Stjórn fiskveiða
Þriðjudaginn 09. maí 1989

     Flm. (Þorv. Garðar Kristjánsson):
    Herra forseti. Það hafa orðið nú þegar nokkrar umræður um þetta frv. Ég þakka þær umræður sem fram hafa farið hér áður. Fiskveiðistjórn er margslungið mál og margþætt svo að það er ekki óeðlilegt að það séu umræður um slíkt mál sem þetta frv. er.
    Ég get tekið undir sumt af því sem fram hefur komið í máli ræðumanna, en ég er sumu ósammála og sumu í veigamiklum atriðum sem varða grundvallaratriði þessa máls. Ég hef þegar gert ítarlega grein fyrir efni frv. í minni framsöguræðu fyrir þessu máli. Ég hef í annarri ræðu svarað ýmsum atriðum og skýrt frv. nánar, svarað ýmsum atriðum í máli þeirra sem þá höfðu talað. Með tilliti til þessa mun ég í ræðu minni nú binda mig við það sem fram hefur komið í umræðunum frá því að ég talaði síðast.
    Ég vil þá víkja að máli hv. 4. þm. Vesturl. Hann talaði allmikið um þetta frv. og get ég tekið undir margt af því sem hv. þm. sagði. En mig undraði að í máli hans kom enn fram í sumum efnum og í því sem mest varða mikill misskilningur. Hv. þm. hélt því fram að frv. gerði ráð fyrir nýju kvótakerfi, aflinn verði skammtaður á hvert skip. Ég verð að segja að ég hrökk við þegar hv. þm. lét þessi orð falla og hann hefur sjálfsagt séð að það voru fleiri sem sperrtu eyrun en ég í hv. deild því að hann bætti við: Ég held mig við þetta. ( Gripið fram í: Hvað er að heyra þetta.) Ég bað hæstv. forseta að sjá svo um að þessi hv. þm. væri nú til staðar. Ég efast ekki um að forseti hafi viljað gera það, og þegar ég hóf mál mitt var hv. þm. hér inni en nú sést hann hér ekki þegar mér er litið fram í deildina. ( Gripið fram í: Ætli hann vilji vera hér?) Ég skal ekkert segja hvernig stendur á þessu. En það þykir mér ólíklegt ef hv. þm. les ekki vandlega þingtíðindin um þetta efni þegar þau liggja fyrir ef hann á ekki eftir að koma hér inn meðan á þessari umræðu stendur.
    Ég sagði að mér hefði komið mjög á óvart þessi misskilningur hv. ræðumanns og þeim mun fremur þar sem frv. hafði, eins og áður sagði, verið ítarlega skýrt af mér í minni framsöguræðu og ekki síður það atriði sem hv. þm. misskilur en önnur atriði í frv.
    Það er grundvallaratriði í þessu efni að frv. afnemur kvótakerfið. En svo virðist sem hv. þm. kjósi að misskilja sérstaklega 4. gr. frv. og leggja þann skilning í þá grein að það sé tekið upp annað kvótakerfi í staðinn fyrir það sem af er lagt. Þó þessi misskilningur sé algerlega tilefnislaus og raunar óskýranlegur þykir mér rétt að víkja nokkrum orðum að þessu.
    Með leyfi hæstv. forseta vil ég leyfa mér að lesa upp í heilu lagi 4. gr. frv. og umsögn um 4. gr. frv. sem fylgir frv. 4. gr. frv. hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Hverju fiskiskipi sem skráningarskylt er skal ákveða sóknargetu þannig að metið sé það aflamagn sem skipið hefur burði til þess að veiða á hverju ári. Siglingamálastofnun ríkisins skal mæla sóknargetu fiskiskipa. Ráðherra setur reglur um mat á sóknargetu

fiskiskipa í samráði við Siglingamálastofnun ríkisins, Landssamband ísl. útvegsmanna, samtök sjómanna og Fiskifélag Íslands. Sóknargeta hvers fiskiskips skal tilgreind í aðalskipaskrá með öðrum upplýsingum sem þar er að finna. Siglingamálastofnun ríkisins skal birta með skipaskrá samanlagða sóknargetu fiskiskipastólsins.``
    Í umsögn um þessa grein segir svo: ,,Í gildandi lögum er snúist við of mikilli sóknargetu fiskiskipastólsins með því að takmarka veiði hvers skips. Í staðinn er frekar farin sú leið að takmarka stærð fiskiskipaflotans og stefna að því að fjárfesting þjóðarinnar, fiskiskipin, nýtist sem best með því að takmarka ekki notin af skipunum.
