Húsnæðisstofnun ríkisins
Mánudaginn 08. maí 1989

     Ingi Björn Albertsson:
    Hæstv. forseti. Það er nú freistandi að fara þess á leit við hv. síðasta ræðumann að hann gefi skýr svör við því sem mér fannst hann vera að ýja að hér áðan, að hann og þau samtök sem hann stendur fyrir hafi í rauninni látið af stuðningi við þessa ríkisstjórn. Það var ekki annað hægt að lesa út úr hans orðum heldur en að svo væri. Alla vega hlýtur það eftir þá ræðu sem hann flutti hér áðan að vera honum ansi erfitt að styðja ríkisstjórn sem fylgir slíkri stefnu sem hann hér lýsti áðan. ( SV: Ræðumaður þarf ekki að hafa áhyggjur af mér.) Hann var að lýsa því stórslysi sem hún stefndi í. Þannig að ég tel að þjóðin öll eigi heimtingu á að vita um það hvort ríkisstjórnin hefur misst sinn hulduherforingja hér í neðri deild og sé komin í minni hluta í deildinni. Það var ekki annað að skilja af orðum síðasta ræðumanns en að svo væri.
    Hæstv. forseti. Á síðasta þingi lögðum við sem þá skipuðum þingflokk Borgfl. fram frv. um húsnæðislánastofnanir og húsbanka. Var þar um að ræða heilsteypt frv. til lausnar þeim vanda sem húsnæðislánakerfið er í hérlendis, sniðið eftir danskri fyrirmynd. Ég er ekki að segja að það frv. hafi verið gallalaust frekar en flest þau frv. sem hér hafa verið lögð fram, hvort heldur um er að ræða stjórnarfrv. eða þingmannafrv., en segi það hins vegar alveg hiklaust að það kerfi sem við boðuðum er það eina sem eitthvert vit er í og hefði svo sannarlega verið þess virði að það frv. hefði verið skoðað betur en raun varð á. Það var þá sem fyrst var talað um húsbréf hér á þingi og það varð síðan kveikjan að því frv. sem við höfum hér til umræðu í dag. Þannig má segja að eitthvað örlítið hafi síast inn í stjórnarliða af þessu frv. okkar og er það í rauninni vel, en ber þó að harma að ekki skyldi meira en þetta ná í gegnum sigtið. En það kemur þó síðar verði.
    Frv. okkar stendur fyllilega fyrir sínu enn í dag, en það virðist því miður vera svo á hinu háa Alþingi að það jafnast nánast á við mannsmorð að taka vel í mál frá stjórnarandstöðunni, að ég tali nú ekki um mál af stærri gerðinni. Þetta er þinginu til vansa. Auðvitað eiga góð mál að fara í gegnum þingið, sama frá hverjum þau koma. Í það minnsta mun Frjálslyndi hægri flokkurinn ekki láta það henda sig að taka ekki málefnalega afstöðu til mála. Þetta er eitt af fjölmörgu sem þarf að breytast á þessum annars ágæta vinnustað. Það er hræðilegt að þjóðin og þegnar hennar skuli vera látin líða fyrir það að mál komi ekki fram frá réttum aðila, að það sé betra að salta málið en að andstæðingurinn geti reiknað sér það til tekna. Það er nefnilega allt of mikið um slíkt hugarfar í störfum þingsins. Góð mál ná ekki í gegn vegna faðernis. Nóg um þetta þó vissulega væri hægt að hafa um þennan þátt langt mál og væri það hið þarfasta mál, en það verður að bíða betri tíma.
    Það væri e.t.v. rétt að líta aðeins yfir gang mála undanfarin ár og kíkja á það í örstuttu máli hvernig kerfi gömlu flokkarnir hafa komið hér upp. Það kerfi sem þeir komu upp er auðvitað mjög í takt við stefnu ríkisstjórnar Steingríms Hermannssonar, það er stefna

eignaupptöku, þar sem öll lán hafa verið verðtryggð með lánskjaravísitölu sem hefur þýtt það að þegar keypt er íbúð með slíku láni, sem getur numið allt að 80% af matsverði, er nokkuð víst að velflestir eigi í raun ekkert í íbúðinni eftir nokkur ár, þar sem laun og greiðslugeta hafa ekki verið í neinu samræmi við þróun vísitölunnar. Með öðrum orðum: Viðkomandi er orðinn leiguliði hjá Húsnæðisstofnun svo framarlega sem hann stendur í skilum eða í allt að 40 ár, en það er lengd lánsins eða kannski öllu heldur ólánsins. Að öðrum kosti er hægt að fleygja þeim út á götu hvenær sem er eða selja ofan af þeim.
