Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson):
    Virðulegi forseti. Auðvitað er það rétt hjá hv. 5. þm. Austurl. að vandi íslenska skipaiðnaðarins er öðrum þræði hinn almenni efnahagsvandi Íslendinga og atvinnulífsins alls. Á móti því ber enginn maður og ég vil ósköp einfaldlega segja það að þau grundvallaratriði sem hv. þm. hreyfði eiga rétt á sér og þau þarf að hugleiða. Það er stefna þessarar stjórnar að bæta jafnvægið á lánamarkaðinum með aðgerðum innan lands og með því að tengja íslenska lánamarkaðinn betur og nánar við alþjóðlegan lánamarkað. Þetta kom m.a. fram í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar sem flutt var á Alþingi 6. febr. sl. og hefur reyndar ítarlega verið rædd í umræðum um ýmis mál síðar á þinginu.
    Þetta mun m.a. gerast með því að greiða fyrir því að innlendir aðilar taki lán frá útlöndum á eigin ábyrgð. Þetta mun líka verða gert með því að athuga um þátttöku erlendra lánastofnana hér í fjármagnsmiðlun. Þetta eru hlutir sem verið er að móta og reyndar er eitt slíkt þingmál nú í hv. Ed. sem fjallar um heimildir til þess að taka greiðslufresti frá öðrum löndum. Allt miðar þetta að því að jafna betur kjörin á innlenda lánamarkaðinum.
    Ég minni líka á að í því frv. um ráðstafanir vegna kjarasamninga, sem hæstv. forsrh. mun gera grein fyrir og mæla fyrir í hv. Ed. síðar á þessum degi, er felldur niður lántökuskatturinn frá miðju ári sem m.a. hefur valdið þrýstingi á lánskjörin á þenslutímanum. Nú er hins vegar ráðrúm til að fella hann niður. Þetta eru dæmi um aðgerðir sem miða í þessa átt. Ég vil líka rifja upp að í ræðu seðlabankastjóra á ársfundi Seðlabankans 28. apríl sl. kom fram að jafnvægi á lánamarkaði væri nú betra en það hefur verið frá því að lög um viðskiptabanka, sparisjóði og Seðlabanka gengu í gildi 1986, sem sumir kenna við frjálsar ákvarðanir í vaxtamálum. Þetta er allt saman vitnisburður um að stefna þessarar stjórnar sé að bera þann árangur sem hv. 5. þm. Austurl. lýsti eftir, þ.e. að koma á betra jafnvægi á lánamarkaðinum sem svo sannarlega er ein af forsendum þess að atvinnufyrirtækin geti þrifist, þar á meðal skipaiðnaðurinn.
    Um gengið vildi ég eingöngu segja það að ég vék að því nokkuð í mínu máli að raungengið hefði þokast svo til réttrar áttar á þeim tíma sem þessi stjórn hefur starfað að þar sér mikinn mun í samkeppnisstöðu skipaiðnaðarins og reyndar annarra fyrirtækja sem annaðhvort flytja út eða eiga í samkeppni við erlend fyrirtæki. Fleira þarf ég ekki um þetta mál að segja en þakka hv. 5. þm. Austurl. enn á ný fyrir það að rifja upp fyrir okkur grundvallaratriðin og lesa upp úr lögunum um Seðlabankann, um viðmiðanir við gengisákvarðanir, sem hann hefur gert hér öðrum mönnum oftar og er sennilega helsti stuðningsmaður stefnu stjórnarinnar í þessu efni nú orðið.