    Til þess að framkvæma þessa stefnu er nauðsynlegt að fyrir liggi sem gleggst hver sóknargeta fiskiskipastólsins er á hverjum tíma. Í þessari grein er kveðið á um mælingu á sóknargetu hvers skips. Til grundvallar þessu mati má leggja stærð skips, burðarmagn, vélarafl og annan útbúnað eftir því sem við á og varðar hæfni til veiða. Má þá hugsa sér að sá háttur sé hafður á að hverju skipi sé gefið stig eftir ákveðnum mælikvarða sem megi umreikna í smálestir af afla eftir fiskstofnum. Siglingamálastofnun ríkisins er ætluð framkvæmd þessa verks. Í samráði við Siglingamálastofnunina, Landssamband ísl. útvegsmanna, samtök sjómanna og Fiskifélag Íslands skal sjútvrh. setja reglur um staðal um mat á sóknargetu fiskiskipa.
    Með þessum hætti eiga að geta legið fyrir á hverjum tíma sóknargeta hvers skips og hver samanlögð sóknargeta fiskiskipastólsins er. Þannig þjónar þessi grein þeim tilgangi að handhægar upplýsingar geti jafnan verið fyrir hendi þegar til þarf að taka við stjórn fiskveiða. Réttur útgerðar til endurnýjunar skips liggur þá ljós fyrir án þess að til þurfi að koma sérstök stjórnvaldsákvörðun. Ákvæði þessarar greinar miða þannig að því að tryggja, þegar kvótakerfið er af lagt, sem best stjórn á stærð fiskiskipastólsins meðan sóknargetan er of mikil í stað stjórnar með veiðileyfum.``
    Þá lýkur þessari tilvitnun um 4. gr. frv. og umsögn um 4. gr.
    Í minni framsöguræðu ræddi ég nokkuð um ástæðurnar fyrir því að setja slíka hjálparreglu sem hér er um að ræða. Vegna þess m.a. tók ég fram að hin
venjulega rúmlestamæling skipa gæfi ekki nógu haldgóðar upplýsingar um sóknargetuna. Það má t.d. í því sambandi benda á að ný skip hafa hlutfallslega minni sóknargetu en gömul skip vegna þess að í nýjum skipum er miklu meira rúm ætlað fyrir skipshöfn og líka meira rúm ætlað fyrir aflann þannig að betur fari um hann en áður tíðkaðist.
    Það er ekkert nýtt eða frumlegt í þeirri hugsun sem liggur á bak við þetta. Ég tek t.d. eftir því að þegar ég lít á skýrslu Eimskipafélags Íslands og skrá yfir skip Eimskipafélagsins er þar ekki að finna tölur yfir hina venjulegu rúmlestamælingu. Það er að finna tölur yfir það sem kallað er burðartonn til þess að gera sér sem best grein fyrir hvert gagn má verða af

skipunum. Þetta er hliðstætt því sem gert er ráð fyrir í þessu frv. um að mæla sérstaklega sóknargetuna.
    Við flm. frv. gerum okkur grein fyrir að þetta nýmæli kann að vera erfitt að því leyti að móta haldbærar reglur til að hafa við mælingu sóknargetunnar. Með tilliti til þess gerir líka frv. ráð fyrir að til ráða verði kvaddir ýmsir aðilar svo sem Fiskifélag Íslands, Siglingamálastofnun ríkisins og samtök útgerðarmanna og samtök sjómanna.
