Húsnæðisstofnun ríkisins
Mánudaginn 08. maí 1989

     Kolbrún Jónsdóttir:
    Virðulegi forseti. Þetta mál hefur nú þegar fengið miklar umræður hér á Alþingi og í fjölmiðlum. Hæstv. félmrh. lagði ráðherrastól sinn að veði verði frv. þetta ekki samþykkt. Það er augljóst að húsnæðislánakerfið frá 1986 er komið í ógöngur, en þó er betra að búa við það um tíma og vanda betur gerð húsbréfakerfisins. Opinbert fjármagn hefur alltaf vantað og þetta nýja frv. mundi hafa svipuð áhrif og seðlaprentun og koma niður á helsta keppinaut sínum, spariskírteinum ríkisins.
    Við í Frjálslynda hægri flokknum viljum að frv. verði vísað til ríkisstjórnarinnar og það kannað nánar. Þingmenn Borgaraflokksins sem skipuðu þann þingflokk þá lögðu fram frv. um húsbréfastofnun og húsbanka hér á Alþingi á síðasta þingi. Tel ég það vera einu heildstæðu tillöguna sem liggur fyrir í þessum málum. Frv. þetta var frá stjórnarandstöðu og þess vegna ekki umræðuhæft þótt stjórnarliðar hafi vaknað upp við það að e.t.v. væru húsbréf ekki svo galin hugmynd.
    Svo að ég vitni í áðurnefnt frv. njóta dönsk húsbréf mikils trausts meðal almennings þar í landi og eru það aðallega bankar og tryggingafélög sem geyma lánsfé sitt í húsbréfum. Svo segir í greinargerð, með leyfi forseta:
    ,,Það sem hefur einkennt íslenska húsnæðislánakerfið mörg undanfarin ár er óstöðugleiki og sífelld fjárvöntun. Húsnæðislánakerfið er algjörlega á vegum ríkisins og hefur sem slíkt alla tíð verið bitbein stjórnmálamanna sem eru sífellt að gera á því breytingar. Það fjármagn, sem húsnæðislánakerfið byggir á, kemur aðallega frá ríkissjóði með beinum framlögum í fjárlögum, oft gegnum erlendar lántökur, og í seinni tíð frá lífeyrissjóðunum gegnum skuldabréfakaup þeirra af byggingarsjóðum ríkisins.``
    Í nágrannalöndum okkar eru mörg góð kerfi sem hafa gengið upp. Vegna þess er frv. sem slíkt í rétta átt en það er ekki fullnægjandi. Ég vil nefna að í 68. gr. í nýja frv. er talað um húsbréf sem gefin eru út samkvæmt þessum kafla og að vextir af þeim og verðbætur eru undanþegin skattlagningu á sama hátt og spariskírteini ríkissjóðs.
    Hér er enn verið að ganga í öfuga átt varðandi vaxtamun og eignarskatta. Bendi ég á að með þessu er verið að stuðla að því að hver einasti maður sæki um að fá lán eftir þessu kerfi því það er ódýrara og hagstæðara að safna skuldum og fá lán í húsbréfakerfinu eða kaupa ríkistryggð skuldabréf en að eiga skuldlausa húseign.
    Það er orðið svo að einstaklingur sem kominn er yfir ákveðið eignarmark, eins og menn vita, borgar orðið 3% í eignarskatt auk fasteignaskatta þannig að hann er farinn að greiða verulegar upphæðir af skuldlausum eignum. Taki hann hins vegar lán samkvæmt þessum lögum gefur auga leið að hann er að taka mun hagstæðari lán samkvæmt núverandi kerfi og þar að auki getur hann ávaxtað lánið ef hann væri svo forsjáll að geyma peninga í ríkisskuldabréfum með þeim hætti að geta grætt á málinu.

    Því miður hefur þessi ríkisstjórn sem nú situr komið illa við húsbyggjendur vegna skattaálagningar sinnar í tengslum við afgreiðslu fjárlaga sem leitt hefur til hærri byggingarkostnaðar.
    Það er von okkar í Frjálslynda hægri flokknum að sem flestar fjölskyldur og einstaklingar í þjóðfélaginu eignist sitt eigið húsnæði. Verði frv. samþykkt, hvað verður þá um þetta fólk, sem er yfir 10 þúsund manns, sem bíður eftir úrlausn Húsnæðisstofnunar? Hvað skeður á fasteignamarkaðinum? Fer íbúðaverð ekki upp úr öllu valdi og þensla eykst? Húsbankar, eins og t.d. í Danmörku, virðast miða lán og afborganir við greiðslugetu hvers og eins. Hlýtur það að vera grundvallaratriði. Það er engin spurning, þessu kerfi þarf að breyta þannig að það miði að einhverju öðru en að leggja þyngri og meiri byrðar á unga fólkið, aðallega það unga fólk sem er að koma sér upp þaki yfir höfuðið, því að stöðugar peningaáhyggjur fólks er álag á hverja fjölskyldu sem þarf að leggja á sig meiri og meiri vinnu, bæði til að halda þeirri eign sem það er að reyna að eignast og geta greitt af dýrum skammtímalánum. Og að endingu kemst þetta fólk í þrot þegar lánin eru orðin svo mörg að það ræður ekki við neitt. Vegna þess má ekki flana að neinu. Þetta kerfi okkar í dag er meingallað.
    Meðalbiðtími er nú 34 mánuðir eftir láni frá Húsnæðisstofnun. Teljum við í Frjálslynda hægri flokknum, eins og ég hef áður sagt, að þessu frv. hæstv. félmrh. beri að vísa til ríkisstjórnarinnar sem gæfi sér sumarið til að fullvinna málið og koma okkur út úr þeim ógöngum sem við búum við í húsnæðismálum.