Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson):
    Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að lýsa ánægju minni með það að hv. 1. þm. Reykv. er kominn til þings og getur tekið þátt í þessari umræðu sem lengi hefur beðið.
    En svo að ég snúi mér að efni máls, þá vil ég endurtaka það sem ég sagði fyrr á þessum morgni að um leið og hið breska ráðgjafarfyrirtæki og samstarfshópurinn um þetta verkefni, sem er skipaður mönnum frá samtökum skipasmiðjanna og Landssambandi iðnaðarmanna auk starfsmanna iðnrn., hafa lokið störfum mun ég gera þinginu grein fyrir niðurstöðu skýrslunnar, ef það tekst á þingtímanum með því að leggja hana hér fram en annars með því að senda þingmönnum skýrsluna eða útdrátt úr henni á íslensku um leið og kostur er.
    Ég þarf ekki að endurtaka að ég harma að sá dráttur hefur orðið á verkinu sem raun ber vitni og frá hefur verið skýrt. Það er kannski eitt ágætt dæmi um það að það er ekki alltaf betra að semja við erlenda menn um verkin eins og hv. 1. þm. Reykv. gerði á sínum tíma meðan hann var iðnrh. En verkið kemur þótt seint sé og vonandi vel unnið og getur orðið þáttur í stefnumótun stjórnvalda um skipasmíðar sem náttúrlega hlýtur fyrst og fremst að beinast að því að skapa þessari grein eins og öðrum almenn, hagstæð skilyrði.
    Þar með kem ég að máli því sem hv. 1. þm. Reykv. gerði hér að aðalefni ræðu sinnar og það var hvernig ríkisstjórnin skildi fyrsta töluliðinn af fjórum sem greindir eru í nál. atvmn. Ég vildi vekja athygli hv. þm. á því að þar er einmitt hyggilegt orðalag þar sem segir:
    ,,Ríkisstjórnin reyni að tryggja að útvegsmenn og opinberir sjóðir semji ekki um nýsmíði skipa eða viðhaldsverkefni erlendis án undangengins útboðs þar sem innlendir aðilar kepptu á jafnréttisgrundvelli við erlendan skipaiðnað.``
    Þetta er mikilvæg ábending en getur ekki orðið fastmótuð regla að mínu viti nema menn vilji hverfa að forsjárhyggju og miðstýringu. Það vakir væntanlega í máli hv. 1. þm. Reykv. að hann vilji að opinberir sjóðir hafi vit fyrir útvegsmönnum í þessum efnum. Það tel ég hið mesta óráð, en hins vegar á viðleitnin einmitt að vera sú sem lýsir sér í nál., að ráðuneytin miðli upplýsingum og opinberar stofnanir eins og Byggðastofnun, svo að ég nefni nú aðra stofnun sem kemur að þessu máli auk Fiskveiðasjóðs --- að tengja saman tilboð og eftirspurn eftir verkum og nýleg dæmi eru um það t.d. að viðskrn. hefur getað beint verkum sem annars hefðu farið til útlanda til innlendra skipasmiðja með því að spyrja einfaldlega eftir því við þá sem eftir leyfi leituðu til að taka erlent lán vegna innflutnings á hafnsögubátum í þessu tilfelli hvort ekki væri miklu einfaldara að fá þetta gert í innlendri skipasmíðastöð, reyndar í þessu tilfelli skipasmíðastöðinni Þorgeir og Ellert á Akranesi. Þetta reyndist mjög auðsótt mál þegar að var gáð en til þess þarf eingöngu upplýsingamiðlun, atbeina stjórnvalda með hæfilegri fjármagnsfyrirgreiðslu og

hún var sannarlega veitt í þessu tilfelli. Þetta er gott dæmi um það hvernig stjórnvöld reyna að tryggja það sem nefnt er hér í áliti atvmn. Þetta er það sem stjórnin vinnur nú að og ég mun gera nánari grein fyrir síðar þegar títtnefnd skýrsla liggur fyrir, en auðvitað er hún ekki hjálpræðið í þessu máli, heldur okkar eigið hyggjuvit og umfram allt starf fyrirtækjanna sjálfra, og samstarf þeirra. Það er alveg greinilegt af viðtölum við forsvarsmenn skipaiðnaðarfyrirtækja að samkeppnisstaða þeirra hefur skánað, bæði vegna breytinga á raungengi krónunnar frá því í fyrra og eins af því að aðgangur þeirra að fjármagni og lánsskilmálar hafa orðið þeim hagstæðari, lántökugjaldið eða lántökuskatturinn hefur verið felldur niður sérstaklega af þessari starfsemi, innlendri skipaviðgerðastarfsemi, og verður eins og fram hefur komið felldur niður í haust að fullu ef frv. það sem hæstv. forsrh. mun mæla hér fyrir í Ed. síðar í dag verður að lögum, sem ég vona að verði. En allt lýsir þetta viðleitni til þess að búa þessari starfsgrein, eins og öðrum, hæfileg almenn starfsskilyrði þannig að hún geti dafnað.