Mengun hafanna í kringum Ísland
Mánudaginn 08. maí 1989

     Benedikt Bogason:
    Virðulegi forseti. Ég tek undir ánægju manna með að þessi alvarlegu mál skuli tekin í stutta umræðu, en ég get ekki stillt mig um að bæta því við að mér finnst dæmigert að ætíð þegar okkur berast válegar fréttir, sem alltaf er að gerast, fer allt í gang. Mér finnst að við sofum svo alveg, gleymum okkar eigin garði og liggjum sumpart í eigin drullupolli hér heima.
    Í desember 1987 átti ég þess kost að sitja hálfan mánuð á þingi og þá lagði ég fram ásamt þingmönnum Borgfl. till. til þál. um könnun á ástandi frárennslis- og sorpmála. Þar er okkar raunverulega mengun. Þar er garðurinn okkar skítugur. Þessa tillögu lagði ég svo ásamt þingmönnum Borgfl. og Hreggviði Jónssyni fram til endurflutnings í byrjun apríl. Þar sem sýnt er að það er enginn áhugi fyrir þessu, þetta er víst ekki nógu fínt, ætla ég að leyfa mér aðeins að lesa hluta af greinargerðinni fyrir þessari tillögu til að vekja athygli hv. þm. á því hvað þar er á ferðinni og á hverju við getum byrjað strax í dag og kostar ekki mikinn pening. Tillagan hljóðar svo:
    ,,Alþingi ályktar að fela félmrh. í samráði við Samtök ísl. sveitarfélaga og viðkomandi sveitarfélög að láta gera samræmda könnun á ástandi frárennslis- og sorpmála í öllum þéttbýlisstöðum á landinu, svo og þeim stöðum utan þéttbýlis þar sem atvinnustarfsemi eða annað getur leitt af sér mengun.``
    Sveitarstjórnirnar eru með þekkingu og tæknimenn í hendi þannig að þetta er réttur vettvangur til að framkvæma þetta.
    Það vinnst víst ekki tími til að lesa þessa greinargerð, en ég mundi þá aðeins vilja taka 2--3 setningar innan úr þessu:
    ,,Eitt stærsta vandamálið, sem nú blasir við mannkyni öllu, er hraðvaxandi mengun láðs, lagar og lofts. Í öllu tæknikapphlaupinu hefur manninum yfirsést að varnar- og hreinsikerfum móður náttúru eru takmörk sett. Í þeirri viðleitni að ná sem mestu fyrir sem minnst hefur ekki aðeins nánasta umhverfi mannsins verið spillt heldur hafa spillandi áhrif breiðst út til næsta nágrennis og jafnvel landa í milli. Veður og vindar, vatnið á hringrás sinni og hafstraumar bera óþverrann landa og heimsálfa í milli. Ísland, umlukið hafinu, hefur fram að þessu sloppið vel. Þó er um talsverða megun að ræða frá okkur sjálfum og hún fer stigvaxandi. Vaxandi skilningur er á þessum vanda, m.a. á Alþingi, og hafa verið sett lög og reglur í varnarskyni.
    Einn er sá þáttur þessara mála sem vanræktur hefur verið þrátt fyrir reglur þar að lútandi, þ.e. hreinsun frárennslis frá byggð og bólum svo og sorpeyðing.``
    Þá legg ég áherslu á að það virðist því miður allt of algeng skoðun að í lagi sé að losa sig við skolp í næsta skurð eða niður í fjöru, aka sorpinu út fyrir byggð og hrúga því í gryfjur og kveikja í öðru hverju svo félegur sem reykurinn er sem þaðan berst, sbr. Hnífsdal.
    Það eru til í byggingarreglugerðum, og búnar að vera í áratugi, alls kyns reglur um rotþrær og

olíugildrur og fitu. Þessu er ekkert framfylgt. Þetta er kannski sett á teikningar, en er ekki framfylgt. Þarna er mjög mikilsvert að gera könnun og gera það strax og í framhaldi af því að samræma reglur fyrir allt landið. Á þessu er hægt að byrja strax á sama tíma og við í alþjóðasamstarfi tökum þátt í því sem hér hefur komið fram.