Staða og rekstur fiskvinnslufyrirtækja
Mánudaginn 08. maí 1989

     Karl Steinar Guðnason:
    Hæstv. forseti. Ég tek undir með þeim sem tala um erfiðleika í sjávarútvegi. Erfiðleikarnir eru vissulega miklir og þeir voru ekki að verða til í gær. Þessi vandi hefur sífellt verið að hrjá sjávarútveginn en er nú reyndar meiri en oft áður. Ég vænti þess líka að það sé almennur skilningur að fiskvinnsla og sjávarútvegur þurfi að standa undir sér og vel það til að þjóðarbúið geti gengið.
    Það var ekki ætlun mín að taka þátt í þessari umræðu, en er ég heyrði ráðherra segja það áðan að skilningur væri ekki alls staðar á þessum erfiðleikum og í framhaldi af því var vísað til kjarasamninga vil ég að það komi skýrt fram að ég hygg að hvergi sé skilningurinn á vandræðum sjávarútvegs og fiskvinnslu meiri en hjá sjómönnum og verkafólki. Ég hygg að skilningsleysið sé annars staðar. Ég hygg að það sé hjá því fólki sem vart veit mun á flóði og fjöru. Þess vegna vil ég mótmæla því að skilningurinn sé ekki fyrir hendi hjá verkafólki og sjómönnum.
    Það lá fyrir að eftir að ríkisvaldið hafði samið við opinbera starfsmenn um hækkanir á launum var ekki unnt annað fyrir Verkamannasambandið og Alþýðusambandið en ganga til kjarasamninga á sömu nótum. Annað var ekki mögulegt.
    Ég tel að það þurfi að skoða ýmsa þætti aðra en launin hvað varðar þessa atvinnugrein og nefni ég þá innflutningsverslunina og ýmsar kostnaðarhækkanir sem verða til vegna annarra samninga og annarra taxta sem settir eru upp víðs vegar fyrir þjónustu í þjóðfélaginu og bitna á útgerðinni. Ég hygg að það sé gert allt of lítið af því að skoða hvernig þessi útvegur er rændur á þann hátt.
    Vegna tilmæla forseta ætla ég ekki að hafa þetta lengra, en vildi koma þessu á framfæri.