Húsnæðisstofnun ríkisins
Mánudaginn 08. maí 1989

     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir):
    Herra forseti. Það hefur ýmislegt verið sagt í þessum umræðum um frv. sem hér er til umfjöllunar sem ástæða er til að fara um nokkrum orðum þó að nokkuð sé liðið á nóttina.
    Ég vil fyrst, herra forseti, áður en ég vík að þeim fyrirspurnum sem til mín hefur verið beint, víkja að því sem aftur og aftur hefur komið fram hér í máli manna, að verið sé að keyra í gegn þetta frv. og vitna til þess að hér sé um óvönduð vinnubrögð að ræða. Í því sambandi, herra forseti, tel ég ástæðu til þess að rifja upp í örfáum orðum undirbúninginn og aðdragandann að frv.
    Frá ágúst 1987 til desemberloka var unnið að setningu löggjafar sem takmarkaði mjög sjálfvirknina í húsnæðislánakerfinu. M.a. kom sú lagfæring í veg fyrir að gefin væru út bindandi loforð langt fram í tímann sem áætla má að hefðu bundið fjármagn húsnæðiskerfisins til 1993 og ráðstafað þannig 20 milljörðum meira fram í tímann en við nú höfum gert. Ljóst má því vera að hefði það ekki komið til hefði tekið miklu lengri tíma að koma á breytingu á húsnæðislánakerfinu. Einnig var í samræmi við þá löggjöf hætt að taka við umsóknum frá þeim sem áttu fleiri en eina íbúð fyrir og einnig þeirra sem voru að minnka við sig úr stærri eign. Þessi lagabreyting tók mun lengri tíma en ætlað var og varð hún að lögum fyrir áramótin 1987. Þetta var undanfari frv. sem við ræðum hér.
    Í janúarmánuði 1988 var skipaður vinnuhópur undir forustu Kjartans Jóhannssonar til þess að gera tillögur um þá kosti sem fyrir hendi voru um framtíðarskipan almenna húsnæðislánakerfisins. Þessi hópur skilaði niðurstöðu 23. mars 1988.
    Fundir voru síðan haldnir með forseta ASÍ og formanni VSÍ um hvernig staðið skyldi að framhaldi málsins. Samráð var einnig haft við stjórnarflokkana og stjórnarandstöðu um þá tilhögun. Í framhaldi af því var í byrjun maí 1988 skipuð nefnd með aðild fulltrúa allra stjórnmálaflokka á þingi og aðilum vinnumarkaðarins sem hafði það verkefni að gera tillögur um skipan hins almenna húsnæðislánakerfis með hliðsjón af þeirri leið sem starfshópur um sama efni mælti með í álitsgerð dags. 23. mars 1988.
    Síðla í október þegar nefndin var um það bil að ljúka störfum óskaði forseti ASÍ, sem átti sæti í þeirri nefnd, eftir því að nefndin fengi frest til þess að skila tillögum sínum til ráðherra þar sem hann taldi að hann þyrfti svigrúm til þess að kynna málið á ASÍ-þingi. Þetta tafði málið nokkuð, en 12. des. 1988 skilaði nefndin af sér og varð niðurstaðan sú að fimm af sex stjórnmálaflokkum sem þátt höfðu tekið í þessu starfi mæltu með húsbréfum ásamt fulltrúa VSÍ. Ýmsir aðilar skiluðu þó sérstökum bókunum og fyrirvörum um ákveðna þætti málsins. Fulltrúi Framsfl. og ASÍ skiluðu séráliti.
    Þessi niðurstaða var síðan kynnt í ríkisstjórninni um miðjan desember sl. Niðurstaðan varð þá sú að skipa sérstaka ráðherranefnd til þess að fara yfir niðurstöður nefndarinnar. Ráðherranefndin hélt þrjá

fundi og skilaði af sér í byrjun janúar þar sem gerðar voru tillögur um nokkrar breytingar frá tillögum nefndarinnar. Samþykkt var í ríkisstjórninni að senda málið til meðferðar í þingflokkum. Það var í kringum miðjan janúar sl.
