Stjórn fiskveiða
Þriðjudaginn 09. maí 1989

     Guðmundur H. Garðarsson:
    Virðulegi forseti. Í sambandi við það frv. sem er til umræðu er það rétt að hér er hreyft við mjög miklu máli sem er það hvort við Íslendingar ætlum að búa við kvótakerfi eða ekki. Ég get fyrir mitt leyti sagt að ég hef verið þeirrar skoðunar frá upphafi þessarar framkvæmdar í sambandi við kvótann að það væri æskilegast og nauðsynlegt að reyna að komast frá kvótakerfinu. Ég vísa til minna orða fyrr um þessi mál í því efni. En því miður hafa mál þróast með þeim hætti síðustu árin að á grundvelli þeirra vísindarannsókna sem fiskifræðingar hafa framkvæmt höfum við þingmenn orðið að beygja okkur fyrir þeirri staðreynd að a.m.k. í bili höfum við þurft að taka afstöðu til þess að búa við það kvótakerfi sem við höfum núna búið við síðan 1983. (Gripið fram í.) Það byrjaði 1. jan. 1984. Það var staðfest með lögum 1983 og kom til framkvæmda 1. jan. 1984.
    Ég get tekið undir að það er nauðsynlegt að skoða þetta í ljósi reynslunnar og vil víkja að orðum hv. þm. Skúla Alexanderssonar hér á eftir um það. Það er kapítuli út af fyrir sig hvernig hann hefur haldið á málum eða réttara sagt ekki haldið á málum. Það hefur illa til tekist hjá hv. þm. að hann skuli vera einn aðalstuðningsmaður, raunverulega lykilmaður ríkisstjórnarinnar í Ed. hins háa Alþingis á sama tíma sem hann er að fordæma þá stefnu, útfærslu á kvótanum sem hér er til umræðu.
    Ég vil þess vegna taka skýrt fram að ég tel að ýmsu leyti þarft verk að leggja fram nýjar hugmyndir um hvernig eigi að leysa þann vanda að komast út úr kvótakerfinu. Ég er hins vegar ekki alveg sannfærður um að það sé fullkomlega tímabært, alla vega hefði ég talið æskilegra að sú vinna sem nú er unnin í sérstökum nefndum á grundvelli þeirra laga sem nú gilda um kvótann, að það álit og þær athuganir sem þessar nefndir hafa verið að vinna að sl. vetur hefðu legið fyrir hinu háa Alþingi einmitt þegar umfjöllun um frv. fer fram.
    Vonandi verða þessar skýrslur og athuganir og tillögur fyrirliggjandi þegar þing kemur saman í haust, en hvað sem því líður tel ég að það sé að ýmsu leyti þarft verk að þetta frv. skuli hafa komið fram.
    En það sem ég vildi ræða sérstaklega, virðulegi forseti, er atriði sem hv. þm. Skúli Alexandersson kemur inn á og fleiri þingmenn hafa gert undanfarið. Við stjórnarandstæðingar, sjálfstæðismenn sérstaklega, höfum bent á að sú stefna sem hæstv. ríkisstjórn nú hefur í þessum málum leiðir til glötunar. Við erum margsinnis búnir að benda á að sú stefna, sem hv. þm. Skúli Alexandersson og Karvel Pálmason vilja fyrst og fremst hengja og þrengja niður í ákveðin atriði, á sér miklu, miklu dýpri rætur en það sé hægt að einfalda málið með þeim hætti sem þeir hafa gert. Það sem er grundvallaratriði að gera sér grein fyrir er að vorið 1988 var okkur ljóst, þáv. stjórnarstuðningsmönnum flestum, að það þyrfti að gera nauðsynlegar ráðstafanir til að styrkja stöðu útflutningsatvinnuveganna, sérstaklega stöðu sjávarútvegs og fiskiðnaðar. Sjálfstfl. var með

hugmyndir þá þegar, vorið 1988, um hvernig bæri að leysa þennan vanda. Þær hugmyndir fengu ekki hljómgrunn, sérstaklega hjá Alþfl. sem lagðist gegn þeim lausnum sem sjálfstæðismenn og framsóknarmenn vildu framkvæma vorið 1988. Þetta er kjarni málsins. Okkar tillögur byggðust m.a. á því að þá yrði að leiðrétta gengið strax með viðeigandi hliðarráðstöfunum. Þetta náði ekki fram að ganga. Síðan leið sumarið 1988 og komið var í --- ég vil ekki segja algert óefni en í enn meira óefni haustið 1988. Þá varð aftur ágreiningur um hvernig ætti að reyna að leysa þetta grundvallarvandamál í íslensku atvinnu- og efnahagslífi sem er að koma sjávarútvegi og fiskiðnaði á réttan grundvöll. Það tókst ekki. Tillögur okkar sjálfstæðismanna voru lagðar til hliðar. Hins vegar lofuðu núverandi stjórnarflokkar því að þeir mundu koma með tillögur og aðgerðir sem mundu duga til að koma þessum grundvallaratvinnuvegi á réttan kjöl.
