Þingvíti, tilhögun þingfundar
Föstudaginn 05. maí 1989

     Ólafur G. Einarsson:
    Hæstv. forseti. Ég var ekki í hópi þeirra þingflokksformanna sem óskuðu eftir fundarhléi til þingflokksfunda. Nú hefur það hins vegar gerst og ekki í fyrsta skipti að hæstv. fjmrh. hefur hagað orðum sínum þannig að það er ekki til að liðka fyrir þingstörfum. Það er ekki í fyrsta skiptið, eins og ég segi, sem hæstv. fjmrh. hagar sér þannig og alveg sérstaklega á það við þegar dregur að þinglausnum. Þetta hefur orðið mér tilefni til þess að ég óska eftir meira en 10 mínútna fundarhléi. Við munum koma saman til þingflokksfundar, þingflokkur sjálfstæðismanna, og ég óska þess vegna eftir lengra hléi en 10 mínútum. Það er alveg lágmark að fá hálftíma fundarhlé.