Ástandið í framhaldsskólunum
Föstudaginn 05. maí 1989

     Menntamálaráðherra (Svavar Gestsson):
    Virðulegi forseti. Varðandi það sem fram kom hjá hv. 2. þm. Reykv. áðan vil ég aðeins bæta því við að auðvitað höfum við hugleitt margar leiðir í þessu efni varðandi skólalokin 1989 í menntmrn. Við höfum t.d. séð þær tillögur sem fyrir liggja frá Menntaskólanum í Reykjavík og Menntaskólanum við Sund. Það eru að mörgu leyti álitlegar tillögur. Við erum að fara yfir þær og margar fleiri og ég teldi óeðlilegt og rangt af menntmrh. við þessar aðstæður hins vegar að vera að taka einn þátt út úr og vil segja frá því, sem ég held að mér hafi láðst að nefna hér áðan, að ég hef ákveðið að hitta eftir helgina fulltrúa skólameistara framhaldsskólanna í landinu og sömuleiðis fræðslustjórana. Ég held fund með skólameisturunum klukkan tíu á mánudagsmorgun og með fræðslustjórunum á hádegi á mánudag. Það eru þeir aðilar sem við munum ræða við, auk fulltrúa framhaldsskólanemanna. Þannig förum við yfir þessi mál, þannig vinnum við okkur í gegnum þau.
    Ég ætla svo ekki satt að segja að fara yfir það sem fram hefur komið í ræðum einstakra þingmanna, en ég verð að segja alveg eins og er að mér finnst það sérkennilegur hugarheimur sem hv. 10. þm. Reykn. lifir í ef hún trúir því að menn séu að gera sér leik að því að brjóta niður fólk. Ef fólk er í stjórnmálum á þessum forsendum og ímyndar sér andstæðingana svona er býsna mikið af eigin hugmyndum um stjórnmál, að ég hygg, reist á misskilningi.