Ráðstafanir vegna kjarasamninga
Mánudaginn 08. maí 1989

     Júlíus Sólnes:
    Virðulegi forseti. Ég var því miður fjarverandi þegar þessi umræða um frv. til l. um ráðstafanir vegna kjarasamninga hófst, en engu að síður langar mig til að leggja orð í belg því að hér er um mjög merkilegt mál að ræða. Ég hef verið að spyrja mér eldri og reyndari þingmenn um það atriði hvort það sé algengt hér í þinginu að það séu flutt frumvörp til laga um að lækka skatta á vori áður en þing lýkur störfum. Menn voru einna helst á því að það hefði kannski komið fyrir einhvern tíma fyrir mjög löngu að slík frumvörp hefðu verið flutt varðandi tekjuskatta einstaklinga, en það er enginn sem minnist þess nokkru sinni að hafa verið vitni að því að það hafi verið flutt frv. til laga um að lækka skatta á fyrirtækjum þannig að hér er um mjög merkilegt mál að ræða og rétt að vekja athygli á þessu.
    Það út af fyrir sig er ágætisaðferð til að liðka til við gerð kjarasamninga að leggja á mikla skatta rétt fyrir jól á ári hverju til að eiga eitthvað í sarpinum þegar samningagerð hefst svo síðar á árinu. Geta þá skrúfað til baka, þ.e. flutt frv. um að afleggja eitthvað af þeim sköttum sem voru lagðir á fyrir jólin. Þetta er kannski ný tækni af hálfu hæstv. ríkisstjórnar til að liðka fyrir samningagerð.
    Annars er athyglisvert fyrir okkur þingmenn Borgfl. að renna augum í gegnum þetta frumvarp vegna þess að við hljótum að kinka kolli við ýmsum atriðum sem þarna koma fram. Eins og menn kannski muna fórum við til viðræðna við fulltrúa Framsfl., Alþfl., Alþb. og Samtaka um jafnrétti og félagshyggju í janúar sl. um samstarfsgrundvöll í tengslum við myndun hugsanlegrar nýrrar ríkisstjórnar með þátttöku Borgfl. Mig langar til að rifja upp hvað þar fór fram. Að ég fái að lesa 1. síðu í plaggi sem við útbjuggum þá, þingmenn Borgfl., sem áttum sæti í viðræðunefnd við fulltrúa þeirra flokka sem ég nefndi áðan. Með leyfi virðulegs forseta heitir 1. kafli þessa plaggs Skattamál, en hann hljóðar svo:
    ,,A. Söluskattur á matvæli verði felldur niður eða færður til sama horfs og var fyrir stjórnarmyndun 1987.``
    Ef ég gríp hér inn í sé ég reyndar ekkert um að söluskattur á matvælum verði lækkaður eða lagður niður. Er það miður því ég tel að með þeim hætti hefði kannski verið auðveldast að koma til móts við lágtekjuhópana sem stynja undan allt of háu matvælaverði. Ég get svo sannarlega tekið undir það því ég er nýkominn heim frá útlöndum. Ég var reyndar staddur á ferðalagi í London og átti þess kost að fara þar inn í venjulega matvælaverslun og bera saman verð á matvælum í kjörbúð í London og svo aftur hér heima á Íslandi. Það er reyndar alveg skelfileg lífsreynsla að skrifa niður verð á nokkrum algengustu matvælum í kjörbúð í Englandi og bera síðan saman við það sem við Íslendingar þurfum að borga. Það er vægast sagt alveg hryllileg lífsreynsla að verða vitni að þeim geipilega verðmun sem er.
    Það er athyglisvert í framhjáhlaupi að mér virðist sem svo að sama embættismannagengið sem hannaði

söluskattinn á matvælum hafi hannað svokallað húsbréfafrumvarp. Það ætlar að verða okkur dýrt þetta embættismannagengi sem semur hvert frumvarpið á fætur öðru fyrir hæstv. ríkisstjórn.
    Svo ég haldi áfram að lesa upp úr þessum kafla um skattamál frá því í viðræðunum í janúar sl. lögðum við til að eignarskattsauki, þ.e. stóreignaþrep, yrði felldur niður. Ég sé því miður ekkert um það í þessu frumvarpi og hefði verið betur að taka á því því að ég held að allir geti verið sammála um að þar var farið langt út fyrir öll velsæmismörk í skattheimtu með eignarskattsaukanum margfræga.
