Ráðstafanir vegna kjarasamninga
Laugardaginn 06. maí 1989

     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson):
    Virðulegur forseti. Það hefur verið mjög fróðlegt að hlusta á þær umræður sem hér hafa farið fram og ýmsar góðar ábendingar og athugasemdir hafa komið fram í umræðunni. Hv. þm. Halldór Blöndal beindi til mín fáeinum spurningum sem snerta í raun og veru allar sama kjarna. Það má í raun einfalda þær á þann veg að spyrja hvort ætlunin sé að þeirri vinnu, sem lýst er yfir í sérstöku bréfi frá forsrh. varðandi breytingar í skattamálum, verði lokið í tæka tíð til að hægt sé að láta þær breytingar koma til framkvæmda á næstu mánuðum og þar með að taka tillit til skattlagningar fyrirtækjanna á þessu ári.
    Ég held að það liggi nokkuð ljóst fyrir að öll þessi atriði sem þarna er vikið að munu taka þó nokkurn tíma, m.a. sú vinna sem hv. þm. benti á undir lokin hvað snertir samanburð á skattlagningu atvinnulífs á Íslandi og í löndum Evrópubandalagsins. Því er það nokkuð ljóst að þær breytingar sem munu koma til framkvæmda á þessu ári eru þær sem kveðið er á um í því frv. til laga sem hér er til umræðu og ekki hefur verið gert ráð fyrir að aðrar breytingar kæmu til framkvæmda.
    Ég fagna því hins vegar að í þessum viðræðum við samtök launafólks og samtök atvinnulífsins tókst ágæt samvinna um það hvernig þessari vinnu yrði háttað og stjórnvöld og fulltrúar þessara greina munu fara í sameiningu á næstu mánuðum yfir þessi atriði.