Húsnæðisstofnun ríkisins
Mánudaginn 08. maí 1989

     Hjörleifur Guttormsson:
    Virðulegur forseti. Enn ræðum við húsnæðismál hér á hv. Alþingi og er það út af fyrir sig ánægjuefni að þau eru tekin hér til umræðu svo mikla þýðingu sem þau hafa fyrir fjölda fólks í samfélaginu. Hér er það frv. til laga um svokallað húsbréfakerfi, breyting á lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins, sem er tilefni þessarar umræðu. Það er komið fram á nýjan dag þegar við ræðum þessi mál hér á hv. Alþingi en við tökum því að sjálfsögðu hér í vorönnunum að fjalla um þessi mál á hvaða tíma sólarhrings sem er, en það getur ekki dregið úr nauðsyn þess að yfir þessi mál sé farið vandlega af þinginu, svo mikið sem er í húfi að vel takist til, þegar ekkert minna er á ferðinni heldur en það að breyta með mjög ákveðnum hætti um hið almenna húsnæðiskerfi. Þar eru bæði miklir fjármunir í húfi og miklir hagsmunir í húfi fyrir alla landsins þegna í rauninni, aldna og óborna og því er eðlilegt að þingið reyni að vanda meðferð þessa máls.
    Það er vissulega nokkuð sérkennilegt sem hér liggur fyrir nú þegar mál þetta kemur frá nefnd að nefndin hefur klofnað í fjóra minnihlutahópa sem hver skilar sínu áliti. Það er því miður ekki það veganesti sem maður hefði viljað sjá þegar nýtt húsnæðiskerfi á að taka við. Æskilegt er að sjálfsögðu þegar svo stórt mál er á ferðinni að um það geti tekist víðtæk samstaða eins og nefnt hefur verið hér af ýmsum hv. ræðumönnum. Ég er í hópi þeirra sem bera nokkurn kvíðboga af því að ekki hafi verið vandað svo til undirbúnings þessa máls og leitast við að stilla menn saman um málsmeðferðina og efnisinnihaldið eins og þörf hefði verið. Ég get því ekki deilt skoðunum með talsmanni 2. minni hl. félmn., hv. 5. þm. Norðurl. v. Jóni Sæmundi Sigurjónssyni, þegar hann í ræðu sem fylgdi nál. hafði uppi mjög stór orð um það, mjög ákveðin orð um það að ekkert mál svo hann myndi eftir síðan hann kom á þing hefði hlotið jafngóðan undirbúning, sérfræðiálit lægju hér fyrir, langflestir sem félmn. hefði talað við hefðu mælt með þessu kerfi sem hér væri verið að taka upp og málið hefði hlotið sérstaklega mikla kynningu, hann jafnaði því við kynningu á frv. til laga um verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga sem einnig liggur hér fyrir hv. þingdeild. Hafi hv. þm. haft í huga þá kynningu sem fór fram á því máli á fyrra þingi, þá er ekki miklu saman að jafna í sambandi við kynningu þar sem átti að hespa það mál af á síðasta þingi án nánast nokkurrar kynningar og kynningin sem fram hefur farið á því máli á yfirstandandi þingi hefur því miður ekki verið þannig að það sé af miklu að státa í samjöfnuði.
    Mér finnst það satt að segja ekki vera mjög traustvekjandi eftir að ég hef farið yfir þetta mál svona sæmilega að ég tel á þeim skamma tíma sem við höfum haft til að skoða það eftir að málið kom frá nefnd og þær tillögur sem liggja fyrir frá nefndinni, þá finnst mér það ekki lofa nógu góðu hvað hæstv. félmrh., sem ber mál þetta fram, svo og þeir sem tala fyrir málinu og mæla með samþykkt þess eftir að hafa fjallað um það í félmn., hvað þeir nota stór og hástemmd orð þegar þeir eru að fylgja

þessari nýbreytni úr hlaði. Mér finnst satt að segja að það sé býsna margt í þessu máli sem hvetji til varkárni í orðum og fullyrðingum og margt sem þörf sé á að athuga mun betur áður en menn fara að slá því föstu að þeir hafi nú hitt hér naglann á höfuðið í sambandi við almenna húsnæðiskerfið í landinu. Ég gæti og mun vísa til ýmissa þátta í mínu máli til rökstuðnings þessum varnaðarorðum.
    Ég vænti að hæstv. félmrh. sé hér einhvers staðar nærri þannig að ráðherrann heyri mál mitt. Ef svo er ekki þá bið ég virðulegan forseta um að bæta úr því. ( Forseti: Ráðherra mun vera hér í húsinu.) ( Gripið fram í: Í hliðarsal.) ( Forseti: Í hliðarsal, já.) Virðulegur forseti. Ég kann því betur að ráðherrar sem bera fram mál hér séu í þingsal þegar þau eru hér til umræðu en ekki í einhverjum hliðarherbergjum þingsins. ( Forseti: Það verður eftir því leitað.)
    Hér hafa verið haldnar allnokkrar ræður um þetta mál og hér mælti talsmaður 1. minni hl. félmn., hv. 17. þm. Reykv. Geir H. Haarde, fyrir sínu áliti í þriggja klukkutíma ræðu við upphaf þessarar umræðu. Ég vil að það komi fram að ég tel að hann hafi flutt þar efnismikið mál, hann hafi komið þar að mörgum þáttum sem snerta þetta með gagnlegum hætti, bent á ýmsa veikleika í málabúnaðinum og haft uppi ýmsar efasemdir sem ég deili með honum þegar ég skoða þessi efni. Ég er þar engan veginn að segja að það gildi um málið í heild eða mat hans á stöðunni en það gildir varðandi marga þætti sem hann vék að í máli sínu. Og mér finnst það vera miklu betra að hlýða á málflutning af því tagi heldur en einhverjar hástemmdar yfirlýsingar þeirra sem eru að mæla með samþykkt málsins sem slá í rauninni langt yfir markið þegar maður fer að skoða innihaldið. Ég tala nú ekki um þær sendingar sem íbúar landsins fengu inn um dyrnar hjá sér núna fyrir nokkrum dögum síðan. Þessi bæklingur er víst gefinn út í einum 80 þúsundum eintaka svo sem að var vikið hér í umræðunni áður. Mér finnst það miklu vænlegra að taka á máli út frá gagnrýninni hugsun heldur en með þeim hætti sem mér finnst hafa verið gert hér af þeim sem mæla fastast fyrir þessu máli.