    Það er ekkert aðalatriði í þessu frv. að það verði farin þessi leið um að skapa hjálparreglu sem kemur að notum við stjórn fiskveiðanna á þann veg sem við hér erum að gera skóna. Þó að við sjáum ekki í bili heppilegri leið en þessi er kann að vera að þeir aðilar sem sérstaklega á að kveðja til til að kveða á um þessi efni sjái aðra betri leið og er þá sjálfsagt að taka það sem betur kann að reynast. En þetta er ekki aðalatriðið í frv. Þetta er aðeins regla sem gæti verið til stuðnings við stjórn fiskveiða. Og af þessu má marka sem ég hef sagt hér hvílíkt öfugmæli það er, sem hv. 4. þm. Vesturl. sagði, að þessi regla táknaði nýja kvótareglu því að þessi regla hefur ekkert að gera með það hvað hvert skip má veiða mikið. Ég læt útrætt um þennan misskilning hv. 4. þm. Vesturl. sem mér er raunar óskiljanlegur.
    Hv. þm. vék nokkuð að stærð skipastólsins og sagði að hann væri ekki sammála mér um að það varðaði öllu að minnka skipastólinn. Ég vil ekki orða þetta svo eins og hv. þm. telur sig hafa eftir mér. Ég legg áherslu á að það verði það skipulag á stjórn fiskveiða að það stuðli að jafnvægi milli sóknargetu og veiðiþols fiskstofnanna. Ef fiskiskipastóllinn er of stór þýðir það að það þarf að minnka hann, en ef hann er of lítill þarf líka að stækka hann. Á báðar þessar hliðar er einmitt bent í greinargerð með frv.
    Ég skal ekki gerast langorður um þetta atriði. Ég ræddi það svo ítarlega í minni framsöguræðu hver væri undirrót vandans sem við er að glíma. Og undirrót vandans er nú sú að sóknargetan er of mikil miðað við veiðiþol fiskstofnanna.
    Ég talaði áðan um misskilning hjá hv. 4. þm. Vesturl. En því miður gekk hann enn lengra í villu sinni um eðli þessara mála í raun og veru miðað við andann í því sem hv. þm. var að segja í allri sinni ræðu þegar það kom fram á varir hans að kvóti á skip gengi ekki upp nema með ákveðnum takmörkunum og í framhaldi af því lét orð liggja að því að það væri ekki hægt að afnema kvótann. Varð ég þá mjög undrandi því að ég dró þá ályktun af ræðu hv. þm. að það bæri að afnema kvótann.
    Ég skal þá ekki víkja fleiri orðum að ræðu hv. 4. þm. Vesturl. en víkja nokkrum orðum að ræðu hv. 9. þm. Reykn.
    Hv. þm. fór nokkrum orðum um sóknargetuna og sagði að sér væri óskiljanlegt hvernig mæla megi sóknargetuna. Ég ætla ekki að fara að svara hv. þm. þessu sérstaklega. Ég hef þegar rætt svo mikið um þetta efni og vísa um þetta til þess sem ég hef þegar sagt í svari mínu til hv. 4. þm. Vesturl.
    Þá gerði hv. 9. þm. Reykn. því skóna að mæling

sóknargetunnar þýddi að skammta ætti afla á hvert skip og hann bað um skýringu á þessu. Þarna er um sama misskilning að ræða og hjá hv. 4. þm. Vesturl. Ég ætla að hv. 9. þm. Reykn. hafi ekki verið hér í deildinni þegar ég flutti mína framsöguræðu. Hann hefði betur verið þá viðstaddur. Ég ætla að hann hefði þá ekki misskilið þetta á þann veg sem fram kom í hans ræðu og hann hefði að sjálfsögðu betur verið viðstaddur nú þegar þessar skýringar allar eru ítrekaðar. ( KSG: Hann er hér.) Hv. þm. er staddur í deildinni og ég hefði mátt vita að ber er hver að baki nema sér bróður eigi.
