Húsnæðisstofnun ríkisins
Mánudaginn 08. maí 1989

     Ólafur Þ. Þórðarson:
    Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja brtt. við 344. mál. Brtt. þessi hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,Við m-lið (62. gr.) 4. gr. bætist svohljóðandi málsliður:
    Leita skal heimildar Alþingis í lánsfjárlögum fyrir heildarupphæð útgefinna húsbréfa ár hvert.``
    Samkvæmt stjórnarskrá þeirri sem þetta lýðveldi er byggt á er reynt að marka verkaskiptingu milli framkvæmdarvalds og löggjafarvalds. Í 40. gr. stjórnarskrárinnar er kveðið á um lántökur og, með leyfi forseta, vil ég fá að lesa þá grein:
    ,,Engan skatt má á leggja né breyta né af taka nema með lögum. Ekki má heldur taka lán, er skuldbindi ríkið, né selja eða með öðru móti láta af hendi neina af fasteignum landsins né afnotarétt þeirra nema samkvæmt lagaheimild.``
    Það fer ekki á milli mála að þinginu er ætlað það vald að taka lán.
    Nú er það svo að þessa grein höfum við verið að brjóta, því miður, ár eftir ár á Alþingi Íslendinga --- þó eiðsvarðir séum að því að virða stjórnarskrána. Seinast brjótum við þessa grein í þeim lánsfjárlögum sem samþykkt hafa verið núna á þessum vetri. Þar tökum við ekki inn þær upphæðir sem Húsnæðisstofnun tekur að láni hjá lífeyrissjóðunum, jafnvel þó að fjmrh. annist þá samningagerð. Þetta er aðeins inni í greinargerðinni. Ég verð að segja eins og er að mér var verulega brugðið þegar ég áttaði mig á þessu. En ég vil bæta því við: Það er ekki auðgert verk að sækja aðila þó þeir brjóti þessi ákvæði. Ástæðan er sú að það verður einhver að vera aðili málsins eða það verður að leita eftir því að kæra menn fyrir landsdómi. Ég segi nú eins og er, ég hef engan persónulegan áhuga á því að kæra einn eða neinn fyrir landsdómi. Ég sé ekki tilganginn í því að menn taki upp þann vopnaburð ef hægt er að koma þeim skilningi á á Alþingi Íslendinga að það sé sjálfsögð skylda hvers einasta alþingismanns að virða stjórnarskrána í löggjafarstörfum hér á þinginu og láta ekki reka sig til þeirra óhæfuverka að ætla að brjóta stjórnarskrána.
    Tveir hæstaréttardómar hafa gengið í málum varðandi 40. gr. Í báðum tilfellum var það dæmt ráðherrum í óhag. Annar dómurinn var felldur vegna þess framsals sem Alþingi hafði veitt á skattlagningarréttinum til Framleiðsluráðs landbúnaðarins. Og íslenska ríkið var dæmt til að greiða bætur.
    Ég vil segja það eins og er að það er ekkert gaman að standa frammi fyrir því að hafa átt þátt í þeirri lagasetningu og ég er ekki að álasa þeim ráðherra sem varð fyrir þessu. Auðvitað er það þingmanna. Þeirra er hneisan að hafa samþykkt lög sem ekki stóðust stjórnarskrána.
    Í borgardómi, í dómþingi bæjarþings Reykjavíkur, 28. febr. 1983 er upphafið að niðurstöðunni í dómnum svo, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Sú er meginregla í íslenskum stjórnskipunarrétti að málefnum þeim sem stjórnarskráin sjálf felur