    Það verður ekki hjá því komist að nefna það hversu sérkennilegt það er hvernig málsmeðferðin er varðandi húsnæðismálin hin síðari árin þegar kemur að
hlut Alþingis í þeim efnum. Þar á núv. hæstv. félmrh. allsérkennilega sögu sem hefur verið nefnd hér í þessari umræðu og rakin, ekki bara í þessari ríkisstjórn, ég ætla ekki að hafa mjög stór orð um það, en í fyrri ríkisstjórn þegar ráðherrann settist í stól félmrh. og mælti fyrir breytingum á lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins, líklega á öndverðu þingi 1987 um haustið, þá gekk nú ekki lítið á. Menn héldu að nú væri lausnin að koma því að hæstv. ráðherra lagði þá ráðherrastöðu sína að veði, alveg eins og núna þegar við erum að ræða þetta þingmál hér. Ég ræddi þá við hæstv. ráðherra, var ekki stuðningsmaður þeirrar stjórnar, en ég verð að segja það að mér finnst að sá háttur sem hæstv. ráðherra hefur haft í sambandi

við meðferð húsnæðismálanna í fyrri ríkisstjórn og í núv. ríkisstjórn sé ekki með þeim hætti að það sé til þess að vekja traust á málsmeðferðinni.
    Hér talaði fyrr við umræðuna hæstv. fyrrv. félmrh. og mælir fyrir sérstöku nál. Hann hélt hér ítarlega ræðu, efnismikla ræðu og margt í henni sem ég get tekið undir í máli hans. En hv. 1. þm. Vesturl. var einu sinni í hlutverki félmrh. hér á Alþingi, í heil fjögur ár ef ég man rétt, og þá var hann að berjast við ámóta draug og núv. hæstv. félmrh. Og hvaða draugur er það? Jú, það voru loforð um lausnir í húsnæðismálum landsmanna sem hann, flokkur hans Framsfl., hafði borið fram í aðdraganda kosninga 1983, hástemmd loforð sem hæstv. ráðherra hafði síðan enga möguleika á að vinna brautargengi eða ná fram þegar hann var kvaddur til ábyrgðar í ríkisstjórn. Og það var ekki fyrr en samtök launafólks í landinu tengdu lausn húsnæðismálanna kjarasamningum í febrúar 1986 að allnokkuð var tekið á þessum málum þó að undirbyggingin væri ekki eins traust og menn vonuðu að gæti orðið þegar þau mál voru til umfjöllunar og lögfestingar hér á hv. Alþingi. Þeir kepptust nefnilega um það, og ég leyfi mér, virðulegur forseti, að nefna það hér í þessari umræðu án þess að ég ætli að fara að rekja hér söguna mikið í þessum málum, en þeir kepptust um það Sjálfstfl. og Framsfl. í aðdraganda kosninga 1983 að yfirbjóða hvor annan í húsnæðismálum, lofa landslýð gulli og grænum skógum. Svo tóku þessir flokkar við og uppskeran varð nú ekki sú sem loforðin hljóðuðu upp á.
    Í kosningastefnuskrá Sjálfstfl. fyrir þær kosningar stóð m.a. að hann mundi beita sér fyrir eftirfarandi aðgerðum í húsnæðismálum:
    Í fyrsta lagi að efldir verði tekjustofnar Byggingarsjóðs ríkisins svo að almenn íbúðalán hækki nægilega til þess að almenningi sé kleift að koma sér upp eigin íbúð með þeim lánskjörum sem staðið verður undir af venjulegum launatekjum. Þeir sem eru að eignast sína fyrstu íbúð fái 80% lán með betri kjörum en aðrir. --- 80% lán. Verkamannabústaðakerfið verði bundið við þarfir hinna efnaminni er fái nægilega aðstoð til þess að koma sér upp eigin íbúð. Og í þriðja lagi, leiguíbúðum sé markaður ákveðinn rammi innan húsnæðiskerfisins.
    Og Framsfl. vildi ekki láta sitt eftir liggja. Einnig hann sagði í sinni kosningastefnuskrá þá: Húsnæðislán nemi 80% af byggingarkostnaði og verði til 42 ára.
    Þetta voru nú þeir tvíefldu sem tóku síðan saman í ríkisstjórn vorið 1983 og kipptu öllum vísitölum úr sambandi nema lánskjaravísitölunni með þeim afleiðingum sem það þýddi fyrir fólk sem hafði tekið sér og tók húsnæðisstjórnarlán á þeim tíma og höfðu menn þó fengið á ýmsu að kenna á árunum þar á undan vegna verðtryggingar og vísitalna sem búið var að tengja fjárskuldbindingar við frá árinu 1979 að telja.
    Svo það er vert, virðulegur forseti, að hafa þessa forsögu í huga þegar við ræðum þessi mál hér á Alþingi. Kem ég þá að hæstv. núv. félmrh. því að sá

gekk gunnreifur fram sem gagnrýnandi ríkisstjórnar Steingríms Hermannssonar, hinnar fyrri, í húsnæðismálunum og fór ekkert lágt í sínum málflutningi eins og menn kannski muna. Kannski hv. 1. þm. Vesturl. muni eitthvað eftir því þegar hæstv. núv. félmrh., arftakinn, var að veitast að honum hér úr ræðustóli Alþingis. Og það er þessi draugur yfirboðanna, innihaldslítillar gagnrýni sem hæstv. núv. félmrh., bæði í fyrrv. og núv. ríkisstjórn, hefur verið að kljást við. Því það er ekkert gott að búa við það að hafa lofað gulli og grænum skógum og ráða svo ekki við neitt, jafnvel þó að verkalýðshreyfingin í landinu rétti mönnum hjálparhönd og hafi orðið til þess að hreyfa þessi mál með samningunum í febrúar 1986 þó að það skorti á m.a. að framlög ríkisins til þessara mála, til þess að standa undir niðurgreiddum lánum, lánskjörum, fylgdu eftir. Og af þeim sökum hefur stefnt í margháttað óefni í sambandi við stöðu Byggingarsjóðs ríkisins á þeim árum sem síðan eru liðin. Þess vegna gerðist þetta að fljótlega eftir að núv. hæstv. félmrh. tók við starfi sínu í fyrri ríkisstjórn þá var farið að lappa upp á kerfið og það voru alveg réttmætar leiðréttingar sem reynt var að gera þar m.a. með því að grisja svolítið biðröðina og koma þar við svolítið skárra réttlæti í sambandi við forgang. En að það þyrfti að kosta ráðherradóminn að ná því fram hér á Alþingi, það var ekki mjög sannfærandi að mér þótti.
