Kristinn Pétursson:
    Hæstv. forseti. Ég vil taka undir það að nauðsynlegt er að huga að íslenskum skipasmíðaiðnaði og hvað gera megi til þess að bæta samkeppnisstöðu hans. En ég vil jafnframt minna á að það er ekki hægt að fjalla um málefni sem þetta sem eitthvert einangrað fyrirbrigði í efnahagslífinu. Mér finnst eiginlega fullmikið af því gert hér á hinu háa Alþingi að fjalla um einstök mál eins og þau séu í einhverri blindgötu og enginn heimur í kring. Vandamál íslensks skipasmíðaiðnaðar er auðvitað hluti af stærra vandamáli sem er stjórn efnahagsmála á Íslandi. Og staða íslensks skipasmíðaiðnaðar væri ólíkt betri ef stjórn efnahagsmála hefði verið í fastari skorðum hér heldur en hún hefur verið undanfarin ár.
    Ég vil þess vegna leyfa mér að spyrja hæstv. iðnrh. sem jafnframt er viðskrh.: Hvaða tillögur eru á borði ríkisstjórnarinnar til þess að koma jafnvægi á íslenskan fjármagnsmarkað i heilu lagi og þar með að bæta samkeppnisstöðu íslensks skipasmíðaiðnaðar og annarra atvinnugreina? Hvað er fyrirliggjandi núna hjá hæstv. ríkisstjórn til þess að koma á jafnvægisástandi á fjármagnsmörkuðum?
    Hér er til umræðu í þinginu í gær og í dag húsbréfafrv. Ekki hef ég nú enn þá komist í svo feitt að sjá hver heildaráhrif þess verði á fjármagnskerfið, en það má vel vera að maður geti fundið það með mikilli leit.
    Hæstv. iðnrh. er jafnframt viðskrh. og æðsti yfirmaður Seðlabankans. Í 3. gr. laga um Seðlabanka stendur að hlutverk Seðlabankans sé að vinna að því að peningamagn í umferð og framboð lánsfjár sé hæfilegt miðað við það að verðlag haldist stöðugt og framleiðslugeta atvinnuveganna sé nýtt á sem fyllstan og hagkvæmastan hátt. Þess vegna vil ég leyfa mér að spyrja: Hvar eru tillögur Seðlabankans um það að jafnvægisástandi skuli komið á hjá einstaklingum? Peningamarkaður?
    Það er hluti af þessu skipasmíðamáli að íslenskur skipasmíðaiðnaður geti fengið lánsfé með auðveldu móti og ég er þeirrar skoðunar að lánsfé fáist ekki með auðveldu móti fyrr en ríkið hættir að láta greipar sópa um íslenskan lánamarkað. Og að ætla síðan framleiðslunni og verðmætasköpuninni í landinu að bítast um restina. Ég hef aldrei getað skilið svona stórfurðulega hugmyndafræði í fjármálum. Ríkissjóður hlýtur að vera afgangsstærð þar sem ríkissjóður eyðir peningum en framleiðir ekki neitt, þannig að framleiðslan í landinu hlýtur að verða að sitja fyrir fjármagninu. Svo auðug þjóð eins og íslenska þjóðin er á að geta haft jafnvægi á þessum málum og haft þessa hluti í lagi. En ég ítreka spurningu mína til hæstv. viðskrh. um það hvort einhverjar hugmyndir séu um jafnvægisástand á fjármagnsmörkuðum.