Mengun hafanna í kringum Ísland
Mánudaginn 08. maí 1989

     Ingi Björn Albertsson:
    Hæstv. forseti. Ég vil eins og aðrir fá að þakka upphafsmanni þessarar umræðu fyrir að taka hana upp því að vissulega er það mjög alvarlegt mál sem hér er til umræðu, mengun í höfum, ekki hvað síst fyrir framtíð þjóðar eins og okkar, en við byggjum nánast tilvist okkar á hafinu og því sem við þar drögum upp. Það er vissulega mjög alvarlegt ef mengun og mengunarfréttir fara að berast til okkar erlendu markaða, alvarlegt fyrir þá markaði og það er alvarlegt fyrir hinn góða orðstír sem fer af okkar framleiðsluvörum.
    Auðvitað verða rannsóknir að hefjast sem allra fyrst og af fullum krafti og í fullri alvöru og ráðstafanir verða að vera gerðar til að koma í veg fyrir losun úrgangsefna, ekki hvað síst geislavirkra efna, í höfunum í kringum landið. Þess vegna vil ég nota tækifærið til að minna á þáltill., sem er á þskj. 572, um könnun og kostnað við kaup á rekstri dvergkafbáts því það er virkilega þarft tæki til þess að fylgjast með stöðu þessara mála í hafinu í kringum landið. Þar segir m.a., með leyfi forseta, í greinargerð:
    ,,Það má ekki gleyma hversu mikilvægt er að fylgjast með mengun og huga að mengunarhættu neðansjávar, en aðeins með varðveislu lífríkis sjávar er hægt að tryggja eðlilegan viðgang náttúrunnar í hafinu umhverfis landið.``
    Ég tel að hér hafi verið sögð mörg stór og falleg orð um þennan þátt mála, en það er ekki nóg því að hugur verður að fylgja máli og þess vegna harma ég að slík tillaga skuli ekki hafa náð að komast inn á dagskrá þingsins í vetur og mun hún væntanlega verða endurflutt í haust og fá þá betri undirtektir miðað við það sem hér hefur verið sagt í dag.
    Ég sakna þess virkilega að hafa ekki heyrt afstöðu sjútvrh. í þessu máli þó að mér sýnist eftir bendingum að hann muni vera næstur eða fljótlega á mælendaskrá.