Ástandið í framhaldsskólunum
Föstudaginn 05. maí 1989

     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson):
    Virðulegi forseti. Ef ég hef tekið rétt eftir var þeirri fyrirspurn beint til mín hvað yrði gert varðandi þann kostnað sem nemendur hafa orðið að bera vegna launa starfsfólks mötuneyta. Það hefur ekki verið tekin nein ákvörðun í því máli. Venjan er nú sú að þegar deilum af þessu tagi lýkur er yfirleitt talið rétt að framkvæma fjárhagslegt uppgjör með sanngjörnum hætti og ég tel að það mál sem hv. fyrirspyrjandi vék hér að sé eitt af slíkum. Ég vona hins vegar að þær tilraunir sem menn hafa verið að reyna að gera allra síðustu sólarhringa leiði til þess að lausn fáist í þessari deilu. Við höfum reynt á síðustu klukkustundum og sl. nótt að setja fram ýmsar hugmyndir í þeim efnum og ég vona að þær verði skoðaðar af alvöru þannig að mönnum gefist tækifæri síðar í dag og á morgun að ræða þessi mál á þann hátt að lausn finnist.