    Það er mín skoðun að það kerfi sem nú er við lýði sé svo meingallað að það verði annaðhvort að kasta því fyrir róða eða taka það nú þegar til gagngerrar endurskoðunar sem ég þó efast um að mundi skila nokkrum árangri. Það er því freistandi að taka beina afstöðu með því frv. sem hér til umræðu, en það er hins vegar hægara sagt en gert því þar er mörgu enn ósvarað.
    En áður en ég fer út í það langar mig að eyða örfáum orðum á núverandi húsnæðislánabiðraðakerfi. Gera menn sér grein fyrir því hversu gífurleg biðröðin er? Um síðustu áramót taldi hún 10.300 manns og Húsnæðisstofnun gerir ráð fyrir því að um næstu áramót verði hún um 10.600 manns. Ef þessi fjöldi, 10.600 manns, tæki saman höndum væri biðröðin yfir 20 km löng. Biðröðin næði frá þinghúsinu og út í Straumsvík. Og fólk þarf ekki að bíða neinn smátíma í biðröðinni, allt að 37 mánuðum samkvæmt svari á þskj. 716 sem hv. þm. Júlíus Sólnes fékk við fsp. til félmrh. um afgreiðslu á húsnæðislánaumsóknum. Þar kemur m.a. eftirfarandi fram, með leyfi forseta:
    ,,Á árinu 1989 fá eftirgreindir umsækjendur fyrri hluta láns:
    a. Þeir sem eru að eignast sína fyrstu íbúð (forgangshópur): Umsóknir innkomnar frá 13. mars 1987 til 16. okt. 1987.
    b. Þeir sem eiga íbúð fyrir (víkjandi hópur): Umsóknir innkomnar frá 13. mars 1987 til 6. júlí 1987.
    Umsækjendur sem fá fyrri hluta fyrir 1. júlí 1989 fá einnig seinni hluta á því ári, en sex mánuðir eru á milli lánshlutanna. Með forgangshópi eru taldir
þeir sem búa við þröngbýli samkvæmt reglugerð þar um. Milli þessara tveggja hópa eru sex mánuðir, þ.e. sá sem á íbúð fyrir fær sinn fyrri hluta sex mánuðum á eftir hinum sem enga íbúð á. Þetta þýðir að forgangshópur, sem fær fyrri hluta í desember 1989, bíður rúmlega 25 mánuði eftir láni til útborgunar. Víkjandi hópur, sem fær fyrri hluta í desember 1989, bíður um 29 mánuði eftir láninu.
    Eins og áður hefur komið fram hafa engin lánsloforð enn verið gefin út til greiðslu á árinu 1990. Áætlanir, sem kynntar hafa verið fyrir húsnæðismálastjórn, þar sem gert er ráð fyrir sex mánuðum á milli hópanna, sýna að á fyrri hluta árs 1990 verða aðeins afgreidd fyrrihlutalán til víkjandi hópsins sem lagði inn umsóknir á tímabilinu 7. júlí 1987 til 16. okt. 1987. Á þessum tíma hefur stofnunin

ekki fjármagn fyrir forgangshópinn þar sem sex mánuðir eiga að vera á milli hópanna. Það má því segja að nokkurs konar skil verði um 16. okt. 1987. Forgangshópur, sem sækir um 17. okt. 1987, fær sinn fyrri hluta samkvæmt þessari áætlun í júní 1990, bíður því um 31 mánuð eftir láni. Víkjandi hópur, sem lagði inn umsókn sama dag, fær sinn fyrri hluta í desember 1990, bíður því um 37 mánuði eftir láni.``
    Þetta er náttúrlega stóri gallinn við núverandi kerfi, þessi gríðarlegi biðtími. Síðan er auðvitað hvernig er raðað í forgangshópa og víkjandi hópa, en það er kannski annað mál. Að mínu mati á kerfið að veita hverjum og einum kost á húsnæðisláni einu sinni án tillits til aðstæðna viðkomandi.