    Þingflokkarnir höfðu síðan málið til meðferðar í þrjá mánuði áður en það var lagt fram sem stjfrv. á Alþingi. Áhersla var á það lögð við forustumenn stjórnarflokkanna að tíminn yrði nýttur í janúar af þingflokkunum til að fjalla um málið og niðurstaða gæti legið fyrir þegar þing kæmi saman um mánaðamótin janúar--febrúar. Af því varð ekki og það seinkaði mjög framlagningu málsins hér á þingi.
    Félmrn. hefur staðið fyrir víðtækri kynningu á frv. og hafa verið haldnir um 20 fundir með ýmsum aðilum, sérstaklega samtökum launafólks. Má þar nefna Verkamannasambandið, miðstjórn ASÍ, BSRB, BHM, Landssamband verslunarmanna, Landssamband iðnverkafólks, Landssamband iðnaðarmanna, svo að dæmi séu tekin. Einnig hefur verið kallað til Félag fasteignasala, Verktakasambandið og fleiri aðilar. Áður hafði málið þó verið sérstaklega kynnt af hálfu ráðuneytisins í húsnæðismálastjórn. Frv. var síðan kynnt fyrir félagsmálanefndum deildanna áður en það var lagt fram hér á Alþingi.
    Haldinn var síðan sérstakur kynningarfundur um húsbréfin með fjölmiðlum. Fjórir sérfræðingar hafa af hálfu ríkisstjórnarinnar yfirfarið málið með tilliti til áhrifa húsbréfakerfisins á fasteigna- og verðbréfamarkaðinn. Jákvæð niðurstaða liggur fyrir frá þessum sérfræðingum.
    Ég taldi ástæðu til þess, herra forseti, að rifja þetta upp í eins stuttu máli og mér var unnt til þess að sýna fram á að til undirbúnings frv. hefur verið vandað eins og kostur er og könnuð áhrifin af þessu kerfi sem við hér ræðum einmitt á peninga- og fasteignamarkaðinn en fram hefur komið hér í kvöld að kallað hefur verið eftir áliti með frv. sem sýni áhrif þess á peninga- og fasteignamarkaðinn. Mér er það nokkurt undrunarefni að það skuli koma fram frá fulltrúum félmn. að það vanti öll álit um áhrif þessa kerfis á peningamarkaðinn þar sem áhersla var á það lögð af hálfu félmrn. að fulltrúar í félmn. fengju öll gögn málsins í hendur sem unnin höfðu verið í ráðuneytinu,
þar á meðal um ýmis áhrif að því er varðar vaxtaþátt frv. á greiðslubyrði fólks og einnig þetta sérfræðiálit sem ég hef hér nefnt sem enginn hefur séð ástæðu til að nefna við þessa umræðu, heldur hefur aftur og aftur verið kallað eftir því að það vanti að kanna áhrifin á peningamarkaðinn.
    Ég tel í þessu sambandi, herra forseti, ástæðu til þess að fara örfáum orðum um álitsgerð sérfræðinga, sem könnuðu þetta mál af hálfu ríkisstjórnarinnar, um áhrif á fasteigna- og fjármagnsmarkaðinn, en þeir voru Birgir Árnason, aðstoðarmaður viðskrh., Már Guðmundsson, aðstoðarmaður fjmrh., Ingvar Kristinsson, hagfræðingur í Seðlabankanum, og Þorsteinn Ólafsson, efnahagsráðgjafi ríkisstjórnarinnar.
    Í áliti sérfræðinganna kemur fram varðandi áhrif

kerfisins á peninga- og fasteignamarkaðinn að ætla megi að það auki stöðugleika og lækki fasteignaverð, að það lækki útborgunarhlutfall, það stuðli að lækkun vaxta, það hafi jákvæð áhrif á peninga- og fasteignamarkaðinn og að minni verðsveiflur verði á fasteignamarkaðnum. Þessu til viðbótar vil ég benda á að í áliti Landssambands iðnaðarmanna kemur fram að húsbréfakerfið muni bæta skipulag framkvæmda og lækka byggingar- og fjármagnskostnað íbúða.
    Ég tel ekki ástæðu til þess að eyða tímanum þegar svo langt er liðið á nóttu til að fara nákvæmar í þetta álit, en ég vil þó benda hv. þm. sem ekki hafa starfað í nefndinni á að þetta álit liggur fyrir sem hver og einn gæti þá kynnt sér. Ég tel því nokkuð ómaklegt þegar sagt er að ekki hafi verið leitast við að kanna eins og kostur er áhrif þess á peninga- og fasteignamarkaðinn.
