Ástandið í framhaldsskólunum
Föstudaginn 05. maí 1989

     Kristín Halldórsdóttir:
    Hæstv. forseti. Ég skal ekki rengja það að þetta hafi verið sameiginleg niðurstaða hæstv. forseta og þingflokksformanna sem hún lýsti sem útkomu fundar sem forseti og þingflokksformenn áttu hér áðan þó ég leyfi mér að efast um að allir séu hæstánægðir með þá niðurstöðu, þeir sem tóku þátt í þessum fundi. En mig undrar ef það er hald hæstv. forseta að það greiði sérstaklega fyrir þinghaldi, sem nú er búið að ákveða að standi næstu viku, að efna frekar til langrar umræðu skv. 2. mgr. 32. gr. þingskapalaganna en ef hv. 18. þm. Reykv. hefði fengið að koma upp og svara þeim ásökunum sem var beint til Kvennalistans þar sem hún var þar að auki búin að berja í borðið og kveðja sér hljóðs áðan.