    Og síðan gerðist það í sambandi við kaupleiguna og nú í þriðja sinn á vordögum 1989 stöndum við frammi fyrir þeim ósköpum að núv. hæstv. ráðherra gefur út tilkynningar um það að ef menn taki ekki við þessu frv. og keyri það
hér í gegn og lögfesti, þá sé hæstv. ráðherra bara floginn úr sæti sínu --- hvert, veit enginn. Hvers konar vinnubrögð eru þetta í stórum og erfiðum málaflokki, þar sem þörfin er á að menn leggist saman á árar, átti sig á vandkvæðum og leiti hinna færustu lausna, að halda þannig á málum? Nei, Alþingi Íslendinga er sett í verulegan vanda hér aftur og aftur í sambandi við meðferð þessara mála, þessara vandasömu mála.
    Við undirbúning þessa máls var skipuð nefnd. Aðilar að henni voru úr ýmsum flokkum, þar á meðal átti Alþb. þar fulltrúa. Nefnd þessi skilaði áliti, líklega 12. des. sl. Fulltrúi Alþb. í nefndinni, hæstv. núv. landbrh., Steingrímur J. Sigfússon, lét fylgja áliti sínu bókun sem ég tel eðlilegt að komi hér fram við þessa umræðu því að hún hefur markað afstöðu Alþb. til þessa máls síðan, kynnt og á hana fallist af þingflokki þegar málinu var skilað til núv. hæstv. félmrh. Hún er þannig, með leyfi forseta:
    ,,Undirritaður vísar til eftirfarandi skýringa varðandi fyrirvara sinn við álit nefndarinnar. Þátttaka mín í starfi nefndarinnar var frá upphafi með þeim almenna fyrirvara að nauðsynlegt sé að skoða vanda húsnæðislánakerfisins í heild, samanber eftirfarandi bréf frá þingflokki Alþb. þar sem samþykkt var að taka þátt í starfi nefndarinnar.``
    Það bréf var svohljóðandi:

    ,,Þingflokkur Alþb. þakkar bréf yðar frá 2. maí sl. og lýsir sig reiðubúinn til þátttöku í starfi að endurskoðun húsnæðislánakerfisins. Hins vegar vill þingflokkurinn taka fram að það er skoðun Alþb. að leysa verði þann vanda sem við er að glíma á þessu sviði með samræmdum aðgerðum í húsnæðismálum og stefna beri að samfelldu og samræmdu húsnæðislánakerfi. Það er enn fremur okkar skoðun að ekki sé síður brýnt að taka til skoðunar stöðu hins félagslega hluta húsnæðislánakerfisins og að öll umræða um framtíðarskipan mála verði að taka til kerfisins í heild þó gagnlegt geti verið að áfangaskipta verkinu út af fyrir sig.
    Þingflokkur Alþb. vill gera yður, hæstv. félmrh., þessa grundvallarafstöðu ljósa þar sem störf fulltrúa okkar hljóta óhjákvæmilega að taka mið af þessari afstöðu.
    Að þessu sögðu tilnefnir þingflokkur Alþb. sem fulltrúa sinn í nefnd þá er getið er í bréfi yðar frá 2. maí sl. Steingrím J. Sigfússon alþm. og sem varamann hans Svavar Gestsson alþm.``
    Þetta var bréf þingflokksins til hæstv. félmrh. --- Síðan segir í bókuninni áfram:
    ,,Það er stefna Alþb. að koma eigi á einu samræmdu húsnæðislánakerfi þar sem fjölbreytt húsnæðisform eru jafnrétthá og endurgreiðslur og/eða lánslengd eru tengdar tekjum greiðanda. Engu að síður vill Alþb. ekki skorast undan því að taka þátt í endurskoðun og tilraun til að bæta hið almenna húsnæðislánakerfi meðan það er við lýði með því sniði sem verið hefur. Ég hef því tekið þátt í starfi nefndarinnar og haft áhrif á mótun hinna endanlegu tillagna sem ég tel til bóta miðað við núverandi ástand mála. Varðandi einstök atriði geri ég eftirfarandi fyrirvara:
    1. Að svonefnt húsbréfakerfi verði sett upp til hliðar við núverandi húsnæðislánakerfi til reynslu og að engar breytingar verði gerðar á hinu almenna útlánakerfi sem takmarki rétt fólks til fyrirgreiðslu umfram það sem tillögur nefndarinnar gera ráð fyrir, sbr. frumvarpsdrög, meðan reynsla er að komast á þessi skuldabréfaskipti. Rétt er einnig að taka fram að ég hef efasemdir um að aðstæður á íslenskum peningamarkaði nú um stundir geri kleift að umtalsverð húsbréfamiðlun gangi fyrir sig með eðlilegum hætti.
    2. Í stuðningi við þá tillögu nefndarinnar að útfært verði í stað húsnæðisbóta og vaxtaafsláttar kerfi tekju- og eignatengdra vaxtabóta felst ekki stuðningur við þá stefnu að vextir á útlánum Byggingarsjóðs ríkisins skuli þar með fylgja markaðsvöxtum eða vöxtum á lántökum sjóðsins. [Ég vona að menn taki eftir þessu.] Ég tel þvert á móti að sjálfstæð ákvörðun um útlánsvexti byggingarsjóðanna sé eftir sem áður nauðsynleg og vextir undir markaðsvöxtum geti átt og eigi þrátt fyrir slíkt kerfi vaxtabóta fyllilega rétt á sér. Tekju- og eignatengdar vaxtabætur ættu hins vegar í flestum tilvikum að skila sér mun betur til þeirra sem mesta hafa þörfina heldur en núverandi tilhögun býður upp á og ég er því hlynntur upptöku þess burtséð frá

ákvörðunum um vexti á húsnæðislánum.
    3. Í tillögum nefndarinnar er ekki á neinn hátt tekið á þeim vanda og því misgengi sem orðið hefur í húsnæðismálum milli landsbyggðarinnar og höfuðborgarsvæðisins. Með fáeinum undantekningum má segja að húsbyggingar einstaklinga séu aflagðar á landsbyggðinni. Þær litlu framkvæmdir sem í gangi eru eru algjörlega bundnar við byggingu félagslegra íbúða og verð notaðra fasteigna langt undir eðlilegum mörkum. Þetta vandamál þarf að taka til sérstakrar skoðunar og grípa verður til ráðstafana sem tryggja jafnvægi og eðlilegt ástand á fasteignamarkaði og í húsbyggingum á öllu landinu en ekki aðeins hlutum þess.