    Hæstv. forseti. Þar sem Frjálslyndi hægri flokkurinn á engan fulltrúa í félmn. deildarinnar og ekki heldur Borgfl. höfum við ekki haft nægilega gott tækifæri til þess að kynna okkur þetta mál. Formaður þeirrar nefndar brást hins vegar vel við eins og hans var von og vísa þegar við fórum fram á það við hann að fá allar þær umsagnir um málið sem nefndinni höfðu borist og fengum við þær í hendur nú nýlega. Þar kemur, eins og gefur að skilja, margt afar fróðlegt fram bæði um frv. og einnig um núverandi kerfi sem flestir virðast vera sammála um að sé ekki nógu gott.
    Þau skerðingarákvæði sem í frv. eru --- þ.e. að ef viðkomandi á eign eða eignir aðrar en íbúð sem metnar eru að verðmæti samsvarandi og skuldlaus eða skuldlítil 180 fermetra íbúð að frádregnum bílskúr, þá megi skerða eða synja honum um lán --- þessi skerðingarákvæði eru með öllu óviðunandi. Þau finnst mér vera gjörsamlega út í hött. Eins og ég sagði hér rétt áðan á hver og einn að eiga kost á einu og aðeins einu húsnæðisstjórnarláni án tillits til aðstæðna. Engu að síður verður að spyrja hvernig í raun á að fylgja slíku eftir. Á að gera það eins og fimmmenningarnir í húsnæðisstjórn leggja til, að fylgst verði með skuldabréfaeign einstaklinga, bankainnstæðum einstaklinga og hlutabréfaeignum einstaklinga? Eða hvernig á að gera þetta? Og þá má eins spyrja: Hvar eru mörkin fyrir því að 180 fermetra íbúð sé skuldlítil eða skuldmikil? Hvar ætlar ráðherrann að draga línuna? Eða á það að vera persónulegt mat embættismanna í það og það skiptið með tilheyrandi mismunun?
    Fimmmenningarnir leggja til að hægt verði að geyma lánsrétt. Þessu er ég sammála. Hins vegar er ég ekki eins sammála þeim í því að lánsþörfin sé minni á landsbyggðinni. Ég hef alla vega ekki orðið var við að það sé ódýrara að byggja á landsbyggðinni en hér í höfuðborginni nema síður sé.
    Þá leggja þeir til að allir greiði aukaafborgun sem nemi 3,5% af tekjum umfram skattleysismörk. Þetta þarfnast náttúrlega nánari skýringa, en eins og það er fram sett virðist það í fljótu bragði aðeins hafa það í för með sér að greiðslubyrði allflestra, sem af slíkum lánum þurfa að borga, þyngist verulega. Og er þá ekki betur heima setið en af stað farið?
    Þá fullyrða fimmmenningarnir að um dýrari þjónustu við íbúðakaupendur á landsbyggðinni verði

að ræða eða eins og segir í greinargerð þeirra, með leyfi forseta:
    ,,Í gildandi lögum um Húsnæðisstofnun segir í 10. gr. að afgreiðsla og innheimta lána úr Byggingarsjóði ríkisins fari fram í almennum lánastofnunum sem húsnæðismálastjórn semur við. Á fundum húsnæðisstjórnar og fulltrúa bankanna hefur komið í ljós að bankarnir telja sig þurfa meiri þóknun fyrir þessa þjónustu en svo að húsnæðisstjórn telji réttlætanlegt að lántakendur greiði hana. Aukin þjónusta við íbúðakaupendur á landsbyggðinni í gegnum banka og sparisjóði mun því verða þeim dýrari en þjónusta Húsnæðisstofnunar nú. Þegar mat á veðhæfni fasteignar og greiðslugetu lántakans bætist við skuldabréfaviðskiptin hækkar þessi landsbyggðarskattur enn meir.``
    Þá segir enn fremur í greinargerð þeirra, með leyfi forseta:
    ,,Með húsbréfakerfinu er gert ráð fyrir því að íbúðaeigendur á höfuðborgarsvæðinu láni mest. Þeir eiga dýrustu íbúðir á landinu og þurfa þess vegna að lána meira en þeir sem búa utan þess. Miðaldra og gamlir íbúar höfuðborgarsvæðisins eiga dýrar og skuldlausar íbúðir. Þau munu því lána mest í húsbréfakerfinu og verða fyrir mestum afföllum vegna þess að þau eru sá þjóðfélagshópur sem líklegastur er til þess að þurfa að selja húsbréf á markaði.``
    Það er laukrétt hjá þeim að gamlir íbúar höfuðborgarsvæðisins munu þurfa að
selja og lána mest og verða fyrir mestum afföllum og skakkaföllum, en það þurfa þeir að gera fyrst og fremst vegna hinna geysiháu eignarskatta sem á þeim munu dynja, þannig að það er ekki ein báran stök í árásinni á eignir gamla fólksins í eignaupptökustefnu ríkisstjórnarinnar.