    Maður hlýtur að gera ráð fyrir að þegar menn taka afstöðu til stjórnarmyndunar eins og hv. þm. hafa gert, Skúli Alexandersson og Karvel Pálmason, taki þeir fleiri atriði inn í myndina en aðeins þau sem voru til umræðu haustið 1988. Á ég þar sérstaklega við það atriði sem þeir deila hvað harðast á, sérstaklega hv. þm. Skúli Alexandersson, að stefnan í sjávarútvegsmálum sé röng, hún grafi undan sjávarútveginum, hún hafi verið röng í mörg ár. ( KP: Það er rétt, allt saman rétt.) Allt saman rétt, segir hv. þm. Karvel Pálmason, og hér er staddur gestur í deildinni, hv. þm. Sighvatur Björgvinsson, og tekur undir þetta. Ég býð hann velkominn í deildina til að vera hér áheyrnarfulltrúi. En ég spyr og sleppum öllum gamanmálum: Er ekki meiri alvara í því sem þið eruð að gera, ágætu þingmenn, en það að þið getið látið heilt ár líða án þess að grípa til gagnráðstafana til að tryggja að þessi ranga stefna í sjávarútvegsmálum sé ekki framkvæmd lengur? Þetta er ekkert gamanmál fyrir þá sem bera ábyrgð á rekstri fyrirtækjanna. Það getur verið gamanmál í þingsölum. Þingmenn geta kastað því á milli sín eins og bolta og kennt svo öðrum um. En það er ekkert gamanmál. Það er nefnilega alvarlegt mál þegar þingmaður segir eins og hv. þm. Skúli Alexandersson sagði áðan: Stefnan hefur verið röng og er enn röng. (Gripið fram í.) Sjálfstfl. er ekki
við stjórn í landinu í dag. Þeir sem hafa tekið völdin með þeim hætti sem hv. þm. Alþb. gerðu sl. haust höfðu þann möguleika sérstaklega að mynda ekki ríkisstjórn nema þetta væri leiðrétt. Hvers vegna var þessi krafa ekki lögð fram með þeim þunga sem kemur fram í ræðu hv. þm. Skúla Alexanderssonar? Og ég vek einnig athygli á því að þar talar sá maður í þingflokki Alþb. sem þekkir langsamlega best til sjávarútvegs og fiskiðnaðar. Eru orð hans ekki marktæk í Alþb.? Tekur Alþb. ekki mark á því sem þessi maður með þá miklu reynslu sem hann hefur í þessum málum er að segja um stöðu sjávarútvegs og fiskiðnaðar eða er verið að leika einhvern skollaleik eða er hv. þm. borinn ofurliði? Og ætlar hann að

horfa upp á að þessi ranga stefna verði framkvæmd áfram?
    En ég skal koma að því að það er alveg rétt hjá hv. þm. að stefnan í sjávarútvegs- og fiskiðnaðarmálum er röng, en ekki bara í sambandi við kvótann út af fyrir sig. Kvóti út af fyrir sig er afbrigðilegt atriði sem við því miður höfum þurft að undirgangast og taka þátt í um tíma. En það eru önnur atriði sem skiptir ekki síður máli að gera sér grein fyrir þegar verið er að fjalla um stöðu sjávarútvegs og kvótann sem tengist frv. sem hér er til umræðu. Það er að gera sér grein fyrir því: Hvernig hefur ,,strúktúrinn`` breyst í sjávarútvegi á Íslandi á undangengnum árum? Þá verða menn að fara aftur til þess tíma þegar þessir ,,ágætu`` flokkar þrír, Alþfl., Alþb. og Framsfl., komust til valda um og fyrir 1980. Þar er upphafið að þeim miklu erfiðleikum sem íslenskur hraðfrystiiðnaður á við að etja, sérstaklega í sambandi við það þegar talað er um offjárfestinguna í hraðfrystihúsunum. En það er hægt að bæta því við: þangað er hægt að rekja offjárfestinguna í útgerðinni og skal ég fara nokkrum orðum um það. Þar er hluti af því vandamáli og kannski meginvandamálið.