    Ég hreyfði þessu máli nokkrum sinnum á fundum nefndarinnar en henni gafst
ekki tóm til að ræða húsnæðismál landsbyggðarinnar nema mjög lítillega og eins og áður sagði er ekki tekið á þeim sérstaklega í áliti nefndarinnar eða tillögum. Þar bíður því mikið og brýnt viðfangsefni úrlausnar sem varðar húsnæðismálasviðið í heild og er jafnframt ein höfuðforsenda þess að snúa vörn í sókn í byggðamálum.``
    Undir þetta ritar Steingrímur J. Sigfússon.
    Eins og heyra má af þessari bókun og þessum fyrirvara snertir hann ýmsa þætti þessa máls, þar á meðal ákvörðun vaxta, vaxta Byggingarsjóðs ríkisins. Það mál hefur ásamt fleiri þáttum þessa máls verið til umræðu af hálfu Alþb. og við samstarfsflokkana í ríkisstjórn á þeim tíma sem þetta frv. hefur verið í mótun og meðferð. Ég tel ástæðu til þess hér við umræðuna að víkja sérstaklega að þeim þætti.
    Í nál. fjh.- og viðskn. þessarar hv. deildar á þskj. 1033 er að finna álit varðandi svokallaðan vaxtabótaþátt og vexti Byggingarsjóðs ríkisins í áliti meiri hl. fjh.- og viðskn. Þar er að finna svofellda yfirlýsingu ríkisstjórnar, með leyfi forseta:
    ,,Í grg. með frv. er kveðið á um að útlánsvextir Byggingarsjóðs ríkisins verði að taka mið af þeim vöxtum sem samið er um við lífeyrissjóðina vegna skuldabréfakaupa. Samkvæmt nýlegu samkomulagi við lífeyrissjóðina eru þeir vextir 6% frá apríl til júníloka og frá 1. júlí til desemberloka 5%. Nú þegar eru vextirnir orðnir 5% á þeim hluta sem miðaður er við ECU-bindingu.
    Ríkisstjórnin stefnir að því að vaxtamismunur af teknum lánum hjá lífeyrissjóðunum og útlánum Byggingarsjóðs ríkisins í núverandi húsnæðiskerfi verði ekki meiri en 0,5--1,0% og verða vextir af útlánum Byggingarsjóðs ríkisins lægri sem þeim mismun nemur.
    Vextir af útlánum Byggingarsjóðs ríkisins hækka ekki fyrr en húsbréfakerfið tekur gildi og verða þá ekki hærri en 4,0--4,5%.
    Ríkisstjórnin hefur ákveðið að hækkun vaxta hjá Byggingarsjóði ríkisins verði ekki afturvirk.``
    Þetta er yfirlýsing ríkisstjórnarinnar varðandi vexti Byggingarsjóðs ríkisins í þessu nál., en síðan fjallar hv. þingnefnd um málið og segir í áliti hennar eftirfarandi:

    ,,Meiri hl. nefndarinnar lítur svo á að fenginni þessari yfirlýsingu að eftir gildistöku laganna verði vextir af Byggingarsjóðslánum ekki hærri en að hámarki 4,5%.``
    Þetta er mjög skýrt og ákveðið. Og ég er viss um það að þó að mál þetta sé ekki komið hér til umræðu í þinginu er hæstv. félmrh. væntanlega kunnugt um þetta álit meiri hl. fjh.- og viðskn.
    Ég tel að hér sé verið að ræða þetta mál um húsbréfakerfi í ljósi þess sem þarna liggur fyrir og ég vil að það sé alveg ljóst og bið hæstv. ráðherra helst að ganga hér í þingsal, a.m.k. að leggja við hlustir í sambandi við þetta efni. Ég vil að það sé alveg ljóst og skýrt af minni hálfu, og ég tel mig þar mæla fyrir minn þingflokk, Alþb., sem hefur ítrekað fjallað um þessi efni og gert um þau samþykktir, að við erum að tala um það að vextir af lánum Byggingarsjóðs ríkisins verði að hámarki 4,5% og sú tenging við þá vexti sem kunna að verða á lánum Byggingarsjóðsins eða réttara sagt þá vexti sem Byggingarsjóðurinn þarf að greiða vegna lífeyrissjóðslána koma þessari samþykkt ekki við. Þeir koma þessari samþykkt ekki við eftir þá túlkun sem fyrir liggur frá meiri hl. fjh.- og viðskn. og samkvæmt þeim samþykktum sem þingflokkur Alþb. hefur gert og tengjast þessu máli.
    Ég vil að það liggi alveg skýrt fyrir hér við þessa umræðu að þannig er þetta mál vaxið og ég treysti mér að sjálfsögðu ekki til þess að styðja framgang þessa máls í því skötulíki sem það er hér fram borið nema það sé alveg ljóst og viðurkennt af þeim sem að þessu máli standa að þetta er grundvöllurinn sem við fjöllum um þetta mál á að því er Alþb. varðar og raunar að því er hv. meiri hl. fjh.- og viðskn. varðar einnig. Og að tala um það að þessi tenging varði lánskjör Byggingarsjóðs ríkisins, hvað svo sem samþykktum ríkisstjórnar um það efni líður, er sá grunnur sem við erum að fjalla um þetta mál á hér á hv. Alþingi eins og það liggur hér fyrir og ég vænti að í máli hæstv. ráðherra, sem vafalaust ræðir þetta hér á eftir, komi það fram hvort hún deilir þessum skilningi með mér og áttar sig á þeim grunni sem við erum að fjalla um þetta mál á. Hér er um svo ákvarðandi atriði að ræða að það væri ekki aðeins rangt, það væri ósiðlegt af okkur hér á Alþingi að tala ekki alveg hreint og skýrt út um þessi efni og vera ekki þar í neinum feluleik.
    Ég segi þetta hér vegna orða sem fallið hafa og vegna þess sem stendur í tilvitnaðri samþykkt ríkisstjórnarinnar sem skilja mætti á þann veg að þarna sé einhver teygja á milli í sambandi við lánskjör Byggingarsjóðsins vegna tekins fjármagns frá lífeyrissjóðunum. Ég segi þetta einnig vegna þess sem lesa má, raunar oftar en einu sinni, í málgagni hæstv. félmrh., Alþýðublaðinu, síðast laugardaginn 6. maí, þar sem verið er að draga upp aðra mynd af þessum málum en fyrir liggur.