    Við lögðum enn fremur til að skattleysismörk yrðu hækkuð í ca. 60 þús. og athugað með launabætur. Ónýttur persónuafsláttur maka yfirfærðist 100% til hins makans.
    Það mun liggja fyrir frumvarp til laga um þetta atriði í hv. fjh.- og viðskn. Ed. Ég hef gert ítrekaðar tilraunir til að fá það frumvarp út úr nefndinni. Nú veit ég ekki hvað hefur gerst þessa örfáu daga sem ég brá mér í burtu. Ég hef ekki orðið var við að það hafi komið fram í hv. deild þannig að það virðist enn þá vera fast í nefndinni. En það væri athugandi að við legðumst á eitt, þeir hv. þm. sem eigum sæti í hv. fjh.- og viðskn., að reyna að losa þetta frumvarp út úr nefndinni og fá það til afgreiðslu hér því það er réttlætismál að ónýttur persónuafsláttur maka yfirfærist 100% til hins makans.
    Svo ég haldi áfram lögðum við enn fremur til að skyldusparnaður ungmenna til Byggingarsjóðs ríkisins yrði skattfrjáls í staðgreiðslukerfi svo og framlög til húsnæðissparnaðarreikninga. Mér skilst reyndar að ríkisstjórnin hafi lagfært þetta atriði þannig að batnandi mönnum er best að lifa, það verður að segjast eins og er.
    Við lögðum enn fremur áherslu á það að almennur sparnaður í bönkum og sparisjóðum verði áfram skattfrjáls. Ég hef reyndar ekkert heyrt um það atriði og á von á hinu versta í þessu efni. En við skulum bíða og sjá hvað setur hvað þetta atriði varðar.
    Síðan kom liður sem við lögðum mikla áherslu á, en það er að vörugjald verði lækkað á móti lágum ytri tollum á fullunnum vörum sem settir yrðu í staðinn.
Vörugjald verði fellt niður á næsta ári, en sérstakur sykurskattur eða sykurtollur verði settur á.
    Hæstv. ríkisstjórn hefur tekið þessa hugmynd upp þar sem við bentum mjög rækilega á það í þeim viðræðum sem við áttum við stjórnarflokkana í janúar að vörugjaldsfrumvarpið sem var samþykkt hér fyrir jólin hefði verið meingallað. Reyndar var sú breikkun á vörugjaldinu, sem þá varð, til þess fallin að gera vissum hlutum íslensks iðnaðar mjög erfitt fyrir. Einkum er þar átt við húsgagnaiðnaðinn og reyndar fleiri þætti íslensks iðnaðar sem urðu mjög illa úti með breikkun vörugjaldsstofnsins eins og það var samþykkt fyrir áramótin.
    Reyndar er eitt atriði eftir enn sem ég hefði viljað vekja athygli á í sambandi við tollamál, en það kemur fram m.a. í nál. á þskj. 1053. Það er reyndar till. til

þál. um bætta samkeppnisstöðu innlends skipaiðnaðar. Þar eru nefndarmenn sammála um að ríkisstjórninni beri að reyna eftir fremsta megni að bæta samkeppnisstöðu íslensks skipasmíðaiðnaðar. Úr því að hæstv. sjútvrh. og starfandi forsrh. er mættur í salinn mundi mig langa til að spyrja hann að því: Ætlar hæstv. ríkisstjórn að gera nokkurn skapaðan hlut til að koma í veg fyrir það að skipasmíðaiðnaður leggist endanlega af í þessu landi? Ætlar hæstv. ríkisstjórn að láta Norðmönnum það eftir að ganga endanlega frá bæði íslenskum skipasmíðaiðnaði og ekki nóg með það heldur öllum þeim iðnaði sem tengist sjávarútvegi á Íslandi? Er það virkilega ætlun hæstv. ríkisstjórnar að í framtíðinni skuli Íslendingar sækja alla þjónustu, bæði hvað varðar skipasmíðar, skipaviðgerðir og framleiðslu hvers konar á ýmsum iðnaðarvörum í tengslum við sjávarútveg, til Norðmanna eða annarra nágrannalanda? Er það stefna hæstv. ríkisstjórnar? Ég vildi gjarnan fá svar hæstv. sjútvrh. við þessari spurningu.
