Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson):
    Virðulegi forseti. Ég vildi byrja á því að lýsa yfir stuðningi mínum við þá þáltill. sem hér liggur fyrir eins og hún kemur frá hv. atvmn.
    Ríkisstjórnin hefur unnið að því að bæta samkeppnisstöðu innlends skipaiðnaðar, einkum með því að með sérstakri ákvörðun var létt lántökugjaldi af lánum vegna innlendra skipaviðgerða sem veitt eru fyrir milligöngu Byggðasjóðs. Jafnframt var hækkað lánshlutfall við innlendar skipaviðgerðir og er það nú nokkru hærra en veitt er þegar viðgerðir eru keyptar frá öðrum löndum. Ríkisstjórnin hefur enn fremur í undirbúningi sérstakt markaðsátak innan lands fyrir skipaviðgerðir. Það er nauðsynlegt verk, einkum af því að kostir innlendra skipaviðgerða í samanburði við viðgerðir sem keyptar eru frá öðrum löndum hafa ekki verið nóg á orði hafðir og ekki kynntir nógu vel. Ég hef í huga að vinna að slíku kynningarstarfi í samráði við samtök skipaiðnaðarins og reyndar Landssamband ísl. útvegsmanna og koma því til allra þeirra sem hafa með þessi mál að gera og náttúrlega sérstaklega til útvegsmanna.
    Annað sem á döfinni er er að vinna að stefnumótun í samráði við Landssamband iðnaðarmanna og Félag dráttarbrauta og skipasmiðja og samtök iðnaðarmanna í þessari grein. Verkefnið er að móta stefnu fyrir íslenskan skipaiðnað á næstu árum, m.a. á grundvelli skýrslu sem breska ráðgjafarfyrirtækið Appledore hefur unnið að, en það verk var hafið í tíð hæstv. fyrrv. iðnrh., Friðriks Sophussonar.
    Því miður hefur dregist að áliti þessara ráðgjafa væri skilað. Því hefur verið lofað nokkrum sinnum en nú virðist ljóst að það muni koma fram í mánuðinum maí og ég mun beita mér fyrir því að þingmenn fái útdrátt úr þessari skýrslu jafnskjótt og tök eru á. Ég tek það fram að ég er samþykkur því sem fram kemur í nál., að æskilegt sé að ríkisstjórnin geri grein fyrir sínum verkum á þessu sviði þegar komið er haustþing.
    Ég ætla ekki að hafa um þetta fleiri orð, virðulegi forseti, en lýsi stuðningi mínum við ályktunina eins og hún liggur hér fyrir.