Húsnæðisstofnun ríkisins
Mánudaginn 08. maí 1989

     Frsm. 3. minni hl. félmn. (Alexander Stefánsson)(frh.) :
    Herra forseti. Áður en ég hef framhald ræðu minnar langar mig til að láta það koma fram að ég tel mjög æskilegt og viðeigandi að hæstv. félmrh. verði viðstaddur þessa umræðu þar sem ég kemst ekki hjá því að beina til ráðherra nokkrum spurningum í sambandi við málið í heild. ( Forseti: Þess verður farið á leit við hæstv. félmrh. að hann mæti til fundar og verði við umræðuna.)
    Herra forseti. Þegar ég frestaði ræðu minni sl. laugardag um þetta frv. um breytingar á lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins, 344. mál Nd., var ég búinn að vitna til ræðu minnar við 1. umr. frv. 17. mars sl. þar sem ég taldi frv. þetta vera tímaskekkju. Ekki væri fullkannað að núgildandi lög frá 1986 stæðu ekki undir því hlutverki sem þeim var ætlað, enda ekki verið í gildi nema tæplega 2 1 / 2 ár og allar líkur bentu til þess að þau væru nú að ná jafnvægi. Jafnframt benti ég á nauðsyn þess að hverfa frá þeirri stefnu að vera sífellt að breyta lögum um mikilvægustu mál áður en þau næðu fótfestu í meðferð þeirra sem eiga að framkvæma þau. Ég benti á yfirlýsingu núv. hæstv. félmrh. sem m.a. birtist í forustugrein í Alþýðublaðinu í mars sl., en þar segir svo, með leyfi forseta:
    ,,Stærsta breytingin felur í sér að núverandi húsnæðiskerfi yrði fellt niður og tekið upp svonefnt húsbréfakerfi. Kostir húsbréfakerfisins eru miklir. Verið er raunverulega að lána fólki 65% af kaupverði íbúða. Í stað loforða og biðraða mundi húsbréfadeild við Húsnæðisstofnun kaupa fasteignaveðbréf sem gefin eru út við fasteignaviðskipti með veði í viðkomandi eign og afgreiða alla umsækjendur á 2--3 vikum.``
    Tilgangurinn er að leggja núverandi húsnæðiskerfi niður.
    Ég lýsti séráliti Ásmundar Stefánssonar, forseta Alþýðusambands Íslands, og Guðmundar Gylfa Guðmundssonar, hagfræðings við Fasteignamat ríkisins, sem var fulltrúi Framsfl. í endurskoðunarnefnd um húsnæðismál, um markmiðin með lagabreytingunni 1986 og um áhrif þeirrar lagabreytingar. Ég skýrði frá stefnu Framsfl. sem undirstrikuð var á síðasta flokksþingi, æðstu stofnun flokksins sem haldið var í nóvember 1988 sem undirstrikaði gildi núverandi húsnæðiskerfis og lagði áherslu á að endurskoðun laga tæki mið af því að stytta biðtíma og lagði aðaláherslu á að meiri háttar endurskoðun húsnæðiskerfis þjóðarinnar, bæði að því er varðar almenna kerfið og félagslega kerfið, yrði í fullu samráði og samstarfi við aðila vinnumarkaðarins í landinu, launþega og atvinnurekendur.
    Ég skýrði frá afstöðu þingflokks Framsfl. sem ítrekaði afstöðu flokksþings, enn fremur samkomulagi sem ráðherrar flokksins gerðu um málið til að forða því að hæstv. félmrh. yfirgæfi ráðherrastól sinn sem frægt er orðið. Í samþykkt þingflokksins kemur skýrt fram að einstakir þingmenn flokksins hafa óbundnar hendur við afgreiðslu málsins. Þannig var ljóst að þetta þingmál er í raun stjfrv. sem ekki nýtur fylgis meiri hluta þingmanna ríkisstjórnar og verður því að

treysta á stjórnarandstöðu. Það er því eins og sagt hefur verið heimsmet að ráðherra í ríkisstjórn hótar afsögn samþykki stjórnarandstaðan ekki frv. sem ráðherrann leggur fram í nafni ríkisstjórnar. Um leið er þetta óvirðing við Alþingi eins og áður hefur komið fram við umræður á hv. Alþingi.
    Ég tók sérstaklega fyrir í fyrri hluta ræðu minnar sl. laugardag þátt Húsnæðisstofnunar ríkisins í þessu máli. Stjórn hennar er þingkjörin og eiga þar sæti þaulreyndir menn með sérþekkingu á húsnæðismálum umfram marga aðra. Sem svar við beiðni félmn. Nd. sendi stjórnin örstutta orðsendingu: Stjórnin getur ekki sent svar þar sem svo skiptar skoðanir eru innan stjórnarinnar um frv.
    Hér er um einstakan viðburð að ræða í raun og veru. Fagleg stjórn húsnæðismála getur ekki tekið efnislega afstöðu til róttækrar lagabreytingar þar sem tilgangurinn er að leggja núverandi kerfi í rúst eins og ráðherra hefur margsagt og raunar fleiri forustumenn Alþfl. Það gengur sá orðrómur að aðeins formaður stjórnar stofnunarinnar, sem er aðstoðarmaður hæstv. félmrh., hafi viljað mæla með þessu frv. óbreyttu.
    Það kemur einnig í ljós að nánast ekkert alvörusamband var haft við stjórn stofnunarinnar um mótun þessa frv. sem er einsdæmi þar sem forráðamenn úr stjórn og aðalstarfsmenn stofnunarinnar hafa við lagasmíð á undanförnum áratugum ávallt tekið beinan þátt í slíkri vinnu frá fyrstu gerð til loka. Ég minni á lögin frá 1984 og lögin 1986 þar sem skrifstofustjóri og deildarstjóri í Húsnæðisstofnun auk stjórnarmanna voru í frumvarpsgerðinni sjálfri frá upphafi til enda sem ætti að vera sjálfsagt mál, enda allt þetta fólk með víðtæka reynslu. Hæstv. félmrh. sýnir hvorki stjórn né Húsnæðisstofnun eðlilegt traust né samskipti. Þetta kemur best fram í því að 10. apríl sl. kom fram opinber greinargerð, sem er undirrituð af fimm stjórnarmönnum í Húsnæðisstofnun ríkisins, um frv. félmrh. Jafnframt er ljóst að hluti annarra stjórnarmanna er sama sinnis og kemur það fram í þessari greinargerð.
    Viðbrögð hæstv. ráðherra í fjölmiðlum lýsa augljóslega viðhorfi ráðherrans til stjórnar stofnunarinnar. Þetta eru einstaklingar úti í bæ með annarlegar skoðanir. Þetta minnir mig á umræður á hv. Alþingi um núgildandi húsnæðiskerfi
þegar þingmenn Alþfl., þar á meðal núv. ráðherrar, hæstv. félmrh. og hæstv. utanrrh., og fleiri hv. þm. Alþfl. töldu óeðlilegt að taka tillit til álits og forræðis heildarsamtaka launafólks. Þessir aðilar ættu ekki að hafa áhrif á lagasetningu um húsnæðismál á Alþingi. En ég spyr: Hvenær hefur lögum um húsnæðiskerfi verið breytt hér á landi án samráðs við samtök launþega eða aðila vinnumarkaðarins í heild? Aldrei. Enda sjálfsagður hlutur. Og til hvers þurfum við húsnæðislöggjöf hér á landi? Er hún ekki meira og minna félagslegur þáttur til að tryggja réttlæti og jafna aðstöðu fólks til að eignast húsnæði sem er í raun frumþörf hvers einasta manns í okkar landi? Við gerum það með því að hafa lög sem veita aðgengi til

lána til að eignast eigið húsnæði eða á félagslegum grunni í kerfi verkamannabústaða.
    Það hefur komið fram í þessum skýrslum, sem ég hef m.a. vitnað í, að heildarfjöldi íbúða á Íslandi er nú um 88.500, þar af félagslegar íbúðir 6500. Í almenna húsnæðislánakerfinu eru því 82 þús. íbúðir og um 85% fjölskyldna búa í eigin húsnæði sem er mjög hátt hlutfall miðað við aðrar þjóðir.
    Herra forseti. Ég tel ástæðu til að vitna í greinargerð fimm stjórnarmanna í Húsnæðisstofnun að því er varðar þá breytingu sem hér er til umræðu, þ.e. húsbréfakerfið, sem þýðir í raun að markaðsvextir og markaðslögmál á að gilda um húsnæðisstefnu hér á landi ef þetta frv. verður að lögum hvað sem líður ýmsum fyrirvörum sem menn telja sér trú um að hafi eitthvert gildi í sambandi við umræður um þetta frv. Ég get ekki stillt mig um að vitna í viðtal sem Alþýðublaðið átti við Björn Þórhallsson sem er formaður Landssambands íslenskra verslunarmanna og einn af stjórnarmönnum í Húsnæðisstofnun ríkisins í fjölda ára. Þar kemur fram, með leyfi forseta:
    ,,,,Ég lýsti því yfir á formannafundi ASÍ í dag að það væri mín skoðun að ef breyta eigi húsnæðiskerfinu verði að leita samkomulags við þá aðila sem að því stóðu í upphafi``, sagði Björn Þórhallsson, formaður Landssambands verslunarmanna í samtali við Alþýðublaðið. Hann bætti við: ,,Það er mín skoðun að ef þessu kerfi verður troðið í gegn, þá sé verkalýðshreyfingin óbundin af þeim lögum sem gilda í dag um greiðslu úr lífeyrissjóðum inn í húsnæðiskerfið.``
    Ég gæti í þessum ræðustól, ef ég teldi það hafa einhver áhrif, lesið úr fleiri, fleiri tuga blaðsíðna áliti frá fulltrúum launþega á Íslandi sem hafa sent félmn. Nd. álit sitt um þetta kerfi. En ég mun sleppa því í þetta skipti. Hins vegar tel ég ástæðu til að lesa nokkuð úr þeirri greinargerð sem fimm stjórnarmenn í Húsnæðisstofnun ríkisins gáfu út og sendu félmn. og er dags. 10. apríl 1989, en undir það rita Björn Þórhallsson, Grímur S. Runólfsson, Jón Gunnarsson, Grétar Þorsteinsson og Hákon Hákonarson. Eins og ég sagði áðan er alveg ljóst að fleiri stjórnarmenn en þessir fimm í Húsnæðisstofnun ríkisins voru sammála því áliti sem kemur fram í þessari greinargerð.
    Ég tel einnig ástæðu til að undirstrika það vegna ummæla hæstv. félmrh. og annarra um þessa aðila í fjölmiðlum að þetta eru allt saman menn með ára og jafnvel áratuga reynslu á þessu sviði. Þeim hefur verið sýndur sérstakur trúnaður í því að fara með þennan málaflokk í umboði ýmissa samtaka og raunar Alþingis. Því tel ég ástæðu til þess að grípa nokkuð ofan í þá greinargerð sem þessir ágætu fulltrúar hafa látið fara frá sér. Hvers vegna? Vegna þess að þeir skilja alvöru málsins og telja fulla ástæðu til að koma þessum sjónarmiðum á framfæri svo að menn eigi betra með að átta sig á hvað hér er á ferðum. Þeir gefa í þessari greinargerð ítarlegt og vandað yfirlit um það hvernig þessi mál standa. Þeir fara yfir tillögur félmrh., þeir fara almennt í húsnæðismarkaðinn, þeir taka sérstaklega fyrir ástand almenna

