Húsnæðisstofnun ríkisins
Mánudaginn 08. maí 1989

     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir):
    Herra forseti. Aðeins örfá orð í tilefni ræðu síðasta ræðumanns hér áðan. Hann kastaði því fram hvernig fólk ætti að fara að því að greiða þau 35% sem eftir stæðu þegar fólk hefði fengið lánuð 65% af kaupverði íbúðar. ( AS: Það verður að borga 35% til að geta fengið 65%.) Það er rangt vegna þess að fólki er í sjálfsvald sett að semja við seljandann um hvernig það greiðir þessi 35% og þarf ekki að reiða þau út og það er auðvitað með sama hætti hægt að spyrja hvernig fólk getur staðið undir útborgun núna sem er 75% og það þarf að borga á einu ári. Hún lækkar þó í 35% við þessa breytingu þar sem það fær kannski ekki nema hluta eða helming af því lánað hjá Húsnæðisstofnun.
    Ég tel líka ástæðu til þess að taka fram, herra forseti, vegna Húsnæðisstofnunar sjálfrar sem sumir bera nú mikið fyrir sig hér í umræðunni, að ég tel ekki ástæðu til þess að rengja fram komin gögn frá Húsnæðisstofnun ríkisins sem hér eru skjalfest á borðum þingmanna þar sem fram kemur, með leyfi forseta, út af þeim biðtíma sem hv. þm. mótmælti, orðrétt, ,,að forgangshópur sem sækir um 17. okt. 1987 fær sinn fyrri hluta samkvæmt þessari áætlun 1. júní 1990, bíður því um 31 mánuð eftir láni. Víkjandi hópur sem lagði inn umsókn sama dag fær sinn fyrri hluta í des. 1990 og bíður því um 37 mánuði eftir láni.`` Og hér kemur fram í þessu áliti Húsnæðisstofnunar að tekið hefur verið tillit til affalla af umsóknum, 15--25% affalla, og 3--5% umsókna sem geta fallið úr gildi og skert lán viðkomandi. Ég tel alveg óþarft að vera að rengja hér framlögð gögn af hálfu Húsnæðisstofnunar í þessu máli þar sem þetta kemur skýrt fram.
    Ég vil líka nefna það að hv. þm. segir í sínu áliti að árleg greiðslubyrði af fasteignaveðláni sé mun hærri en af núverandi húsnæðislánum þar sem vextir þeirra bréfa verði hærri og lánstíminn styttri og hér vitnar hann orðrétt í álit Þjóðhagsstofnunar en tekur ekki með setningu sem kemur beint á eftir þar sem segir: ,,Á hitt er þó að líta að fasteignaveðlán yrðu allt að 65% af matsverði íbúða sem er væntanlega mun hærra hlutfall kaupverðs en núverandi húsnæðislán. Þörf fyrir skammtímafjármögnun frá innlánsstofnunum mundi minnka, bæði vegna lækkunar útborgunar og jafnframt vegna þess að í frv. er gert ráð fyrir að biðtími muni styttast.``
    Ég taldi ástæðu til þess, herra forseti, að láta þetta koma hér fram í tilefni orða síðasta ræðumanns.

    Umræðu frestað.