Benedikt Bogason:
    Herra forseti. Ég hef frekar setið á mér að fara að ræða um þessi mál vegna þess að ég sit af hálfu Byggðastofnunar í verkefnastjórn sem er til ráðuneytis og til að samræma þessa vinnu Appledore-mannanna og fyrrv. iðnrh. kom á fót. Ég vil taka það skýrt fram að ég tel og ég hef ástæðu til að ætla að út úr þessari vinnu, sem því miður hefur dregist svona lengi, kunni að koma ný viðhorf sem vonandi skila sér í endanlegri skýrslu. Ég tel að það hefði verið mjög erfitt fyrir íslenska aðila að vinna þetta eins og staðan er í þessari grein. Ég held að á vissum tímum geti verið gott og nauðsynlegt fyrir okkur að fá erlenda reynslu inn til okkar. Það sem gerist hins vegar því miður allt of oft, en þó ekki í þessu tilfelli, er að erlendir ráðgjafar koma hingað til landsins, passa sig á því að láta ekki Íslendingana vita nema mátulega mikið, gera skýrslur, veita ráðgjöf, skila háum reikningum, kveðja og skilja ekkert eftir sig. Íslenskir kollegar, sem kannski hafa ekki fengið að takast á við og þroska sig í svona verkefnum, sitja eftir með sárt ennið og þekkingin situr ekki eftir heldur bara úrlausn einhvers ákveðins verkefnis en þekkingunni er haldið úti.
    Í þessu tilfelli var tekin upp nýbreytni. Það var komið á svokallaðri verkefnastjórn og í henni sitja menn frá Landssambandi ísl. útvegsmanna, samtökum skipasmíðastöðva og Landssambandi iðnaðarmanna undir forustu iðnrn. Jafnframt hafa setið þarna fulltrúar frá Fiskveiðasjóði, iðnlánasjóðunum og Byggðastofnun. Þessir menn hafa setið í sama herbergi og rætt saman frá upphafi við Englendingana. Ég vil taka það fram að þessi vinnubrögð virka afskaplega sannfærandi og ensku sérfræðingarnir virðast vera mjög hæfir fagmenn sem hafa verið í verkefnum um allt, ekki aðeins um samveldið heldur um allan heim. Maður fann það strax í fyrrahaust þegar þeir voru hér hvað þeir voru fljótir að finna hvar skórinn kreppti. Málið er það --- og því megum við ekki gleyma --- að skipasmíðar um allan heim hafa gengið sér dálítið mikið til húðar. Það er yfirþróaður iðnaður, sbr. að margar skipasmíðastöðvar í Evrópu hafa orðið að leggja upp laupana. Ég á von á því að þegar þessi skýrsla kemur út komi fram ýmis sjónarmið sem geti orðið okkur til gagns.
    Það kom hér fram áðan að ekkert lánsfé væri í boði fyrir skipasmíðastöðvar. Það er rangt. Það hefur verið þannig undanfarin ár að veitt hefur verið sérstök fjárveiting, um 200 millj. kr. á ári, sem Byggðastofnun hefur verið falið að vista og deila út. Það er gert í mjög nánu samstarfi við Fiskveiðasjóð þannig að Fiskveiðasjóður sem sérsjóður vinnur upp tillögur og metur og sérfræðingar Fiskveiðasjóðs og Byggðastofnunar eru þar í náinni samvinnu. Síðan kemur þetta á borð Byggðastofnunar og dæminu er lokað þar. Þarna getur verið lánað í verkefni allt upp í 80% af kostnaði. Þetta er náttúrlega heilmikið lánsfé.
    Hitt er svo annað mál og því höfum við ekki varað okkur á að íslenskur skipasmíðaiðnaður hefur í rauninni fyllt út í markaðinn. Gefnar voru út skýrslur

árin 1979 og 1980 og kom þá greinilega fram að markaðurinn var mikið til mettaður. En það sem sérstaklega hefur háð okkur alla tíð síðan ég fór að kynnast þessum málum eru þessi dulbúnu undirboð erlendis frá sem við vörum okkur ekki á. Þau gerast í formi sem ég þekki af eigin raun. Skipasmíðastöðvar, jafnvel á Norðurlöndum, Englandi og víðar, hafa átt í vök að verjast og verið jafnvel í dauðateygjunum. Víða í þessum löndum er komið stöðugt atvinnuleysi því miður, allt upp í 9% í Bretlandi. Til að lenda ekki í þeim þjóðfélagsvanda að horfa upp á fólk atvinnulaust og sjá ekki út úr því hafa ríkisstjórnir farið inn á þá braut að greiða atvinnuleysisbæturnar til fyrirtækjanna gegn því að þau haldi fólkinu í vinnu. Þar með ná þau betri stöðu og geta boðið lægra verð en samkeppnisaðilar t.d. á Íslandi.
    Önnur tegund af dulbúnum undirboðum sem alltaf hafa verið í tísku og hægt hefur hefur verið að sjá ákveðin dæmi um er í sambandi við fjármagnsfyrirgreiðslu. Það eru dulbúnir styrkir í formi vaxtalítilla eða vaxtalausra lána til margra áratuga sem eiga að keppa við hinn erfiða og þrönga fjármagnsmarkað hér heima. Þar með eru þeir í betri samkeppnisstöðu og hafa getað náð til sín verkefnum sem eðlilega hefðu getað komið betur út hér. Síðustu fréttir sem ég hef heyrt núna í vor, og það kom einmitt fram hjá ráðherra, er að eftir að leiðréttingin frá fastgengisstefnunni hefur sigið inn í efnahagskerfi okkar hafa íslensk fyrirtæki getað boðið lægra verð en erlendir aðilar í ýmsum verkefnum. Þetta vildi ég sérstaklega leggja áherslu á.
    Mig langar aðeins til að minnast á í sambandi við þessa grunnvinnu Appledore að það kom skýrt fram hjá þeim og í umræðum oftar en einu sinni að vegna breytts grundvallar er afskaplega erfitt og sennilega mjög svo erfitt að keppa við erlendar stöðvar í nýsmíði, en við höfum fyrir utan nýsmíði haft talsvert mikið af breytingarverkefnum, t.d. lengingar á skipum sem tengjast þá flokkunarviðgerðum, og viðhaldsverkefnum. Það hefur komið fram í sambandi við að endurreisa þessa starfsemi að það liggur ljóst fyrir að t.d. í viðhaldsverkefnum er mikill kostur fyrir útgerðarmenn að geta haft bátinn í slipp nálægt sínu aðsetri og því er það spurning hvort skipasmíðastöð þyrfti
ekki að breyta um strúktúr, þ.e. skera sig niður í að reka bara slipp, markaðsvinnu og tæknivinnu en vera með undirverktaka í öllum iðngreinum sem jafnframt að verulegu leyti vinna á öðrum stöðum. Slíkt form væri sennilega það sem hentaði mjög vel í dag í enduruppbyggingu þessa iðnaðar sem við verðum að halda utan um. Við eru orðin leiðandi þjóð í fiskveiðum, viðurkennd um allan heim og við verðum að vera menn til þess að takast á við þetta og skapa þessari atvinnugrein umhverfi sem stenst.