    Þá vil ég taka undir með þeim að engin efri mörk skuli vera á þeim heildarupphæðum sem Byggingarsjóði er heimilt að skipta skuldabréfum fyrir.
    Lokaorð þeirra fimmmenninga minna mig óneitanlega á málsháttinn um að menn skyldu varast það að kasta grjóti í glerhúsi, en í lokaorðum þeirra segir, með leyfi forseta:
    ,,Ekki er betur hægt að sjá en sú innri fjármögnun sem átti að fást með húsbréfum muni hverfa fyrir lítið og fjármagn fari úr húsbréfakerfinu beint til annarra nota en því var ætlað.``
    Svo mörg voru þau orð. Ég fæ ekki betur séð en að nákvæmlega þetta sé að ske nánast daglega í núverandi kerfi, þannig að þarna verður varla mikil breyting á.
    Fasteignamat ríkisins segir m.a. þetta um frv. í umsögn sinni, með leyfi forseta:
    ,,Með tilkomu húsbréfa- og skuldabréfaskipta í íbúðaviðskiptum mun gjaldmiðill viðskiptanna að stórum hluta breytast úr peningum í skuldabréf. Seljandi lánar kaupanda með skuldabréfi sem síðan er hægt að skipta gegn öðrum ríkistryggðum skuldabréfum frá Byggingarsjóði ríkisins. Með þessu fyrirkomulagi er leitast við að fá seljendur til að lána kaupendum meira en áður gegn ríkistryggingu

skuldabréfanna. Ekki er þó sýnt að heildarlánsþörfin á íbúðamarkaðinum minnki við auknar ríkistryggingar. Eiginfjárstaða íbúða á markaði er um og yfir 80%, sem leiðir til þess að seljendur íbúða krefjast hárrar útborgunar. Útborgunarhlutfall er um 75% til jafnaðar, sem þýðir að seljendur lána 5--8% af verði íbúðar á skuldabréfi. Lækkun útborgunar er því fyrst og fremst hagkvæm fyrir eignalítinn kaupanda. Hjá flestum ef ekki öllum seljendum má reikna með tregðu gagnvart slíkum breytingum og þá sérstaklega hjá þeim sem ætla að losa fé með íbúðasölu. Ábati lækkunar útborgunar á íbúðamarkaði er því afstæður og líklegt að markaðurinn taki skuldabréfum og húsbréfum með varúð. Slík varúð kynni að koma fram í minnkuðu framboði og þar með verðhækkunum íbúða, vaxtahækkunum og afföllum skuldabréfa.``
    Fasteignamat ríkisins sér ekki fram á að lánsþörfin minnki, en sér hins vegar fram á að framboð minnki með þeim afleiðingum að íbúðaverð hækki, vextir hækki og afföll á skuldabréfum muni aukast. Þetta rökstyðja þeir m.a. á eftirfarandi hátt, með leyfi forseta:
    ,,Með tilkomu húsbréfa munu reglur Byggingarsjóðs um skilyrði fyrir ábyrgðum og lánafyrirgreiðslum minnka verulega frá því sem nú er. Skilyrði umsækjenda munu eingöngu miðast við greiðslugetu og veðhæfni viðkomandi íbúðar. Þá verða engin ytri mörk á heildarmagni ábyrgðar á skuldabréfum og þar með því fjármagni, sem trygging er gefin fyrir. Þessi rýmkun á reglum mun virka gagnvart fasteignamarkaði sem veruleg aukning á lánsfé til húsnæðismála. Reynslunni samkvæmt kann þetta að valda verðhækkunum á eldri íbúðum og auka eftirspurn nýbygginga og þar með verðhækkunum á þeim. Þá mun hækkun á heimildum á ábyrgðum skuldabréfa einkum auka lánshæfni stærri og dýrari íbúða og því að öllum líkindum leiða til aukningar á eftirspurn og verðhækkana á þeim.
