Málefni aldraðra
Þriðjudaginn 09. maí 1989

     Karl Steinar Guðnason:
    Herra forseti. Það er rétt að frv. þetta hefur ekki verið lengi í þessari deild, en það er og rétt að vinna við frv. hefur gengið mjög vel. Það hafa verið kallaðir til ýmsir þeirra sem hafa sérhæft sig á sviði öldrunarmála og leitað ráða hjá þeim.
    Nefndin hefur haldið marga fundi og komist að sameiginlegri niðurstöðu að flestu leyti.
    Ég trúi því að með samþykkt þessa frv. komist miklu betri skipan á þessi mál, einkum hvað varðar heimaþjónustu sem er mikil nauðsyn að sé starfrækt, en það hefur verið misbrestur á því að sveitarfélög hafi treyst sér til að láta hana í té. Nú skal það gert og það er líka tekið á því hvernig eigi að fara með aldraða, hverjir eigi að vistast á stofnunum og hverjir ekki. Það verður skipuð svokölluð öldrunarnefnd sem sér einkum um skipulagsmálin sem varða aldraða og þjónustuhópur er starfar við hverja heilsugæslustöð og settur er saman af fulltrúum frá heilsugæslustöð og frá félagslegu þjónustu þess sveitarfélags sem um er að ræða hverju sinni. Sú nefnd vinnur í samráði við forstöðumenn stofnana. Þeir munu eiga áheyrnarfulltrúarétt þarna og líka verður félögum sem starfa sérstaklega að málefnum aldraðra gefinn kostur á því að leggja til hugmyndir og miðla af reynslu sinni um hvernig best verði að þessum málum staðið.
    Það kom fram hjá einum þeirra sem kvaddir voru til viðræðu um málið, lækni sem sérhæft hefur sig í öldrunarmálum, að hér á landi eru hlutfallslega flestar stofnanir fyrir aldraða en jafnframt lengstir biðlistar. Það segir okkur þá sögu að betur mætti vanda til þess hverjir eru á stofnunum hverju sinni. Þessi læknir sagði líka að hann vissi um dæmi þess að menn sem hefðu verið í tíu ár á stofnunum hefðu ekki þurft að vera þar nema 4--5 ár, hefðu getað verið heima hjá sér og notið þar heimaþjónustu eða þjálfunar, umönnunar annars staðar en á stofnunum. Það er hugsunin á bak við þetta frv. að reyna að koma skikkan á þessi mál þannig að fólk sé ekki vistað á stofnunum nema það þurfi þess mjög með, því sé veitt nauðsynlegasta þjónusta heima hjá sér, fái að vera heima hjá sér sem lengst þar sem hver og einn kýs að vera. Það er eðlilegt einstaklingnum að hugsa á þann veg.
    Það fer fram mikið uppbyggingarstarf í þessum málum núna og ekki vafi á því að Framkvæmdasjóður aldraðra, sem er nú markaður sérstakur tekjustofn í þessu frv., mun mjög ýta undir þessa þróun og gera málefni aldraðra mun skipulegri og mun jákvæðara umhverfi fyrir aldrað fólk en verið hefur til þessa.
    Eins og ég gat um áðan er samstaða í nefndinni um brtt., en tveir nefndarmenn skrifa undir með fyrirvara og gera brtt. Sú brtt. varðar greiðslu fyrir þá vist sem menn njóta.
    Hv. 6. þm. Reykn. gerði mikið úr því að verið væri að gera fólki þarna rangt til. Ég tel að það sé misskilningur, það sé rangt. Sannleikurinn er sá að kerfið er þannig að mönnum er mismunað og þarna er verið að jafna til. Þeir sem eru á elliheimilum þurfa að greiða fullt gjald. Færist menn í næsta herbergi og fara á sjúkrabeð er það oftast þannig að viðkomandi

er mjög illa settur og hefur ekki aðstöðu til að eyða krónu af því sem hann hefur og í flestum tilfellum er það þannig að viðkomandi á ekki afturkvæmt. En hann hefur sloppið við að greiða, þ.e. það hafa safnast þar peningar fyrir erfingjana og ekkert annað, en þeir öldruðu sem ekki eru sjúkir þurfa að greiða fullt. Þarna er verið að jafna til og taka af mismunun og okkur hinum nefndarmönnunum þótti eðlilegt að svo yrði gert.
    Ég vildi koma á framfæri að þetta er hugsunin á bak við þessa hluti og ekkert annað. Það er ekki þar með sagt að það sé verið að taka alla peninga frá fólki. Það er öðru nær. Það verður stoppað við þá fjárhæð sem kostar að vera á sjúkrabeði. Það sem umfram er fá menn í sinn hlut. Það er fjarri því að þarna sé um einhverja eignaupptöku að ræða. Þarna er verið að jafna aðstöðu, gera þeim sem sjúkir eru það sama og þeim sem ekki eru sjúkir en eru á svona stofnunum.
    Í brtt. er fellt niður eitt orð að mér skilst, þ.e. það helst inni í greininni að aldraðir greiði hluta af gjaldinu en síðan eigi að taka hitt með reglugerð, þ.e. ákveða með reglugerð hvernig með það skuli fara. Jafnframt sagði hv. þm. að hann vantreysti ríkisstjórninni afar mikið. Ekki finnst mér mikið vantraust í því að það verði leyft að ákveða með reglugerð hvernig þessu skuli fyrir komið. Hins vegar finnst mér það sýna mikið traust.
    Ég tel að það sé ástæðulaust að breyta þessu og það hefur enginn kallað eftir því að þessu yrði breytt, enginn af þeim sem komu á fund nefndarinnar. Þar hafa verið sérfróðir menn, m.a. Pétur Sigurðsson frá DAS og Sigurður H. Guðmundsson. Ég minnist þess ekki að þeir hafi gert athugasemd við þetta og ég minnist ekki þess að mér hafi verið sagt að það hafi verið gerð athugasemd við þetta á þeirri ráðstefnu sem fram fór um þessi málefni, m.a. þetta frv., fyrir nokkrum dögum þannig að ég leggst alfarið gegn þessu.
    Ég vil ekki liggja undir því að ég eða aðrir séu vændir um illar hvatir í þessu máli. Ég held að það hafi engum dottið í hug í nefndinni. Ég skil ekki
heldur að það sé sú hugsun sem ráði ríkjum í heilbrmrn. Það er mjög fjarri því. Ég held að allir sem að þessu verki komu hafi viljað gera sitt besta, vilji gera sitt besta fyrir þá sem aldraðir eru. Menn eru sammála um að það eigi að standa sem allra skipulegast að þeim málum á þann veg að við getum með reisn sagt: Við ætlum ekki að skilja aldraða Íslendinga eftir í erfiðleikum.
    Ég vænti þess að menn geti sameinast um að koma þessu frv. áfram og er þá fullviss um að þessu máli verður vel borgið.