Stjórn fiskveiða
Þriðjudaginn 09. maí 1989

     Sjávarútvegsráðherra (Halldór Ásgrímsson):
    Herra forseti. Aðeins örfá orð. Ég vildi aðeins skýra hvernig ég sæi fyrir mér framkvæmd þessa frv. því að það er alveg ljóst á þessu frv. að í því eru veigamiklar heimildir til að stýra fiskveiðunum og það yrði að sjálfsögðu að setja reglugerð á grundvelli þessa frv. ef að lögum yrði. Það má segja að það yrði með tvennum hætti. Annars vegar að nýta heimildir í 6. gr. og hins vegar að nýta heimildir í 3. gr.
    Ég mundi ekki sjá annan kost fyrir þann sem þyrfti að framkvæma þessa löggjöf en að nýta heimildir 6. gr. til hins ýtrasta. Ég held það væri ekkert undanfæri að því er varðar hinn hluta flotans, þ.e. þau skip sem eingöngu stunda botnfiskveiðar, að þau skip yrðu að nýta heimildir 3. gr. þar sem segir: ,,Ráðherra er heimilt að ákveða í reglugerð þann afla sem veiða má úr öðrum einstökum stofnum sjávardýra við Ísland á ákveðnu tímabili eða vertíð og skulu veiðileyfi, ef veitt eru skv. 6. gr., miðast við það magn.`` En það kemur hér fram á undan að ,,sjávarútvegsráðherra skal að fengnum tillögum Hafrannsóknastofnunar ákveða fyrir 15. nóv. ár hvert með reglugerð þann afla sem veiða má úr helstu botnfisktegundum við Ísland á komandi ári.`` Ég lít svo á að ráðherra sé þá heimilt --- eða á hv. þm. ekki við það þegar hann segir ,,úr öðrum einstökum stofnum sjávardýra`` að það sé nánast ekki hægt að ákveða tímabil að því er varðar botnfiskinn? Það sem ráðherra geti þá eingöngu gert sé að kveða á í reglugerð um gerð skipa, útbúnað veiðarfæra, veiðisvæði, veiðitíma og meðferð afla.
    Auðvitað er ljóst að það væri hugsanlegt að skipta árinu niður í mjög mörg veiðitímabil og segja sem svo að það má aðeins veiða 10.000 í ákveðnum mánuði eða 15.000 tonn í ákveðnum mánuði og þegar því magni er náð skuli allir hætta. Það er leið til að stjórna veiðunum. Það má geta þess að það er heimilt að veiða síld við Alaska einn dag á ári og það er heimilt að veiða lúðu við Alaska eftir því sem ég best veit einn dag í mánuði. Þetta er dæmi um að þegar flotinn hefur stækkað óendanlega, sem ég veit að hv. þm. ætlast ekki til, hefur orðið að gera það með þessum hætti.
    Það kemur jafnframt ekkert fram í þessu frv. um hvernig skuli fjármagna úreldingarsjóð. Það er ljóst að úreldingarsjóður samkvæmt þessu frv. yrði afar kostnaðarsamt fyrirtæki ef hann ætti að skila einhverjum árangri og það þarf mjög miklar tekjur til að kaupa upp hluta flotans. Ég sé fyrir mér í reynd, þannig að það sé alveg ljóst hvaða skilning ég mundi hafa á því, að annars vegar væri kvótakerfi á hluta flotans og nýttar til hins ýtrasta heimildir í 6. gr. og hins vegar tímabilastjórnun á hinn hluta flotans þar sem ákveðið magn yrði heimilt að veiða á ákveðnu tímabili og þegar því magni er náð yrðu veiðar stöðvaðar. Það verður aldrei hægt að meta sóknargetu skipa með þeim hætti að það sé á það treystandi. Þótt það sé vissulega hægt að meta að einhverju leyti sóknargetu skipa verður það aldrei gert svo að það verði ekki mjög veruleg skekkjumörk í því. Þar af leiðandi verður að hafa ákveðinn hámarksafla á

tímabil og stöðva veiðarnar þegar þeim afla er náð og ef hann fer fram úr verður að draga hann frá næsta tímabili. Ég held að það sé alveg ljóst að þessi skipan mála yrði mjög gölluð og mjög erfitt fyrir byggðarlög að búa við slíka skipan mála.
    Með þessu er ég ekki að segja að núverandi kerfi sé algott eða gallalaust. Það er langt í frá. Það eru mjög margir gallar á núverandi skipan. Ég er hins vegar fullviss um það að þessi skipan mála er enn þá verri. Það er það eina sem ég er alveg viss um. Hitt er svo annað mál að það er sjálfsagt að ræða þessi mál í fullri hreinskilni, kosti og galla. Það gera menn að sjálfsögðu í því nefndarstarfi sem nú fer fram. Þar koma saman menn frá öllum stjórnmálaflokkum, frá sjómönnum, frá útvegsmönnum, frá fiskvinnslu og fleiri aðilar koma þar að málum. Það er enginn vafi á því að þar munu öll sjónarmið komast að. Hins vegar er það að lokum Alþingi sem þarf að taka ákvarðanir í þessu máli. Hér er einungis um undirbúningsstarf að ræða, en það er að sjálfsögðu Alþingi sem tekur lokaákvarðanir í þessum málum um framtíðarskipan. Ég fullvissa hv. þm. um að þar munu öll sjónarmið komast að og þar að auki munu öll sjónarmið komast að enn betur þegar málið kemur til meðferðar á hv. Alþingi.