Friðrik Sophusson:
    Virðulegur forseti. Ég vil leyfa mér að nýta rétt minn til þess að gera hér örstutta athugasemd. Í fyrsta lagi er ekki hægt annað en benda á það sem kom fram hjá hæstv. iðnrh., sem reyndar talaði þá sem hæstv. viðskrh., þar sem hann lofaði og prísaði orð seðlabankastjórans, Jóhannesar Nordals, á aðalfundi Seðlabankans þar sem fram kom það álit seðlabankastjórans að frjálsari fjármagnsmarkaður á Íslandi væri til bóta, að aukin tengsl við erlenda aðila varðandi fjármagnsmarkaðinn væru til bóta og að vestrænar leikaðferðir ættu að gilda hér í efnahagsmálum. Ég vek athygli á þessu eingöngu vegna þess að þetta er þvert á það sem hæstv. forsrh. hefur verið að tala um á yfirstandandi Alþingi. Það er athyglisvert að hæstv. viðskrh. skuli með þessum hætti sjá til þess við þessa umræðu enn á ný að ítreka þessa skoðun sína sem er þvert á yfirlýsingar hæstv. forsrh.
    Í öðru lagi, virðulegur forseti, finnst mér það athyglisvert, sem kom fram hjá hæstv. sjútvrh. og iðnrh., hvernig ætti að standa að því sem kemur fram í nál. Ég bendi á að það er ekki verið að biðja um neitt annað en jafnræði fyrir íslenskar skipasmíðastöðvar og ætla ég að láta þar við sitja.
    Í þriðja lagi, og það eru mín lokaorð, vegna þess sem hæstv. ráðherra sagði, að erfitt væri að eiga samstarf við útlendinga um ráðgjöf, vil ég bara taka undir það sem fram kom hjá hv. síðasta ræðumanni að ég hygg að þetta samstarf fyrirtækisins breska og innlendu verkefnastjórnarinnar, þar sem saman voru tengdir hagsmunir bæði í sjávarútveginum og iðnaðinum ásamt sjóðunum, ætti að geta verið besti grundvöllur stefnumótunar í skipasmíðaiðnaðinum. Ég vænti þess að þrátt fyrir þessi viðhorf hæstv. ráðherra, sem komu fram í hans ræðu, sjái hann til þess að áfram verði unnið að þessu starfi, skýrslan verði lögð fyrir þingmenn og að árangur komi í ljós nú þegar á næstu mánuðum og missirum.
    Ég þakka að lokum fyrir, virðulegur forseti. Ég veit að forseti hefur sýnt fádæma þolinmæði með því í fyrsta lagi að bíða með umræðulok eftir því að ég kæmist á fætur í morgun og í öðru lagi með því að leyfa mér að taka til máls og gera örstutta athugasemd. Vegna þess að ég veit að hæstv. forseti gerir slíkt með glöðu geði vil ég ítreka þakkir mínar til hans.