel kunnugt um það sem fyrrv. fjárveitinganefndarmanni að þegar fyrirtækið var í ríkiseigu voru það meira en heildarlaun fyrirtækisins sem ríkið lét með fyrirtækinu af fjárlögum og stundum komu aukafjárveitingar til viðbótar. Þetta veit ég að hv. þm. Geir Gunnarsson getur staðfest hvenær sem er.
    Þá vil ég jafnframt segja frá því og hérna hefur komið fram að það er auðvitað skiptaráðandi sem sér um gjaldþrota bú, skiptaráðandi og fulltrúar þrotabúsins eru einmitt lánardrottnar fyrirtækisins. Ég fagna því að hæstv. ráðherra ætlar að sjá til þess og ég treysti því að þegar í næstu viku liggi fyrir skýrsla. Málið sé tekið upp til umræðu þannig að allir þm. hafi jafnan aðgang í umræðunni en ekki eins og nú er þegar ráðherra hefur margfaldan tíma á við aðra þm. Ég lít svo á að yfirlýsingar hans séu þess efnis að hann ætli að sjá til þess að í næstu viku liggi fyrir skýrsla til umræðu þar sem farið verður ofan í þetta mál og ég vildi fúslega að til viðbótar kæmu aðrar sölur, eins og t.d. sala Landssmiðjunnar, því að hann nefndi sérstaklega einkavæðingu Sjálfstfl. Ég hlakka til þeirra umræðna þannig að hægt verði að fletta ofan af dylgjum og ófyrirleitni hæstv. ráðherra í þessu máli.