    Ég bendi líka á það, af því að það hefur verið kallað eftir því að það vanti umsögn og álit Seðlabanka Íslands á frv., að þegar frv. var í vinnslu í þeirri nefnd sem undirbjó það var einmitt leitað eftir umsögn Seðlabanka Íslands á þessu húsbréfakerfi og Seðlabanki Íslands fékk frv. þá til yfirlestrar og þar kom Seðlabankinn fram sínum athugasemdum m.a. Einnig kom á fund nefndarinnar, er mér kunnugt, Eiríkur Guðnason, lögfræðingur Seðlabanka Íslands, og Bjarni Bragi Jónsson, hagfræðingur Seðlabanka Íslands, þar sem einmitt var leitað eftir því af hálfu nefndarmannna að fá fram afstöðu þeirra til áhrifa frv. á peningamarkaðinn. Er mér ekki kunnugt um annað en að afstaða þessara fulltrúa Seðlabankans í þessu efni hafi verið jákvæð. Þetta taldi ég nauðsynlegt að kæmi fram út af þessu atriði málsins.
    Ég vil þessu næst víkja að ýmsu því sem fram hefur komið og fyrirspurnum sem til mín hefur verið beint. Ég vil byrja á því að fara nokkrum orðum um þá brtt. sem liggur hér frammi frá Ólafi Þ. Þórðarsyni um það að leitað skuli heimildar Alþingis á lánsfjárlögum fyrir útgáfu húsbréfa. Hv. þm. bar fyrir sig 40. gr. stjórnarskrárinnar sem hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,Engan skatt má á leggja né breyta né af taka nema með lögum. Ekki má heldur taka lán, er skuldbindi ríkið, né selja eða með öðru móti láta af hendi neina af fasteignum landsins né afnotarétt þeirra nema samkvæmt lagaheimild.``
    Ástæða er til þess að fara um þetta nokkrum orðum.
    Ég bendi á það í fyrsta lagi að Alþingi hefur falið ákveðnum stofnunum með sérlögum tiltekin verkefni og heimilað þeim starfsemi, þar með taldar lántökur sem eru með ríkisábyrgð, til þess að sinna sínum verkefnum. Má þar einkum nefna ríkisbankana og húsnæðislánasjóðina. Það er þannig að ríkisbankarnir gefa út bankabréf, bæði til einstaklinga og til fyrirtækja, sem eru með ótakmarkaðri ríkisábyrgð, og allar inneignir á sparisjóðsbókum eru auðvitað líka með ríkisábyrgð. Þar er þó ekki um að ræða að þar liggi fyrir einhver bein heimild frá Alþingi um ákveðna upphæð í því efni, heldur hefur Alþingi gefið

út sérlög, t.d. að því er varðar ríkisbankana þar sem heimiluð er slík ríkisábyrgð.
    Ég vil einnig nefna í þessu sambandi varðandi erlend lán sem ríkisbankar taka til að endurlána atvinnufyrirtækjum að þar er í fæstum tilfellum um formlega lagaheimild að ræða til lána. Og sá útistandandi stokkur endurlána er núna um 30 milljarðar kr. Síðan er auðvitað ástæða til þess að nefna það varðandi lántökur lífeyrissjóðanna hjá húsnæðismálastjórn að þar hefur ekki verið talin ástæða til þess að afla heimildar Alþingis á lánsfjárlögum fyrir þeim lántökum sem þó eru frá lífeyrissjóðunum í húsnæðislánakerfið.
    Fleira má auðvitað nefna, sem ég er ekkert að mæla bót, sem eftir á er samþykkt af Alþingi eins og aukafjárveitingar og fleira. Þannig að ef menn vilja skoða þetta mál tel ég að menn eigi að skoða það í heild sinni og nefni þar sérstaklega bankana sem eru sambærilegir við það sem ég er að nefna hér og ef frv. um húsbréf er samþykkt hér á Alþingi er raunverulega komin lagastoð í sérlögum um ríkisábyrgð sem yrði þá í þessu tilfelli að finna í sérlögum um húsbréf. Hér er ekki um bein útlán að ræða, heldur einungis ríkisábyrgð. Þetta taldi ég nauðsynlegt að fram kæmi, herra forseti, að því er þetta ákveðna atriði varðar.
