Stjórn fiskveiða
Þriðjudaginn 09. maí 1989

     Karvel Pálmason:
    Virðulegur forseti. Það væri freistandi undir þinglokin að taka góða rispu til að ræða stjórn fiskveiða eins og hún hefur gengið fyrir sig nokkur undanfarin ár, þar með að rifja upp hvað gerðist í kringum áramótin 1987--1988 þegar hér voru settir á langir fundir til að afgreiða þau lög sem núna eru í gildi um þessi mál, lög sem eru trúlega að leiða til þess að allmörg fyrirtæki í fiskveiðum og fiskvinnslu standa orðið á brauðfótum. Það er enginn vafi á því. Fiskveiðistefnan hefur verið rekin hér með þeirri miðstýringu að einn einstaklingur, hvað sem hann heitir, ræður ferðinni í svo til öllum tilvikum. ( StG: Ætli þetta sé ekki efnahagsstefnan?) Hvað segir hv. þm.? Er þetta efnahagsstefna, fiskveiðistefnan? ( StG: Að setja fyrirtækin á hausinn.) Við skulum koma að því aðeins seinna. Ég hygg að það liggi fyrir núna að æðimörg fiskiskip munu vera búin með sinn kvóta þegar kemur fram yfir mitt sumar. Og hvað ætla menn þá að gera? Hvað þýðir það í raun? Það þýðir bullandi atvinnuleysi á hausti komanda verði haldið óbreyttri stefnu að því er varðar stjórnun fiskveiða. Þetta vitum við ósköp vel. Þetta vita þeir sem búa í sjávarþorpum og vita hver er grundvöllurinn að þjóðlífi Íslendinga, hver aflar verðmætanna, hver ber uppi þjóðfélagið. En það er engu líkara en þeir sem ferðinni hafa ráðið í þessum efnum hafi ekki gert sér grein fyrir þessu eða ekki viljað vita það.
    Ég skal ekki, herra forseti, setja á langa tölu um þetta þó að það væri freistandi, en ég vildi rifja upp að ég a.m.k. er þeirrar skoðunar að gildandi fiskveiðistefna sé verulegur hluti af því vandamáli sem fiskveiðar og fiskvinnsla eiga við að glíma í landinu.
    Ég ætla ekki að fara inn í efnislegar umræður um það frumvarp sem hér er nú til umræðu. Það er alltaf gott þegar frjóir menn setjast niður og hugsa og setja fram sjónarmið til umræðu og trúlega að einhverju leyti til eftirbreytni í þeim tilvikum sem menn telja að það geti gengið. Vissulega er það þörf umræða að ræða stjórn fiskveiða. Nú munu vera líklega þrjú ár í það að lögin falli úr gildi sem sett voru 1988. Er það ekki rétt? (Gripið fram í.) 1990, já. Þá leiðréttist það hér með. Ég hygg að það sé kominn tími til að huga að breytingu í þessum efnum og auðvitað eru allar tillögur ákjósanlegar inn í umræðuna um þessi mál því að það hvarflar ekki að mér, hversu sem mönnum hefur þótt þetta kvótakerfi gott sem við búum nú við, að menn láti sér detta í hug að framlengja það með óbreyttum hætti eftir að þau lög sem núna eru í gildi renna út. Slíkt væri glapræði. Þess vegna er umræða um þetta frv. og fjöldamörg önnur tilvik sem inn í þetta spila nauðsynleg og menn ættu oftar að ræða þessi mál hér á Alþingi vegna þess að það er auðvitað þetta sem við byggjum á. Við byggjum á að það sé hægt með eðlilegum hætti að stjórna fiskveiðum, en ekki í miðstýringu eins og hér hefur verið búið við allt frá 1984. Og enn versnaði ástandið með síðustu lagasetningu, enn verður að mismuna landsvæðum með þeirri lagasetningu, bæði að því er varðaði þorskveiði, rækjuveiði og grálúðuveiði.

    Það er ósköp skiljanlegt að bæði útvegsmenn og sjómenn t.d. á Vestfjörðum láti í sér heyra þegar sá landshluti er skertur miklu meira í veiðum frá síðasta ári miðað við árið í ár en nokkurt annað landsvæði. Það er á þessu landsvæði þar sem fyrirtækin standa kannski hvað verst sum hver. Menn eiga kannski eftir að sjá þegar enn líður á árið frekar hvaða afleiðingar það hefur að halda þessari miðstýringu með mismunandi hætti eftir landshlutum, hegna þeim sem eiga að geta búið best að hlutunum en láta aðra njóta þeirra sem eiga miklu erfiðara með að nýta þá með skikkanlegum hætti.
    Ég vænti þess að þær nefndir, sem ég hygg að séu margar, sem eru í gangi núna og eru að endurskoða lögin um stjórn fiskveiða komi sér saman um heilsteypt lög í áframhaldi af þeirri lagasmíð sem er í gildi núna. Ég er ekki með þessu að átelja sérstaklega hæstv. sjútvrh. Það er Alþingi sem hefur veitt honum þær heimildir sem hann fer eftir. En það er auðvitað óeðlilegt að einn einstaklingur geti haft slíka heimild í sínum höndum og miðstýrt öllu nánast eftir því sem honum dettur í hug. Það er óeðlilegt og þarf að koma í veg fyrir það.