Manneldis-og neyslustefna
Laugardaginn 06. maí 1989

     Guðrún Agnarsdóttir:
    Virðulegi forseti. Aðeins nokkur orð um þessa ágætu þáltill. sem ég fagna fyrir hönd Kvennalistans að hefur verið lögð fram. Það er stjórnvöldum mjög nauðsynlegt að móta stefnu í þessum málum og þó fyrr hefði verið. Ég ætlaði að bera fram spurningu til hæstv. forsrh. um það hvort ætlunin væri í raun að Alþingi tæki þátt í því að móta þessa stefnu með því að afgreiða þetta mál eða hvort það væri einungis til kynningar, en ég hef þegar fengið svar við því. Mér finnst það reyndar slæmt að okkur skuli gefast svo naumur tími í þinglok til að ræða jafnmikið grundvallaratriði í velferð og farsæld þessarar þjóðar sem stefnumótun í manneldis- og neyslumálum er. Það hefur verið lögð mikil vinna í þetta mál af þeirri nefnd sem að því vann og ég vil benda hv. þingmönnum á fróðlega og gagnlega lesningu sem er að finna í fylgiriti og er að hluta til greinargerð þeirra sem unnu í þessari nefnd.
    Varðandi efni þáltill. get ég tekið undir það og finnst flest ef ekki allt gott sem þar er sagt. Hins vegar finnst mér skipta meginmáli hvernig staðið verður að framkvæmd þessarar þál. ef hún verður samþykkt, hvort hún í raun kemst til framkvæmda eða verður einungis eitt af mörgum fallegum stefnumálum þessarar og annarra ríkisstjórna.
    Þá vil ég víkja að b-lið í þáltill. þar sem segir, með leyfi hæstv. forseta: ,,Að tekið sé mið af settum manneldismarkmiðum við ákvörðun tolla og skatta og hvers konar annarra opinberra aðgerða sem hafa áhrif á verðlag matvæla, svo sem við ákvörðun niðurgreiðslna.`` Ég held að það sé meginmál hvort stjórnvöld, þ.e. hin ýmsu ráðuneyti, samhæfi aðgerðir sínar við framkvæmd stefnu eins og þessarar eða hvort þau vinna í raun hvert gegn öðru eins og komið hefur í ljós hingað til. Við skulum líta okkur nær í tíma og ég vitna til nýlegrar fyrirspurnar sem ég bar fram á þingi til hæstv. viðskrh. þar sem kom glögglega fram að verð á matvælum er hærra á Íslandi en í allflestum nágrannalöndum okkar. Þetta gildir jafnt um þau matvæli sem álitin eru vera holl neysluvara og önnur, reyndar er verð á matvælum orðið svo íþyngjandi fyrir pyngju venjulegs launafólks að það er alvarlegt mál. Þetta verðlag á sér ýmsar skýringar. Það stafar ekki af einni orsök heldur af mörgum. Veigamikil orsök þessa verðlags hlýtur að vera og er skattlagning á matvæli. Við skulum ekki gleyma því að það er ekki langt síðan að lagður var skattur, svokallaður matarskattur, á íslensk matvæli alveg án tillits til þess hvort þar var um að ræða holla neysluvöru eða óholla. Við skulum heldur ekki gleyma því að í umræðum um þá skattlagningu þegar hún stóð til þurfti að berjast fyrir því að fá undanþágur fyrir þau matvæli sem álitin voru hollar neysluvörur af manneldisráði til margra ára. Það var enginn greinarmunur gerður í þeim efnum þegar verið var að skattleggja matvæli. Þetta er í raun nýliðin tíð.
    Mín spurning til hæstv. forsrh. er því: Hvaða von eygir hann til þess að stjórnvöldum takist að samhæfa aðgerðir sínar þannig að einstaklingum gefist kostur á

og reyndar eigi sér val um að neyta hollra neysluvara? Ef svo er ekki verður þetta marklaust plagg að mínu viti þó að ásetningur og tilgangur sé góður. Ég hlýt að víkja að þessu og ég hlýt að benda hæstv. forsrh. á að þessi stefnumótun sem við erum að ræða nú er hluti af miklu víðtækari stefnumótun og varðar stefnumótun Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar sem við erum aðilar að og nefnist ,,Heilbrigði fyrir alla árið 2000``. Þar er lögð ríkuleg áhersla á það að stjórnvöld samhæfi aðgerðir sínar þannig að einstaklingnum sé í raun kleift að lifa hollustusamlegu lífi, honum sé m.a. efnahagslega fært að veita sér þann sjálfsagða rétt að kaupa hollustufæðu en ekki það sem honum er óhollara.
    Ég get tekið mjög sterklega undir c-liðinn þar sem stendur, með leyfi hæstv. forseta: ,,Að auka fræðslu í matreiðslu og almennt um manneldis- og neyslumál í grunnskólum og framhaldsskólum landsins.`` Þetta ætti að vera hluti af sjálfsögðum undirbúningi undir lífið sem lærist bæði á heimili og í skóla.
    Ég vil víkja lítillega að e-liðnum þar sem stendur, með leyfi forseta: ,,Að nemendur í grunn- og framhaldsskólum eigi kost á að borða í skólanum.`` Þetta er í raun svo sjálfsagt mál og orðin svo almenn krafa meðal foreldra og nemenda að stjórnvöld geta ekki lengur vikist undan því að hrinda þessu í framkvæmd. Ég vil benda á þingmál sem Kvennalistinn hefur flutt og margir aðrir hafa minnst á hér á þingi, nauðsyn þess að gera nemendum kleift að matast í skólum eins og foreldrar þeirra og aðrir fullorðnir gera á sínum vinnustað og þykir sjálfsagt.
    Varðandi f- og g-liðinn, um að auka almenna fræðslu og kynningu um tengsl mataræðis og heilsu og einnig um tengsl heilsufars og líkamlegrar hreyfingar, vil ég undirstrika nauðsyn þess að fundinn sé markviss farvegur fyrir heilbrigðisfræðslu í landinu. Ég vil vísa á frv. til laga um heilbrigðisfræðsluráð sem Kvennalistinn hefur ítrekað flutt á þingi. Það kann að vera að mönnum þyki það ekki vera besta formið til þess að reka slíka starfsemi en það verður að finna henni markvissan farveg þannig að fjármunir og átak manna til fræðslu nýtist á samhæfðan, árangursríkan hátt.
    Ég fagna því að nú skuli eiga að gera heildarúttekt á fæðuvenjum
þjóðarinnar. Slík úttekt hefur ekki verið gerð nema að hluta til nokkrum sinnum, síðast á árunum 1978--1980. Þá náði hún einungis til hluta þjóðarinnar. Ég tel mjög nauðsynlegt fyrir stefnumótun af þessu tagi að hún styðjist við vitneskju um það hvernig neysluvenjur þjóðarinnar eru.
    Ég ætla ekki að lengja mál mitt en styð þessa þáltill. eindregið. Mér finnst hún vera af hinu góða og ég fagna því að stjórnvöld skuli sjá sóma sinn í því að bera hana fram. En ég skora á stjórnvöld og ég skora sérstaklega á hæstv. forsrh. að tryggja að það verði veitt fé til þessara framkvæmda því að annars verður þetta plagg í raun einungis góður ásetningur. Það þarf fé bæði til fræðslunnar, til kynningar og til þess að efla þá starfsemi sem hér hefur verið stungið

upp á í þessari tillögu. Ég vil biðja hann að svara mér því hvort fjárveitingar hafi verið ætlaðar til annars en t.d. þeirrar neyslukönnunar sem hann minntist á í framsögu sinni.