    Og hvernig stendur nú á því að Alþb. tekur þessa afstöðu? Það kemur fram í
þeirri bókun sem hæstv. núv. landbrh. gerði meðan hann starfaði í þeirri nefnd tilkvaddur af hæstv.

félmrh. Þar liggur það alveg skýrt fyrir. Við teljum ekki rétt og treystum okkur ekki til þess að fara að leggja á lántakendur, viðskiptaaðila Byggingarsjóðs ríkisins, meiri hækkun lána en hér er talað um að hámarki og er þó allnokkuð að gert með 30% hækkun eða þar um bil, frá 3,5 upp í 4,5%. Ja, hvað segðu menn nú um það ef ætti að fara upp í þá vexti sem hugsanlega þarf að greiða af þessum lánum því að ég vil ekkert vera að draga úr bjartsýni manna, hvorki hæstv. fjmrh. eða hæstv. félmrh., um lánskjör Byggingarsjóðsins. Vonandi verður þar ekki mjög mikill munur á ef vel tekst til. En ef um væri að ræða 5% vexti er hækkunin komin upp í 43% eða þar um bil, 6% þýddu u.þ.b. 70% hækkun frá núverandi lánskjörum. Eru menn ekki að tala um það sem eitt brýnasta verkefni hér að ná vöxtum niður í landinu? Við skulum vona að vel takist til eftir þá samninga sem hæstv. fjmrh. hefur gert við lífeyrissjóðina vegna Byggingarsjóðs ríkisins og þeirra samskipta. Vissulega. Ég vona eindregið að sú bjartsýni sem um það ríkir gangi eftir, en vissa er það ekki. Vissa er það ekki. Það má segja að kannski sé nokkuð ljóst hver þróunin gæti orðið á þessu ári en ekki mikið lengur. Framtíðin er óviss, einnig á þessu sviði.
    Ég vil þá víkja að fáeinum fleiri þáttum sem þessu máli tengjast en vænti þess að ég hafi gert alveg skýra mína afstöðu til þessa máls og raunar þarf þar ekki margra vitna við eftir það álit meiri hl. fjh.- og viðskn. sem fyrir liggur þannig að ég þarf svo sem ekkert að vera að taka af nein tvímæli. Þetta liggur hér fyrir í þingskjali.
    Ég talaði um nokkrar gyllingar, það mætti kannski kalla það hillingar, sem sumir af talsmönnum þessa nýja kerfis sjá og mæla og mæla fyrir og þar er einn þáttur sem ég vil víkja að vegna þess að það er svona eitt helsta atriðið sem málsvarar húsbréfakerfisins færa fram og væri vissulega æskilegt að innistæða væri fyrir, og það kann að vera, og það er hin marglofaða innri fjármögnun sem á að nást fram gegnum þetta kerfi. Ég heyrði hv. talsmann 2. minni hl. félmn. einmitt víkja að henni hér, gott ef hann hnykkti ekki á því meðan hann hlýddi á mál hv. 17. þm. Reykv., innri fjármögnuninni.
    Ég verð að segja það að ég er stundum nokkuð skyni skroppinn, stend mig að því, en ég á svolítið erfitt með að átta mig á því hvernig þetta á allt saman að ganga upp, allir þessir kostir sem tengjast þessari innri fjármögnun. Það er ekki aðeins að það á að stytta biðröðina. Hún á bara að hverfa. Hún á bara að gufa hér upp á tveimur til þremur vikum, að því er bæði lesa má og heyra má í umræðu um þetta frá þeim sem eru glaðbeittastir að mæla fyrir þessu kerfi, stytta biðröðina, hækka lánin og draga úr afborgununum, minnka afborganirnar, gera lánskjörin betri, auðveldari. Og ég spyr: Hvaðan á að taka fjármagnið? Ég tók eftir því að talsmaður 4. minni hl., hv. 12. þm. Reykv., hafði þó einurð í sér til þess að víkja að þessu máli í nál. og máli sínu þegar hún mælti fyrir nál. Það einkennir raunar ýmislegt sem heyra má hér frá talsmönnum Kvennalistans að það er

ansi mikill semingur í þeim málflutningi og þarf ekki lengi að lesa á milli línanna í nál. hv. 4. minni hl. til þess að sjá að þar er engin oftrú á ferðinni þó að af því áliti verði nánast ekki skýrt hvernig þau sinnaskipti hafa orðið sem mér heyrðist einkenna afstöðu talsmanna Kvennalistans frá því að þetta mál kom fyrst hér til umræðu í deildinni. Sinnaskipti. Ég veit ekki hvort við eigum að segja að siðbót hafi orðið þar á bæ. Alla vega er hér kominn fram stuðningur við þetta mál og Kvennalistinn ber raunverulega ábyrgð á því máli sem hér er verið að bera fram, þ.e. ef við leiðum líkur að því að frv. nái fram að ganga, þá er það Kvennalistinn sem tryggir hér meiri hluta fyrir málinu ef hann skapast hér í þessari hv. þingdeild við afgreiðslu málsins og kem ég aðeins að því frekar. Ég er ekki að segja það neinum til lasts út af fyrir sig. Það gerir hver upp sinn hug hér á hv. Alþingi til þessa máls sem annarra. En það stendur hér í nál. hv. 4. minni hl. um hina innri fjármögnun ef ég leyfi mér að grípa þar niður:
    ,,Sagt er að með samþykki frv. sé stuðlað að víðtækari og meiri innri fjármögnun húsnæðiskerfisins sem verið hefur. Ekki verður þó séð að það gerist nema að mjög takmörkuðu leyti. Þannig hefur verið áætlað að þessi aukning muni aðeins nema 1000--2000 millj. kr. á ári. Gert er ráð fyrir að lán til hvers umsækjanda muni hækka verulega eða að hámarki í 5,5 millj. kr. Meðallán nú frá Byggingarsjóði ríkisins er um 2,5 millj. kr. Ef gert er ráð fyrir að meðallán hækki um 2 millj. kr. við þessa breytingu verða færri lán afgreidd en nú er.`` --- Og ætli það sé kannski ekki þar sem hundurinn er grafinn? Þetta fagnaðarerindi um hina innri fjármögnun, ætli það sé ekki þannig sem á að búa til peningana, með því að það verði miklu færri sem verði þessara kosta aðnjótandi? Það væri kannski meinalaust, og það er ekki hér úr nál., ef réttlætið væri tryggt með því kerfi sem verið er að innleiða. Meira réttlæti en tekist hefur að ná fram, ef má stigbreyta í þá áttina, frá núverandi kerfi. En hv. 12. þm. Reykv. útfærði þetta einmitt frekar í sínu máli af dæmi, sem hún tók og ég þarf ekki að endurtaka, og sýndi ljóslega fram á hvernig þessi aukna innri fjármögnun gufar upp miðað við hækkað lánshlutfall og við getum