    Það er upphaf þessa máls þegar þessir þrír flokkar fóru með völdin, þegar þessir þrír flokkar höfðu forgöngu um það sérstaklega að fjölga togurum úr 70 og þeir eru núna orðnir 116. Þetta eru afkastamikil fiskiskip. Á sama tíma er verið að beina miklu fjármagni í að byggja upp ný frystihús, endurnýja gömul frystihús. Í tengslum við þetta, hv. þm., verða menn að skoða það sem hér er til umræðu. Það kannski skiptir ekki máli fyrir hv. þm. að ræða þetta svona. Og þá kem ég að þessu með ,,strúktúrinn``. Ef við lítum á þá ,,strúktúr``breytingu sem verður í íslenskum sjávarútvegi og fiskeldi áður en kvótinn kemur til skjalanna en kemur sérstaklega í ljós með mjög neikvæðum afleiðingum við þá þröngu stöðu þegar farið er að setja kvótann á, þá kemur í ljós að við vorum þegar, þ.e. íslenska þjóðin, búin að binda það mikið fjármagn í hraðfrystiiðnaðinum í landi að við þær breytingar sem verða þegar kvótinn kemur og við þær breytingar sem síðar hafa orðið í sambandi við samsetningu fiskiskipaflotans er það borin von miðað við kvótafyrirkomulagið að sú stefna í heild í sjávarútvegi og fiskiðnaði geti staðist. Það er það sem hv. þm. Skúli Alexandersson er að tala um þegar hann er að tala um ranga stefnu í sjávarútvegi og fiskiðnaði. Það er ekki bara tengt kvótanum.
    Þær áherslubreytingar sem urðu um 1980 með þar af leiðandi fjárfestingum sem síðan hafa reynst fyrirtækjunum mjög erfiðar vegna þeirra breytinga sem verða eftir að kvótinn kemur 1984, þær áherslubreytingar sem verða í veiðunum og þær breytingar sem verða úti á mörkuðunum hafa m.a. leitt til þeirrar hörmulegu og neikvæðu niðurstöðu sem við erum að fjalla um þegar við erum að tala um erfiða stöðu fiskvinnslunnar, sérstaklega hraðfrystiiðnaðarins. Þetta veit ég að hv. þm. sem þekkja til málanna, eins og hv. þm. Skúli Alexandersson gerir og einnig hv.

þm. Karvel Pálmason, viðurkenna og það er þetta sem raunverulega er verið að deila á. Þá kemur spurningin enn þá: Hvers vegna hafa þessir hv. þm. ekki í þeirri sterku stöðu sem þeir eru í knúð það í gegn í því stjórnarsamstarfi sem þeir eru núna að breyta um stefnu og áherslur? Við skulum skoða það nokkru nánar.
    Ef við tökum þorskfiska er afli upp úr sjó miðað við kvóta rúmlega 600 þús. smálestir, þorskur, ýsa, ufsi, karfi o.s.frv. Ef við skoðum hvernig breytingin hefur orðið í nýtingu þessa afla frá því kvótinn kom til skjalanna í ársbyrjun 1984 má í stórum dráttum segja að stærri og stærri hluti aflans fer fram hjá vinnslunni í landi og beint út lítið unninn eða ekkert unninn á hina erlendu markaði. Þetta gerir að verkum að hraðfrystihúsin fá minna hráefni til vinnslu í landi á sama tíma sem þau höfðu stofnað til mikilla fjárfestinga og hafa þar af leiðandi mjög mikinn fjármagnskostnað í minni framleiðslu.