    Hv. 9. þm. Reykn. sagðist hallast að því að við kæmumst ekki út úr kvótakerfinu. Mér þykir það miður og ég hef þá trú á hv. þm. að ef hann fer nánar niður í málið geti verið að hann taki þessa skoðun til endurskoðunar.
    Þá sagði hv. 9. þm. Reykn. að erfitt væri að koma því skipulagi á að allir fái eins og þeir vilja. Þessi ummæli byggjast á því að ef kvótakerfið væri afnumið væri skömmtun á hvert skip afnumin og þá væri skipulagið hugsað þannig að hver og einn gæti fengið það sem hann vildi. Þetta er misskilningur og ég veit að við hv. þm. erum báðir sammála um að það er ekki til í raunveruleikanum að allir geti fengið allt sem þeir vilja.
    En það sem skiptir máli í þessu efni er að það sé jafnrétti milli allra í þeim skilningi að hver og einn geti hlotið það sem hæfni og atorka hvers leyfir innan þeirra marka sem almennar reglur setja. Það er ekki réttlæti í
því að skammta mönnum án tillits til hæfni það sem þeir mega vinna eða leggja fram fyrir sjálfa sig og þjóðarbúið. Það er ekki hin sanna jafnaðarmennska. Hin sanna jafnaðarmennska er sú að allir séu jafnir í þeim skilningi að allir geti notið allra sinna hæfileika sinna sem þeir hafa til að bera.
    Ég vil svo taka fram að þetta eru aðeins nokkur atriði sem ég hef minnst á í ræðu hv. 9. þm. Reykn. og auðvitað var ég sammála fjöldamörgu sem fram kom í ræðu hans. Og ég þykist vita að við séum sammála um að það ástand sem nú er í fiskveiðimálum og sú fiskveiðistefna sem nú er framkvæmd getur ekki gengið til frambúðar. Ég læt þá lokið því sem ég vildi segja í tilefni af ræðu hv. 9. þm. Reykn.
    Ég kem þá að ræðu hæstv. sjútvrh. og hefði ég nú gjarnan viljað að hann væri viðstaddur. Ég sá að hann hefur hlýtt á þessar umræður, en nú er komið að því sem ég vildi sérstaklega segja til hæstv. ráðherra sjálfs. ( Forseti: Ég hef gert ráðstafanir til að ná í hæstv. sjútvrh.) Það var hæstv. forseta líkt að gera slíkt. En ég held máli mínu áfram.
    Hæstv. ráðherra sagði í upphafi ræðu sinnar að hann ætlaði að draga saman meginatriði frumvarpsins og í framhaldi af því sagði ráðherrann ,,4., 5. og 6. gr. frv. eru meginatriði frv.`` Hér er um misskilning að ræða og meira en lítinn misskilning. Meginefni frv. er að kvótakerfið er afnumið. Það er meginefni frumvarpsins. Og af því að hæstv. ráðherra vitnaði í

tilteknar greinar vitna ég líka í tiltekna grein um þetta atriði, þ.e. 3. gr. frv. sem samsvarar 2. gr. núgildandi laga. En í 2. gr. eru almenn ákvæði um fiskveiðistjórnina og m.a. þar tekið fram að ekki sé heimil veiði nema samkvæmt sérstökum leyfum. Þetta ákvæði er ekki að finna í 3. gr. frumvarpsins og það þýðir: Það er ekkert ákvæði um kvótakerfið. Kvótakerfið er lagt niður. Það getur enginn, finnst mér, rætt ítarlega og eins og þarf um þetta frumvarp nema að gera sér grein fyrir þessu grundvallaratriði. Nú vil ég ekki ætla að hæstv. ráðherra geri sér ekki grein fyrir þessu, en ég get um þetta vegna þess að það er misskilningur að segja að 4., 5. og 6. gr. séu aðalefni frumvarpsins.
