Þingvíti, tilhögun þingfundar
Föstudaginn 05. maí 1989

     Geir H. Haarde:
    Virðulegi forseti. Frá því að ég kvaddi mér hljóðs um þingsköp fyrir viku síðan hefur forseti beðist afsökunar á fundarstjórn sinni. Ég tel forseta mann að meiri fyrir vikið, en þetta hefur hins vegar orðið til þess að ég hef farið að grufla eilítið í þingsköpunum og mig langar til að vitna af því tilefni sem hér er orðið í 68. gr. þingskapa vegna þeirra brigslyrða og aðdróttana sem fram hafa komið af hálfu fjmrh. í garð einstakra þingmanna hér inni. Greinin hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,Ef þingmaður talar óvirðulega um forseta Íslands eða ber þingið eða ráðherra eða einhvern þingmann brigslyrðum eða víkur með öllu frá umtalsefninu þá skal forseti kalla til hans: ,,Þetta er vítavert``, og nefna þau ummæli sem hann vítir.``
    Hér hefur auðvitað skapast, virðulegi forseti, fullkomið tilefni til þingvítis á þingmannsígildið Ólaf Ragnar Grímsson, hæstv. fjmrh., sem hér hefur farið með algjörlega ósæmilegum hætti með aðdróttanir í garð einstakra þingmanna, farið með því út fyrir umræðuefnið í fyrirspurnatíma, þegar hann á að vera að svara fyrirspurnum, og snúið efninu upp í ásakanir, aðdróttanir og brigslyrði í garð annarra þingmanna. Þetta er með öllu óviðunandi og væri nú rétt, þótt seint sé, að forseti vítti hæstv. fjmrh. fyrir þessi ummæli.