    Við skulum líta á árið 1988 og sjá hvað gerðist. Ef ég man rétt voru þorskfisktegundir upp úr sjó sem Íslendingar veiddu um 640 þús. smálestir. Af þessum 640 þús. smálestum fóru 110 þús., nánar tiltekið 109 þús. smálestir, út á markaði í Vestur-Evrópu í fersku ástandi, ýmist með fiskiskipum eða flutt út í gámum. Og hvaða fisktegundir eru það einkum sem eru fluttar út í þessu ísaða og ferska ástandi? Það eru verðmætustu tegundirnar í vinnslunni. Það er þorskurinn og það er ýsan sérstaklega. Ekki fer þetta magn til vinnslu í hraðfrystihúsum í landi.
    Þar við bætist að árið 1988 fóru tæplega 60 þús. smálestir af fiski svo til beint í gegnum umskipanir hérlendis úr frystitogurum, fryst um borð. Ekki fer þessi hluti aflans í vinnslu í landi. Hér erum við að tala um hvorki meira né
minna en tæplega 1 / 3 hluta af heildaraflanum sem fer fram hjá vinnslustöðvunum í landi árið 1988 óunninn til útlanda. Þetta hefur sín áhrif á heildarútkomu vinnslunnar.
    Hv. þm. Skúli Alexandersson hristir höfuðið. Ég held að hann ætti að koma til Vestmannaeyja og sjá hvernig fiskurinn hvarf frá vinnslunni, frá frystihúsunum og beint inn í gámana. Hv. þm. veit að þannig var það og hefur verið. Ef það skiptir engu máli hvort maður fær hráefnið til vinnslu í iðnfyrirtæki eða frystihúsi kann ég ekki að leggja saman einn og einn og fá út tvo, ef hv. þm. heldur það að frystihús beri sig ekki betur eftir því sem það fær meiri fisk í vinnslu við réttar aðstæður, og þá hlýtur afkoman að vera betri og meira til þess að borga fjármagnskostnaðinn. En það hentar ekki hv. þm. að ræða þetta eins og það kemur út í raunveruleikanum. Það er miklu skemmtilegra að vera á pólitískum framboðsfundum og tala í almennum orðum þannig að menn þurfi ekki að standa við eitt eða neitt sem þeir segja og þurfi ekki að tala á grundvelli raunverulegra staðreynda. Það vill svo til að sá sem hér talar hefur fjallað um þessar tölur á öðrum vettvangi og ég veit alveg um hvað ég er að tala. ( SkA: Það eru fleiri.) Ja, hv. þm. hefur ekki komið

með þessar tölur inn í umræðuna. Þeir hafa ekki komið með þær inn í umræðuna, en samkvæmt núverandi stefnu ríkisstjórnarinnar í sambandi við útfærslu á sjávarútvegi og fiskiðnaði fara tæplega 200 þús. tonn óunnin beint fram hjá landinu inn á hina erlendu markaði. Að vísu fá togararnir og þeir sem flytja út ísfisk í gámum ágætt fyrir það sem þeir flytja út, en vinnsluvirðið er ekki eins hátt fyrir þjóðarbúið. Ekki fær verkakonan í frystihúsinu laun fyrir þann fisk sem ekki kemur á land og er unninn í húsinu. Það er vinnsluvirðið, hv. þm., sem skiptir mestu máli þegar maður er að tala um heildarniðurstöðu og heildarstefnu sjávarútvegs og fiskiðnaðar á Íslandi en ekki einstök atriði eða dæmi.
    Þá kem ég að hinu atriðinu. ( KP: Allt fer þetta saman.) Ja, kannski hv. þm. sé ánægður með að enginn fiskur fari á land á Vestfjörðum og allt yrði flutt út í gámum. Kannski hv. þm. vildi það. Kannski hv. þm. vildi að gámaskipin sigldu til Ísafjarðar og flyttu allan fisk út óunninn, ísaðan til Evrópu eða á aðra markaði. Ég er ekki viss um að kjósendur hans yrðu eins ánægðir með niðurstöðuna ef það yrði gert. ( KP: Það er engin ástæða fyrir hv. þm. að hafa áhyggjur af mínum kjósendum.) Jú, hv. þm. Það er nefnilega full ástæða til þess að hafa áhyggjur af þínum kjósendum vegna þess að kjósendur hv. þm. eru verkafólkið og verkakonurnar og aðrir sem vinna við fiskiðnaðinn á Vestfjörðum. Það er áhyggjuefni hvað er að gerast og hvernig þróunin er í sambandi við fiskvinnsluna í landinu og það er ekki hægt að kenna fjármagnskostnaðinum einum út af fyrir sig um það. Það er hægt að kenna því um, eins og hv. þm. Skúli Alexandersson var að tala um, að hér hefur verið röng stefna í sjávarútvegs- og fiskiðnaðarmálum í það heila tekið. ( KP: Hversu lengi?) Ég vakti athygli hv. þm. á því að það byrjaði upp úr 1978 og 1979 þegar þessir þrír flokkar, sem telja sig félagshyggjuflokka og vinstri flokka, tóku völdin á Íslandi. Þar hófst sú stefna sem hv. þm. Skúli Alexandersson fordæmir hvað mest í ræðum.
