Friðrik Sophusson:
    Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka fyrir að þessu máli var frestað í morgun þar sem ég var ekki kominn til þings og biðst afsökunar á því að hafa komið svo seint til þessa þingfundar. Ástæðan fyrir því að þessu máli var frestað í gær var sú að ég beindi ákveðnum fyrirspurnum til hæstv. ráðherra sem hann mun hafa svarað hér fyrr í umræðunni í morgun og mér skilst að í hans máli hafi komið fram að fyrirtækið A.P. Appledore hafi ekki enn skilað sinni skýrslu en það muni gerast nú þessa dagana, og skil ég málið þannig, miðað við fyrri yfirlýsingar ráðherra, að strax og skýrslan sé komin í viðunandi búning verði hún send þingmönnum eins og hann hafði sjálfur sagt í fyrri umræðunni þegar hann áætlaði að skýrslan kæmi í janúarlok. Fyrst var reyndar áætlað að hún kæmi í desember, síðan í janúarlok eins og fram kom í fyrri umræðunni.
    Ég lýsti því í gær að ég væri samþykkur þeirri tillögu sem hér liggur frammi til umræðu. Ég kemst samt ekki hjá því að vekja athygli á nokkuð merkilegum hlut, en það er að í nefndaráliti er skýrt tekið fram hvernig hv. nefnd hugsar sér það að framkvæma þá efnislegu hluti sem fram komu í sjálfri þáltill. Þar segir, með leyfi forseta:
,,1. Ríkisstjórnin reyni að tryggja að útvegsmenn og opinberir sjóðir semji ekki um nýsmíði skipa eða viðhaldsverkefni erlendis án undangengins útboðs þar sem innlendir aðilar keppi á jafnréttisgrundvelli við erlendan skipaiðnað, m.a. hvað snertir meðferð tilboða og fjármagnsfyrirgreiðslu.
    2. Tilboð verði metin á viðskiptalegum grundvelli áður en lánveitingar eru ákveðnar.
    3. Settar verði staðlaðar reglur um útboð, veðskilmála og tilboð í skipaiðnaðarverkefnum.
    4. Ríkisstjórnin beiti sér fyrir því að bankar veiti sambærilegar ábyrgðir vegna skipaiðnaðarverkefna innan lands og veittar eru þegar verkefni eru unnin erlendis.``
    Varðandi 1. liðinn á hann nokkra forsögu sem mér er kunn frá dögum síðustu ríkisstjórnar, en þar hafði iðnrn. afskipti af þessum málum og skrifaði annars vegar viðskrh. og hins vegar sjútvrn. bréf og óskaði eftir því að farið yrði að hugmyndum skipasmiðjanna varðandi þessi mál, þannig að innlendir aðilar ættu þess kost að bjóða í verkefni áður en þau yrðu send utan. Viðskrn. svaraði þessu erindi 28. mars 1988 og sagðist í mörg ár hafa reynt að fylgja fram þessari reglu, en í lok bréfs viðskrn. til iðnrn. sagði svo orðrétt, með leyfi forseta:
    ,,Væntanlega gæti Fiskveiðasjóður veitt innlendu skipasmíðastöðvunum sams konar aðstoð með því að verða við tilmælum þeirra um að veita ekki lán til endurbóta eða meiri háttar viðgerða á skipum erlendis nema verkið hafi áður verið boðið út innan lands.``
    Sjútvrn. var tvívegis skrifað án þess að svar bærist frá ráðuneytinu en að lokum varð það samkomulag á milli ráðuneytanna að efna til þessa verkefnis sem A.P. Appledore hefur staðið fyrir, en að því verkefni standa, auk Landssambands iðnaðarmanna og

Sambands dráttarsmiðja og skipasmiðja, Byggðasjóður, Fiskveiðasjóður og síðan iðnaðarsjóðirnir auk iðnrn. og er það auðvitað þakkarvert og þess vegna er beðið með eftirvæntingu eftir því hvað kemur fram í þeirri skýrslu sem áreiðanlega verður grundvöllur undir stefnumótun stjórnvalda.
    En sökum þess að nú hefur hv. nefnd lagt hér línur um það hvernig fara eigi með þetta mál held ég að það væri til góðs ef hæstv. sjútvrh. gæti sagt frá því í þessum umræðum hvernig stjórnvöld gætu staðið að því sem kemur fram í nál. því að hingað til hefur verið mjög erfitt að fá Fiskveiðasjóð, sem er aðallánasjóður skipasmiðjanna, til þess að framfylgja þessum verklagsreglum og hafa þær vissulega haft margt til síns máls. Það skal tekið fram. Mér fyndist vera gott áður en endanlega er gengið frá þessari tillögu að hæstv. ráðherra segði frá því hvort hugsanlegt sé að farið verði að ráðum hv. nefndar sem koma fram í nál. með þessari tillögu því að auðvitað er gagnslítið að samþykkja þessa tillögu nema yfirmaður Fiskveiðasjóðs lýsi því hér og nú hvort og hvernig hann hyggist standa að þessu verði tillagan samþykkt með því nál. sem hér liggur fyrir. Þess vegna, virðulegur forseti, af því að ég sé ekki ástæðu til þess að hæstv. iðnrh. ítreki það sem hann sagði hér í morgun, þó má hann gera það að sjálfsögðu mín vegna og kysi ég að fá að hlýða á hans mál, vildi ég gjarnan fá að heyra hvernig hæstv. sjútvrh., yfirmaður Fiskveiðasjóðs, hyggst standa að þessu máli og verður það ærið fróðlegt því að það fellur auðvitað í hans hlut að fylgja þessum hugmyndum eftir ef hægt verður.
    Að þessu sögðu, virðulegur forseti, kýs ég ekki að flytja hér lengri ræðu, enda óþarft. Ég er yfirlýstur stuðningsmaður þessa máls en tel auðvitað að til þess að eitthvert vit sé í að samþykkja tillöguna verði stjórnvöld að segja hér og nú hvort tillagan sé framkvæmanleg í þeim búningi sem kemur fram í nál. hv. atvmn. Sþ.