löggjafanum verði aðeins skipað með lögum og löggjafanum sé óheimilt að framselja framkvæmdarvaldshafa ákvörðunarvald um þau efni. Þrátt fyrir ákvæði 40. gr. stjórnarskrárinnar hefur það komið fyrir að ríkisstjórninni væri í lögum falið ákvörðunarvald um það hvort hún innleiddi tiltekna skatta eða ekki, enda hafi skattarnir þá verið heimilaðir í lögum. Ljóst er að slíkt framsal löggjafans á ákvörðunarvaldi sem stjórnarskráin einskorðar við hann verður að vera háð ströngum takmörkunum.``
    Ég get fallist á það að þær takmarkanir sem t.d. sveitarstjórnir fá með því að leggja á útsvar séu innan ramma stjórnarskrárinnar. En ég get ekki fallist á það að heimildir um að veita ríkisábyrgðir, eins og verið er að tala um gagnvart húsbréfunum, án nokkurs þaks, séu innan strangra takmarkana. Það blasir við að þær eru ekki innan slíkra takmarkana. Þær standast ekki samkvæmt stjórnarskránni.
    Hinn dómurinn sem féll í þessu máli féll vegna útgáfu reglugerðar og þar var um að ræða reglugerð er fjallaði um þungaskatt. Þar segir svo í dómi Hæstaréttar og, með leyfi forseta, vil ég lesa það sem stendur á bls. 463 í dómum Hæstaréttar um það mál:
    ,,Í lagagrein þessari er ráðherra veitt heimild til að ákveða með reglugerð að ökumæla skuli setja í bifreiðar sem nota annað eldsneyti en bensín og greiða skuli sérstakt gjald fyrir hvern ekinn km samkvæmt mælum þessum í stað árlegs þungaskatts.
    Ekki er að finna í lögum ákvæði er takmarki heimild ráðherra til ákvörðunar á gjaldstigum eða breytinga á þeim.
    Fallast ber á það með áfrýjanda að jafnvíðtækt framsal löggjafans á skattlagningarvaldi og hér ræðir um brjóti í bága við 40. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, nr. 33 frá 17. júní 1944, og skatttakan því eigi gild að lögum.``
    Ég tel að þegar tveir dómar hafa fallið, þá hljóti Alþingi Íslendinga að fara að staldra við. Ætlar það vísvitandi að taka ákvörðun um það, ef það fyndist aðili máls sem mundi stefna í þessu máli, að kalla yfir sig þriðja dóminn? Ég er nefnilega ekki viss nema hægt sé að finna aðila máls einnig undir þessum kringumstæðum.
    Mér finnst það svo augljóst að það þurfi raunverulega ekki að ræða það að ábyrgð eins og hér er verið að tala um er nákvæmlega það sama og ef skrifað er undir víxil sem útgefandi. Þar er um lántöku að ræða. Þess vegna vil ég að það liggi alveg ljóst fyrir að svo sannfærður er ég um að það væri brot og stæðist ekki samkvæmt stjórnarskrá Íslands að samþykkja lögin nema frá því sé gengið að það þyrfti að leita heimildar í lánsfjárlögum. Ég treysti mér ekki til þess að greiða atkvæði með frv. sem þessu nema þingið viðurkenni þetta í verki og breyti þessu frv. á þann veg að styðja þá brtt. sem hér er lögð fram. Hún er krafan um það að menn geri það ekki vísvitandi að vinna eið að stjórnarskránni, láti sig svo engu skipta tvo hæstaréttardóma en vilji halda áfram að brjóta 40. gr.

    Ég vil segja það jafnframt að ég hygg að með samþykkt þessarar brtt. þá gefist Alþingi Íslendinga möguleiki á því að feta sig inn á þá braut hófsemdar í framkvæmd þessara laga að þeir hinir mörgu óvissuþættir um áhrif þeirra sem nú blasa við þyrftu ekki að vera það áhyggjuefni sem þeir nú eru. Ég ætla þó ekki að fara út í langa umræðu um þá hluti en brtt. kemur að sjálfsögðu til atkvæða hér í þinginu og það er ekki nauðsyn að hafa langt mál þar um. Þess vegna mun ég ekki lengja mál mitt.