    Ég er, hæstv. sjútvrh., að rekja það vegna þess að einn af stuðningsmönnum stjórnarinnar réðist mjög harkalega á stefnu núv. ríkisstjórnar í sjávarútvegsmálum. Hann sagði m.a. að hún væri að grafa undan sjávarútvegi, stefnan hefði verið röng og væri enn röng. En hann vildi fyrst og fremst kenna kvótanum um það. Ég gat ekki alveg fallist á að ræða þetta í svo þröngri merkingu þannig að ég fór að ræða þetta í víðara samhengi og er kominn í miðja ræðu í því efni. Ég vildi aðeins láta hæstv. ráðherra vita þetta svo að hann skildi forsögu þess máls sem hér er til umræðu. En það sem virðist vera mjög óþægilegt fyrir hv. stuðningsmann ríkisstjórnarinnar Skúla Alexandersson, svo að hæstv. ráðherra viti það, og virðist valda honum miklum óþægindum er að hann skuli ekki geta hengt þetta allt saman, vandamál sjávarútvegsins og fiskiðnaðar, á kvótann. ( SkA: Og Sjálfstfl.) Það var einkum þetta með kvótann þannig að ég taldi það skyldu mína að upplýsa hv. þm. og fleiri um að þetta væri miklu stærra mál sem tengdist

m.a. því hvaða stefna var upp tekin fyrir nokkrum árum, þ.e. á árunum 1978, 1979 og 1980 þegar Alþfl. og Alþb. fóru að hafa meiri afskipti af þessum málum. Ég gagnrýndi að vísu Framsfl. nokkuð líka fyrir það hvernig hann notfærði sér veikleika þessara tveggja flokka og lét fjárfesta of mikið, í of mörgum fiskiskipum. Í stað þess að beina fjármagni í það að efla þau frystihús t.d. sem þá voru þegar fyrir hendi, þá hefur Framsfl. ekki gætt þess sem skyldi að dreifa ekki fjármagninu eins og hann gerði með þar af leiðandi röngum áherslum og þeim áherslum, sem við stöndum frammi fyrir, að það eru stór frystihús með of lítið hráefni sem gerir að verkum að eftir því sem vinnslan er minni og nýtingin lakari er fjármagnskostnaðurinn þyngri. Ég var að reyna að upplýsa hv. þm. um að þarna væri samhengi á milli líka.
    En svo kom ég inn á það, sem ég held ég að sé nauðsynlegt að hæstv. ráðherra fái að heyra, að þegar menn eru að tala um kvótann verður að hafa í huga
hvernig á að reyna að nýta hann. Það er svo þýðingarmikið að ræða það sérstaklega þegar maður ræðir um erfiðleika frystihúsanna að ég verð að vekja athygli hv. þm. á því að árið 1988 má áætla að af rúmlega 640 þús. tonnum sem komu úr sjó af þorskfiskum eða eitthvað svoleiðis, þ.e. þorsk, ufsa, ýsu, karfa o.fl., fóru um það bil 110 þús. beint ferskt og ísað á Vestur-Evrópumarkaði, einkum smáýsa fór í flugvélum til Ameríku af þessu. Ef maður áætlar að þessir 20--30 frystitogarar hafi fryst um borð og aflað við skulum segja 50--60 þús. smálestir er maður að tala þarna um 170--180 þús. smálestir af þessum rúmlega 600 þús. smálestum. Það er það sem er þá til skiptanna í aðrar vinnslugreinar, í frystingu, salt o.s.frv. Þeir sem til þekkja vita, ef við tökum bara ferska fiskinn og ísaða fiskinn, að fyrir fimm árum voru það ekki nema 40--50 þúsund tonn sem fóru í þessu ástandi til útlanda. Þar er mikill munur á. Annars hefði þetta farið beint í frystinguna eða í saltfiskinn. Sá fiskur sem er frystur um borð fer ekki í vinnslu í landi og það gerir enn erfiðara að nýta þau tæki sem var verið að fjárfesta í tímabilið 1979--1989, á síðasta áratug. Þarna vorum við komnir í umræðunni.