    Afnám kvótakerfisins mætir þeim grundvallarvanda, undirrót vandans sem við er að glíma. Það er vegna þess að frjálsar veiðar innan þeirra marka sem settar eru á afla hverrar fisktegundar fyrir sig skapa þá samkeppni sem er eina raunhæfa leiðin til að fækka fiskiskipum og minnka sóknargetuna þannig að þjóðarhagsmuna sé gætt. Til að flýta fyrir þessari þróun gerir frumvarpið ráð fyrir úreldingarsjóði. Og úreldingarsjóður getur gert stórátak í því efni að minnka fiskiskipaflotann ef þær reglur gilda að ekki komi nýtt skip fyrir það skip sem úrelt er með aðstoð sjóðsins. En allt er þetta unnið fyrir gýg nema að það sé slíkt heildarskipulag að það stuðli að fækkun fiskiskipa í stað þess að kerfið hafi eins og kvótakerfið hefur nú innbyggðan hvata til þess að koma í veg fyrir minnkun fiskiskipastólsins.
    Til öryggis er svo það ákvæði sett í þetta frv. að ef hin nýja skipan og úreldingarsjóðurinn leiðir ekki til jafnvægis milli sóknargetu og veiðiþols fiskstofnanna komi til sérstakar reglur um endurnýjun fiskiskipastólsins og líka að slíkar reglur séu til staðar ef síðar, eftir jafnvægistímabil, kynni að koma til þess að það gæti verið um ótímabæra aukningu sóknargetunnar að ræða.
    Það er þessi skipan sem leiðir til þess að mati okkar flm. þessa frv. að bæta hag útgerðarinnar með betri nýtingu fiskiskipastólsins og það þýði bættan hag sjómanna og það geti einnig þýtt bættan hag fiskvinnslunnar í minni framleiðslukostnaði hráefnisins, í lækkuðu fiskverði. Þetta er einnig beinn hagur þjóðhagslega. Það hljóta allir að vera sammála um að það er ekki þjóðhagslegur hagur að því að hafa fiskveiðistólinn svo vannýttan að það megi ekki kannski nota skipin í einn þriðja af árinu.
    Það er ætlun okkar einnig að þessi skipan stuðli betur að vernd fiskstofnanna. Þá höfum við í huga þá reynslu sem hefur verið af kvótakerfinu og hvernig reynslan hefur sýnt að það hefur verið gengið á fiskstofnana meira og verulega meira en stjórnvöld höfðu ákveðið fyrir hvert ár. Þetta þýðir því betri fiskveiðistefnu.
    Ég skal ekki fara fleiri almennum orðum um frumvarpið. Þetta er aðeins til áréttingar því sem ég hef áður komið að í mínum fyrri ræðum.
    Mér virtist að hæstv. ráðherra legði mikið upp úr 6. gr. frumvarpsins og kannski óþarflega mikið miðað

við það sem er aðalatriði þessa frumvarps eins og ég hef áður komið að. Hins vegar vil ég ekki gera lítið úr 6. gr. frumvarpsins. En 6. gr. frumvarpsins er heimildargrein. Í henni felst heimild til ráðherra að ákveða að enginn megi stunda veiðar á öðrum tegundum en botnfiski, svo sem rækju, humar, skelfiski, síld og loðnu, nema að fengnum sérstökum leyfum. Með öðrum orðum, það er gert ráð fyrir þeim möguleika að það geti í þessum efnum, annarri veiði en á botnfiski, gilt sama regla og gildir í dag. Okkur þótti ekki rétt annað en að hafa þessa heimild í frumvarpinu því að auðvitað kann það af ábyrgum mönnum að teljast rétt að afnema kvótakerfið á botnfiskveiðum þó að þeir treysti sér ekki í bili e.t.v. til að afnema kvótakerfið á allar veiðar.
