Manneldis-og neyslustefna
Laugardaginn 06. maí 1989

     Guðrún Agnarsdóttir:
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. forsrh. svör hans, en aðeins örfá orð vegna máls hv. 2. þm. Norðurl. v. Ég held að við þurfum að fara varlega í því að státa okkur af langlífi. Langlífi okkar, eins og það er reiknað, stafar ekki síst af því hve ungbarnadauði er lágur hér á landi. Við skulum ekki gleyma því að það fólk sem nú er gamalt hefur búið við allt aðra lifnaðarhætti en við búum við í dag. Það stundaði miklu erfiðari líkamlega vinnu en við allflest gerum og þess vegna e.t.v. varð dýrafita þeim að fæðu sem brann upp fremur en fæðu sem safnaðist á kyrrsetufólk eins og nú er. Ég held að við þurfum að huga vel að öllum þáttum þessa máls þegar við ræðum það. Og varðandi þau ummæli sem hér hafa fallið um að setja löggjöf minni ég á að hér er einungis um þáltill. að ræða sem miðar að því að auðvelda fólki holla lifnaðarhætti fremur en að banna fólki að neyta þess sem það sjálft kýs.