Staða og rekstur fiskvinnslufyrirtækja
Mánudaginn 08. maí 1989

     Kristín Halldórsdóttir:
    Virðulegi forseti. Nú eru reyndar liðnir sex mánuðir síðan beiðni okkar níu þingmanna Kvennalista, Sjálfstfl. og Borgfl. um þá skýrslu sem hér um ræðir var lögð fyrir Alþingi. Skýrslan sjálf hefur svo legið fyrir síðan í janúar og fyrri hluti þessarar umræðu fór fram 3. apríl sl. Þessi atburðarás er ekki til fyrirmyndar og afleitt að þessi umræða skuli hafa lent svona illa úti í þinghaldinu, en ég vil taka það skýrt fram að hér er ekki við hæstv. forseta að sakast sem ég veit að hefur haft fullan vilja til að haga málum öðruvísi. En enda þótt hæstv. forsrh. sé ekki viðstaddur samþykkti ég sem 1. flm. að þessari beiðni að reynt yrði að ljúka þessari umræðu í dag, enda skammt væntanlega til þingloka og ekki fært annað en reyna að ljúka þessari umræðu.
    En það er vitaskuld full ástæða til að fjalla um það efni sem þessi skýrsla tekur til og verður í rauninni alltaf ástæða til þess og ég ítreka þá skoðun mína að skýrslu af þessu tagi þyrftum við að fá og ræða með jöfnu millibili.
    Ég nefndi ýmis atriði við fyrri hluta þessarar umræðu sem mér þóttu athyglisverð og umhugsunarverð í þessari skýrslu, en hún staðfestir m.a. það, sem við höfðum reyndar margsinnis haldið fram, að staðan væri ákaflega misjöfn eftir fyrirtækjum og enn fremur hversu afar þungt fjármagnskostnaðurinn vegur eins og kom mjög glögglega fram í máli hv. síðasta ræðumanns. Ég vil taka undir það að þessi mál og þessi vandi, sem við er að fást í sjávarútveginum, er eitt stærsta byggðamál okkar. Þess vegna var lögð mjög þung áhersla á skuldbreytingar og aðra fyrirgreiðslu í þeim efnum til að reyna að létta skuldastöðu fyrirtækjanna, auk þess að reyna að ná vöxtunum niður. Það skal ekki dregið úr því sem reynt hefur verið að gera á þessu sviði. Það var vissulega mikið. En þeim mun uggvænlegra er að fiskvinnslan er enn og jafnvel enn frekar en áður á heljarþröminni þrátt fyrir milljarða tilfærslur. Tekjur fiskvinnslunnar eru enn þá allt of litlar til þess að hún geti talist hafa rekstrargrundvöll. Fiskvinnslan þarf auknar tekjur og þær virðast nú ekki í augsýn.
    Hæstv. forsrh. hefur ítrekað lýst nokkurri bjartsýni á að við getum átt í vændum hækkun fiskverðs á erlendum mörkuðum, en því miður eru nú fáir sem deila þeirri bjartsýni með honum að manni heyrist. Nýlegar fregnir af samdrætti í fiskneyslu Bandaríkjamanna auka á áhyggjur í þessu efni. Sömuleiðis segja fréttir að eftirspurn sé mest og vaxandi eftir sjófrystum fiski, þ.e. afurðum sem ekki koma á borð fiskvinnslunnar. Það minnir okkur á að hluti af vanda fiskvinnslunnar er breytt staða þessarar greinar sem hún er að reyna að bregðast við með ýmsum kostnaðarsömum breytingum og framkvæmdum sem vitaskuld þýða þungbæran fjármagnskostnað. Kröfur kaupenda fiskafurða hafa breyst mikið á síðustu árum. Nú eru gerðar miklu meiri kröfur en fyrir nokkrum árum til ferskleika fisksins og það held ég að sé meginbreytingin. Raunar má segja að annars vegar sé krafan að fiskurinn sé

sem allra ferskastur og hins vegar að hann sé tilbúinn á pönnuna eða í örbylgjuofninn. Hvort tveggja gerbreytir vitanlega aðstæðum í fiskvinnslunni. Þetta er að mínu viti stór þáttur í almennum vanda fiskvinnslunnar. En þótt hér sé í rauninni aðeins verið að fjalla um vanda fiskvinnslunnar með tilvísun til þessarar skýrslu sem fyrir liggur er fiskvinnslan órjúfanlegur hluti af sjávarútveginum í heild og þótt afkoman í fiskveiðunum sé yfirleitt betri er staðan þar einnig slæm og fer versnandi samkvæmt nýjustu upplýsingum.
    Byggðastofnun mun nýlega hafa gert úttekt á stöðu fyrirtækja í sjávarútvegi og þar er m.a. bent á þá uggvænlegu staðreynd að rekstur þeirra fyrirtækja sem athuguð voru skilaði aðeins 10--11% tekna upp í afskriftir og allan fjármagnskostnað, en hefði þurft að skila um 20% upp í þessa liði vegna mikilla rekstrarskulda frá fyrri árum. Að öllu eðlilegu þyrfti þessi hlutdeild að nema um 15%. Af þessu má sjá að ekki er ástandið björgulegt. Það hríðversnaði árið 1988 og þar lögðust á eitt þungur skuldabaggi vegna fyrri atburða, háir vextir og léleg afkoma. Í niðurstöðum þessarar úttektar er undirstrikað að hér sé ekki um vanda einstakra fyrirtækja að ræða heldur séu einfaldlega flest fyrirtæki að sökkva í skuldafenið, þar á meðal mörg sem voru talin með mjög góða stöðu fyrir aðeins tveimur árum. Þetta er ekki hughreystandi og hlýtur að vera okkur öllum umhugsunarefni hver staðan er þrátt fyrir allar skuldbreytingar og fyrirgreiðslu sem beitt hefur verið. Ég man ekki betur en ég hafi séð það einhvers staðar að skuldir í hlutfalli við tekjur hafi tvöfaldast á síðustu sex árum. Hér þarf auðvitað meira að koma til en bjartsýni hæstv. forsrh.
    Ég ætla ekki að leggja sundurliðaðar spurningar fyrir hæstv. sjútvrh., ég veit að þess þarf ekki, en vænti þess og bið hann að gera Alþingi grein fyrir áliti sínu í framhaldi af þessari nýjustu úttekt Byggðastofnunar og fyrir þeim tillögum sem hann og væntanlega ríkisstjórnin öll, nema það sé einhver munur á, hafa til þess að bregðast við þessum mikla vanda. Við getum auðvitað ekki horft upp á þetta ástand. Við verðum að leggjast á eitt um að skapa þessum undirstöðuatvinnuvegum okkar þann grunn sem þeir þurfa til að standa á.