Húsnæðisstofnun ríkisins
Mánudaginn 08. maí 1989

     Frsm. 3. minni hl. félmn. (Alexander Stefánsson):
    Herra forseti. Það fór sem mig grunaði að litlar upplýsingar kæmu í inngripi hæstv. ráðherra hér í þessari umræðu enda er sjálfsagt fátt um svör.
    Ég vil aðeins segja það til að byrja með í sambandi við það sem hæstv. ráðherra sagði um brtt. á þskj. 1057 frá hv. 2. þm. Vestf. að það er náttúrlega algjör smekkleysa að halda því fram að brtt. sem er á þessu þskj. hafi ekki lagagildi. Það liggur alveg ljóst fyrir að tillagan gerir ráð fyrir því að leitað verði heimildar Alþingis í lánsfjárlögum fyrir heildarupphæð útgefinna húsbréfa á ári hverju. Þetta er öllum ljóst og við vitum það í sambandi við afgreiðslu lánsfjárlaga á hverju ári að þá er skýrt afmarkað í þeirri afgreiðslu hvaða lánsheimildir eru fyrir byggingarsjóði ríkisins, bæði að því er varðar Byggingarsjóð verkamanna og Byggingarsjóð ríkisins. Það er tiltekið hvaða heimildir liggja fyrir lántöku og hvernig og frá hverjum. Þetta er því útúrdúr sem bætir ekki málið og af því að hv. 2. þm. Vestf. er hér ekki til staðar taldi ég rétt að vekja athygli á þessu, að brtt. hefur lagagildi þannig að það verður auðvitað borið undir atkvæði til að sjá hver úrslit verða.
    Ég átti í sjálfu sér ekki von á því að hæstv. ráðherra svaraði þeim spurningum sem ég lagði fram. Ég vil þó segja það í sambandi við það sem hér kom fram að þar sem hæstv. ráðherra var að tala um það að forgangur fólks sem ég held fram að sé þurrkað út í sambandi við lögin um húsbréf, það er alveg ljóst, var það réttlætt með því að fólk fengi svo miklar bætur í gegnum þessi vaxtalög sem við eigum eftir að fjalla um að það jafngildi þessm forgangi. Jafnframt lét hæstv. ráðherra að því liggja að biðtími í húsnæðiskerfinu væri núna 37 mánuðir. Auðvitað er þetta rangt. Við vitum það öll sem hér erum inni að þetta er rangt. Það þarf ekki annað en að vísa í greinargerð frá fimm stjórnarmönnum í Húsnæðisstofnun ríkisins sem setja nákvæmlega upp hvað það er sem þessi biðtími er og það hefur hvergi nokkurs staðar komið fram að það hafi verið gerð ein einasta tilraun til þess að sanna hvað á bak við fullyrðingar um þennan langa biðlista býr, flokka það niður og sýna fram á hvernig það er. Húsnæðisstofnun tekur við umsóknum og þær eru skráðar inn á tölvu þegar þær koma en það er algjörlega óunnið sem þarf að gera til þess að kanna það hvað er á bak við þessar umsóknir. Það hefur ekki verið gert. Og ég hef beinan aðgang að Húsnæðisstofnun um þetta atriði. Þannig að það þýðir ekkert að vera að sletta svona löguðu fram að það séu 36 eða 37 mánuðir, eins og kom hér fram í fskj. frá Húsnæðisstofnun sem svar við spurningum eins hv. þm. Þetta er blekking. Það er ekkert að marka þessi svör sem þarna liggja, ekki nokkurn skapaðan hlut.
    En ég ætla ekki að fara út í þessa sálma en mig langar til þess, þegar verið er að ræða um þetta nýja húsbréfakerfi sem á að bera markaðsvexti og vera í því formi sem það er þannig að allir eiga að geta fengið aðgang að því kerfi hvort sem þeir þurfa á