húsnæðislánakerfisins, þeir sýna fram á að hinn svokallaði þúsundalisti, 10--12 þúsunda manna, sé alls ekki rétt túlkaður og sanna það með ítarlegum dæmum að hér er farið með rangt mál. Þeir benda á að þessi samantekt, sem er stór kafli í þeirra greinargerð, bendi til þess að almenna húsnæðiskerfið er sem næst því að hafa undan nýjum innkomnum umsóknum en á þá eftir að vinna upp úr eldri og óafgreiddum umsóknum. Jafnframt taka þeir fram að mikilvægt er að gera ítarlega athugun á því hver biðlisti umsókna húsnæðislána raunverulega er og athuga enn betur hvers megi vænta í útlánagetu Húsnæðisstofnunar næstu árin. Þetta er nauðsynlegt áður en kveðnir eru upp sleggjudómar um vanhæfni hins almenna húsnæðislánakerfis til að sinna sínu hlutverki.
    Þessu næst tel ég ástæðu til að grípa niður í þeirra skýrslu, herra forseti, þar sem fjallað er um tillögur til úrbóta. Með tiltölulega einföldum breytingum að þeirra mati er hægt að stytta biðtímann í núverandi kerfi. Ég endurtek enn: Þessir menn eru fulltrúar Alþingis í Húsnæðisstofnun og vita hvað þeir eru að tala um. Þetta eru menn sem starfa við hið almenna húsnæðiskerfi og einnig hið félagslega kerfið og fara um þetta höndum svo til daglega í sambandi við sitt starf. Þeir segja:
    ,,Með tiltölulega einföldum breytingum er hægt að stytta biðtímann í núverandi kerfi. Vegna algjörrar óvissu um fjölmörg mikilvæg atriði sem varða húsbréfamarkað og vegna biðraðarinnar í núverandi kerfi, sem verður undir öllum kringumstæðum að leysa, er e.t.v. eðlilegast að vinna út frá eftirfarandi viðmiðunum:
    Gengið verði út frá því að lífeyrissjóðirnir kaupi skuldabréf fyrir a.m.k. 55% af ráðstöfunarfé sínu og eftirfarandi leiðir kannaðar með það fyrir augum að stytta biðtímann á næstu árum:
    Þeir sem búa í eigin húsnæði fái eitt lán, endurkaupalán, líka þegar um byggingu er að ræða. Ef 15% allra umsækjenda eiga íbúð fyrir mundu þeir fá 30% lægra lán en ella. Það mundi leiða til þess að 4,5% af útlánafénu mundi verða mögulegt að ráðstafa til annarra.
    Þeir sem eiga það miklar eignir að þeir nái ákveðinni eignaviðmiðun (ekki eignarskattsviðmiðun) fái ekki lán. Með breytingunni á lögunum, sem gerð var á sl. vetri, var tekin inn viðmiðun við eignarhlut í íbúð. Ekkert er litið til annarra eigna: bíla, skuldabréfa, bankainnstæðna eða eigna í atvinnurekstri. Það er ólíkt sanngjarnara að miða við heildareign en það hversu mikil lán hvíla á íbúð viðkomandi. Enda nota margir íbúðir sínar sem veð fyrir lánum sem tekin eru til að fjárfesta á öðrum sviðum.``
    Þá vilja þeir geyma lánsréttinn. ,,Heimilað verði að geyma lánsrétt í ákveðinn tíma sé lánsréttur ekki nýttur að fullu. Í núverandi kerfi er tilhneiging til þess að einstaklingur nýti sér fyllsta rétt þó ekki sé brýn þörf til svo mikillar lántöku. Ef heimilt væri að geyma lánsréttinn að hluta er líklegt að ýmsir vildu nýta sér þá heimild. Þessi möguleiki kæmi sér einkum

vel fyrir fólk á landsbyggðinni þar sem íbúðaverð er lægra og lánsþörf minni en á höfuðborgarsvæðinu. Heimild til þess að geyma lánsfé gæti dregið úr lánveitingum í fyrstunni en aukið hann síðar. Þessi heimild gæti hjálpað Húsnæðisstofnun að komast yfir þá erfiðleika sem nú eru vegna fjárþurftar.``
    Ég endurtek enn í þessari umræðu að hér eru að tala menn sem vinna við þetta verkefni, menn sem vilja sjá auðveldar lausnir til breytingar á því kerfi sem við búum við í dag.
    ,,Við endurgreiðslu greiði allir aukaafborgun sem nemi t.d. 3,5% tekna umfram skattleysismörk. Meðalendurgreiðslutími gæti orðið innan við 30 ár sem þýðir þriðjungs meiri endurgreiðslu á hverju ári hjá þeim sem fá lán eftir að það kerfi er tekið upp. Áhrifa þessara breytinga gætir hins vegar lítið fyrstu árin.
    Aukaafborgun mundi hafa það í för með sér að þeir tekjuhærri mundu greiða lán sín hraðar en þeir tekjulægri. Það mundi leiða til þess að ríkissjóður mundi ekki greiða vexti þeirra jafnmikið niður og þeirra tekjulægri.
    Allar þessar breytingar mundu gera það að verkum að 12% af útlánafé sjóðsins yrði fært frá tilteknum hópum umsækjenda til annarra. Með hraðari endurgreiðslu ykist síðan svigrúmið til útlána.
    Í núgildandi lögum hefur Húsnæðisstofnun ekki heimild til að bjóða út skuldabréf. Fái Húsnæðisstofnun heimild til þess að bjóða skuldabréf á almennum markaði, sem gerir henni mögulegt að afgreiða 1000 lánum fleira á ári næstu 5 ár, mun það geta haft mikil áhrif. Með því er hægt að stytta biðtímann mjög hratt, eða í 23 mánuði strax árið 1989 og 11 mánuði árið 1992. Þá hefðu lán verið veitt vegna 30% allra íbúða í landinu utan hins félagslega kerfis.``
    Þá kem ég að kafla sem þeir fimmmenningar úr Húsnæðisstofnun kalla ,,Athugasemdir við ,,kosti`` húsbréfa``. Mér finnst ástæða til að grípa aðeins niður í þennan kafla því að hann er að sjálfsögðu mikilvægur í þessum umræðum sem fram fara um þetta nýja frv.
    ,,Hér að framan var það staðhæft að undirrót þess ,,húsnæðisvanda`` sem er hér á landi væri hátt eiginfjárhlutfall á eldri íbúðum og þar með skortur á lánsfé til að endurfjármagna íbúðir við kaup eignalítilla fjölskyldna, svo sem ungs fólks. Þá var bent á það að innri fjármögnun er þegar mikil í íbúðaviðskiptum.
    Lægri útborgun sem ekki krefst aukins opinbers fjár. Á undanförnum árum hefur oft verið rætt um nauðsyn þess að lækka útborgunarhlutfall í íbúðaviðskiptum og fá seljendur með þeim hætti til að lána meira til kaupenda. Í þessari umræðu hefur verið gengið út frá því að ekki yrði veitt meiru af opinberu fjármagni til húsnæðismála. Þess í stað áttu seljendur að geyma sparifé sitt í meira mæli á skuldabréfum með veði í hinni seldu eign og fjármagna á þann hátt íbúðamarkaðinn.
    Með leið innri fjármögnunar minnkar ekki framlag

peningasparnaðar landsmanna til húsnæðismála því sá sparnaður einstaklinga sem áður fór t.d. til banka og þar með atvinnulífsins fer með þessari fjármögnunarleið til húsnæðismála. Opinber fjármögnun myndi aftur á móti ekki aukast.``
    ,,Húsbréf með forgang umfram atvinnuvegina`` er næsti kafli hjá þeim fimmmenningum. ,,Ýmsar tillögur og tilraunir hafa verið gerðar til að koma á aukinni innri fjármögnun á íbúðamarkaði en ekki tekist.
    Sú leið sem nú er til umræðu um ,,húsbréfaskipti`` er sett fram af formælendum þeirra í því markmiði að auka innri fjármögnun á íbúðamarkaði með skuldabréfaskiptum og ríkisábyrgð og þar með gefinn forgangur að peningasparnaði landsmanna, t.d. umfram atvinnuvegina.
    Með leið skuldabréfaskipta og ríkisábyrgðar mun allt það fé sem flyttist við innri fjármögnun úr bankasparnaði í húsbréf verða opinbert lánsfé og þar með eykst opinbert fjármagn til húsnæðismála. Auk þessa munu þau skuldabréf sem
áður gengu milli kaupenda og seljenda einnig verða ríkistryggð og þar með opinbert fjármagn.
    Síðast en ekki síst mun verða auðvelt að ná hagstæðum ríkistryggðum skuldabréfum til annarrar fjármögnunar en til íbúðakaupa gegnum skuldabréfaskipti. Þetta mun verða auðvelt því ekki er krafist annarra skilyrða en veða og greiðslugetu.`` --- Mér finnst ástæða til að skjóta því hér inn í að einn af reyndustu aðilum sem fást við verðbréfaviðskipti sagði á fundi í félmn. að auðvitað væri það eðlilegur hlutur að reikna með því að húsbréf yrðu ekki gefin út til 25 ára heldur til eins árs, til fimm ára eða til tíu ára. Það væri hægt að reikna með því að hægt væri að fá þau í smáum einingum og hann sagði að heppilegast væri að hvert bréf yrði á u.þ.b. 50 þús. kr. Þar með væri hægt að nota þessi bréf til ýmissa viðskipta, m.a. bílakaupa og annars slíks sem hann tiltók. Auðvitað er þetta hárrétt hjá þessum reynda verðbréfaviðskiptamanni. Hann veit hvað hann syngur og hefur oft endurtekið þessa fullyrðingu. --- ,,Að þessu samanlögðu mun opinbert ríkistryggt lánsfé og fjármagn samfélagsins til húsnæðismála aukast umfram það sem nauðsynlegt og heppilegt er ef skuldabréfaskipti húsbréfa verða tekin upp.``
    Síðan taka þessir fimm stjórnarmenn í Húsnæðisstofnun upp samanburð og upplýsingar frá Danmörku en þar eru miklar vaxtasveiflur á húsbréfum.
    ,,Danska húsbréfakerfið byggir á skuldabréfasölu til þess að afla fjár til útlána. Á línuriti [sem því miður er ekki hægt að bregða upp hér í þessum ræðustól] sést að raunávöxtun húsbréfa í Danmörku eftir skatt hefur breyst frá því að vera mínus 5,5% 1980 í plús 1% árið 1987. Raunávöxtunin hækkaði úr mínus 5,5% í mínus 3,3% milli áranna 1980 og 1981. Hún lækkaði síðan úr mínus 3,5% í mínus 4,5% frá 1981--1982 en hefur stigið síðan í plús 1% 1987 eins og áður segir.
    Raunávöxtun húsbréfa í Danmörku fyrir skatt er önnur. En árið 1980 voru vextir af húsbréfum 5% og

