Málefni aldraðra
Þriðjudaginn 09. maí 1989

     Frsm. heilbr.- og trn. (Valgerður Sverrisdóttir):
    Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nál. á þskj. 1101 um frv. til laga um málefni aldraðra. Nál. er frá hv. heilbr.- og trn.
    Nefndin hefur fjallað um frumvarpið á mörgum fundum og fékk til viðræðna um það Þór Halldórsson, yfirlækni á Landspítalanum, Magnús E. Guðjónsson, framkvæmdastjóra Sambands ísl. sveitarfélaga, Ásgeir Jóhannesson frá Sunnuhlíðarsamtökunum, séra Sigurð H. Guðmundsson, Skjóli, Guðrúnu Gísladóttur, Grund, Pétur Sigurðsson, Hrafnistu, og Árna Sigfússon, formann félagsmálaráðs Reykjavíkurborgar. Þá starfaði Dögg Pálsdóttir, deildarstjóri í heilbr.- og trmrn., með nefndinni.
    Nefndin mælir með samþykkt frumvarpsins með breytingum sem fluttar eru á sérstöku þingskjali. Nefndin hefur í brtt. sínum haft hliðsjón af ábendingum frá þeim aðilum sem komið hafa á fund nefndarinnar, auk þess sem gerðar hafa verið breytingar í samræmi við óskir sem fram komu á ráðstefnu Sambands ísl. sveitarfélaga og Öldrunarráðs Íslands um heimaþjónustu sem haldin var 5. maí sl.
    Einstakir nefndarmenn áskilja sér rétt til að flytja og fylgja brtt. sem fram kunna að koma. Ég vil segja það um þá brtt. sem fram hefur komið og er á þskj. 1103 að um hana náðist ekki samstaða í nefndinni.
    Undir nál. rita, auk þeirrar sem þetta mælir, Salome Þorkelsdóttir fundaskrifari, með fyrirvara, Karl Steinar Guðnason, Stefán Guðmundsson, Margrét Frímannsdóttir, Guðrún Agnarsdóttir og Guðmundur H. Garðarsson, með fyrirvara.
    Hæstv. forseti. Ég ætla þá að gera í stuttu máli grein fyrir þeim brtt. sem nefndin leggur til á þskj. 1102. Það er brtt. við 1. gr. Hún skýrir sig að mestu leyti sjálf. Hún er gerð til að skerpa sjálfsákvörðunarrétt aldraðra varðandi eignir og lífeyri.
    Brtt. við 5. gr. er gerð samkvæmt ábendingu frá ráðstefnu Sambands ísl. sveitarfélaga og Öldrunarráðs Íslands og fleirum þar sem það þótti ekki nægilega skýrt í frumvarpinu að öldrunarnefnd væri undirnefnd sveitarfélaga og heilsugæslustöðva. Þá er gerð tillaga um möguleika á fjölgun í nefndinni miðað við það sem kveður á um í frumvarpinu þannig að nefndin geti verið mest sjö manna.
    Þá gerir nefndin tillögu um að í 5. lið 5. gr. falli brott orðin ,,65 ára og eldri`` þannig að kostnaður sveitarfélaga á hverju starfssvæði vegna öldrunarnefnda miðist við íbúafjölda sveitarfélaganna en ekki fjölda 65 ára og eldri þar sem það hefði getað komið óréttlátlega niður á þeim sveitarfélögum sem vista öldrunarstofnanir.
    Síðari brtt. við 5. lið 5. gr. er gerð til að gera félögum sem starfa að málefnum aldraðra á starfssvæðinu mögulegt að eiga áheyrnarfulltrúa í öldrunarnefnd.
    Í brtt. við 6. gr. er gerð tillaga um að opna möguleika á því að þjónustuhópur aldraðra taki að sér hlutverk öldrunarnefndar í stað þess að í frumvarpinu var gert mögulegt fyrir sveitarstjórnir að fela öldrunarnefndum hlutverk þjónustuhóps aldraðra. Því

er sem sagt snúið við. Varðandi síðari brtt. við 6. gr. vísa ég í orð mín áðan.
    Brtt. við 7. gr. gengur í sömu átt og brtt. við 5. gr. Hér er félögum sem starfa í þágu aldraðra gefinn kostur á áheyrn að fundum þjónustuhóps aldraðra í samstarfi við öldrunarstofnanir á starfssvæðinu.
    Í brtt. við 17. gr. er fellt út ákvæði um fjölda íbúa í heimahúsum 65 ára og eldri sem tilheyri hverri þjónustumiðstöð. Þetta ákvæði þótti ívið of strangt. Nefndin var sammála um að fella það niður.
    Í brtt. við 18. gr. er fellt út orðið ,,hjúkrunardeild`` samkvæmt ábendingu frá áðurnefndri ráðstefnu Sambands ísl. sveitarfélaga og Öldrunarráðs Íslands. Ástæðan er sú að segja má að allar deildir geti talist hjúkrunardeildir. Í staðinn er gerð tillaga um að inn komi: hjúkrunarrými á öldrunarstofnunum. Þá var einnig gerð tillaga um að í síðasta málsl. komi inn orðið ,,sjúkrahús`` í stað ,,sjúkradeild``.
    Í brtt. við 20. gr. er gerð tillaga um að ráðuneytinu sé skýrt frá því hverju sinni hver beri ábyrgð á rekstri sameignar og sameiginlegrar þjónustu í sjálfseignar-, leigu- og búseturéttaríbúðum aldraðra. Þetta er einungis til að koma í veg fyrir vandræði sem kynnu að skapast í viðkomandi tilfellum þannig að það liggi fyrir þegar í upphafi hver beri ábyrgð á rekstrinum.
    Svo er það varðandi 30. gr. Í brtt. við 30. gr. er ákvæði um að heilbrmrh. setji þegar eftir gildistöku laganna með reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd þeirra. Það þótti ástæða til að setja þetta ákvæði inn í frv. vegna mikilvægis þess að setning reglugerðar drægist ekki á langinn.
    Í brtt. við 31. gr. er endurskoðunarákvæði sett inn í frumvarpið. Nefndin taldi að vel íhuguðu máli að rétt væri að setja þetta ákvæði inn þar sem málefni aldraðra eru í mjög örri þróun hvarvetna um hinn vestræna heim. Þótt þetta frumvarp sé fyrst og fremst frumvarpið frá 1982, endurskoðað með tilliti
til þeirra breytinga sem verða um næstu áramót á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga, felst í því ný stefna sem þótti ástæða til að yrði endurskoðuð að nokkrum árum liðnum og þess vegna er þessi brtt. gerð við 31. gr.
    Hæstv. forseti. Ég hef þá gert grein fyrir þeim brtt. sem nefndin leggur til á þskj. 1102.