    Aðstæður á íbúðamarkaði eru nokkuð aðrar nú en 1986. Verð eldri íbúða er hátt um þessar mundir og frekari lánamöguleikar kunna því að virka hvetjandi á markaðinn og þar með til enn frekari hækkunar.
    Að þessu samanteknu er álit undirritaðs að tilkoma húsbréfa í þeim mæli sem frv. gerir ráð fyrir kunni að leiða til aukinnar eftirspurnar og minnkaðs framboðs eldri íbúða og þar með verðhækkana á þeim og aukningu nýbygginga.``
    Þjóðhagsstofnun telur að möguleiki sé fyrir hendi að viðskiptavakar mundu þurfa að kaupa verulegan hluta bréfanna til þess að halda uppi markaðnum, en slíkt mundi óneitanlega auka peningamyndun og af þeim sökum gæti þurft að gera aðrar ráðstafanir á sviðum peningamála, en tilkoma húsbréfamarkaðar kallar á miklar breytingar á peningastjórn.
    Nú væri að vísu athyglisvert að fá það upplýst til hvaða annarra ráðstafana hugsanlegt er að grípa. Ráðherra getur vafalaust upplýst okkur um það.
    Í niðurlagi umsagnar Þjóðhagsstofnunar segir að upplýsingar um ýmsar hliðar fjármagnsmarkaðarins, ekki síst hvað eignir heimilanna varða, séu mjög

takmarkaðar og af því leiði að erfitt sé að meta í tölum áhrif húsbréfakerfisins á ýmsa þætti fjármagnsmarkaðarins.
    Þetta er e.t.v. stóra málið, hvaða áhrif húsbréfakerfið kemur til með að hafa á fjármagnsmarkaðinn, og það er meginástæða þess að ég hefði kosið að þetta frv. færi aftur til ríkisstjórnarinnar sem gæfi sér sumarið í að fullvinna málið. En á það má ekki heyrast minnst. Þrátt fyrir það hversu mjög umdeilt málið er virðist enginn vilji fyrir því að ná samstöðu og sátt um málið. Forseti ASÍ og fulltrúi Framsfl. í þeirri nefnd sem sat milli þinga eru
alfarið á móti málinu og flestir aðrir nefndarmanna skrifuðu undir nál. með fyrirvara.
    Hæstv. forseti. Vinnumálasamband samvinnufélaganna hefur m.a. þetta um málið að segja, með leyfi forseta:
    ,,Sem félag atvinnurekenda telur Vinnumálasamband samvinnufélaganna hættu á að húsbréfakerfi eins og hér er í fæðingu muni valda því að fjármagnið muni dragast frá atvinnuvegunum. Ríkistryggð skuldabréf í fasteignaviðskiptum munu verða boðin til sölu á hinum vanþróaða fjármagnsmarkaði hér á landi.
    Vinnumálasamband samvinnufélaganna telur að ríkistrygging sérstaklega muni hafa óheppileg áhrif og stuðla að hækkun vaxta. Sérstaklega byggist þessi afstaða á því að ekki er gert ráð fyrir í frv. að sett verði nein mörk á þeirri heildarupphæð sem Byggingarsjóði ríkisins verður heimilað að skipta skuldabréfum íbúðaseljenda yfir í húsbréf.``
    Og síðar í umsögn Vinnumálasambands samvinnufélaganna segir, með leyfi forseta:
    ,,Vinnumálasamband samvinnufélaganna er fyllilega sammála þeirri skoðun sem varð til þess að frv. þetta kom fram, að núverandi húsnæðismálakerfi er meingallað og úr því þurfi að bæta sem fyrst. Núverandi kerfi er gallað að því leyti að stór hluti sparnaðar landsmanna er bundinn í því og nauðsynlegt að lífeyrissjóðirnir fái leyfi til að ráðstafa á hinum frjálsa fjármagnsmarkaði stærri hluta af ráðstöfunarfé sínu og þannig muni verða hægt að ná vöxtum mikið niður.