    Ég skal ekki skýra þetta nánar út, en það er kannski rétt að víkja að því að það er gert ráð fyrir að þau skip sem fá leyfi, ef þessi heimild 6. gr. er notuð, til sérveiða geti ekki gengið hindrunarlaust í botnfiskveiðar heldur þurfi þau sérstök leyfi til botnfiskveiða. Ég hygg að það geti ekki verið ágreiningur um þetta atriði, enda sýnist mér að þetta sé í góðu samræmi við þá skipan sem er í þessum efnum og leyfi ég mér í því sambandi að vitna í reglugerð um stjórn botnfiskveiða 1989 í 7. gr. þar sem tekið er fram hvað skipum sem hafa leyfi til sérveiða er heimilt að veiða mikið af botnfiski. Í þessu sambandi má einnig vitna til reglugerðar um veiðar á úthafsrækju 1989, 4. gr. síðustu mgr., sem fjallar um hliðstætt efni.
    Hæstv. ráðherra vék nokkrum orðum að erfiðleikum sem kynnu að vera í því að meta sóknargetuna eins og frv. gerir ráð fyrir og ég er sammála því sem hæstv. ráðherra sagði um það. Það er ekki einfalt mál og vegna þess, eins og ég hef áður komið að í þessari ræðu, er gert ráð fyrir að ráðherra hafi sér til ráðuneytis þá aðila í okkar þjóðfélagi sem mest skynbragð bera á þessi efni svo sem Siglingamálastofnun, Fiskifélag Íslands og samtök útgerðarinnar og sjómanna.
    Ég vék að þessu nokkuð áður í ræðu minni nú og ég vísa til þess. Ég skal aðeins segja að auðvitað hefur þetta verið rætt við ýmsa aðila og m.a. við Siglingamálastofnun sem er ætlað stærst hlutverk í þessu efni. Mér virðist að á þeim vettvangi hafi ekkert komið fram sem útilokar að það sé hægt að koma við þessari mælingarreglu, en ég tek fram eins og ég hef áður tekið fram að það er ekki aðalatriðið hver mælingarreglan er heldur að það sé hægt að feta sig eitthvað áfram til stuðnings við fiskveiðistjórnina með reglum í þessu efni.
    Hæstv. ráðherra kom líka inn á annað mikilvægt atriði. Hann talaði um að mikil samkeppni yrði milli skipanna ef veitt er úr heildarkvótanum, eins og hann orðaði það, og afli berst örar að landi með erfiðleikum fyrir vinnsluna. Það er auðvitað eðlilegt að víkja að þessu þýðingarmikla atriði og ég gerði það í minni framsöguræðu, vék sérstaklega að þessu. Ég tek undir það með hæstv. ráðherra að það þarf að mæta þeim vanda sem gæti stafað af því að aflanum yrði

hrúgað upp þannig að til vandræða horfði fyrir fiskvinnsluna. En í því efni er að segja og leggja áherslu á að í 3. gr. frv. er tekið fram, með leyfi hæstv. forseta, að ráðherra er heimilt að kveða á í reglugerð um gerð skipa, útbúnað veiðarfæra, veiðisvæði, veiðitíma og meðferð afla.
    Ég þarf ekkert að fjölyrða um við hæstv. ráðherra hvað þetta þýðir. Það veit það enginn betur en hann. Þessi ákvæði í frv. eru óbreytt úr gildandi lögum.
    Ég tel að það sé enginn vafi að það sé hægt að beita þessum ákvæðum með sóknarbönnum og á annan hátt eftir því sem þörf er á og að það sé besta aðferðin til að hafa stjórn í þessum efnum en ekki kvótakerfið sem hefur ekkert með þetta að gera.
