Frsm. félmn. (Hjörleifur Guttormsson):
    Virðulegur forseti. Á þskj. 1020 er nál. um till. til þál. um endurskoðun laga og reglugerða um rekstur heilbrigðisstofnana frá félmn.:
    ,,Nefndin hefur fjallað um tillöguna og sendi hana til umsagnar. Svör bárust frá eftirtöldum: Fulltrúaráði sjómannadagsins í Reykjavík og Hafnarfirði (vegna Hrafnistu), Landssambandi sjúkrahúsa, Sambandi íslenskra berklasjúklinga (stjórnarformanni), Sambandi ísl. sveitarfélaga og Tryggingastofnun ríkisins.
    Þessir aðilar telja tillöguna athyglisverða, sumir mæla með að hún verði samþykkt en jafnframt kemur fram að þegar sé unnið að vissum þáttum þessara mála, m.a. er nefnd að störfum við að kanna möguleika á samstarfi og sameiningu sjúkrahúsa á höfuðborgarsvæðinu.
    Í umsögn sjómannadagsráðs kemur m.a. fram að ráðið telur nauðsynlegt að skýrar lagareglur verði settar um rétt sjálfseignarstofnana. ,,Sú nauðsyn virðist brýnni nú en áður eftir að frumvarp um verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga kom fram,,, segir í bréfi ráðsins.
    Stjórn SÍBS segir m.a. í umsögn:
    ,,SÍBS telur æskilegt að löggjöf um heilbrigðismál og rekstur sjúkrastofnana sé sem heilsteyptust en áréttar nauðsyn þess að sérstaða einkareksturs á þessu sviði sé greind frá rekstri stofnana ríkis og sveitarfélaga með þeim hætti að ávallt liggi samningar til grundvallar um rekstrarform, þjónustustaðal og fjármögnun.``
    Nefndin bendir á að lögfesting á breyttri verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga getur haft mikil áhrif á rekstur og skipulag heilbrigðisþjónustunnar. Eðlilegt er að nokkur umþóttunartími fáist til að fram komi reynsla af þessari breytingu.
    Um leið og nefndin tekur undir þau sjónarmið að samræmis þurfi að gæta í löggjöf um heilbrigðisþjónustu óháð rekstrarformi og leita þurfi leiða til hagkvæmni, samhliða góðri þjónustu í heilbrigðiskerfinu, leggur hún til að tillögunni verði vísað til ríkisstjórnarinnar.``
    Þetta er gert á Alþingi 3. maí sl. og að þessu áliti standa allir fulltrúar í félmn.