    Hins vegar mun VMS, sem félag atvinnurekenda og félag sem vinna á að því að hagur atvinnurekstrar hér á landi verði sem bestur, ekki geta mælt með því að komið verði á húsnæðismálakerfi sem hætta er á að auka muni þenslu og hækka vexti. Slíkt má ekki gerast ef eðlilegur atvinnurekstur á að geta þrifist hér á landi.
    Að endingu vil ég fyrir hönd Vinnumálasambandsins lýsa þeirri skoðun minni að ég tel að opinbert húsnæðismálakerfi eigi ekki að vera til nema fyrir þá aðila sem eru að kaupa eða byggja sína fyrstu íbúð.``
    Undir þetta ritar Hjörtur Eiríksson, framkvæmdastjóri Vinnumálasambands samvinnufélaganna.
    Félag fasteignasala segir í niðurlagi sinnar umsagnar, með leyfi forseta:

    ,,Stjórn FF leggur áherslu á það að til þess að jafnviðamikil breyting á húsnæðiskerfinu og hér um ræðir megi blessast er algjört grundvallaratriði að lögin verði ekki látin taka gildi of fljótt. Starfsfólk Húsnæðisstofnunar, starfsfólk bankanna, fasteignasalar og aðrir sem koma til með að framkvæma ákvæði laganna verða að hafa nægan tíma til undirbúnings. Afar mikilvægt er að nægum tíma verði varið í þennan undirbúning þannig að allar starfsreglur og starfshættir verði á hreinu þegar frá upphafi.``
    Þarna taka þeir fyllilega undir með þeim fjölmörgu sem telja að það eigi að gefa sér góðan tíma til að skoða málið og fara varlega.
    Ég vil ljúka þessum tilvitnunum í umsagnir sem nefndinni bárust með þeirri sem raðað var síðast í umsagnamöppuna er ég fékk, en sem ætti í raun og veru að raðast fremst. Það er bréf frá stjórn Húsnæðisstofnunar en í lok þess bréfs segir, með leyfi forseta:
    ,,Mjög mismunandi skoðanir eru innan stjórnarinnar á framlögðu frv. til laga um Húsnæðisstofnun ríkisins, 344. mál þingsins. Vegna þess mun hún ekki senda nefndinni umsögn um það.``
    Sem sagt engin eining á þeim bæ, engin eining hjá þeim sem sennilega þekkja hvað best til þessara mála hérlendis. Verulegar efasemdir. Er þetta ekki staðfesting á því að við eigum að flýta okkur hægt?
    Um einstakar greinar ætla ég ekki að fjalla, en get þó ekki látið hjá líða að mæla gegn 55. gr. þar sem gert er ráð fyrir því að lántakandi greiði rekstrarkostnað við húsbréfadeildina með því að greiða sérstakt vaxtaálag sem ætlunin er að mæti hugsanlegu útlánatapi deildarinnar. En sú grein hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,Húsbréfadeildinni er heimilt að áskilja sér vaxtaálag til að mæta rekstrarkostnaði og áætluðum útlánatöpum. Félmrh. ákveður vaxtaálag þetta að fengnum tillögum frá húsnæðismálastjórn.``
    Um þessa grein segir dr. Pétur H. Blöndal, framkvæmdastjóri Kaupþings hf., eftirfarandi í umsögn sinni:
    ,,Núverandi húsnæðiskerfi hefur í sér fólgna þvílíka vaxtaniðurgreiðslu að sýna má fram á að lántakandi fái 35% lánsins að gjöf. Undirrituðum finnst að með þessari grein sé verið að fara úr ökkla í eyra. Nú á lántakandinn að greiða rekstrarkostnað og meira að segja ríkisábyrgðina, þ.e. útlánatöp líka. Er ekki eðlilegt að styrkur ríkisins til almennra húsbyggjenda felist einmitt í því að ríkið rekur kerfið, þ.e. veitir fræðslu, upplýsingar og sér um skipti og veitir ríkisábyrgð?``