hækkuðu í 8% árið 1981. Síðan lækkaði raunávöxtunin í 7% árið eftir en var 9,5% árið 1983. Þá tók hún að lækka og var 7% 1984, rúmlega 8% 1985, rúmlega 7% árið 1986 og tæplega 7% árið 1987.
    Þau sem tóku lán til húsnæðisöflunar 1983, þegar vextirnir voru sem hæstir, verða að greiða þá áfram til ársins 2003 nema þeim takist að skuldbreyta. Vextir á hverjum flokki skuldabréfa eru nefnilega fastir.
    Við hvaða sveiflum má búast hér á landi? Íslenska húsbréfakerfið byggir á útgáfu ríkistryggðra skuldabréfa. Eins og fram kemur í kaflanum hér að framan hefur raunávöxtun sveiflast allnokkuð á undanförnum árum í Danmörku. Er hægt, ef byggt er á reynslu undanfarinna ára, að gera ráð fyrir minni sveiflum á íslenskum húsbréfamarkaði en dönskum? Þegar haft er í huga að húsbréfakerfi það sem lagt er til að komið verði á hér á landi er líklega enn þá viðkvæmara fyrir efnahagssveiflum en það danska.`` --- Munurinn á danska og íslenska kerfinu er dreginn hér upp síðar og ég mun koma að því nánar.
    ,,Mikilvægt er að geta áætlað hve stóran hluta útgefinna húsbréfa seljendur íbúða muni ekki láta frá sér og þá á markað. Þá er einnig mikilvægt að geta gert sér grein fyrir við hvaða aðstæður þeir muni reyna að losa sig við þau og hvar. Munu t.d. eigendur húsbréfa frekar reyna að selja þau í þensluástandi eins og nýlega er gengið yfir hagkerfið? Er ekki líklegt að húsbréf, kannski upp á nokkra milljarða, sem koma á markað, hvort heldur er á þenslu- eða samdráttartíma, muni magna hagsveifluna fremur en að draga úr henni?``
    Allir þeir þættir sem hér hefur verið minnst á munu hafa áhrif á íbúðaverð. Vafalaust til hækkunar. Þá er einnig ljóst að meðan verið er að afgreiða þá, sem hafa sótt um lán hjá Húsnæðisstofnun, er erfitt að afla nýrra fjármuna til umsvifamikilla húsbréfakaupa. Ef húsbréfakerfi verður komið á, í því ástandi sem nú ríkir, samhliða húsnæðislánakerfi er hætt við að það hafi skaðleg áhrif á fasteignamarkaðinn. Skaðleg áhrif í þeirri merkingu t.d. að þeir sem geta orðið sér úti um fé á húsbréfamarkaði muni bjóða upp verðið fyrir þeim sem bíða eftir láni frá Húsnæðisstofnun ríkisins.
    Með húsbréfakerfinu er gert ráð fyrir því að seljandi láni kaupanda meira og í lengri tíma en nú þekkist. Það leiðir til þess að greiðslukjör, einkum á dýrari eignum, verða kaupandanum mun léttbærari en nú. Eigendur stórra íbúða sem fá ekki lán í núverandi kerfi fá ríkistryggingu á allt að 5,5 millj. kr. í húsbréfakerfinu`` --- algerlega án tillits til þess hvort þeir eiga fleiri eða færri íbúðir á sínum prjónum.
    ,,Húsbréfaviðskipti eru á margan hátt frumstæðari viðskiptamáti á fasteignamarkaði en niðurgreidd lán eins og þau sem veitt eru í nafni Húsnæðisstofnunar ríkisins. Á markaðnum myndast vissulega engar biðraðir eins og í lánakerfi því sem við þekkjum. Á markaði hækkar verð á eftirsóttri vöru, en lækkar ef framboð er mikið. Eins og ástand er nú á mjög vanþróuðum íslenskum verðbréfamarkaði er nær víst að verulegt framboð húsbréfa myndi lækka verð þeirra

vegna mikilla affalla og á þann hátt hækka fjármagnskostnað af húsnæði. Þ.e. þetta leiddi til stórhækkaðra raunvaxta.
    Í gildandi lögum um Húsnæðisstofnun segir í 10. gr. að afgreiðsla og innheimta lána úr Byggingarsjóði ríkisins fari fram í almennum lánastofnunum
sem húsnæðismálastjórn semur við. Á fundum húsnæðisstjórnar og fulltrúa bankanna hefur komið í ljós að bankarnir telja sig þurfa meiri þóknun fyrir þessa þjónustu en svo að húsnæðisstjórn telji réttlætanlegt að lántakendur greiði hana. Aukin þjónusta við íbúðakaupendur á landsbyggðinni í gegnum banka og sparisjóði mun því vera þeim dýrari en þjónusta Húsnæðisstofnunar nú. Þegar mat á veðhæfni fasteignar og greiðslugetu lántakans bætist við skuldabréfaviðskiptin hækkar þessi landsbyggðarskattur enn meir.
    Húsbréfadeild Húsnæðisstofnunar tryggir ekki traustari ráðgjöf en ráðgjafarstöð Húsnæðisstofnunar ríkisins gerir nú. Talsmenn húsbréfakerfisins telja að með tilkomu þess muni fjármögnun íbúðaviðskipta verða samræmd og öll ráðgjöf traustari. Í núverandi kerfi fylgja bráðabirgða kostnaðar- og greiðsluáætlanir lánsumsóknunum. Áður en umsækjandi fær lánið í hendur skilar hann greiðsluáætlun er sýni fram á það að lausafé, eignir hans og tekjur dugi fyrir þeim framkvæmdum sem hann áformar. Í stað ráðgjafarstofnunar Húsnæðisstofnunar ríkisins er nú lagt til að húsbréfadeild Húsnæðisstofnunar ríkisins, bankar eða sparisjóðir annist þennan þátt. Enn hefur ekkert komið fram um að ráðgjafarstofnunin hafi ekki orðið að miklu gagni við að forða slysum sem urðu fyrir tilkomu hennar. Þvert á móti taldi núv. félmrh. að óþolandi hátt hlutfall umsækjenda um húsnæðislán fengi ekki lán hjá stofnuninni`` --- þetta taldi hún meðan hún var ekki hæstv. ráðherra --- ,,vegna þess að ráðgjafarstöðin taldi tekjur, lausafé og eignir viðkomandi umsækjenda ekki duga til áformaðra framkvæmda.``
    Hver man ekki eftir þessum umræðum fyrir stuttu síðan hér á hv. Alþingi? Og ég vil bæta því við í sambandi við ráðgjafarstöð Húsnæðisstofnunar að ég tel að hún hafi verið mesta framfaraspor í húsnæðismálum sem stigið var í fyrrv. ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar. Það var hæstv. fyrrv. félmrh. í þeirri ríkisstjórn sem kom þessari ráðgjafarstöð á strax 1983 vegna þeirra erfiðleika sem fólk í þúsunda tali átti við að stríða í því verðbólgubáli sem þá geisaði. Og síðan, öll árin í þeirri ríkisstjórn, var ráðgjafarstöðin efld, ár frá ári. Ég hygg að mér sé óhætt að fullyrða að a.m.k. 3--5 milljarðar kr. hafi farið í aðstoð við húsbyggjendur í gegnum þessa ráðgjafarstöð Húsnæðisstofnunarinnar sem hefur eflst ár frá ári miðað við getu til þess að veita þá nauðsynlegu ráðgjöf sem þarna er veitt. Hafa um 5000 einstaklingar hlotið ráðgjöf og fyrirgreiðslu. Þess vegna er það vissulega ánægjulegt að meira að segja núv. ríkisstjórn og núv. hæstv. félmrh. viðurkenna auðvitað að þetta er eitt besta form sem hefur verið komið upp og hæla sér gjarnan af því við