auðvitað leitað frekari vitna hér úr margtilvitnuðum plöggum, þar á meðal gulu kveri sem hefur orðið nokkuð vinsælt hér í umræðunni til ívitnana. Ég leyfi mér það vegna þess að hér er eitt af þessum kjarnaatriðum og ég spyr: Eru það blekkingar sem verið er að bera fram um þessi efni? Á bls. 15 í bæklingi frá Jóhanni Rúnari Björgvinssyni sem dreift var hér af honum inn á Alþingi fyrir skemmstu er eftirfarandi stutt tilvitnun, virðulegi forseti, varðandi innri fjármögnun:
    ,,Í umræðunni um húsbréfakerfið hefur því verið haldið fram að bæði innri fjármögnun á fasteignamarkaðnum muni aukast með tilkomu bréfanna og að útborgunarhlutfallið muni lækka. Þessar ályktanir fá því miður ekki staðist. Aukning í hinni svokölluðu innri fjármögnun kemur aðeins til ef

seljendur fasteigna eru tilbúnir til að auka sparnað sinn, en engar hagstærðir benda til að svo verði.``
    Og þetta er kannski það sem þarf að nefna í þessu sambandi þó að fleira sé sagt hér sem snýr að hinni svonefndu innri fjármögnun og læt ég, virðulegur forseti, það út af fyrir sig nægja en minnist þess að ég hygg að það hafi verið eitt af því sem freistaði einmitt Kvennalistans sérstaklega í sambandi við stuðning við þetta mál ef ég man rétt eftir málflutningi sem fram kom hér fyrr í umræðu um þessi efni. Ég er ekki að ætla Kvennalistanum að hafa tekið afstöðu til málsins nema eftir bestu vitund. Hitt er auðvitað nokkuð athyglisvert eftir að hafa hlýtt t.d. á málflutning hv. 10. þm. Reykn. við eldhúsdagsumræður þar sem hæstv. ríkisstjórn, sem ég hef stutt hér á Alþingi, var fundið flest til foráttu og hafði hann um það nokkuð stór orð, óvinsælasta ríkisstjórn frá ómunatíð, orð sem hafa flogið fyrir í sambandi við stjórnina, höfð frá talsmönnum Kvennalistans. En í máli hennar við þessa umræðu var einmitt vikið að húsbréfakerfinu. Ég leyfi mér að grípa hér niður, virðulegur forseti.
    ,,Mál málanna í dag er þó líklega húsbréfamálið. Afstaða Kvennalistans í því máli hefur mjög verið til umfjöllunar síðustu klukkustundir og er reyndar óljóst enn til hvers hún muni leiða. Ekki er ólíklegt að einhver hugsi sem svo hvers vegna í ósköpunum kvennalistakonur hafi nú ekki notað þetta tækifæri til að klekkja á ómögulegri ríkisstjórn, leyft henni að engjast í eigin snöru og jafnvel enda þar sína ævidaga.``
    Þetta sagði hv. þm. hér úr þessum stól frammi fyrir alþjóð. En Kvennalistinn valdi það ekki, heldur veðjaði hér á húsbréfin og á væntanlega hlut í því að halda hæstv. félmrh. í stólnum og kannski hefur það nú verið hvatning hjá kynsystrum ráðherrans að heita stuðningi við þetta ásamt þeim samningi sem þær gerðu við ríkisstjórnina. Ég tek hins vegar eftir því að þar var talað um það af hv. 10. þm. Reykn. að þær 600 millj. kr. sem tryggja á í hið félagslega kerfi ættu að koma úr ríkissjóði, eins og það var orðað við þessa umræðu, en því miður er það ekki niðurstaðan úr því samkomulagi sem þarna var um að ræða þó að ég sannarlega voni að það gangi eftir að þetta fjármagn fáist til félagslegra íbúðabygginga og vil síður en svo vera að gera lítið úr þeim hug sem þar liggur að baki í sambandi við það efni.
    Ég vil aðeins segja það sem þátttakandi í þessari umræðu og eftir að hafa fylgst með þessu máli að mér finnst Kvennalistinn hafa mjög sterka sannfæringu fyrir þessu máli og ágæti þess að láta freistinguna eiga sig, að kippa fótunum undan ríkisstjórn sem þær hafa valið þær einkunnir sem ég vitnaði til þó að ég hafi þar ekki lesið langa kafla.
    Virðulegur forseti. Við höfum fengið greinargerð í hendur frá fimm stjórnarmönnum í Húsnæðisstofnun. Til þess máls hefur verið vitnað hér í umræðunni og ég ætla ekki að taka hér tíma á þessari nóttu til þess að fara þar yfir marga kafla í þeirri greinargerð en ég vil segja það að ég tel að margar af þeim ábendingum

sem koma fram frá þessum fimm stjórnarmönnum í stjórn Húsnæðisstofnunar séu þess eðlis að það sé skylt að taka þau atriði með til athugunar inn í þetta mál sem við ræðum hér og fari svo sem að er stefnt, trúlega af meiri hl. hér í hv. þingdeild, að frv. verði afgreitt þannig að að lögum verði seint og um síðir, 15. nóv. nk., verði þau efni sem hér er á bent og þau varnaðarorð sem bent er á í þessari greinargerð tekin til alvarlegrar meðferðar í þeirri nefnd sem 2. minni hl. félmn. hefur lagt til og hæstv. félmrh. hefur boðað að skipuð verði til þess að gegnumlýsa þetta mál og sýnist mér nú satt að segja ekki af veita, svo miklir veikleikar og brotalamir sem eru sýnilega í þessu kerfi sem hér er verið að tjalda til.
