Mengun hafanna í kringum Ísland
Mánudaginn 08. maí 1989

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson):
    Virðulegi forseti. Það er hverju orði sannara að sú umræða sem hér var hafin af hv. 3. þm. Norðurl. e. er hin þarfasta. Við segjum oft á hátíðastundum og sérstaklega á sjómannadaginn: Föðurland vort hálft er hafið. Það er sá hluti okkar föðurlands sem við þurfum nú að verja og þess vegna er það sannmæli að varnir gegn mengun sjávar séu hin nýja landhelgisbarátta Íslendinga. Hana þurfum við að heyja bæði á heimavettvangi og erlendis og eins og kom fram hjá hæstv. utanrrh. og hæstv. samgrh. þurfum við að beita áhrifum okkar hvar sem þeirra gætir á alþjóðavettvangi og tala fyrir þessu máli.
    En það hefur ekki verið nefnt í þessum umræðum sem er kannski einna mikilvægast í málinu og það er að fleiri þjóðir staðfesti alþjóðahafréttarsáttmálann. Því eins og kom fram hjá Gro Harlem Brundtland og öðrum höfundum skýrslu nefndar Sameinuðu þjóðanna um umhverfisvernd er það kannski sú ein ráðstöfun sem mikilvægust væri til að leggja grunn að öflugum vörnum gegn mengun sjávar að hafréttarsáttmálinn verði staðfestur af fleiri ríkjum þannig að hann geti gengið að fullu í gildi. ( EKJ: Hann er lög de facto.) Það er því miður ekki svo að nægilega margar þjóðir hafi samþykkt hann. Þess vegna vantar þetta enn og þessu máli þurfum við að fylgja eftir hvar sem við komum því við.
    En hér er um fleiri mál að ræða á alþjóðavettvangi. Ekki síst er Norðurlandasamstarfsvettvangurinn okkur afar mikilvægur í þessu máli. Hér hefur verið vikið að því að á aukaþingi Norðurlandaráðs í Helsingör í nóvember sl. var samþykkt sérstök aðgerðaáætlun til varnar gegn mengun sjávar. Þessi áætlun verður endurskoðuð á þingi Norðurlandaráðs í Reykjavík á næsta vetri. Eins og fram kom í máli hv. 2. þm. Austurl. er það mjög mikilvægt að við notum þetta ár bæði heima og heiman til að búa okkur undir þessa endurskoðun þannig að sjónarmið Íslendinga komi þar rækilega fram.