Málefni aldraðra
Þriðjudaginn 09. maí 1989

     Guðrún Agnarsdóttir:
    Virðulegur forseti. Hér er um hið mikilvægasta mál að ræða sem er endurskoðun á lögum um málefni aldraðra. Þetta mál var nokkuð lengi í vinnslu á vegum ráðuneytisins hygg ég, en þó hefur það komið nokkuð seint inn í þingið og við höfum einungis haft það til umfjöllunar í rúman mánuð eins og kom fram í máli hv. 6. þm. Reykn. Það hefur þó verið mjög vel unnið í heilbr.- og trn., haldnir margir fundir um þetta mál og ýmsir aðilar kallaðir fyrir nefndina til ráðuneytis fremur en að senda málið út til umsagnar einmitt vegna þess hve tíminn var naumur. Ýmsu hefur verið breytt eins og kom fram í máli hv. frsm. og er nefndin sammála um þessar breytingar. En það á e.t.v. eftir að sýna sig þegar þessar breytingar eru komnar til framkvæmda að einhverju þurfi að hnika til og breyta frekar eftir því sem reynslan leiðir í ljós.
    Fjöldi aldraðra fer vaxandi og mun fara vaxandi á næstu árum og áratugum hér á landi eins og víða annars staðar í heiminum og einkum þá á Vesturlöndum. Umönnun, þjónusta og allt skipulag málefna aldraðra verður því að vera í stöðugri endurskoðun og nauðsynlegt er að geta aðlagað þjónustuna breyttum þörfum á hverjum tíma, tekið upp nýtt skipulag og hafnað öðru eftir því sem reynslan dæmir og sker úr um.
    Heimaþjónustan er nýr þáttur eða betur útfærður þáttur í þessu frumvarpi þó að hennar hafi einnig verið getið í fyrra frumvarpi. Ég tel að það hefði e.t.v. mátt skilgreina hana nánar og fyrirkomulag hennar. Það var þó ekki gert, einkum vegna þess að sveitarfélögunum er ætlað að annast hana og útfæra þá eftir því sem hentar á hverjum stað. Hún er afar mikilvæg, bæði heilsufarslegi og félagslegi þátturinn, einmitt til þess að stuðla að því að fólk geti dvalið lengur í heimahúsum. Þetta fylgir í kjölfar breyttrar þróunar víða í Vestur-Evrópu þar sem mikil áhersla hefur verið lögð á að styðja einstaklinginn til að vera á heimili sínu eins lengi og kostur er.
    Ég tel einnig að faglegt mat og stuðningur sé mjög mikilvægt fyrir heimaþjónustuna bæði hvað varðar endurhæfingu, því að oft er um að ræða einstaklinga sem með lítilli eða mikilli endurhæfingu geta hæglega komist hjá því að fara inn á stofnun en haldið áfram að vera heima hjá sér, og einnig hvað varðar mat á vistunarþörf.
    Í þessu frumvarpi eru engin sérstök ákvæði í raun um höfuðborgarsvæðið. Þó býr hér um helmingur landsbúa í þéttbýli og gegnir því á ýmsan hátt öðru máli um slíka byggð og þjónustu þar en þjónustu í hinum dreifðari byggðum landsins. Ég tel að það hefði e.t.v. verið skynsamlegra að hafa sérstök ákvæði varðandi höfuðborgarsvæðið. Reykjavík hefur ýmsar áætlanir á prjónunum varðandi breytt skipulag í þjónustu aldraðra og þær falla reyndar mjög vel að efni þessa frumvarps eins og þær voru kynntar fyrir okkur á nefndarfundi og einnig á ráðstefnu sem haldin var meðan á umfjöllun okkar í nefndinni stóð um málið. Þessar hugmyndir eru komnar til framkvæmda á a.m.k. einum stað í borginni, í Bólstaðarhlíð, þar

sem þær hafa vakið mikla athygli og jákvæðar undirtektir. Það verður fróðlegt að fylgjast með því hvernig og hve fljótt þessar hugmyndir komast til framkvæmda annars staðar í Reykjavík. Eitt er víst að þörfin er mikil.
    Í Reykjavík eru fyrirhugaðir þjónustukjarnar í tengslum við heilsugæslustöðvar og þar munu veita sérfræðilega hjálp væntanlega fyrst og fremst heilsugæslulæknar og hjúkrunarfræðingar sem vinna á heilsugæslustöð. Hins vegar verður þjónustuhópurinn í Reykjavík, sá sem sér um faglega vistunarmatið og endurhæfinguna, einungis einn og um hann eiga að gilda sömu ákvæði og almennt um þjónustuhópa eins og segir í 7. gr. frumvarpins. Ég hefði talið ríka ástæðu til að leggja sérstaka áherslu á mikilvægi öldrunarþjónustu og þá sérhæfingar í öldrunarþjónustu, bæði af hálfu þess læknis sem væri í þjónustuhópnum og einnig hjúkrunarfræðings og félagsráðgjafa, einmitt vegna þess hvað það er mikilvægt að fagleg þekking ráði mati á vistunarþörf aldraðra, en reikna má þó með því að þessi sjónarmið verði látin sitja í fyrirrúmi þegar til framkvæmda kemur eins og kom fram í viðræðum við fulltrúa þeirrar nefndar sem hefur skipulagt þetta starf á Reykjavíkursvæðinu.
    Ég ætla ekki að fara út í mjög ítarlega efnislega umræðu um frumvarpið. Það hefur farið fram góð vinna í nefndinni þrátt fyrir nauman tíma eins og ég sagði og ég fagna því góða samstarfi sem þar hefur ríkt. Ég tel það til bóta einmitt vegna þess sem ég hef sagt áður að þó að nefndin hafi unnið vel þá hefur hún í raun haft frv. einungis í tiltölulega stuttan tíma. Þessi mál þurfa að vera í örri framþróun en fyrirsjáanleg er mikil aukning aldraðra í samfélaginu. Vera kann því að það þurfi að bregðast öðruvísi við eftir því sem reynslan sker úr um. Þess vegna tel ég til mikilla bóta að það skuli vera endurskoðunarákvæði í þessum lögum og það muni í raun styrkja þau.
    Ég vil að síðustu lýsa yfir eindregnum stuðningi við málið fyrir hönd okkar kvennalistaþingkvenna.