Búfjárrækt
Mánudaginn 08. maí 1989

     Samgönguráðherra (Steingrímur J. Sigfússon):
    Herra forseti. Ég kveð mér hljóðs til að þakka hv. landbn. Ed. fyrir vel unnin störf og góða efnislega niðurstöðu sem ég er sannfærður um að hér hefur fengist. Eins og nefndarinnar var von og vísa hefur hún unnið vel að þessu máli og farið rækilega yfir það og rætt við fjölmarga aðila sem því tengjast. Þeim mun sannfærðari er ég um að niðurstaðan sé skynsamleg. Sérstaklega er það fagnaðarefni að samstaða hefur tekist um breytingar og allir standa að sameiginlegum brtt. og nál. Þá er og mikilvægt að sem næst samstaða er um að taka tillit til þeirra tillagna sem frá búnaðarþingi koma og að sjálfsögðu er æskilegast ef svo getur orðið að löggjafarvaldið og kjörið þing hagsmunaaðilanna sem hér eiga hlut að máli og faglegur umsjónaraðili málsins, búnaðarþing og búnaðarfélögin, búnaðarsamböndin, geta orðið samferða og sammála um efnislega niðurstöðu. Þessu öllu saman ber að fagna og ég treysti því að framgangur málsins verði greiður í gegnum þingið úr því að svona vel hefur tekist til.