Búminjasafn á Hvanneyri
Föstudaginn 05. maí 1989

     Ólafur Þ. Þórðarson:
    Herra forseti. Það liggur fyrir Alþingi frv. til l. um búminjasafn á Hvanneyri og það er í menntmn. að sjálfsögðu og í menntmn. Nd. Formaður menntmn. lagði til að því yrði vísað til Fjárlaga- og hagsýslustofnunar til að fá þaðan útreikninga og óskað var eftir að það gerðist nokkuð skjótt. Mér þykir dálítið merkilegt þegar það kemur hér fram og er lesið upp að litlar líkur séu á að það mál fáist samþykkt og vildi óska eftir því að frummælandi fyrir þessari tilvísun á þáltill. að mæla með að hún verði látin fara til ríkisstjórnarinnar gerði grein fyrir því hvaðan þær fréttir eru komnar að það liggi fyrir að litlar líkur séu á að hitt verði samþykkt því að auðvitað er dálítið hlálegt ef við samþykkjum fyrst að vísa þáltill. til ríkisstjórnarinnar og samþykkjum svo lagafrv. í ofanálag. Eðlilegra hefði verið, af því að þessir aðilar, hv. 2. þm. Austurl. og hv. 4. þm. Norðurl. v., eru báðir í sama stjórnmálaflokki og talast trúlega oft við, að þeir gættu þess samræmis í tillöguflutningi hér að sú niðurstaða yrði ekki í þessu máli að fyrst yrði þáltill. afgreidd á þann hátt að vísa henni til ríkisstjórnarinnar um þetta mál og svo yrði samþykkt lagafrv. um að gera þetta að lögum.
    Ég tel málið sáraeinfalt og ekkert því til fyrirstöðu að samþykkja það frv. sem liggur fyrir í menntmn. Nd. og satt best að segja sýnist mér ríkisstjórnin hafa ansi margt við sinn tíma að gera þó að við verðum ekki að etja henni á það verk að semja frv. til l. um þetta efni. Ég tel þess vegna ekki rétt að þessum málatilbúnaði staðið.