    Því næst vil ég víkja nokkrum orðum að því sem fram kom í máli hv. þm. Geirs H. Haarde. Hv. þm. Geir H. Haarde nefndi það réttilega að forsenda þess að húsbréfakerfið gæti gengið eðlilega fyrir sig væri að farið yrði út í það að afnema kaupskyldu lífeyrissjóðanna í áföngum. Í því frv. sem nefndin skilaði
af sér var gert ráð fyrir að það skref yrði stigið að kaupskyldan yrði lækkuð niður í 47%. Í því samkomulagi sem gert var milli stjórnarflokkanna í þessu máli og fram kemur í 1. gr. frv., þar sem lífeyrissjóðunum er heimilað að uppfylla hluta af kaupskyldu sinni með húsbréfum, tel ég að í raun hafi verið gengið lengra í þessa átt en fram kom hjá nefndinni vegna þess að í því samkomulagi er gert ráð fyrir að lífeyrissjóðunum verði heimilað að kaupa húsbréf fyrir 10% af ráðstöfunarfé sínu, þannig að kaupskyldan í núverandi kerfi yrði þar af leiðandi 45%. Hér er því stigið skrefinu lengra í að afnema kaupskylduna en var í frv. Auðvitað er svo ekkert sem kemur í veg fyrir það, ef lífeyrissjóðirnir svo kjósa, að keypt sé húsbréf fyrir meira af ráðstöfunarfénu en hér kemur fram.
    Hv. þm. Geir H. Haarde ræddi nokkuð vaxtakjörin í núverandi kerfi og vaxtakjörin í húsbréfakerfinu. Ég tel ástæðu til þess að nefna það, kannski ekki síður vegna orða hv. 2. þm. Austurl., að í frv. er kveðið á um það í greinargerð að útlánsvextir Byggingarsjóðs ríkisins verði að taka mið af þeim vöxtum sem samið er um við lífeyrissjóðina vegna skuldabréfakaupa. Þetta ákvæði kom inn í greinargerðina eftir að þrír ráðherrar á vegum ríkisstjórnarinnar höfðu farið yfir einstaka þætti í þessu máli. Þeir þrír ráðherrar voru ásamt mér Guðmundur Bjarnason heilbrrh. og

Steingrímur J. Sigfússon samgrh. Það var því samdóma álit þessara ráðherra sem síðan var kynnt í ríkisstjórninni og síðan lagt fyrir stjórnarflokkana að þetta ákvæði yrði með þessum hætti í greinargerðinni.
    Ríkisstjórnin hefur samþykkt ákveðna útfærslu að því er þennan þátt mála varðar sem ég vil leyfa mér að lesa, með leyfi forseta:
    ,,Í frv. er kveðið á um að útlánsvextir Byggingarsjóðs ríkisins verði að taka mið af þeim vöxtum sem samið er um við lífeyrissjóðina vegna skuldabréfakaupa. Samkvæmt nýlegu samkomulagi við lífeyrissjóðina eru þeir vextir 6% frá apríl til júníloka og frá 1. júlí til desemberloka 5%. Nú þegar eru vextirnir orðnir 5% á þeim hluta sem miðaður eru við ECU-bindingu.
    Ríkisstjórnin stefnir að því að vaxtamunur á teknum lánum hjá lífeyrissjóðunum og útlánum Byggingarsjóðs ríkisins í núverandi húsnæðislánakerfi verði ekki meiri en 0,5--1% og verða vextir af útlánum Byggingarsjóðs ríkisins lægri sem þeim mismun nemur. Vextir af útlánum Byggingarsjóðs ríkisins hækka ekki fyrr en húsbréfakerfið tekur gildi og verða þá ekki hærri en 4--4 1 / 2 %. Ríkisstjórnin hefur ákveðið að hækkun vaxta hjá Byggingarsjóði ríkisins verði ekki afturvirk.``
    Ég tel að þetta sem ég hef hér lesið og ríkisstjórnin hefur samþykkt tali sínu máli og þurfi raunar ekki útskýringar við. Eins og hv. þm. vita eru útlánsvextir í núverandi kerfi ákveðnir í ríkisstjórninni að fenginni tillögu húsnæðismálastjórnar og félmrh. og þarf þá væntanlega ekki að fara um það fleiri orðum.