hátíðleg tækifæri að þessi stofnun skuli vera við lýði. En samt sem áður, samt sem áður á að setja upp aðra stofnun sem á að yfirtaka verulegan hluta af því ráðgjafarstarfi sem þarna fer fram.
    Herra forseti. Ég tel ástæðu til að halda áfram að vitna í þessa ágætu greinargerð þessara fimm stjórnarmanna úr Húsnæðisstofnun sem ég vil endurtaka enn að eru meðal þeirra manna sem mesta reynslu hafa í umfjöllun húsnæðismála hér á landi, hafa þrælkynnt sér þessi mál og stunda daglega, ef svo má að orði komast, umfjöllun um húsnæðismálin almennt eins og þau koma fyrir í raunveruleikanum hér á landi eins og þeir þekkja best.
    Þeir halda áfram að tala um húsbréfakerfið og eru áfram með ýmsar athugasemdir við kosti þess og svara um leið á þann hátt sem eðlilegt er í sambandi við þessi mál:
    ,,Raunverð fasteigna á markaði er jafna margra áhrifaþátta. Framboð og eftirspurn fasteigna og ekki síst kaupgeta ráða sennilega mestu um fasteignaverðið. Kaupgeta vegur líklega þyngst. Í því sambandi nægir að minna á þá djúpu lægð sem fasteignaverð komst í eftir 1983. Fasteignaverð náði botni 1985 en hækkaði síðan með aukinni kaupgetu. 1986 hækkuðu húsnæðislánin og í garð gengu mestu aflaár Íslandssögunnar. Að þessu tvennu samanlögðu jókst fasteignakaupgeta um meira en áður hafði þekkst.
    Nú eru veitt lán til 40 ára með 3,5% vöxtum. Sveiflur á fasteignamarkaði geta því orðið í nafnverði, útborgun, kjörum á húsnæðislánum, skattastefnu og kjörum eftirstöðvalánanna sem eru 7--8% af nafnverði íbúðarinnar. Áhætta seljandans er nú mest á fyrsta árinu þegar kaupandinn greiðir útborgunina. Með tilkomu þess húsnæðislánakerfis sem við búum við nú minnkaði þessi áhætta. Lán frá Húsnæðisstofnun eru orðin svo mikilvægur þáttur útborgunarinnar að sala annarra en dýrra íbúða er orðin áhættulítil. Næstmesti áhættuþáttur seljandans er lán sem er 7--8% af nafnverði íbúðarinnar í fjögur og mest átta ár``, þ.e. bankalánin.
    ,,Með tilkomu húsbréfa mun nafnverð dýrari eigna á höfuðborgarsvæðinu hækka. Þær breytingar sem verða á greiðslukjörum dýrari eigna, ef seljendur eru tilbúnir til þess að lána kaupendum 65% af nafnverðinu til 25 ára, munu leiða til hækkunar. Ef húsbréfakerfið verður nær því að ná þeirri festu sem talsmenn þess gera sér vonir um verður það hömlulítil lánastarfsemi með ríkisábyrgð. Með tilkomu húsbréfakerfis í fasteignaviðskiptum fjölgar og breytist innbyrðis vægi áhrifaþátta á fasteignamarkaði. Verð fasteigna getur sveiflast með breytingu á nafnverði, útborgun, afföllum þegar fasteignaveðbréfum er breytt í
húsbréf, vöxtum og áætluðum afföllum þegar húsbréf eru seld. Auk þess mun kaupmáttur launa og skattastefna líka hafa áhrif í húsbréfakerfi eins og þessir þættir hafa áhrif í húsnæðislánakerfi.
    Síðan segja þeir, þessir fimmmenningar sem þekkja innviði Húsnæðisstofnunar: ,,Enn hefur enginn þurft að bíða í 34 mánuði frá umsókn til útborgunar láns, eins

og gefið er í skyn af málsvörum húsbréfakerfisins. Enda þótt sú væri raunin er fráleitt að halda því fram að það þýði samsvarandi ósamræmi í tíma milli fjármögnunar og íbúðarviðskiptunum.
    Hvað með biðröð 10.000 umsækjenda? Verður hún afgreidd á tveimur vikum eins og formælendur húsbréfakerfisins segja að skipti á fasteignaveðbréfum fyrir húsbréf taki? Hvaða afleiðingar mundi það hafa á fasteignamarkaðinn? Eða eru í raun ekki 10.000 manns í biðröðinni sem þurfa eða vilja lánafyrirgreiðslu strax?`` Auðvitað er þetta einn stóri þátturinn í þeirri leiksýningu sem hefur verið höfð uppi fyrir framan alþjóð í sambandi við biðröð og allt sem henni fylgir.
    ,,Það er algengur misskilningur að lífeyrissjóðunum sé skylt að kaupa skuldabréf Húsnæðisstofnunar fyrir 55% af ráðstöfunarfé sínu. Kaupskylda lífeyrissjóða var afnumin með tilkomu núverandi húsnæðislánakerfis. Fram að því bar lífeyrissjóðunum að kaupa af fjárfestingarlánasjóðum fyrir 40% af ráðstöfunarfé sínu. Nú semja þrír aðilar, ríkisvaldið og tvö sambönd lífeyrissjóða, um vexti til tveggja ára í senn. Síðan er það hlutverk stofnunarinnar og sjóðanna hvers um sig að semja um fyrir hve stórt hlutfall af ráðstöfunarfé sínu sjóðurinn kaupir skuldabréf. Stofnunin lítur síðan eftir að við samninginn sé staðið.`` --- Og þarna er fólginn einn veigamesti þáttur sem settur var í núverandi kerfi, þ.e. að kaup lífeyrissjóðanna höfðu áhrif á það hve hátt lán viðkomandi lífeyrissjóðsþegi í viðkomandi lífeyrissjóði fékk hjá Húsnæðisstofnun. Ef viðkomandi lífeyrissjóður keypti ekki fyrir 55% þá bitnar það sjálfkrafa á umsækjanda eða öfugt.
    Þá vil ég grípa hér niður í skýrsluna þar sem þessir fimm stjórnarmenn taka nokkuð til hvað seljandi muni lána meira en nú er:
    ,,Með húsbréfakerfinu er gert ráð fyrir því að íbúðaeigendur á höfuðborgarsvæðinu láni mest. Þeir eiga dýrustu íbúðir á landinu og þurfa þess vegna að lána meira en þeir sem búa utan þess. Miðaldra og gamlir íbúar höfuðborgarsvæðisins eiga dýrar og skuldlausar íbúðir. Þau munu því lána mest í húsbréfakerfinu og verða fyrir mestum afföllum vegna þess að þau eru sá þjóðfélagshópur sem líklegastur er til þess að þurfa (ekki endilega vilja) að selja húsbréf á markaði. Íbúðareigendur utan höfuðborgarsvæðisins sem búa í íbúðum byggðum eða keyptum eftir 1980 lána minnst í húsbréfakerfinu. Áhrif húsbréfakerfisins munu því verða misjöfn eftir landshlutum og þjóðfélagshópum.
    Nú má segja að öllum sé kunnugt um það verð sem þarf að greiða fyrir lánsfé frá Húsnæðisstofnun. Neytendaeftirlit er þess vegna öflugt. Ekkert neytendaeftirlit verður með vaxtabótum af því tagi sem fyrirhugaðar eru. Í samanburði við ástandið nú munu fáir hafa þá þekkingu sem þarf til að geta lagt mat á það hvort hann fær réttláta meðferð yfirvalda.`` --- Þetta eru sannindi sem við þekkjum úr skattakerfinu á unanförnum árum og þess vegna hafa flestir sem hafa þurft að reyna að nýta sér þetta

ákvæði í skattalögum valið auðveldustu leiðina, þeir hafa valið 10% leiðina, og þannig í stórum stíl orðið fyrir tjóni í raun og veru með því að borga hærri skatta en þeim bar.
    Þá vil ég taka hér kafla sem ber yfirskriftina: ,,Almennt um húsbréf``. Og ég vil enn á ný, vegna þess að hér hafa bæst við hv. þm. í húsið, undirstrika það að ég er hér að vitna í í greinargerð sem fimm stjórnarmenn Húsnæðisstofnunar ríkisins, sem hafa áralanga reynslu af meðferð húsnæðismála, hafa lagt fram og þeirra mat á því frv. sem hér er til umræðu sem þeir leggjast gegn af þeirri ástæðu að þeir telja að hættulegt sé, miðað við núverandi aðstæður í okkar þjóðfélagi, að samþykkja það:
    ,,Að framan hefur verið rætt um helstu rökin fyrir ,,kostum`` húsbréfa og þeir kostir gagnrýndir. Hér á eftir mun aftur á móti verða fjallað um nokkur atriði að auki sem lítið eða ekki hafa verið rædd að framan.
    Það form skuldabréfaviðskipta sem fyrirhugað er í húsbréfakerfi, ,,skuldabréfaskipti``, er lítið sem ekkert notað í skuldabréfaviðskiptum almennt og þekkist tæplega við fjármögnun húsnæðislána. Skuldabréfaskipti og ríkisábyrgð svipað og nú er fyrirhugað var viðhaft á tímabili hjá Veðdeild Landsbankans, en síðan fallið frá því fyrirkomulagi. Þá er fjármögnunarleið Atvinnutryggingarsjóðsins nýja skuldabréfaskipti, þar er þó ekki um sjálfvirka útgáfu að ræða né mikið magn bréfa.``
    Og þá kem ég að þeim þætti sem fjallar um þeirra mat á húsbréfakerfi í Danmörku sem byggir ekki á skuldabréfaviðskiptum.
    ,,Húsbréfakerfi það sem er við lýði í Danmörku og oft er vitnað til sem dæmis um góðan framgang húsbréfa byggist ekki á skuldabréfaviðskiptum. Í Danmörku eru húsbréf seld á fjármagnsmarkaði til að afla peninga fyrir húsnæðislánasjóði sem lána út peninga gegn veði svipað og Húsnæðisstofnun gerir.`` Svo einfalt er málið.
    ,,Munurinn á danska og íslenska kerfinu er því fyrst og fremst sá, að í Danmörku er peninga aflað frá lífeyrissjóðum og fleirum með sölu skuldabréfa á opnum fjármagnsmarkaði, en hér á landi er samið beint við lífeyrissjóði um kaup skuldabréfa. Útlánafyrirkomulagið er svipað hér og í Danmörku.
    Skuldabréfaskipti er frumstæður viðskiptamáti því lántaki fær ekki peninga í hendurnar heldur skuldabréf sem þarf að selja. Skuldabréfaskipti er óhöndugur viðskiptamáti því lántaki þarf að geta selt skuldabréfið, en almenningur hefur oft ekki þá þekkingu og reynslu sem þarf til slíkra viðskipta, auk þess sem það krefst fyrirhafnar.``
    Ég þarf ekki að lýsa frekar en þeir gera hér því sem við þekkjum í skuldabréfaviðskiptum hér á landi og ekki síst þarf ég ekki í raun og veru að endurtaka það sem ég sagði hér í fyrri hluta ræðu minnar um þá reynslu sem almenningur hér á Íslandi hefur fengið af viðskiptum við verðbréfamarkaðinn. Það er nóg að vitna þar til Ávöxtunar sf. sem auglýsti í heilsíðum blaðanna og í sjónvarpi dag eftir dag um hina miklu ávöxtun fjármuna sem þeir gætu skapað fyrir