húsnæðisláni að halda eða ekki, það er fyrst og fremst fyrir stóreignafólk eins og hér hefur verið sagt áður --- vegna þessa máls þegar verið er að ræða um þessa innri fjármögnun, ég ætla ekki að tefja þingið með því að ræða það nánar, að benda á þetta: Hvar skyldi þetta blessað fólk þurfa að fá þessi 35% sem það þarf að borga út um leið og það gerir samning, til þess að geta lagt fram samning til þess að láta meta til húsbréfaskipta? Ætli það séu allir þannig í þjóðfélaginu í dag að þeir geti snarað út 35% kontant-greiðslu til þess að ná slíkum samningi fram til þess að geta notað hann til þess að sækja um lán. Ég er ansi hræddur um að það komi einhver kostnaður sem er greiðslubyrði á fólk í sambandi við þessa lántöku eins og það er í sambandi við hluta af þeim kostnaði sem það ber uppi þegar það gerir samning um kaup á íbúð sem er kannski með 70 eða 75% útborgun á árinu. Þetta mál er því óuppgert alveg eins og öll önnur atriði sem hér hefur verið talað um. Það er verið að vísa í einhverja sérstaka nefnd, fjögurra sérfræðinga sem kallaðir eru, við þekkjum þá sérfræðinga. Og hvað ætli þeir hafi lagt sig mikið fram um að sanna sitt mál. Ég hef lesið þetta yfir og ég sé ekki betur en að það gæti verið svona og það gæti verið svona og það gæti virkað svona ef þetta verður svona o.s.frv. En sérfræðingavinnan á bak við þá og skýrslurnar sem þar ættu að fylgja eru hvergi til af því að það hefur ekki verið þannig unnið.
    Ég hef tekið einn af þessum fjórmenningum í karphúsið og spurt hann út úr um það hvernig vinna hafi verið lögð í þetta. Hvaða vinna er á bak við þetta? Auðvitað fékk ég það sem ég þurfti að vita: Það var engin vinna á bak við þetta. Þetta var bara pantað skjal.
    Um það sem hér hefur komið fram um Seðlabanka Íslands, Þjóðhagsstofnun og Fasteignamat ríkisins vil ég aðeins benda á að eina stofnunin sem sendi svar til félmn. sem hægt er að taka mark á var Fasteignamat ríkisins sem gerði tilraun til þess að sýna fram á hvaða áhrif þessi væntanlegu húsbréf hefðu miðað við þær staðreyndir sem Fasteignamat ríkisins hefur um fasteignamarkaðinn, sennilega það besta í kerfinu.
    Þjóðhagsstofnun sagði einfaldlega að hún treysti sér ekki til þess að gefa svar um þessi áhrif vegna þess að hún hefði ekki þær upplýsingar sem til
þyrfti. Og Seðlabankinn? Það er nú líklega eitthvað annað en að skriflegt svar hafi komið frá Seðlabankanum til félmn. Ég veit ekki betur en að Bjarni Bragi, virðulegur aðstoðarbankastjóri, hafi komið á fund nefndarinnar og það lenti meira í innbyrðis deilum milli manna sem voru gestir nefndarinnar en að það kæmi fram sem hefði átt að koma frá Seðlabankanum. Eiríkur Guðnason, sem er vissulega virtur sérfræðingur í Seðlabankanum, gerði tilraun til að svara nefndinni. Við vildum fá skriflegt svar um þetta. Það skriflega svar kom aldrei og Eiríkur Guðnason upplýsti það að Seðlabankinn, í allri þessari umsýslu um þetta nýja kerfi, hefði aldrei verið beðinn um álit, aldrei, eins og kemur raunar fram í

álitsgerð frá 1. minni hl. félmn.
    Ég gæti farið langt út í þetta en ætli ég geri það til þess að níðast ekki á fólki hér, en ég verð að segja það alveg eins og er að mér þótti furðulegt að leggja hér fram sjö spurningar og fá ekki svar við einni einustu. Og ég met það svo að hæstv. ráðherra hafi engin svör við þessu. Þar með dreg ég þá ályktun að hæstv. ráðherra játi það hér með því að svara ekki að þær fullyrðingar sem hæstv. ráðherra hefur gefið, bæði fyrir unga fólkið, um aðgengi þess að húsbréfakerfinu þar sem það á að geta fengið afgreiðslu á tveimur, þremur vikum --- þetta aðgengi er hvergi til og það er engin skýring til til þess að sanna þetta mál og sama er að segja um blekkingarvefinn sem uppi hefur verið hafður í sambandi við landsbyggðarfólkið. Það er nákvæmlega það sama. Og raunar má segja það um allt þetta sem ég spurði um. Þögnin er auðvitað sama og viðurkenning á því að þetta eru allt saman glansmyndir sem hafa verið settar upp til þess að fá almenning í landinu til að trúa því að þarna sé eitthvað sérstakt á ferðinni alveg eins og ég vitnaði í hér í kvöld að kom fram hjá hv. þm. Kjartani Jóhannssyni í sjónvarpsþætti, það var glansmynd sem hafði enga hnökra og fólk átti að trúa. Og þetta er nákvæmlega það sama og hæstv. ráðherra hefur gert í öllum fjölmiðlum, en sem betur fer er fólk á Íslandi það vel upplýst sjálft að það sér í gegnum svona blekkingar og veit það að þetta kerfi hefur þá annmarka sem eiga eftir að koma betur í ljós, að það veitir ekki almenningi í landinu það öryggi sem verið er að reyna að telja fólki trú um. Það getur það ekki. Kerfið er þannig innbyggt sjálft að það hlýtur að vera þannig. Það eru fasteignasalinn og verðbréfasalinn sem útbúa samninga. Þeir sem geta borgað kontant 35% fá slíka samninga og það getur hver og einn gert það sem vill. Maður sem á 10--20 íbúðir getur fengið jafnmarga samninga um húsbréf ef hvert tilfelli fer ekki upp fyrir 5,5 millj.
    Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta, herra forseti. Ég er búinn að tala mikið um þetta mál og sýna fram á ýmis rök í þessu máli sem óþarft er að endurtaka en ég vil aðeins benda á það að stærstu launþegasamtök þessa lands hafa mælt eindregið gegn samþykkt frv. Þar nefni ég ASÍ, Landssamband ísl. verslunarmanna, Landssamband iðnverkafólks í landinu og ýmis fleiri samtök sem hafa sent inn ákveðin mótmæli gegn þessum áformum.