Ráðstafanir vegna kjarasamninga
Laugardaginn 06. maí 1989

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson):
    Hæstv. forseti. Ég ætla að svara örfáum orðum því sem hv. 2. þm. Norðurl. e. beindi til mín í formi tveggja eða þriggja beinna spurninga. Hann spurði í fyrsta lagi hvort ég gæti fellt mig við það að lántökuskatturinn félli ekki niður fyrr en um mitt ár. Svarið er já, ég get fellt mig við það. Þetta var niðurstaða af samkomulagsgerð um þetta mál, m.a. við samtök atvinnurekenda, og ég held að þetta sé vel ráðið. Ég tek það fram að lántökuskattur af sérstakri lántöku vegna skipaiðnaðarins var áður niðurfelldur samkvæmt sérstökum ákvæðum í lögunum. Ég held að þetta sé einmitt rétt ráðstöfun því nú er ástæðan fyrir þessari skattlagningu horfin en hún var hin mikla þensla sem hér ríkti þegar skatturinn var upphaflega settur á.
    Í öðru lagi spurði hv. þm. hvort ég væri sáttur við niðurstöðuna sem fram kemur í 4. gr. frv. um það að hinn 1. sept. falli niður vörugjald af framleiðsluvörum og aðföngum trjávöru-, húsgagnaiðnaðar og málmiðnaðar. Svarið þar er líka já. Þetta er niðurstaða sem ég tel vel viðunandi og ég vil einnig taka það fram að ég kem nú beint af aðalfundi Félags málmiðnaðarfyrirtækja sem er samtök verkstæðanna í landinu þar sem menn lýstu mikilli ánægju með þessa niðurstöðu, þótt auðvitað hefðu þeir viljað að þetta yrði fyrr. En það verður ekki á allt kosið í slíku máli. Og vegna þess sem hér var áður sagt um það að stundum missjáist mönnum, þá er það rétt að það voru mistök að leggja vörugjaldið á verkstæðisiðnaðinn á þann hátt gert var. Þau mistök hafa nú verið leiðrétt. Af því er stjórnin meiri en ekki minni.
    Ég tek það líka fram í sambandi við það sem kom fram áður um breytingar á öðrum sköttum að auðvitað var það sú mikla nauðsyn sem á því var að draga úr hallarekstri ríkissjóðs sem lá að baki því að skattar voru hækkaðir eins og raun bar vitni hér með síðustu fjárlögum og skattalögum sem þeim tengdust. Það var rétt ráðstöfun á sínum tíma en vegna þess að þetta var gert í tímaþröng við knýjandi aðstæður var þörf á leiðréttingu á nokkrum af þeim sköttum. Því hefur nú verið komið fram. Ég vek sérstaka athygli á því að í því bréfi sem forsrh. hefur skrifað samstarfsaðilum, þá segir hann að ríkisstjórnin muni taka skattlagningu fyrirtækja til endurskoðunar með tilliti til samkeppnisstöðu þeirra gagnvart erlendum keppinautum eins og hv. þm. vitnaði til. Sérstaklega verður tekið mið af þeim breytingum sem eru að verða innan Evrópubandalagsins. En þetta atriði ásamt öðrum er einmitt verkefni sérstakrar nefndar hvað varðar iðnaðinn sem nú starfar með þátttöku fulltrúa ríkisstjórnarinnar og samtaka atvinnugreinarinnar og fólks sem vinnur við iðnað. Ég vænti þess að þær tillögur muni koma að liði við þessa endurskoðun.
    Ég vildi líka nefna, vegna þess sem hér var sagt um afturvirkni, að það var alls ekki afturvirkni í þeim sköttum sem á voru lagðir um áramót umfram það sem áður hefur verið viðurkennt að standist með réttri löggjöf. Ég sé þess vegna ekki tilefni til þeirrar

athugasemdar hv. þm. En að öðru leyti vildi ég segja það almennum orðum við lok þessarar stuttu ræðu minnar að fulltrúar atvinnuveganna, ekki síður en samtaka launafólks, leggja mikla áherslu á það að mótuð verði langtímastefna um atvinnuuppbyggingu í landinu og þess vegna er sú yfirlýsing gefin sem fram kemur í bréfi forsrh. til Alþýðusambandsins í 1. lið að ríkisstjórnin hyggist einmitt vinna að því verkefni.