    Um það hvort vextir af útlánum Húsnæðisstofnunar í núverandi kerfi eigi svo að haldast óbreyttir um einhvern tiltekinn tíma er auðvitað ríkisstjórnarinnar að ákveða, en sú stefna sem hún hefur markað í þessu efni er það sem máli skiptir, að vaxtamismunurinn af teknum lánum og veittum hjá Byggingarsjóði ríkisins verði ekki nema 0,5--1%. Og auðvitað hlýtur ríkisstjórnin að fylgja þeirri stefnu sinni að stefna að því að almennir vextir lækki og raunvextir lækki, og gangi það eftir þarf enginn að óttast það að þeir vextir af útlánum húsnæðislánakerfisins þurfi að breytast neitt frá því sem hér er gert ráð fyrir.
    Hv. þm. Geir H. Haarde gerði nokkuð mikið úr því að þar sem vaxtamunurinn væri, annars vegar markaðsvextir í húsbréfakerfi og svo vextir í núverandi kerfi sem væru miðaðir við þennan vaxtamismun sem ég tiltók, mundi það leiða til þess að enginn mundi vilja fara í húsbréfakerfið, allir mundu sækjast eftir því áfram að vera í biðröðinni eftir niðurgreiddum lánum. Ég tel að hv. þm. hafi gleymt að draga eitt inn í þessa mynd sína, að lánshlutfallið í húsbréfakerfinu er hærra en í núverandi kerfi, og ég hygg að íbúðakaupendur og húsbyggjendur hljóti að meta það einhvers þegar þeir bera saman þessi tvö kerfi. Sem sagt, hér munar töluvert miklu. Og það er einmitt svo, sem er kannski einn af kostunum við þetta kerfi, að fólk þarf í miklu minni mæli að leita eftir skammtímalánum í bönkum í húsbréfakerfinu en í núverandi kerfi, og mér finnst

það nokkuð vanmetið í þeirri umræðu sem hér hefur farið fram, vegna þess að varðandi þau greiðsluerfiðleikalán sem við höfum búið við síðan 1985, sem eru nú orðin á þriðja milljarð, má að miklu leyti rekja erfiðleikana einmitt til þess að fólk hefur fyrstu árin þurft að taka svo stóran hluta af sínu láni sem dýr skammtímalán í bönkum. Þetta finnst mér menn vanmeta mjög mikið. Í greinargerð frá Húsnæðisstofnun kemur fram að meðalvanskil hjá þeim sem hafa leitað eftir greiðsluerfiðleikaláni eru 2,8 millj. kr. og 1800 þús. kr. af því eru vegna þessara skammtímalána í bönkum og lána sem fólk þarf að taka hjá lífeyrissjóðunum. Þetta eru heildarskuldirnar. Vanskilin voru hins vegar um 540 þús. hjá þessu fólki, meðalvanskil, og um 480 þús. kr. af þessum vanskilum voru vegna þessara skammtímalána. Ég hygg að hér geti orðið töluvert
mikil breyting á þegar fólk fær 65% af verði íbúðarinnar lánuð gegnum húsbréfakerfið. Þetta tel ég að sé nauðsynlegt að draga með inn í myndina þegar menn eru að bera saman einhvern mismun á vöxtunum í þessu kerfi.
    Ég vil líka, herra forseti, nefna það að hér hefur félagslega kerfið mjög verið dregið fram og hér var t.d. lesið upp af hv. þm. Stefáni Valgeirssyni bréf frá átta samtökum sem láta sig húsnæðismál varða þar sem dregin er dökk mynd af félagslega kerfinu og sagt að ekkert hafi verið í því gert. Ég tel að þetta sé langt frá því að vera rétt og minni á tvennt í því sambandi eða raunverulega þrennt. Við höfum hér á síðasta þingi samþykkt lög um kaupleiguíbúðir sem ég tel að hafi breytt mjög miklu, bæði fyrir landsbyggðina og eins fyrir þessi félagasamtök, t.d. Búseta sem fékk sína lánafyrirgreiðslu til þeirra 46 íbúða sem hér voru byggðar gegnum kaupleigukerfið.
    Ég minni líka á það að fjármagn var á milli áranna 1987 og 1988 tvöfaldað, úr rúmum milljarði í 2,2 milljarða, og á sl. ári fóru af stað um 800 íbúðir í félagslega kerfinu.