almenning, um heiðarleika og traustleika í viðskiptum o.s.frv. og skoruðu á almenning sem ætti peninga að koma og afhenda þeim peningana til þess að ávaxta þá á þann besta máta sem þekktist hér á Íslandi. Ég þarf heldur ekki að rifja upp aftur áhrifin og þau rök sem nú liggja á borðinu fyrir þeim viðskiptum. Við vitum öll hvernig fór: Fjöldi, fjöldi fyrirtækja, fjöldi, fjöldi einstaklinga og fjöldi, fjölmörg heimili misstu allt sem þau áttu í sambandi við það sparifé sem þau lögðu fram til ávöxtunar og fá það aldrei í hendur aftur. Og í gangi eru málaferli o.s.frv. o.s.frv. Þetta var hreinn þjófnaður. Þarna var með ránshendi sópað til sín peningum almennings sem átti að vera til þess að efla og auka sparnað. Þess vegna er ekkert óeðlilegt þó menn óttist það og lýsi jafnframt yfir furðu sinni á því að stjórnmálaflokkar sem telja sig málsvara almennings í landinu skuli leyfa sér, að þeir skuli leyfa sér það, að leggja til að hið almenna húsnæðiskerfi verði lagt í hendur á slíkum aðilum. Og almenningur, venjulegt fólk á Íslandi, á að sækja viðskiptin í gegnum þetta kerfi. Við skulum vona og ég vona það af heilum huga að þetta kerfi hér, verðbréfakerfi, eigi eftir að þróast hér á Íslandi þannig að það nái jafnvægi og geti sannað tilverurétt sinn í þessum viðskiptum. En það er ekki fyrir hendi í dag. Þess vegna er þetta mjög alvarleg tímaskekkja sem hér er á ferðinni.
    Herra forseti. Þá vil ég aftur vitna í greinargerð fimm stjórnarmanna úr Húsnæðisstofnun og þá er ég kominn að þeim kafla þar sem þeir halda því fram að húsbréf muni valda verðsprengingu á fasteignamarkaði.
    Þeir segja: ,,Í skuldabréfaskiptakerfi eins og það liggur nú fyrir mun ekki verða krafist annars af umsækjanda slíkra skipta en greiðslugetu og verðtryggingar. Engin efri mörk eru á þeim heildarupphæðum sem Byggingarsjóði er heimilt að skipta skuldabréfum fyrir`` --- nema að því leyti að það má ekki gefa út í hvert skipti hærri upphæð en 5,5 millj. kr. Þetta telja fimmmenningarnir mjög varhugavert.
    ,,Mikið hefur verið gert úr þeim biðlista og biðtíma sem nú er eftir húsnæðislánum. Jafnframt hefur verið látið að því liggja að nær fimmtungur Íslendinga muni sækja um húsnæðislán á næstu tveimur árum.`` Þvílík fullyrðing! ,,Því er haldið fram að almenna húsnæðislánakerfið muni ekki standa undir þeim kröfum sem á það eru settar. Biðlisti og biðtími muni enn lengjast og sé og verði með öllu óviðunandi, en húsbréfakerfi leysi allan vanda fljótt og vel, svo allir þeir geti fengið lán strax sem vilja. Hér hlýtur að vera pottur brotinn.``
    Í raun og veru mætti halda langa ræðu um þetta atriði. Það ætla ég ekki að gera en hins vegar vil ég aðeins benda á eitt. Hvað halda menn að íslenska peningakerfið og viðskiptakerfið þoli til lengdar ef ætti að færa rök fyrir nauðsynlegu húsnæðiskerfi miðað við það að það væru tugir þúsunda á hverju einasta ári, ja að minnsta kosti annað hvert ár, sem yrðu að fá lán til að byggja eða kaupa nýtt hús? Ég held að það sé kominn tími til að menn fari að standa

á jörðinni og átta sig á því hver stefnan er í þessum málum. Við hvað þurfum við að miða fyrir 250 þúsund manna þjóð sem á 88.000 íbúðir í dag og 82.000 af þeim eru eigin íbúðir? Hvað halda menn? Hvert ætla menn að stefna? Ætlast menn til að hver einasti íbúi þessarar þjóðar eigi íbúðarhús, allt frá barni í vöggu og upp úr? Ég held að það sé kominn tími til að menn fari að hugsa rökrétt í þessum málum og gefa sér tíma til þess en vera ekki sífellt að gera eintómar sprengingar og breytingar út í hött, eða bara breytinganna vegna.
    Þá vík ég aftur að skýrslu fimm stjórnarmanna Húsnæðisstofnunar.
    ,,Að framan var farið yfir tölur um fjölda eigna í viðskiptum á markaði undanfarin ár. Árið 1987, þegar verðhækkanir voru sem mestar á íbúðum, seldust 10--15% fleiri íbúðir en í meðalári, enda sýna rannsóknir að framboð íbúða í endursölu er mjög háð félagslegum þáttum sem ekki breytast mikið ár frá ári. Ef sinna á þeim biðlista sem liggur fyrir og öllum þeim sem ,,ætla`` að sækja um lán á skömmum tíma [samkvæmt ófullkominni úttekt eða spurnalista sem sendur var út á dögunum] getur það ekki haft annað í för með sér en verðsprengingu á
íbúðamarkaði.`` Svo einfalt er málið.
    ,,Á hverju ári eru sett lánsfjárlög sem rammi um lántökur og ábyrgðir ríkissjóðs og opinberra aðila. Lánsfjárlög eru einnig sett til að halda utan um fjármagnsmarkað og efnahagsmál í landinu. Húsbréf yrðu án takmarkana lánsfjárlaga`` eins og frv. liggur fyrir. Og ég minni hér á að einn ágætur hv. þm. hefur lagt fram brtt. við frv. þar sem hann gerir ráð fyrir að takmörkun á þessu kerfi verði háð samþykkt lánsfjárlaga. Auðvitað er það alveg hárrétt hjá hv. þm.
    ,,Húsbréfaútgáfa án takmörkunar á heimildum til útgáfu myndi verða hömlulaus og mikil ef hún á að sinna því hlutverki að allir sem þess óskuðu fengju húsbréf hjá Byggingarsjóði. Því er hætt við að offramboð verði á skuldabréfamarkaði og vextir hækki.`` Og nógu háir verða þeir fyrir þar sem hér er gert ráð fyrir að þeir verði markaðsvextir og háðir verðsveiflum og gengi á þeim viðskiptamarkaði sem hér á að setja upp og Seðlabankinn á að vera viðskiptavaki o.s.frv.
    ,,Í Hagtölum mánaðarins kemur fram í stöðu útlánaflokka innlánsstofnana þann 31. des. 1988 að um 8 milljarðar kr. séu útistandandi í lánum til íbúðarhúsnæðis og byggingarverktaka. Af sjónarhóli lántakans er það sem einkennir lán innlánsstofnana til íbúðarbygginga öðru fremur dýrt lán í skamman tíma. Af sjónarhóli lánastofnunarinnar spegla vextirnir og lánstíminn afföll, kostnað og mikla lánsfjáreftirspurn.
    Af húsbréfum eru ekki greiddar reglulegar afborganir. Húsbréf er yfirlýsing húsbréfadeildar Húsnæðisstofnunar ríkisins um að tilviljun ráði hvenær húsbréfið verði greitt á 3--5 sinnum lengri tíma en lánstími bankanna til fasteignaeigenda er nú [þ.e. 25 árum]. Húsbréf geta verið heppileg fyrir innlánsstofnanir, verðbréfasjóði, tryggingafélög, lífeyrissjóði og e.t.v. einhverja fleiri sem ríkistryggð

baktrygging. Vegna þess að tilviljun ræður útborgun húsbréfanna gerir enginn greiðsluáætlun á grundvelli þeirra.`` Það er útilokað miðað við þetta lagaákvæði.
    ,,Því er haldið fram að mikil útgáfa ríkistryggðra húsbréfa minnki og stöðvist þegar vextir og/eða afföll hafa náð vissu marki og takmarkist því af markaðslögmálunum. Þetta getur vissulega verið rétt, en þá verða vextir húsbréfa orðnir háir og þar með aðrir vextir í landinu og vextir yrðu áfram háir.
    Óvissa vegna markaðshæfni húsbréfa á skuldabréfamarkaði er fyrir hendi. Stafar sú óvissa af því m.a. að húsbréfaútgáfan verður mikil í samanburði við stærð markaðarins og því að ekki hefur verið mikið um skuldabréf á markaði á því formi sem húsbréf verða.
    Til að tryggja gengi húsbréfa er ætlunin að koma á viðskiptavaka sem fylgist með og tryggi verð bréfanna. Byggingarsjóður á með öðrum orðum að vera tilbúinn til að leggja út peninga til kaupa á húsbréfum á markaði``. Og hvað þýðir þetta? ,,Þetta þýðir að Byggingarsjóður á að haga sér eins og hundur að elta skottið á sjálfum sér, gefur út skuldabréf og kaupir þau síðan aftur.`` Svo skondið er þetta ákvæði. Því miður.
    ,,Ef sala húsbréfa gengur illa munu þau fá háa raunvexti eða afföll og skuldabréfaskiptin sem viðskiptaform munu ekki ganga vel, það er alveg ljóst. Aftur á móti ef húsbréf ganga liðlega á skuldabréfamarkaði og fá hátt skiptagildi munu þau fá sama hlutverk sem hver annar peningaseðill.`` Og ég vil vekja athygli á því að þetta hefur komið fram í álitsgerð í þeirri gulu bók sem ungur hagfræðingur sendi hv. þm. og sendi félmn. Nd. og rökstuddi á mjög einfaldan hátt hvaða áhrif þessi viðskipti munu hafa á peningamarkað og viðskipti hér á landi.
    ,,Útgáfa húsbréfa mun því hafa að nokkru leyti sömu áhrif og peningaprentun og verða þar með verðbólguhvetjandi.`` Þetta er nákvæmlega það sem þessi ungi hagfræðingur, sem vinnur í Þjóðhagsstofnun, sendi frá sér. Og það merkilega er að enginn af viðmælendum félmn. Nd. treystir sér til að mótmæla þessu, ekki einu sinni Bjarni Bragi frá Seðlabankanum.
    ,,Í hinu danska húsbréfakerfi er innbyggt jafnvægi,,, ég held að rétt sé að undirstrika það, ,,því ekki eru gefin út fleiri bréf en hægt er að selja fyrir peninga.
    Áður hefur verið farið yfir áhrif húsbréfa á markaði og þau áhrif sem húsbréf mundu hafa þar ef ekki er sett þak á heildarútgáfu þeirra. Ef þak verður sett á útgáfuna munu fyrrnefnd atriði verða hættuminni. Eftir sem áður verða húsbréf verri lausn en núverandi útlánafyrirkomulag. Þetta stafar af því að í almenna húsnæðislánakerfinu eru úthlutunarreglur til að tryggja forgang`` --- og nú vil ég að menn taki eftir: Í núverandi kerfi ,,eru úthlutunarreglur til að tryggja forgang að fjármagni til þeirra sem eru að eignast fyrstu íbúð og þeirra sem búa í þröngbýli``. Þetta er mikilvægt atriði og hvað sem líður öllum biðröðum hefur þetta mjög mikið gildi í okkar húsnæðiskerfi í dag. ,,Í húsbréfakerfi eru engin