    Hæstv. ráðherra vék að því --- ætli það hafi ekki verið með tilliti til þess að það er tekið fram í grg. og fskj. með frv. hvað veiðar hafa árlega mikið farið fram úr því sem stjórnvöld hafa ákveðið á hverju ári --- að það hefði alltaf verið gert ráð fyrir að veiðin yrði meiri en stjórnvöld ákváðu. Ég tók eftir þessu. ( Sjútvrh.: Viðmiðunaraflinn í kvótakerfinu.) Er það ekki það sem stjórnvöld ákveða eins og það er í skýrslu Fiskifélagsins? Það er undir þeirri merkingu. En við meinum það sama, ég og hæstv. ráðherra, í þessu efni. Það voru kannski önnur orð. En ég held mig við það sem ég hef frá Fiskifélagi Íslands. Ég ætla ekki að gera mikið úr þessu. Ég geri mér grein fyrir því að allt er þetta vandamál. En ég held að það verði þó að leitast við að hafa þá stjórn á fiskveiðunum að veiðin verði ekki meiri en stjórnvöld ákváðu svo ég noti orðalag hæstv. ráðherra.
    Það er skoðun okkar flm. frv. að núverandi kerfi sé ekki haldbært í þessu efni og það sem lagt er til um skipan fiskveiðistjórnar í þessu frv. sé betra.
    Þá er annað atriði, sem er þýðingarmikið, sem hæstv. ráðherra vék að og það er stærð fiskiskipastólsins. Í grg. með frv. og í framsögu fyrir frv. og í fskj. með frv. er að finna upplýsingar um hina gífurlega miklu aukningu fiskiskipastólsins og sóknargetuna sem orðið hefur á kvótatímabilinu.
    Hæstv. ráðherra sagði og orðaði það svo að nokkur skip sem eru á skipaskrá og hefðu verið á skipaskrá hefðu ekki verið í rekstri og ég mótmæli að sjálfsögðu ekki upplýsingum sem þessum. En ég ætla að hér hafi ekki verið um meiri brögð að ræða en svo að þetta skipti ekki neinu höfuðmáli í þeirri umræðu og þeim rökum sem við erum að færa hér fram, flm. þessa frv., um gildi þess að afnema kvótann og taka upp það skipulag sem hér er gert ráð fyrir.
    Ég sagði í upphafi ræðu minnar að ég væri sammála ýmsu sem ræðumenn hefðu sagt um þetta efni og það á að sjálfsögðu ekki síður við hæstv. ráðherra en aðra þá hv. þm. sem hér hafa talað. Og ég læt mér ekki koma annað til hugar en að hæstv. ráðherra geri allt eftir bestu getu til að framkvæma kvótakerfið svo vel sem kostur er. Ég er ekki og hef ekki verið að deila á framkvæmdina. Ég hef haldið því fram að kvótakerfið í sjálfu sér væri röng stefna, rangt kerfi og það væri í sjálfu sér vandamál og það væri engin haldbær lausn í þessu efni

önnur en sú, sem frv. leggur til, að afnema kvótakerfið.
    Hæstv. ráðherra sagði, ég held að það hafi verið lokaorð í hans ræðu, að það ætti sér stað núna veigamikið starf til undirbúnings á breytingum á núgildandi lögum um stjórn fiskveiða.
    Það er ekkert nema gott um þetta að segja. En ég held að það sé höfuðatriði að þegar fer fram veigamikið starf til undirbúnings endurskoðunar á fiskveiðistefnunni sé því starfi ekki hagað á þann veg að það sé bundið við kvótakerfið, bundið við að finna einhverjar lausnir til úrbóta á kvótakerfinu sjálfu. Ég hef þá skoðun að þó að það takist að bæta úr einum ágalla kvótakerfisins komi þegar aðrir tveir á móti. Það er mín skoðun. En hvað sem líður minni skoðun og hvað sem líður vilja hæstv. sjútvrh. til að endurskoða fiskveiðistefnuna vænti ég þess og vill láta það vera mín síðustu orð að hæstv. ráðherra sjái til um það að sú endurskoðun verði ekki einungis eða fast bundin við kvótakerfið heldur komi til athugunar aðrar leiðir, aðrir valkostir í þessu efni. Og það frv. sem við nú ræðum hér felur í sér annan valkost en kvótakerfið.