Mengun hafanna í kringum Ísland
Mánudaginn 08. maí 1989

     Árni Gunnarsson:
    Virðulegi forseti. Í skýrslum forráðamanna íslensku fiskvinnslufyrirtækjanna í Bandaríkjunum, sem þeir hafa flutt á fundum að undanförnu, hefur komið í ljós að nokkur samdráttur hefur orðið í fisksölu þeirra og í Bandaríkjunum almennt. Ástæðurnar eru einkum raktar til mengunar og frétta af eiturefnum sem fundist hafa í fiski. Þessar fréttir snerta þó nær eingöngu fisk sem Bandaríkjamenn veiða sjálfir, en hefur einnig áhrif á sölu innfluttra fiskafurða.
    Hér er á ferðinni alvarlegt mál. Nú hefur það einnig gerst að í Svíþjóð hefur verið bönnuð neysla á íslensku þorskalýsi. Vísindamenn þar telja sig hafa fundið of mikið magn af díoxíði í lýsinu þótt það sé langt undir þeim mörkum sem hér eru talin hættuleg heilsu manna. Við þetta bætast svo fréttir frá Færeyjum um að í fituvef hrefnu hafi fundist ýmis eiturefni, t.d. DDT og PCB, og Færeyingar varaðir við að neyta hrefnukjöts oftar en tvisvar í viku. Þessar fréttir geta skaðað fisksölu Íslendinga þar eð hinn almenni neytandi gerir ekki greinarmun á langlífum fisktegundum eða spendýrum sem safna þessum eiturefnum í fituvefi og líffæri á margra ára tímabili og leita fæðu upp undir strendur meginlands Evrópu þar sem mengun er sannarlega mikil.
    Fréttir af stórfelldri mengun í Norðursjó og Eystrasalti bæta ekki úr, en þar sýna nú rannsóknir að aðeins 8% af urtum í selastofni eru frjóar. 92% af urtunum eru ófrjóar vegna eiturefna í höfunum. Atburðirnir við Bjarnarey þegar sovéskur kafbátur sökk þar hafa m.a. valdið því að hingað til lands hafa borist fyrirspurnir um geislavirkni í hafi.
    Þessir atburðir eru ástæða þess að fyrri hluta síðustu viku óskaði ég eftir utandagskrárumræðu til að fá fram skoðanir ráðamanna á því hvernig Íslendingar geta best brugðist við fréttum af þessu tagi og þeim alvarlegu viðvörunum sem felast í þessum fréttum.
    Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að hér á landi þyrfti að efla til muna allar grundvallarrannsóknir á hugsanlegri mengun hafsins og Íslendingar yrðu að grípa til allra tiltækra ráða til að fylgjast með ástandi sjávar að þessu leyti. Einnig að við yrðum að hvetja til herts eftirlits með losun hvers konar úrgangs í hafið. Ég fagna því sérstaklega þeirri fsp. sem hv. þm. Friðrik Sophusson hefur lagt fram varðandi mál þessu tengd.
    Lífsafkoma þessarar þjóðar er undir því komin að við getum ávallt fært sönnur á það að íslenskur fiskur sé dreginn úr ómenguðu hafi, sé laus við eiturefni og að við höldum þeirri ímynd og að sú staðreynd breytist ekki að við seljum besta fisk í heimi. Allar efasemdir um það geta haft mjög skaðleg áhrif.
    Nú heyra rannsóknir á mengun hafsins undir fjögur ráðuneyti a.m.k. Þessar rannsóknir þarf að samræma og sameina undir einni stjórn. Þátttöku okkar í alþjóðlegu samstarfi á þessum vettvangi verður að efla. Vestnorræna þingmannaráðið hefur samþykkt tillögu sem ég lagði fram um samræmdar aðgerðir Grænlendinga, Færeyinga og Íslendinga á þessum vettvangi og að leitað yrði samvinnu við þær þjóðir

sem eiga hagsmuna að gæta á Norður-Atlantshafi. Ég tel starfið innan Alþjóðahafrannsóknaráðsins ekki nægjanlegt hvað snertir Norður-Atlantshafið né heldur innan þeirra nefnda sem kenndar eru við Parísar- og Oslóarsamkomulagið og ekki heldur innan Norðurlandaráðs.
    Íslendingar hafa allt of lengi verið þeirrar skoðunar að þeir þyrftu litlar eða engar áhyggjur að hafa af mengun hafsins. Það er deginum ljósara að við verðum að vera á varðbergi og gefa þessum málum miklu meiri gætur en verið hefur. Allar fréttir á borð við þær sem ég hef nú nefnt geta valdið okkur miklu tjóni, bæði beinu og óbeinu. Ég vil með þessari umræðu, virðulegi forseti, skora á stjórnvöld og fjárveitingavaldið að hyggja betur að þessum málaflokki.