    Það er allvíða í þessari greinargerð stjórnarmanna í Húsnæðisstofnun ríkisins sem sýnt er fram á það að unnt sé og unnt væri að ná fram margháttuðum endurbótum á núverandi kerfi ef menn einbeittu sér að því. Og það er mjög sérkennilegt að menn skuli ganga hér fram í nafni þessa húsbréfakerfis, nánast með trúboðshugarfari, með slíkum skaphita og yfirlýsingum að það minnir á trúboð, í stað þess að reyna þó a.m.k. að gera það upp við sig og skoða það með hlutlægum hætti hverju væri hægt að ná fram í því kerfi sem við búum við ef tekið væri þar til hendinni. Og ég held t.d. að klisjur eins og þær sem hæstv. félmrh. hefur látið frá sér fara, og Alþfl. í
80 þús. eintökum hér, um biðröðina löngu, mánuðina 37 sem menn þurfi að bíða, og nú er bara hægt með hókus pókus að afnema þessa biðröð, hún er komin niður í 2--3 vikur. Ef litið er til þess sem þessir ágætu menn segja hér í sínu áliti benda þeir á að þróunin sé nú í þá átt eð þessi röð styttist til mjög mikilla muna og hægt sé með markvissum aðgerðum og breytingum að ná þar fram verulegum lagfæringum.
    Ég ætla ekki að fara að ritskoða nú þennan bækling Alþfl., þetta fagnaðarerindi sem dreift hefur verið til landsins barna. En lifandis ósköp finnst mér ógæfulegt þegar verið er að bera fram mál af þessu tagi, alvörumál, eins og eitthvert fagnaðarerindi án þess að það sé rökstutt með þeim hætti sem skyldi.
    Það er t.d. verið að gylla þar fyrir okkur landsbyggðarmönnum að þetta sé nú eitthvert allt annað og betra kerfi fyrir landsbyggðina sem þar sé á ferðinni. M.a. er sagt að það verði mikil einföldun með þessu kerfi, með því sé unnt að fela bönkum á hverjum stað að annast alla nauðsynlega þjónustu og fyrirgreiðslu við kaupendur og seljendur íbúða. Þetta er það sem okkur landsbyggðarmönnum er boðið að lesa í þessum bæklingi frá Alþfl. Og hvað ætli búi þarna að baki? Ætli það sé heimilt að gera þetta samkvæmt gildandi lögum? Hafa menn ekki lesið lögin um Húsnæðisstofnun ríkisins, 10. gr., þar sem þetta ákvæði er inni, heimild til þess fyrir lánastofnanir um land allt að veita fyrirgreiðslu í núverandi kerfi? Það er ekkert nýtt fyrir þetta sem hér er verið að boða. En hvers vegna hefur það ekki verið gert? Vegna þess að menn hafa talið, þegar spurt hefur verið um, að það þýddi dýrari lán, það mundi auka kostnað og þess vegna hefur ekki verið í það

lagt. Hvað á það að þýða að vera að reyna að selja svona hluti í sambandi við þetta nýja kerfi? Þetta vekur ekki traust og það eru margir svona veikleikar sem finna má, allt of margir. Og dæmin sem hér er verið að taka um hina einstæðu móður sem á að reiða fram 800 þús. af eigin fé til þess að sýna fram á að þetta kerfi verði hagstæðara en hið fyrra. Það væri fróðlegt að fara og skyggnast um hjá hinum einstæðu mæðrum sem kippa því út úr sparibókunum til að leggja í húsnæðið sitt. Svona er hægt að gylla hlutina ef vilji er til. Ég segi, þetta eru ekki góð vinnubrögð.
    Ég hef hérna fyrir framan mig blað að vestan, frá Vestfjörðum, Vestfirðing 1. maí sl. Þar skrifar talsmaður Alþb. forsíðugrein um þetta kerfi, frambjóðandi Alþb. í síðustu kosningum, Kristinn H. Gunnarsson. Hann hefur reynt að fara yfir þetta mál og átta sig á því og niðurstaða hans er nú ekki sú að hér sé eitthvert fagnaðarerindi á ferðinni, t.d. fyrir landsbyggðina. Því miður. Ég gæti lesið það sem hér stendur. Menn yrðu nokkurs fróðari af að heyra það. En ég ætla að spara mönnum það nema örlitla glefsu þó að öll greinin væri þess virði og treysti því að þeir sem vilja líta á þessi efni hlutlægt og heiðarlega fari einnig yfir það sem þarna stendur. Hér segir m.a., virðulegur forseti:
    ,,Samkvæmt hinu nýja kerfi á að vera hægt að fá hærri lán en í núverandi kerfi og samkvæmt blaðaviðtali í febrúar telur félmrh. að fólk þurfi ekki að bíða í nema 2--3 vikur og geti á þeim tíma gengið frá húsnæðiskaupum. Eftir að hafa velt þessu fyrir mér er mín niðurstaða að þetta geti ekki gengið upp,,, segir þessi maður að vestan. ,,Til þess að geta veitt öllum lán sem vilja hvenær sem er og það hærri lán þarf gríðarlegt fjármagn umfram það sem núverandi kerfi fær. Það er ekki hægt að töfra fram milljarðatugi með því einu að breyta lánaforminu. Formbreyting býr ekki til peninga nema með seðlaprentun sem ekki er innistæða fyrir, en það þýðir verðbólgu. Og ég gæti farið hér ofan í saumana á umsögnum margra aðila, þar á meðal frá Jóhanni Rúnari Björgvinssyni, frá starfsmönnum Húsnæðisstofnunar o.fl. sem benda á þessa veikleika, sem benda á það að þetta kerfi býr ekki til fjármagn og það hefur í sér fólgnar margháttaðar hættur fyrir efnahagskerfi okkar ef illa tækist til.
    Ég sé að í nál. hv. 2. minni hl. félmn. er vitnað til þess að nefndinni hafi borist umsögn frá Seðlabanka Íslands. Ég hef ekki séð þá umsögn. Mér þætti vænt um ef hún væri fram reidd hér og kynnt hér við þessa umræðu því að það hefur einmitt komið fram hjá ýmsum sem hafa tjáð sig um þessi mál á prenti að hlutur Seðlabankans og staðan í tengslum við þetta kerfi sé dálítið tvísýn. Það væri ágætt að umsögn Seðlabanka Íslands væri kynnt okkur hér við þessa umræðu því að það gæti nú reynt eitthvað á hlut þess banka ef þetta kerfi gengur fram. Gæti hann þurft að standa þar fyrir sínu.