    Þá er ég einnig mótfallinn 57. gr. sem hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,Byggingarsjóður ríkisins innheimtir afborganir og vexti af keyptum fasteignaveðbréfum og ráðstafar því fé sem þannig innheimtist til
endurgreiðslu húsbréfa eftir hlutkesti sem notarius publicus hefur umsjón með. Þegar hlutkesti hefur farið fram skal auglýsa með tveggja mánaða fyrirvara númerin á húsbréfunum sem upp hafa komið til

innlausnar. Skal kveða á um fyrirkomulag þetta í reglugerð.``
    Enn vil ég, með leyfi forseta, fá að vitna til umsagnar Péturs H. Blöndal frá Kaupþingi hf., en hann segir um þessa grein:
    ,,Hlutkesti er óþarft ef notaðar yrðu þekktar aðferðir til fjármagnsstýringar eins og t.d. veðdeild Iðnaðarbankans beitir. Hlutkesti og útdráttur mun veikja mjög markaðshæfni húsbréfa því í því felst áhætta. Ef bréfin eru keypt með afföllum græðir sá sem dreginn er út strax, en þeir sem aldrei eru dregnir út mundu tapa. Öfugt gerist ef bréfin eru keypt á yfirgengi, þ.e. ef markaðsvextir væru lægri en vextir húsbréfanna. Auk þess yrðu eigendur bréfanna stöðugt að fylgjast með útdrætti. Samanlagt mundi þessi útdráttur veikja húsbréfin og hækka fórnarvexti þeirra að óþörfu.``
    Hæstv. forseti. Það er náttúrlega hægt að velta upp mörgum spurningum varðandi þetta frv. Það má spyrja hæstv. ráðherra t.d. hvernig þetta komi heim og saman við lánsfjárlög. Það má spyrja hvort ekki sé í raun verið að gefa peningaprentun frjálsa í landinu. Það má spyrja hvort ríkisábyrgðin eigi að vera takmarkalaus, þ.e. án allra takmarkana. Það má spyrja hvaða áhrif þetta kerfi hafi á fjármagnsmarkaðinn, á peningamálin og á vextina. Það má spyrja hvaða áhrif þetta hefur á vinnumarkaðinn, til að mynda nýbyggingar. Það má spyrja hvernig ráðherra ætlar að koma í veg fyrir affallaviðskipti með þessi bréf. Það má spyrja ráðherra hvernig koma eigi í veg fyrir að húsbréfin verði notuð sem gjaldmiðill í hinum ýmsu viðskiptum. Og það má spyrja ráðherra hvort hún sé sammála þeim fjölmörgu sem álíta að vextir muni hækka, að íbúðaverð muni hækka og að verðbólga muni aukast sem afleiðing þessa nýja kerfis. Og það er ekki óeðlilegt að kalla eftir framtíðarsýn ráðherrans: Hvaða afleiðingar telur hún í heildina séð að frv. komi til með að hafa?
    Þá má auðvitað og er sjálfsagt að biðja ráðherrann að gera þinginu nú grein fyrir því hvernig frestun á gildistöku frv. mundi valda því að þjóðfélagið tapaði fleiri milljörðum króna eins og hún hefur marglýst yfir. Því sé það rétt er það náttúrlega ábyrgðarhluti að hindra framgang málsins. Ég efa hins vegar ekki að ráðherra gefur og hefur svör á reiðum höndum og hlakka til að fá heyra þau.
    Hæstv. forseti. Ég get tekið undir flest ef ekki allt sem fram kemur í nál. 1. minni hl. félmn. og ætla mér ekki að hafa mörg orð um það frekar en önnur nál. sem hér liggja frammi. Mér finnst þó álit 2. minni hl. nefndarinnar sérstaklega athyglisvert, ekki vegna þess hvað í því stendur heldur fyrir verðmiðann sem því fylgir frá Kvennalistanum, sem hefur yfirskriftina ,,Samkomulag um húsnæðismál``. Um það ætla ég ekki að fjölyrða en segi þó að allt er í heiminum hverfult og allt er í heiminum falt.
