Forsætisráðherra (Steingrímur Hermannsson):
    Virðulegi forseti. Ég verð að bera af mér sakir og hafna því algjörlega að um óeðlilegan drátt af minni hálfu hafi verið að ræða í sambandi við bréf það sem forsætisráðherra Breta var ritað. Ég átti fund með forsætisráðherra Breta í desembermánuði og gerði Margréti Thatcher þá ítarlega grein fyrir okkar sjónarmiðum í sambandi við Rochall-málið. M.a. lagði ég þá til að embættismenn af æðstu gráðu, ef ég má orða það svo, hittust sem allra fyrst og leiddu þá þann ágreining til lykta. Þessar umræður voru mjög gagnlegar. M.a. kom þá fram að forsætisráðherra Breta var sammála mér í því að komið væri í óefni ef fyrirhuguð alþjóðleg stofnun heimtaði þetta svæði til sín sem hafsbotnssvæði á sínu verksviði.
    Hins vegar óskaði forsætisráðherra Breta eftir því að þessu yrði fylgt eftir með bréfi, ekki það að hún tæki ekki málið strax til meðferðar, og það er rétt að það dróst í 2--3 mánuði að senda það bréf. Það var vegna þess að ég lagði áherslu á að í því bréfi yrði málflutningur allur sá sami sem varð hjá mér á fundinum. Ég vildi ekki að þar færi neitt á milli mála og væri fullt samræmi á og því miður tók það nokkurn tíma að fá þá skýrslu sem ég vildi hafa til grundvallar. En ég held nú að með þessu hafi síður en svo í raun nokkur skaði gerst. Forsætisráðherra Breta er nú með bréfið til meðferðar og það eru líklega liðnir tveir mánuðir síðan hún fékk það svo að þar virðist tekinn nokkur tími í þetta. Ég tel fulla ástæðu til þess að ganga eftir svari senn hvað líður. Ég hygg að í svona málum sé farsælast að fara að öllu með lagni og stofna ekki til deilu en ég tel að fljótlega megi fara að spyrja um svar við þessari tillögu sem er sem sagt að ræða málin sameiginlega.
    Hins vegar vil ég taka undir það sem hv. þm. sagði um Evrópubandalagið og fiskveiðikröfur þeirra. Í þeim sjónvarpsþætti sem hv. þm. nefndi lét ég koma mjög greinilega fram, þ.e. ef það hefur ekki verið klippt út, ég sá hann nú ekki allan, að ég teldi, alveg eins og kom fram hjá hv. þm., að fyrst og fremst væru það embættismenn í Brussel sem sýknt og heilagt eru með þessar kröfur um fiskveiðiréttindi hér. Ég hef sjálfur rætt við sex forsætisráðherra Evrópubandalagslanda um þetta mál og þar hef ég fundið allt annan skilning. Mín skoðun er sú að við eigum, bæði forsrh. og utanrrh., sem hefur gert þetta sama og rætt við fjöldamarga af sínum starfsbræðrum í utanríkismálum, að fara þá leið, það sé leiðin til að komast í gegnum þennan embættismannamúr. Ég held einnig að þær viðræður sem hæstv. sjútvrh. hefur einmitt átt nýlega í Brussel séu mjög til að leiðrétta þetta og ekki síst held ég að sú ferð sem hæstv. sjútvrh. gerði til Þýskalands hafi verið afar gagnleg í þessu sambandi. Það er líka sannfæring mín eftir t.d. fund með Kohl kanslara að Þjóðverjar geta orðið okkur hvað bestir bandamenn í þessum málum. Þeir er náttúrlega, eins og allir vita, þungavigtaraðili að Evrópubandalaginu svo að ég held að þetta sé leiðin til að vinna sigur í þessu máli og tek undir það sem hv. þm. sagði um það.