Friðrik Sophusson:
    Virðulegur forseti. Till. sem hér er verið að ræða og verður væntanlega samþykkt var fyrst flutt á síðasta þingi, var endurflutt, eins og ég hygg að flestir hv. þingmenn muni, á þessu þingi og urðu þá talsverðar umræður um málefni skipasmíðaiðnaðarins. Ég tel að margt af því sem kemur fram í þessari till. sé af hinu góða og sjálfsagt að samþykkja till., en ég bendi á að í umræðum sem urðu um þetta mál í haust lofaði hæstv. iðnrh. því að skila til Alþingis skýrslu sem unnin hefur verið á vegum breska fyrirtækisins AP Appledore. Hann tjáði Alþingi á þeim tíma að sú skýrsla yrði tilbúin í desembermánuði. Eftir þessu var síðan gengið við síðari hluta fyrri umræðu um þetta mál og við þá umræðu sagði hæstv. ráðherra að skýrslan yrði tilbúin innan skamms, en vinna var þá hafin á vegum svokallaðrar verkefnisstjórnar. En hún hafði það að verkefni að fara yfir málefni skipasmíðaiðnaðarins í heild. Verkefnisstjórnin var skipuð þannig að auk fulltrúa fyrirtækisins voru fulltrúar skipasmiðjanna og fulltrúar Landssambands iðnaðarmanna auk fulltrúa ráðuneytisins. Reyndar komu til verksins ýmsir aðrir, þar á meðal fulltrúar Byggðastofnunar, og ég hygg að hv. þm. Benedikt Bogason geti staðfest það, enn fremur fulltrúar Fiskveiðasjóðs. En þetta var í fyrsta skipti sem allir þeir aðilar sem stunda lánafyrirgreiðslu til skipasmíðaiðnaðarins tóku höndum saman til að ræða þetta mikilvæga mál og koma fram með tillögur sem hægt væri að standa á fyrir þennan iðnað í framtíðinni. Ég sakna þess núna þegar þetta mál er til lokaafgreiðslu að hvergi er minnst á þetta verkefni sem búið er að kosta til verulegum fjárhæðum. Það kemur ekki fram í máli hv. frsm. nefndarinnar né heldur virðist hæstv. ráðherra vera viðstaddur þessa viðræðu til þess að gera grein fyrir þessum málum.
    Mér finnst, virðulegur forseti, vera full ástæða til þess að hæstv. ráðherra efni það loforð sem hann gaf þinginu á sínum tíma, komi fram með þessa skýrslu eða a.m.k. segi frá því á hvaða stigi vinnslunnar skýrslan er. Nú eru liðnir a.m.k. fjórir eða fimm mánuðir síðan skýrslan átti að vera tilbúin. Sú skýrsla tekur á þessu máli bæði hvað varðar þau efnisatriði sem hér hafa verið nefnd og koma fram í þáltill. hv. þm. Stefáns Guðmundssonar og enn fremur öðrum mjög mikilvægum málum er snerta greinina.
    Ég vil þess vegna, virðulegur forseti, um leið og ég lýsi yfir stuðningi við þessa till., fara fram á að hæstv. ráðherra fái við þessa umræðu tækifæri til þess að segja frá því hver staðan er í þessari skýrslu. Ég sé að hæstv. ráðherra er ekki viðstaddur þessa umræðu og kýs þess vegna að óska eftir því að hæstv. ráðherra gefist kostur á að skýra Alþingi frá stöðu málsins þó að það kosti að dráttur verði á afgreiðslu málsins einn sólarhring eða svo. Málið er afar mikilvægt. Vandamál skipasmíðaiðnaðarins eru ekki eingöngu fjármögnunarvandamál heldur ýmis skipulagsvandi sem þetta breska ráðgjafarfyrirtæki tók á, en fyrirtækið hefur stundað ráðgjafarþjónustu. Ég kýs, virðulegur forseti, að hæstv. ráðherra verði gefinn

kostur á að fjalla um málið í þessari umræðu, enda var það í fyrri umræðu málsins sem hann lýsti því yfir að hann mundi afhenda Alþingi skýrslu þegar verkefnastjórnin hefði lokið sínu starfi. Mér finnst það vera betra til þess að spara umræður um þetta mál ef hægt væri að fresta málinu um sólarhring. Hæstv. ráðherra gæti þá komið og gert grein fyrir málinu, sagt frá því hver staða þess sé þannig að heildarmynd fáist af stöðu iðnaðarins í dag og hvers vænta má af hálfu hæstv. ríkisstjórnar, en þetta mál var eitt af þeim stóru málum sem hæstv. ríkisstjórn hugðist beita sér fyrir.
    Ég vona, virðulegur forseti, að þetta tefji ekki framgang málsins nema í hæsta lagi einn sólarhring og tel að það sé eðlilegt að verða við þeirri ósk að hæstv. ráðherra annaðhvort efni loforð sitt eða a.m.k. skýri þingheimi frá því hver staða málsins sé. Það er þess vegna, virðulegur forseti, sem ég fer fram á það að hæstv. ráðherra taki til máls í þessari umræðu og ef ekki næst til hans í dag fái hann tækifæri til þess í umræðunni að henni frestaðri á morgun að gera grein fyrir stöðu málsins, enda er það afar gagnlegt annars vegar fyrir Alþingi og hins vegar fyrir þann fjölda starfsmanna sem vinnur við skipasmíðaiðnað hér á landi. ( Forseti: Forseti er tilbúinn að fresta afgreiðslu málsins þar til það getur komið á dagskrá.)