Sigló hf.
Föstudaginn 05. maí 1989

     Kristinn Pétursson:
    Hæstv. forseti. Ég verð að lýsa yfir vonbrigðum mínum með að menn skuli gera sér það að pólitísku máli og velta sér upp úr því þegar fyrirtæki verður gjaldþrota. Detti einhverjum til hugar að menn leiki sér að því að ganga í gegnum gjaldþrot, svo skelfilegt sem það hlýtur að vera fyrir viðkomandi aðila, finnst mér það lýsa miklu frekar innræti viðkomandi sem hefur slíka hugsun. Ég verð að lýsa yfir ógeði mínu á þessum hugsunarhætti.
    Þetta mál hlýtur auðvitað að vera hluti af þessu stóra vandamáli sjávarútvegs yfirleitt. Hver á að fylgjast með rekstri fyrirtækja? Eiga fyrirtæki að vera í gjörgæslu hjá ríkinu? Það eru bankar sem eiga að fylgjast með rekstri fyrirtækjanna. Ef einhver álítur það viljaverk að leika sér að því að setja fyrirtæki á hausinn vil ég ítreka að það lýsir miklu um innræti þess sem þannig hugsar.