    Ég minni einnig á það, af því að hér hefur verið nefnt að ekkert hafi verið gert í þessu félagslega kerfi, að um átta mánaða skeið hefur starfað nefnd á mínum vegum sem hefur verið að skoða þá vankanta sem hafa komið upp á félagslega kerfinu. Þessi nefnd hefur núna skilað mér skýrslu um þá úttekt sem hún hefur gert í þessu efni. Hún er mjög fróðleg og ég tel nauðsynlegt að sú nefnd sem nú verður skipuð í framhaldi af þessari vinnu fái þessa skýrslu til meðferðar og ég tel að það muni verulega flýta fyrir öllu hennar starfi. Þar kemur fram það álit að núverandi fyrirkomulag félagslegrar aðstoðar í húsnæðislánakerfinu sé ýmsum annmörkum háð og þurfi að taka til endurskoðunar. Þar er lögð sérstök áhersla á að við stefnumótun stjórnvalda verði sett fram skýr markmið. M.a. er bent á gildi þess að leggja til grundvallar viðmiðun um húsnæðiskostnað fjölskyldunnar sem ákveðið hlutfall af tekjum. Lögð er sérstök áhersla á þann skilning á jafnrétti í húsnæðismálum að aðstoð hins opinbera sé óháð eignarhaldsformi og að jöfnuður sé í þessu tilliti milli

þeirra sem búa í eigin húsnæði og leigjenda. Það er bent á að núverandi fyrirkomulag hafi ýmsa ókosti. Bent er á að sá háttur sem nú er hafður á við að veita félagslega aðstoð vegna útvegunar eigin húsnæðis og fer fram á vegum stjórnar Verkamannabústaða er á margan hátt ómarkviss og erfiður í framkvæmd. Hið sama gildir um það fyrirkomulag að tengja aðstoðina við niðurgeidda vexti sem fylgja sérstökum íbúðum. Vinnuhópurinn telur að binda eigi opinberar aðgerðir til jöfnunar á húsnæðiskostnaði við aðstæður einstaklinga hverju sinni en ekki ákvarða aðstoðina á grundvelli tekna heimilisins á einum tímapunkti. Athugun á tekjum íbúa í verkamannabústöðum í Reykjavík gefur vísbendingu um að hluti íbúanna sé kominn yfir tekjumörkin eftir nokurra ára búsetu.
    Þetta eru örfá atriði úr ítarlegu áliti þessarar nefndar og hennar niðurstaða er að nauðsyn beri til þess að setja í það vinnu að endurskoða félagslega kerfið með það að markmiði að einfalda fyrirkomulag og auka skilvirkni félagslega íbúðalánakerfisins. Ég tel þá vinnu sem hefur verið lögð í þetta verkefni mjög mikilvæga og tel að hún gefi tilefni til þess að ætla að við það sé hægt að standa sem fram kemur í samkomulagi við Kvennalistann að niðurstöður liggi fyrir 1. nóv. nk.
    Ég vil ekki tímans vegna tefja hér mjög mikið. Það hefur verið bent á að allar upplýsingar að því er varðar innri fjármögnun í húsbréfakerfinu vanti. Það kemur einnig fram í því sérfræðiáliti sem enginn hefur talið ástæðu til þess að nefna og ég nefndi hér. Hér er auðvitað um áætlun að ræða og þar er gert ráð fyrir að innbyrðis viðskipti með húsbréf þegar kerfið er komið í fullan gang geti verið um 5 milljarðar kr. og sala húsbréfa á markaði líklega um 3 1 / 2 --4 1 / 2 milljarður kr. Þetta taldi ég einnig ástæðu til þess að nefna hér.
    Ég vil einnig benda á, af því að hjá tveim hv. þm. hefur komið fram gagnrýni á 55. gr. húsbréfafrumvarpsins og það hefur komið fram í máli hv. þm. Geirs H. Haarde að íbúðakaupendur séu gerðir ábyrgir fyrir vanskilum annarra með því að húsbréfadeildinni sé heimilt að áskilja sér vaxtaálag til að mæta útlánatapi, að íbúðakaupendur og húsbyggjendur sem taka lán hjá Húsnæðisstofnun þurfa núna að greiða lántökugjald sem er, að mig minnir, 1,5%. Það lántökugjald þurfa þessir íbúðakaupendur og seljendur ekki að greiða með tilkomu þessa kerfis og það má ætla að þetta vaxtaálag þurfi ekki að vera hærra en það, þannig að hér er ekki verið að auka neitt álögur á íbúðakaupendur og seljendur frá því sem nú er.