félagsleg sjónarmið. Í húsbréfakerfi með takmörkuðu fjármagni, hærri heimildum til lána á dýrari íbúðum og sömu réttindum hinna betur settu og þeirra sem hjálpar eru þurfi er óhjákvæmilegt að núverandi
forgangshópur í almenna kerfinu verður verr settur.``
    Ég hef komið áður að því, bæði í fyrri ræðu minni og nú, að það er einmitt þetta atriði sem er mikilvægt miðað við þá stefnu sem Ísland hefur haft í húsnæðismálum, að það eru þeir sem eiga margar eignir og dýrar og stórar eignir sem fá forgang í þessu nýja kerfi sem verið er að setja á, fram yfir hina í flestum tilfellum því að ráðgjafinn fyrir þetta fólk --- það er fasteignasalinn og það er verðbréfasalinn. Það er ekki ráðgjafarstöð Húsnæðisstofnunar. Og hverjir hafa forgang af þessum aðilum? Auðvitað þeir sem hafa alla möguleika til þess að snúa sér við í þjóðfélaginu.
    ,,Ef húsbréfakerfi verður sett upp`` --- þá vitna ég aftur, herra forseti, til stjórnarmannanna fimm --- ,,til hliðar við núverandi almenna kerfið þá mun húsbréfakerfið sjúga til sín fjármagn úr almenna kerfinu. Umsækjendur í almenna kerfinu munu þá þurfa að bíða lengur eftir afgreiðslu og þar með verður forgangshópurinn verr úti.`` Er þetta eitthvað óraunhæft? Það þarf ekki annað en að lífeyrissjóðirnir kippi til baka 20--30% af því fé sem þeir láta til Byggingarsjóðs ríkisins í dag. Hvað þýðir það? Það þýðir það að fjármagn Byggingarsjóðs ríkisins dregst sjálfkrafa saman og þar með verða þeir sem þar verða eftir fyrir högginu.
    Þá held ég að sé rétt að vitna í einn hlut sem þeir fimmmenningar fullyrða sem er e.t.v. ekki þýðingarminnst af þessu öllu saman, þegar við erum að tala um hið mikla fjármagn sem lífeyrissjóðirnir hafa til ráðstöfunar, en þeir fullyrða að húsbréfakerfið muni draga fé frá atvinnuvegum þjóðarinnar.
    ,,Á tímum krafna um minnkandi ríkisábyrgðir á fjármagni og sjóði til lánveitinga í atvinnulífi er ljóst að húsbréf munu fá meiri rétt til ábyrgðar ríkissjóðs en annað fjármagn.`` Það er alveg ljóst. ,,Ábyrgðir ríkissjóðs á fjármagni til húsnæðismála munu aukast og gefa forgang á það fé sem nú fer til atvinnuveganna. Ef markmiðið með húsbréfunum er að útvega meira fé eða gefa fasteignaeigendum forgang að meira fé en nú er raunin, þá eru aðrar leiðir en húsbréf vænlegri til þess.`` Og ég vil sérstaklega undirstrika þetta atriði vegna þeirrar einföldu ástæðu að allir hv. alþm. hér vita það fullvel að atvinnufyrirtækin á Íslandi eru á heljarþröm ef svo má að orði komast. Og hvaðan þurfa þeir að fá fjármagnið? Þaðan sem það er helst á lausu. Og hvar er fjármagnið helst á lausu? Það er í lífeyrissjóðum landsins eftir þá breytingu sem var gerð 1986 að lífeyrissjóðsiðgjöld eru nú greidd af öllum launum, ekki aðeins daglaunum eins og áður var, þannig að fjármagn lífeyrissjóðanna eykst með ári hverju og er að verða mjög stór þáttur í peningakerfi þjóðarinnar. Þess vegna er það mjög miður að nú á að gefa lífeyrissjóðunum lausan tauminn. Og hvert fara þeir með sitt fjármagn? Auðvitað í ríkistrygginguna. Þeir

geta farið og fengið stimplað með ríkisábyrgð á það sem þeir kaupa. En hvað fá þeir hjá atvinnuvegunum? Við skulum taka frystihús einhvers staðar í þorpi úti á landi sem rambar á barminum, þar sem eru 100--200 manns í atvinnu og þarf að fá peninga, 5 millj., 10 millj., eða 20 millj., til þess að halda uppi rekstrinum. Lífeyrissjóðurinn er við hliðina. Haldið þið að viðkomandi lífeyrissjóður fari að lána viðkomandi fyrirtæki, sem er á hausnum eða við það að fara á hausinn, fjármagnið? Auðvitað ekki. Hann fer og tilkynnir: Peningar eru lausir til að kaupa húsbréf, ríkistryggð. Og hann vill þau jafnvel frekar en ríkisskuldabréfin sjálf sem ríkið gefur út.
    Þetta tel ég vera mjög alvarlegt mál. Það hefur verið, að mati fimmmenninganna að ég orði það svo, ,,gagnrýnt að offjármögnun sé í almenna húsnæðislánakerfinu því hægt sé að fá lán á lágum vöxtum til annarra nota en íbúðarhúsnæðis``. Það hefur gengið sú saga að menn taki lán í húsnæðiskerfinu sem á ekki að vera hægt og ef það er gert í undantekningum er það svindl. ,,Í húsbréfakerfi þar sem aðeins er krafist veðs eða greiðslugetu til að fá húsbréf verður mun auðveldara að fá ríkistryggt fjármagn á tiltölulega hagkvæmum kjörum en nú er mögulegt í almenna kerfinu.`` Þetta er alveg ljóst. Það verður ekkert fjallað um viðkomandi umsækjanda í Húsnæðisstofnun eftirleiðis. Hann bara kemur með tilskrif frá fasteignasala, kaupsamning, og hann er lagður til grundvallar og kannski skattaframtal um það að viðkomandi aðili hafi efni á að borga það til baka. Slík er breytingin.
    ,,Þess verður að geta að hvert sem gengi eða vextir húsbréfa verða munu þau verða hagkvæmari fjármögnunarkostur en hinn opni almenni skuldabréfamarkaður og því verður sótt í húsbréfafjármagn eftir krókaleiðum`` til að nota til annarra hluta. Til að kaupa bíla, til að kaupa húsgögn, til að fara í ferðalög o.s.frv. Það eru engar hömlur og engar bremsur á þessu í frv., ekki til. ,,Aðferðir til að fá út húsbréfafjármagn eru einfaldar. Íbúðareigandi sem á skuldlitla íbúð selur og fær greitt með húsbréfum. Síðar kaupir sami maður aftur aðra íbúð og þá á skuldabréfi sem hægt er að breyta í húsbréf. Húsbréfunum, sem fengust greidd fyrir fyrri íbúðina, er þá hægt að halda eftir og nota fjármagnið til annarra hluta.`` Svona er einföld leið fyrir þá sem eiga húseignir og fjármagn. Hvar eru bremsur gegn þessu í frv.? Hvergi. ,,Ættingjar eða kunningjar munu geta skipt á íbúðum sín á milli, fengið út húsbréf og skipt síðan aftur á íbúðum, sem þá vissulega væru með veði fyrir því fjármagni
sem reitt hefur verið af hendi.``
    Þetta er aðeins lítið dæmi frá þessum reyndu húsnæðismönnum okkar sem þeir sýna fram á miðað við það sem þeir þekkja í húsnæðiskerfinu á Íslandi í dag gegnum verðbréfasala og fasteignasala.
    ,,Ekki er betur hægt að sjá en að sú innri fjármögnun sem átti að fást með húsbréfum muni hverfa fyrir lítið og fjármagn fari úr húsbréfakerfinu beint til annarra nota en því var ætlað.`` Þetta er