    Nei, virðulegur forseti. Það er því miður ekki allt gull sem glóir og það er ekki allt með þeim hætti sem verið er að láta hér að liggja í sambandi við þessa

breytingu. Og nú spyrja menn auðvitað: Hvað ætlar þú að gera? Ætlar þú að fara að styðja þetta óbermi? Ætlar þú að fara að styðja þetta óbermi, framgang þess og lögfestingu hér 15. nóv.? Það er von að spurt sé. Ég spyr sjálfan mig. Á ég að gera það?
    Ég tel mig hafa gert nokkuð til þess að girða fyrir ófarnað með því að hér yrði rasað um ráð fram í sambandi við þetta mál, með því að hér verði farið að geysast fram með þetta húsbréfakerfi á þann hátt sem talsmenn þess, þeir sem
báru fram fyrirvaralausar tillögur í nál. til hæstv. félmrh., hafa verið að mæla með, nánast að þetta kerfi eigi hér bara að taka við af hinu almenna húsnæðislánakerfi á ekki löngum tíma. Ég er ekkert í vafa um það eins og hæstv. félmrh. hefur talað og fleiri að það er þeirra sýn til mála. En það væri mikið óráð að ætla að fara að gera svo tvísýna tilraun án varnagla á íslenskum almenningi, húsbyggjendum, húskaupendum, fólki sem sárlega vantar þak yfir höfuðið. Þess vegna m.a. hefur Alþb. nokkuð lagt á sig til þess að fá það skýrt og klárt fram að vaxtaákvarðanir varðandi Byggingarsjóð ríkisins verði bundnar að hámarki til eins og samþykktir liggja nú fyrir um og tillögur frá meiri hl. fjh.- og viðskn. í þessu máli. Auðvitað þýðir það að þetta kerfi gengur ekki upp með þeim hætti sem talsmenn þess, sem hafa viljað sem skjótastan framgang þessa kerfis, hafa viljað. Það er alveg ljóst. Þess vegna greindi ég frá því með því að grípa inn í mál hv. 17. þm. Reykv. hér fyrir helgina að þetta væri enginn misskilningur hjá mér eða mínum flokki. Við erum að slá þarna varnagla og það mjög skýra varnagla vitandi vits. ( GHH: Misskilningur að heimila framlagningu frv.) Eitt er nú að leggja fram hluti, eitt er nú að koma einhverju til umræðu hér á Alþingi og annað er svo hvernig sköpulagið verður þegar króginn stekkur hér út af þinginu, hugsanlega, eða skríður. Það er önnur saga og ég heyrði ekki betur en hv. 17. þm. Reykv. væri nú allsvona skotinn í þessu kerfi, þessum króga. ( GHH: Ekki meðan það er óbermi í skötulíki.) Ég heyrði nú ekki betur og satt að segja finnst mér dálítið merkilegt að heyra þessa aðdáun á þessu húsbréfakerfi hjá þeim sem almennt tala hér í þessari umræðu. Það eiginlega þorir enginn að segja eða setja upp hreint og klárt spurningarmerki við þetta kerfi sem mér finnst þó að sé í rauninni skylt að hafa uppi þó að einnig sjái ég ákveðna möguleika í þessu kerfi ef vel er unnið að uppbyggingu þess og reynt að ná úr því ákveðnum kostum sem í því geta fólgist og ég vil síður en svo hafna. En ég hafna því að hér sé rekið eitthvert trúboð fyrir kerfi sem hefur ljóslega annmarka í för með sér og getur beinlínis haft verulegar hættur í för með sér ef menn ekki gá að sér og reyna að útfæra það gætilega og með greiningu og af fullu viti og með því að draga fram þá þekkingu sem hægt er að fá í þessu landi og af reynslu erlendis frá. Og þess vegna ræð ég auðvitað og hef ráðið hæstv. félmrh. í gegnum minn flokk að vera ekki að rasa um ráð fram. Auðvitað væri það langskymsamlegasta að vera ekki að binda sig í

einhverja lagasetningu í þessu máli. Það væri það skynsamlegasta. Ég ætla ekkert að fara að rifja upp 500, 600 milljónirnar, mánaðarrefsinguna sem hæstv. félmrh. var að veifa í sambandi við spurninguna um lögfestingu, því það var náttúrlega ekki mikið á bak við það. En hæstv. ráðherra leggur mjög mikið kapp á þetta mál. Hins vegar hefur sú þekking og þeir möguleikar til greiningar á kostum og ókostum og hættum sem tengjast þessu kerfi ekki verið dregin inn í athugun málsins sem eðlilegt væri í svo stóru og flóknu máli.
    En auðvitað vona ég, hæstv. félmrh. og aðrir talsmenn þessa máls, að sagan endi vel. Auðvitað vona ég það að Alþingi beri gæfu til þess nú og við frekari athugun þessara mála að ganga þannig frá húsnæðiskerfi fyrir landsmenn, hinu almenna húsnæðiskerfi, hvort sem það er kennt við húsbréf eða eitthvað annað, að það verði ekki til ófarnaðar heldur til heilla. Það hlýtur að vera okkar ætlan. En við eigum mjög mikið ógert í þeim efnum og þar á meðal athugun og stefnumörkun um hið félagslega íbúðakerfi sem búið er að auglýsa eftir að verði farið ofan í saumana á árum saman hér á Alþingi, ríkisstjórn eftir ríkisstjórn hefur heitið því að þetta skuli gert, t.d. 1986 í sambandi við endurskoðun húsnæðislaganna þá og í nál. sem tengdist því máli var því heitið en enn stöndum við hér 1989 og þetta er ógert.
    Kvennalistinn hefur verið að minna á þetta. Vel sé þeim að gera það. Auðvitað hljótum við að taka undir í þeim efnum og auðvitað hljótum við að reyna að hjálpast að við það að bæta það kerfi. Ég hef heyrt menn úr held ég öllum þessum minni hlutum nefna það að það sé þeirra hjartans mál að reyna að bæta þar úr og ég vænti þess nú að menn noti þá einnig sumarið til þess að fara virkilega yfir þau efni og reyna að láta þetta verða samferða að hausti, þannig að við komum hér með samræmt húsnæðiskerfi þar sem félagslegi þátturinn sé tekinn með og reynt verði að sníða vankantana af því sem menn eru hér að hraðsjóða með allt of skjótum hætti á þessum vordögum.
    Virðulegur forseti. Við skulum vona að það birti upp yfir þessum málum. Á því er mikil þörf.