    Hæstv. forseti. Ég mun senn ljúka orðum mínum, en áður en kemur að því langar mig til að vitna í rit eftir Jóhann Rúnar Björgvinsson þjóðhagfræðing, þar sem hann tekur m.a. sérstaklega fyrir húsbréfafrv. Ég ætla aðeins að lesa það sem hann dregur saman sem

helstu niðurstöðu um efnahagsleg áhrif húsbréfa, þó vissulega væri vel þess virði að glugga nánar í þetta rit, en það má e.t.v. vera að það gefist tækifæri til þess síðar í umræðunni. Helstu niðurstöður Jóhanns eru sem sagt þessar, með leyfi forseta:
,,1. Húsbréfin hafa flesta eiginleika peninga. Þau eru ríkistryggð, hafa mikla innbyrðis samsvörun, hafa þekkt verðgildi og ljúka viðskiptum. Þau hafa því alla burði til þess að verða peningar í hagkerfinu. Útgáfa þeirra getur því magnað verðbólguna ef ekki er rétt að málum staðið. Þá geta þau fengið víðtækara gjaldmiðilshlutverk en á fasteignamarkaðnum.
    2. Sparnaðarhneigðin í þjóðfélaginu setur húsbréfakerfinu skorður því ekki er hægt að gefa út fleiri húsbréf en sparnaðareftirspurn bréfanna gefur tilefni til nema það hafi áhrif á raunvirði þeirra til lækkunar. Áhrifin eru að færri lán verða afgreidd en áður ef gert er ráð fyrir hærra lánsfjárhlutfalli til fasteignakaupenda en í fyrra kerfi.
    3. Ef um offramboð húsbréfa verður að ræða hefur það víðtæk áhrif á vaxtastigið í þjóðfélaginu. Sömuleiðis hefur það mjög verðbólguhvetjandi áhrif, bæði almennt og á fasteignamarkaði.
    4. Tilkoma húsbréfakerfisins mun skerða verulega getu Seðlabankans til að sinna því hlutverki í hagkerfinu sem honum er ætlað, þ.e. að stjórna peningamagni hagkerfisins og að vinna að stöðugu verðgildi krónunnar.
    5. Fullyrðingar um að húsbréfakerfi muni bæði auka innri fjármögnun á fasteignamarkaðinum og lækka útborgunarhlutfallið eru á misskilningi byggðar.``
    Og undir þessu segir m.a.:
    ,,Fátt bendir því til þess að hið nýja húsbréfakerfi eins og það er útfært muni leysa hið gamla af hólmi sem betra kerfi.``
    Væri ekki úr vegi að ráðherra gerði grein fyrir sínum skoðunum á þessum niðurstöðum þjóðhagfræðingsins.
    Hæstv. forseti. Ég er í hjarta mínu sammála þeirri meginhugsun sem felst í
húsbréfakerfinu en tel engu að síður að ekki liggi nægilega vel fyrir hverjar verða afleiðingar frv. á fjölmarga þætti, þætti sem ég hef verið að rekja hér. Því munum við í Frjálslynda hægri flokknum styðja það að frv. verði vísað til ríkisstjórnarinnar til frekari vinnslu og við væntum þess að sú málsmeðferð verði ofan á enda á þingið ekki virðingar sinnar vegna að vera að samþykkja lög sem nánast allir eru sammála um að vinna þurfi betur, séu sem sagt ekki tilbúin til samþykktar.
    Og svo alveg í lokin vil ég segja það að ég harma það hvernig ráðherra hefur hagað sinni baráttu fyrir framgangi þessa máls, þ.e. með eilífum hótunum um afsögn. Slík vinnubrögð gagnvart þinginu og reyndar þjóðinni eru til skammar fyrir hvern sem er. Sem betur fer eru þetta ekki algeng vinnubrögð hjá ráðherrum þótt þessi vinnubrögð séu algeng í Alþfl. sem slíkum og þekkjum við þess dæmi af þessu þingi. Ég harma því að ráðherra skuli ekki trúa meira en svo á málstað sinn að hún telji sig ekki geta treyst á

almenna skynsemi þingmanna til þess að ná máli sínu fram, heldur telji sig þurfa að stilla mönnum upp við vegg til þess að geta fengið sínu framgengt.
    Hæstv. forseti. Ég hef lokið máli mínu.