niðurstaða þessara reyndu manna og ég sé ekki ástæðu til, herra forseti, að fara frekar í þessa ágætu skýrslu sem er á milli 20 og 30 blaðsíður, en ég held að rétt væri að hv. þm. sem hafa áhuga fyrir að skoða málið ofan í kjölinn frekar en að binda sig einhverju samkomulagi um að fylgja frv. sem þeir hafa ekki einu sinni eigin sannfæringu fyrir gæfu sér tíma til að lesa þessa greinargerð. Hér er ekki pólitík, hér er ekki neitt nema staðreyndir manna sem þekkja kerfið. Það sem ég hef lesið afsannar rækilega þá fullyrðingu hæstv. félmrh. að hér séu menn úti í bæ sem hafi annarleg sjónarmið fram að færa. Þetta eru nefnilega nákvæmlega staðreyndir og rök sem þessir menn setja fram af þekkingu þeirri sem þeir hafa í sambandi við meðferð húsnæðismála í gegnum árin. Þess vegna er það sorgleg staðreynd ef hv. þm. gefa sér ekki tíma til að lesa slíkar staðreyndir heldur binda sig við borð um það að fylgja frv. sem þeir hafa ekki lesið og ekki gert sér grein fyrir hvaða afleiðingar hefur, a.m.k. margir hverjir.
    Herra forseti. Ég hef rakið hér ýmislegt sem fram kemur í ítarlegri greinargerð fimm stjórnarmanna --- en ég vil fullyrða að að baki þeirra er öll Húsnæðisstofnun í raun á sama máli. Ég hef talað við fjölda af fólki, starfsfólki í Húsnæðisstofnun, fólki sem veitir forstöðu deildum í Húsnæðisstofnun, og það er nákvæmlega á sama máli og fimmmenningarnir. Og það er margt athyglisvert í sambandi við meðferð þessa máls. Það er nefnilega staðreyndin, eins og ég hef haldið fram áður, að undirbúningur þessa máls er unninn af allt öðrum en þeim sem að þessum málum vinna í raunveruleikanum dag frá degi. Þeir eru ekki hafðir með í ráðum. Það eru aðrir sem eiga að hafa betur vit á þessum málum sem í raun hafa ekki komið nálægt útfærslu á húsnæðiskerfi þjóðarinnar eða þreifað á daglegum kjörum fólks sem þarf á húsnæði að halda.
    Það er því ljóst að sú lagabreyting, sem hér er verið að þvinga fram með þeim hætti sem hér hefur verið rækilega lýst og ekki síst í ræðu hv. 17. þm. Reykv. sl. föstudag og laugardag, og þetta mál allt er tímaskekkja. Skynsamlegast er að fresta málinu og setja niður nefnd hæfustu manna á breiðum grunni til að endurskoða allt húsnæðiskerfið og móta heildarstefnu til framtíðar, bæði í almenna og félagslega kerfinu, en ekki með hrossakaupum og þvingunum eins og hér er verið að gera. Við þurfum nefnilega sátt --- það er best að taka upp orð sem sumir hv. stjórnmálamenn nota gjarnan --- þjóðarsátt um svo stóran málaflokk, ekki síst með tilliti til hins alvarlega ástands í atvinnumálum og þá fyrst og fremst í byggðamálum í landinu. Þetta húsbréfakerfi mundi augljóslega leiða til aukinnar þenslu hér á þéttbýlissvæðinu og óeðlilegra áhrifa á verðbréfamarkaðinn eins og raunar kemur fram í áliti fimmmenninganna sem ég hef áður vitnað til. Það mun soga til sín fjármagn frá atvinnuvegunum, sem ég hef einnig rökstutt í sambandi við fjármagn lífeyrissjóðanna, og það mun því enn veikja þar með stöðu landsbyggðar og verða raunar öllum til tjóns.

    Ég vek enn athygli á því sem fram hefur komið að engar raunverulegar upplýsingar hafa fengist um áhrif þessa frv. á fjármagnsmarkað, fasteignamarkað eða þensluáhrifin. Engin opinber stofnun hefur treyst sér til að leggja slíkt mat fram. Og ég vil minna á það, og það kom fram á fundum félmn. Nd., að Seðlabanki Íslands, sem ætti að ráða yfir mestri þekkingu og mestum mannafla á þessu sviði, var aldrei beðinn um að gera slíka úttekt eða leggja hana fram. Ég vil taka það fram hér að það sérfræðingaálit, sem hæstv. ráðherra hefur verið að segja frá opinberlega að hafi verið lagt fram og styðji tilgang þessa frv., tel ég ekki marktækt af þeirri einföldu ástæðu að það er lagt fram án þess að grundvallast á neinni raunhæfri úttekt sem gerð hafi verið. Það er staðreynd. Þetta segir sína sögu. Og þeir aðilar sem mæla sterklegast og mest með frv., hverjir eru þeir? Það eru fulltrúar verðbréfasala og fasteignasala í landinu. Þeir bíða eins og vetrarvertíð sé að skella á. Þeir eru tilbúnir í slaginn, þeir segja það sjálfir. Við bíðum eftir gúrkutíð í sambandi við húsbréfakerfið, segja þeir, vegna þess að við vitum að það mun flæða yfir okkur og það mun rétta við þau viðskipti sem við þurfum að stunda og þurfum að græða á. Þetta er svo einfalt mál. Í raun og veru væri fyrir almenna borgara í þessu landi og fyrir okkur almenna þingmenn nóg að líta til þessa þáttar eins, og taka þá upp í umræðuna Ávöxtun sf. og fleiri slík fyrirtæki sem hafa arðrænt almenning í landinu á undanförnum missirum rækilega. Það er eðlilegt að þessir aðilar vilji fá þá gúrkutíð aftur. Þeir bíða eftir þessu. Ég held að það sé ástæða til að hv. alþm. hugsi þetta örlítið rækilegar.
    Nú skal ég taka það aftur fram að ég er ekki að mæla gegn öflugum
verðbréfaviðskiptum og öðru slíku hér á landi, síður en svo. Ég tel að við þurfum að efla slíka starfsemi. En hún þarf að komast í jafnvægi ásamt öðrum peningamálum þjóðarinnar. Þetta jafnvægi er ekki fyrir hendi og þess vegna er ekki tímabært, það er algjör tímaskekkja að setja svona furðulegt frv. fram eins og hér hefur verið gert og ég geri frekar ráð fyrir því að flestir ráðherrar núv. ríkisstjórnar líti heldur niður þegar þeir hugsa til þess sem þeir eru að stuðla að hér í þessu frv., enda hef ég séð þá marga gera það.
    Herra forseti. Það var aldrei meining mín að fara að keppa um einhvern sérstakan ræðutíma hér í þessum umræðum. Ég ætlaði ekki að gera það, en ég vil taka það fram aftur og aftur og ég tala hér vegna þess að ég hef sannfæringu fyrir því að hér er verið að gera ranga hluti. Þess vegna tala ég um þetta hér. Og ég vil bæta því við að mér finnst það orðið ansi aumt og það sé erfitt að sætta sig við það öllu lengur að Alþingi skuli láta hafa sig í það þing eftir þing í vaxandi mæli að setja hér löggjöf, afgreiða frumvörp sem menn eru ekki einu sinni búnir að fá sannfæringu fyrir að standi á traustum grunni eða séu í samræmi við þá skoðun sem þeir hafa. En samt sem áður láta menn sig hafa það að koma svona frumvörpum í gegn, gera þau að lögum og jafnhliða að segja sem svo: Ég skal gera þetta ef við setjum milliþinganefnd

sem endurskoðar viðkomandi lög áður en þau taka gildi sem gæti breytt lögunum til samræmis við það sem við kannski vildum. Svona vinnubrögð finnst mér vera að færast í vöxt á Alþingi.
    Ég er að vísu ekki búinn að vera hér nema 10--12 ár, en mér finnst að þetta sé að verða sífellt verra og verra ástand. Þetta hlýtur að draga niður virðingu Alþingis og þetta hlýtur að draga niður virðingu á þeim lögum sem Alþingi setur undir slíkum pressukringumstæðum. Það er alls ekki við hæfi að ráðherrar í ríkisstjórn skuli leyfa sér að viðhafa svona vinnubrögð eins og hér hefur verið gert og segja bara: Ef ég fæ ekki þetta þá er ég hættur, ef ég fæ ekki þetta þá fer ég, ef ég fæ ekki þetta þá geri ég verkfall, mæti ekki í ríkisstjórn! Hvers konar vinnubrögð eru þetta? Halda menn virkilega, þingmenn hér 63 að tölu, að það sé ekki kominn tími til að menn fari að átta sig á því að löggjöf á ekki að koma á einhverju færibandi? Löggjöf á að vanda það vel að við eigum að gefa okkur langan, langan tíma, jafnvel tvö þing, jafnvel þrjú þing til að setja lög sem við ætlum að vanda vel og þjóðin á að búa við um framtíð. En því fer fjarri að það sé gert í þessu tilfelli. Hér er verið að þvinga fram löggjöf sem verður almenningi í landinu til tjóns og Alþingi til skammar. Það er ég alveg handviss um. Því ég hef enga trú á því að milliþinganefnd, sem kann að verða sett, hvort sem það verða hvítþvegnar hv. kvennalistakonur eða einhverjir aðrir, muni ráða við þær breytingar sem þyrfti að gera í þessum málum. Breytingin er auðsæ í mínum huga. Við eigum að láta núverandi kerfi gilda a.m.k. í fimm ár, sníða af því ýmsa annmarka, laga það að því að ná jafnvægi. Síðan eigum við að hugsa til framtíðar.
    Og nú ætla ég, herra forseti, að bera fram nokkrar spurningar til hæstv. ráðherra. ( Gripið fram í: Kallaðu á hann.) Hæstv. ráðherra hlýtur að vera hér því að hann gæti ekki án þess verið að hlusta á ræðumann sem hér stendur. Þær spurningar sem mig langar til að leggja fyrir hæstv. ráðherra eru nú ekki í sjálfu sér viðamiklar, en þó:
    Í fyrsta lagi langar mig til að spyrja að því hvernig Byggingarsjóður ríkisins muni standa að vígi til að fullnægja lánaafgreiðslu eftir að hafa misst 20--30% fjármagns frá lífeyrissjóðum.
    Og þá vil ég í öðru lagi spyrja: Í öllu þessu mikla starfi þeirra, að því að sagt er, sem sömdu þetta frv. fyrir hæstv. ráðherra, hvers vegna var ekki hægt að fá neinar upplýsingar um væntanlegar reglugerðir um framkvæmd væntanlegra laga í mörgum meginþáttum? Hvers vegna var ekki hægt að fá þetta á borðið í allan þennan tíma?
    Í þriðja lagi: Er það rétt sem fulltrúi verðbréfafyrirtækja heldur fram að húsbréf samkvæmt lögunum verði gefin út í mismunandi formi, t.d. til eins árs, fimm ára, 10 ára, og í smáum einingum, t.d. 50 þús., sem nota megi í öðrum viðskiptum? Þetta fullyrða verðbréfasalar á Íslandi í dag og margir leggja eyrun við og trúa. Er þetta hægt, hæstv. ráðherra?