    Hér hefur líka verið bent á að í þessu kerfi sé sá forgangur þurrkaður út sem er í núgildandi kerfi. Sá forgangur sem er í núgildandi kerfi er að þeir sem eru í forgangshópi fá lánin sex mánuðum fyrr en aðrir. Ég tel að það geti varla kallast mikill forgangur þegar biðtíminn er svo langur eins og fyrir liggur hér í skjölum þingmanna frá Húsnæðisstofnun, að hann sé kominn í allt að 37 mánuði.

    Nefnt er að verið sé að breyta ráðgjöfinni mjög mikið frá því em nú er. Ég tel það ekki rétt vegna þess að fólk sem fær ráðgjöf fær hana kannski 2--3
árum áður en það fær lánið í núgildandi kerfi, en núna fær það raunverulega ráðgjöf um leið og það tekur lánið eða íbúðaskiptin verða vegna þess að það er Húsnæðisstofnun sem á að meta greiðslugetu viðkomandi, þannig að ég tel að öll ráðgjöf verði miklu skilvirkari og markvissari í þessu kerfi en í núverandi kerfi. Það er talað um að engin félagsleg sjónarmið séu í húsbréfakerfinu. Ég vil nú benda á þann þátt sem snýr að vaxtabótum sem er auðvitað félagslegur þáttur í þessu húsbréfakerfi, en þar er vaxtaniðurgreiðslunni stýrt í þennan farveg sem heitir vaxtabætur og tekur mið af eignum og tekjum viðkomandi. Þar er því vissulega um félagslegan þátt að ræða.
    Ég skal ekki eyða tíma deildarinnar mikið lengur. Ég vil þó vitna til þess að í ýmsum umsögnum sem liggja fyrir og félmn. fékk er að finna mjög mörg jákvæð álit frá ýmsum aðilum sem styðja það að það beri að taka upp þetta húsbréfakerfi. Ég nefni t.d. álit frá Verkamannasambandi Íslands. Ég nefni álit frá Landssambandi lífeyrissjóða. Ég nefni álit frá BHMR sem einmitt telur að að því er þeirra félaga varðar muni húsbréfakerfið geta breytt miklu þar sem það er ekki bundið við lífeyrissjóðsaðild en það hefur háð einmitt mörgum sem eru að koma úr námi að lán sé bundið við lífeyrissjóðsaðild. Þeir segja að frá þjóðhagslegu sjónarmiði geti húsbréfakerfið öfugt við núgildandi kerfi gert innri fjármögnun alls húsnæðislánakerfisins mögulega með verðtryggðum markaðshæfum skuldabréfum og kerfið hafi þann meginkost að það geti staðist til lengri tíma og við stöndum ekki frammi fyrir sama fármögnunarvanda eftir stuttan tíma. Síðan segja þeir að í húsbréfakerfi eigi allir með sömu greiðslugetu jafna möguleika á að fá lán. Kröfur um aðild að lífeyrissjóði falli niður, skömmtunarkerfi sé lagt af. Þetta muni í reynd auka möguleika langskólagenginna á að fá raunhæfa aðstoð við öflun lána til húsnæðiskaupa.
    Fleira gæti ég nefnt hér en ég tel auðvitað ástæðu til þess miðað við þær umræður sem hér hafa orðið, sem þeir sem ekki mundu til þekkja gætu dregið þá ályktun af að allar umsagnir og álit sem félmn. hefði fengið í þessu efni hafi verið neikvæðar, engin tilraun hafi verið gerð til að kanna áhrifin á peninga- og fasteignamarkaðinn. Þetta hefur komið mjög mikið fram í þessari umræðu. Þess vegna tel ég auðvitað nauðsynlegt að það komi hér inn í þessa umræðu að þetta er ekki rétt.
    Ég tel, herra forseti, ekki ástæðu til þess, nema tilefni gefist til, að hafa fleiri orð um þetta mál og læt máli mínu lokið.