    Við bentum á leið til að lækna þetta ástand mjög snarlega. Það er einfaldlega með því að nota sér heimildir sem fríverslunarsamningurinn gefur, þ.e. að setja hátt jöfnunargjald á skip smíðuð í Noregi vegna óheiðarlegrar samkeppni Norðmanna. Allar norskar skipasmíðar eru með ríkisstyrkjum, þ.e. norska ríkið niðurgreiðir skipasmíðar í norskum skipasmíðastöðvum um 20%. Er nema von að íslenskar skipasmíðastöðvar eigi erfitt með að keppa við slíkt? ( Forseti: Ég vil vekja athygli ræðumanns á að það er komið að þingflokksfundatíma.) Ég er alveg að verða búinn, virðulegur forseti.
    Ég á ekki langt eftir þannig að ég, með leyfi virðulegs forseta, ætla að ljúka því að lesa upp það sem við lögðum til í janúar í því plaggi sem ég nefndi Umræðugrundvöll.
    Við lögðum enn fremur til að ákvæði um skattfrelsi vegna hlutafjárkaupa yrðu rýmkuð og stimpilgjöld hlutabréfa felld niður eða lækkuð verulega. Athugað yrði með löggjöf um auðhringi.
    Það væri betur að hæstv. ríkisstjórn tæki mark á þessari ábendingu og hefði þetta átt að koma fram í þessu frumvarpi.
    Við lögðum enn fremur til að skattar á fyrirtæki yrðu lagfærðir, þ.e. að skattfrjálst varasjóðsframlag verði aftur heimilað. Enn fremur leyft að stofna sveiflujöfnunarsjóði innan fyrirtækja með skattfrjálsum framlögum.
    Þetta vantar einnig því miður í þetta frumvarp til laga um ráðstafanir vegna kjarasamninga.
    Síðan lögðum við til að skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði yrði lækkaður í 1,1% og síðan felldur niður. Það er vel að hæstv. ríkisstjórn virðist hafa sinnt þessari ábendingu þó að hún hafi ekki viljað ganga alveg eins langt og við, þ.e. að í frumvarpinu er lagt til að sérstakur skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði lækki í 1,5% úr 2,2%. Var nú tími til kominn því þetta er einhver ósanngjarnasti skattur á atvinnurekstur í landinu sem ég minnist að hafa orðið vitni að eða séð verða til í

meðförum á hinu háa Alþingi.
    Svo lögðum við að lokum til að dregið yrði úr gjaldskrárhækkun ríkisfyrirtækja. Ég hef því miður séð litla tilburði til þess. Ég held að allir geti verið sammála um að auðvitað ætti ríkið að ganga á undan í því að reyna að halda niðri verðlagi í landinu með þeim hætti að sporna við, alls staðar þar sem framast verður unnt talið, og halda gjaldskrárhækkunum niðri, a.m.k. hvað fyrirtæki ríkisins sjálfs varðar.
    Að lokum langar mig rétt aðeins til að fjalla um 1. gr., þ.e. um Verðjöfnunarsjóð fiskiðnaðarins og áframhaldandi möguleika hans til þess að greiða verðuppbót á freðfisk og verðuppbót á hörpudisk. Þetta er bráðabirgðaráðstöfun sem slík og er út af fyrir sig ekki nema gott eitt um það að segja að þessum uppbótum skuli haldið áfram. Hins vegar væri miklu nær að reyna að laga efnahagsástand þjóðfélagsins þannig að það þurfi ekki að grípa til ráðstafana sem þessara. Það er alveg fráleitt ef við ætlum að halda áfram ár eftir ár að borga verðuppbætur á frystan fisk og ýmsar aðrar sjávarafurðir. Þá erum við komin út á hála braut sem ég veit ekki hvort verður aftur snúið af. Það hlýtur að verða að reyna að höggva að rótum meinsemdarinnar, þ.e. koma efnahagsmálum í almennilegt lag og útflutningsmálum þannig að það borgi sig að frysta fisk og selja hann út úr landinu.