    Í fjórða lagi: Hæstv. ráðherra og raunar aðrir talsmenn Alþfl., sem eru nú venjulega kokhraustir, hafa haldið því fram að með tilkomu húsbréfa eigi unga fólkið, sem hefur í núgildandi lögum forgang til hærri lána en aðrir og styttri lánstíma, að hafa forgang til lána í gegnum húsbréfin sem taki aðeins tvær til þrjár vikur að fá afgreiðslu á. Hvar í frv. er sú stýring sem ætlað er að tryggja ungu fólki eða fólki með sérþarfir þennan aðgang að húsbréfum með markaðsvöxtum? Hvar?
    Í fimmta lagi: Hæstv. ráðherra hefur einnig sagt í fjölmiðlum að fólk úti á landi fái nú loksins aðgang að lánakerfi sem auðveldi því að fá lán. Hvar er slík stýring í þessu kerfi? Ég hef ekki fundið hana. Auðvitað er þetta blekking.
    Í sjötta lagi: Hvað er áætlað að húsbréfadeildin, sem í upprunalega frv. átti að vera sérstofnun í Húsnæðisstofnun með sérforstjóra o.s.frv.,
ráðherraráðnum, hvað er áætlað að húsbréfadeildin muni kosta Húsnæðisstofnun? Það hlýtur að vera komin áætlun um það.
    Í sjöunda lagi: Getur hæstv. ráðherra staðfest að það sé rétt túlkun að samkvæmt húsbréfakaflanum geti hver sem er, jafnt stóreignamenn sem aðrir, fengið ríkistryggð húsbréf, þakið sé aðeins 5,5 millj. ríkisábyrgð pr. íbúð? Hvar eru hömlur á því að viðkomandi aðili geti ekki komið fimm, sex eða sjö sinnum með slíkar íbúðir og krafist ríkistryggðra bréfa? Ég finn hvergi þessa takmörkun í frv. Hvergi.
    Það væri gott að fá upplýsingar um eitthvað af þessu sem ég hef hér spurt um því auðvitað skiptir þetta máli.
    Það er nefnilega þannig, herra forseti, að fólk hér á landi hefur fengið að sjá í gegnum sjónvarpið, bæði Stöð eitt og Stöð tvö, glansmynd af þessu. Ég minnist þess í sjónvarpsþætti sem var ekki alls fyrir löngu þar sem hv. þm. Alþfl., sem nú er að fara í virðulegt embætti til Genfar, dró upp glansmynd fyrir alþjóð af því hvað þetta væri nú aldeilis dásamlegt sem ætti að taka við. Það gátu allir fengið íbúð, allir fengið lán í gegnum húsbréfakerfið, bara ganga inn með kaupsamning sem sýndi veðhæfni og það að menn gætu staðið undir þessum ódýru og hagstæðu lánum, með markaðsvöxtum, allt hitt væri úr sögunni, það væri hægt að ganga frá þessu á tveimur til þremur vikum. Þetta sagði hann fyrir framan alþjóð alveg nákvæmlega eins og hæstv. ráðherra hefur leyft sér að segja, ekki aðeins hér inni á hv. Alþingi heldur einnig í viðtölum við útvarp og sjónvarp og alla fjölmiðla sem til eru.
    Og ég gleymdi einu. Ég gleymdi að hafa með mér hérna niður eftir bréf sem kom inn um lúguna á minni íbúð ekki alls fyrir löngu. Það er rautt kver, þar sem öll dýrðin er nú dásömuð. Og það sem er meira, að ég fór að grennslast fyrir um það bara svona að gamni mínu hvað þetta væri nú víðtækt framtak hjá hinum sterka Alþfl. og þá fékk ég þær upplýsingar í einni prentsmiðju hér í bæ að það hefðu verið gefin út 80 þúsund eintök af þessum bæklingi. Það segir að það á að senda þá í allar 82 þúsund íbúðir á Íslandi

eða 86 þúsund eða hvað það er og þannig er því dreift um landið. Og ég verð að segja að það er ekki furða þó að kratarnir á Íslandi séu hressir með öll þessi góðu mál eins og þeir halda á þeim og auðvitað sópast til þeirra fylgi. En ég bara segi fyrir mig, ég á sæti í stjórnmálaflokki sem á varla bót fyrir rassinn á sér og á ekki einu sinni fyrir nauðsynlegum launum frá degi til dags. Hvernig í ósköpunum fara kratarnir á Íslandi að því að geta gefið svona út í 80 þúsund eintökum? Það er bara heilt spurningarmerki. En ég óska þeim til hamingju með það eigi að síður. Þetta hlýtur að vera sérstakt afrek. Og ekki efast ég um það að fylgið sópast til þeirra eftir þessa útgáfu. Það hlýtur að koma fram í næstu skoðanakönnun. ( Gripið fram í: Heldurðu það?) ( ÞP: Ekki sýnir það sig.) Ja, miðað við reynsluna frá fyrri árum. Það má lesa það í öfugu hugtaki.
    Herra forseti. Ég held að ég fari nú senn að ljúka máli mínu. Ég hafði aldrei gert mér grein fyrir því að ég gæti talað hér í tvo klukkutíma, en svo er nú komið. En mig langar til að enda þetta spjall mitt og ég vil endurtaka að þessi ræða er hér sett fram vegna þess að ég tel mig hafa nokkra reynslu og ég tel mig hafa tilfinningu fyrir því hvernig þetta mál allt saman er upp sett og hvernig það muni virka á íslenskt þjóðfélag og ég hef tilfinningu fyrir því hvað ég tel að þurfi að gera til að sinna þessum málum.
    Hvers vegna er ég að mæla gegn þessu frv.? Ég er að sjálfsögðu að verja stefnu Framsfl. sem flokksþing og miðstjórn hefur staðfest. Auðvitað er ég að því í leiðinni, þó að ég sé ekki í hópi þeirra þingmanna flokksins sem hafa látið beygja sig undir það að hjálpa forsrh. til þess að missa ekki hæstv. félmrh. úr ráðherrastólnum. Ég hef nefnilega mína skoðun á þessum málum og ég tek ekkert tillit til þess hvort einn ráðherra fer eða kemur. Ég bara hef mína eigin sannfæringu og ég tel mig hafa leyfi til þess að tala af nokkurri reynslu í sambandi við þetta mál.
    Þörfin fyrir að kollvarpa því húsnæðiskerfi sem við búum við í dag er alls ekki til staðar, ég vil endurtaka það. Þegar núgildandi lög voru sett í samráði við aðila vinnumarkaðarins var gert ráð fyrir því að eftir 4--5 ár yrði náð jöfnuði í þessu kerfi. Og það er ekkert sem sannar það að svo sé ekki í dag. Í núgildandi lögum eru ákvæði, ef þeim er beitt, sem munu stytta biðröð eftir lánum og útiloka þá sem ekki hafa brýna þörf fyrir lán. Þetta er hægt gegnum ákvörðun um vexti sem hægt er að framkvæma án lagabreytinga á einum degi. Og ég vil bara undirstrika það hér að hæstv. núv. ráðherra hefur haft möguleika til þess í gildandi lögum í rúm tvö ár að beita þessum ákvæðum til þess að rétta við stöðu byggingarsjóðanna, en hann hefur ekki gert það, hæstv. ráðherra, vegna þess að hann kom í ráðherrastól til þess að eyðileggja það kerfi sem sett var 1986 eins og berlega hefur komið í ljós.
    Ég tel ekki tímabært að taka upp þetta kerfi, húsbréf. Íslenskur peningamarkaður, verðbréfakerfið og fasteignasalar hafa ekki náð jafnvægi eða styrkri stöðu í dag og hafa því alls ekki þá burði sem til þarf til að tryggja slíkt kerfi svo það valdi ekki skaða fyrir

einstaklinga og orsaki þenslu og óvissuástand og þar með verðbólgu. Þetta er samandregið það álit sem ég hef á
þessu atriði og ég vil endurtaka enn: Ég er alls ekki með þessu að segja að þessir aðilar, verðbréfakerfið, fasteignasalar o.s.frv. eigi ekki rétt á sér og að þörf sé fyrir þá í nútímaþjóðfélagi. En það verður að standa á styrkum stoðum og peningakerfið á Íslandi verður að vera búið að ná þeim jöfnuði sem til þarf til þess að það sé hægt að nota slíkt kerfi svo að öruggt sé, samanber dæmi.
    Markaðsvextir á allt húsnæðiskerfi þjóðarinnar er ákvörðun sem ekki er hægt að taka allt í einu án þess að tryggja félagslegt réttlæti jafnhliða. Samkvæmt frv. er þetta ekki tryggt. Þess vegna hlýtur það að valda mikilli óvissu og fjárhagstjóni fyrir fjölda fólks á Íslandi. Húsnæðislöggjöf á Íslandi verður um langa framtíð að tryggja félagslegt réttlæti. Þessi ríkisstjórn, sem kennir sig við félagshyggju og jöfnuð eða hvað það nú heitir, getur ekki kastað þessu ákvæði fyrirvaralaust fyrir borð í húsnæðiskerfi þjóðarinnar. Þetta vil ég sérstaklega undirstrika. Því miður eru hér engir hæstv. ráðherrar til að hlusta á þetta, enda er þeim e.t.v. alveg sama.
    Að síðustu. Við eigum að gefa okkur góðan tíma til að endurskoða og móta stefnu í húsnæðismálum til framtíðar. Það verður að gera í samstarfi við aðila vinnumarkaðarins, launþega, lífeyrissjóði og bankakerfið í landinu. Um slíka heildarendurskoðun og stefnu þarf þjóðarsátt. Þetta er það sem vantar. Þetta er það sem aldrei hefur mátt tala um í alvöru. Menn hafa alltaf viljað gera einhverjar bráðabirgðabreytingar sem hafa svo virkað öfugt miðað við það sem að var stefnt. Allir stjórnmálaflokkar á Íslandi eiga nóg af vel menntuðu fólki sem getur lagt hér hönd á plóginn í samstarfi við fulltrúa fólksins í öðrum samtökum. Við Íslendingar eigum og þurfum allir að eiga kost á góðu húsnæði, bæði á eigin vegum og eftir því kerfi sem hefur reynst okkur best í gegnum áratugina, verkamannabústaðakerfið.
    Herra forseti. Ég skal ekki tefja þessar umræður öllu lengur, en ég vil aðeins að lokum endurtaka það sem ég sagði í því nál. sem er á þskj. 1035 og ég fór gaumgæfilega yfir sl. laugardag í ræðu minni, en þar segir:
    ,,Af framansögðu er ljóst að 3. minni hl. telur að samþykkt þessa frv. sé hættuleg fyrir húsnæðiskerfið í heild og muni valda þenslu og verðbólgu og jafnframt auka ójöfnuð fyrir fólkið í landinu. Undirritaður mun því styðja tillögu um að vísa málinu til ríkisstjórnarinnar. Nái hún ekki fram að ganga greiðir hann atkvæði gegn frv.``
    Herra forseti. Ég bið afsökunar á að reyna á þolinmæði forseta, en ég hef lokið máli mínu.