    En ég ætla einnig að ræða það við hv. þm. að á sama tíma sem menn eru að ræða um veiðarnar, kvótann og vinnsluna verða menn að hafa í huga þau atriði sem lúta að mörkuðum. Síðan er alveg nauðsynlegt að gera sér grein fyrir því efnahagsumhverfi sem þessi atvinnugrein á að starfa í. Það þýðir ekki að taka kvótann út og segja: Hann er vondur. Hæstv. sjútvrh. núv. er allt að kenna. Þetta er mörgum, mörgum fleiri að kenna. (Gripið fram í.) Hæstv. ráðherra ber ábyrgð á þessu atriði. ( SkA: Ég nefndi líka Sjálfstfl.) Hæstv. ráðherra ber ábyrgð á útfærslu sjávarútvegsmála á Íslandi. (Gripið fram í.) Er hv. þm. að draga í land? ( SkA: Nei, nei.)
    Þá skulum við víkja örlítið að markaðsmálum. Ég held að það sé nauðsynlegt að fjalla meira og betur um þetta. Hér er um meginmál að ræða sem er þetta

kvótafrv. og allt sem er því tengt. Tökum markaðina. Það verður að skoða það í samhengi við veiðar og sölu og þar lendir vinnslan á milli og það efnahagsumhverfi sem menn eru að reyna að skapa. Það er einmitt í þessu efnahagslega umhverfi sem vinstri flokkunum hefur gersamlega mistekist að gera sér grein fyrir hvernig á að standa að málum og hvernig á að breyta því. Ég rakti það mjög ítarlega í upphafi míns máls áðan hvernig Alþfl. brást alveg sérstaklega á sl. ári þegar ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar var við völd. Ég rakti alveg sérstaklega hvernig þeir brugðust, hvernig þeir komu í veg fyrir að Sjálfstfl., og ég skal taka Framsfl. með, leystu þennan vanda vorið 1988. Það stóð ekki á Framsfl. að taka þátt í þeim ráðstöfunum og tillögum sem Sjálfstfl. var með. Ég rakti einnig hvernig sami flokkur, ég segi því miður, þetta er nú gamli samstarfsaðilinn úr viðreisnarsamstarfinu sem reyndist okkur öllum vel, brást aftur haustið 1988 og ég rakti það og minnti á það að þegar núv. ríkisstjórn var mynduð lofaði hún að leysa vanda sjávarútvegs og fiskiðnaðar. Hún hefur ekki gert það. Hún hefur aukið á vandann. Hann er enn meiri, enn verri en hann var haustið 1988 og var hann samt nógu vondur þá.
    En svo að ég víki nánar að mörkuðunum til að skýra betur að það er ekki hægt að tala eins og gert hefur verið í sambandi við kvótann og fiskveiðarnar og reynt er að kenna ákveðnum aðilum sérstaklega um það og ég er ekkert að tala um einstaka flokka né einstaka menn. Sjálfstfl. axlar sína ábyrgð í þessum efnum eins og aðrir flokkar. En hann vill gera betur. Hann vill leiðrétta hafi honum orðið á mistök. Það vill hann leiðrétta, enda er þjóðin búin að gera sér grein fyrir því að Sjálfstfl. er best treystandi til þess. Það hafa skoðanakannanir sýnt. (Gripið fram í.) Ég veit að hv. þm. Skúli Alexandersson þekkir ekki mjög vel til mála á Reykjavíkursvæðinu. Hann umgengst almenning ekki mikið hér eins og við gerum sem erum af svæðinu. Ég þarf ekkert að ítreka það. (Gripið fram í.) Ég skil að virðulegur forseti reynir nú að þagga niður í þessum stjórnarstuðningsmönnum sem þola ekki að heyra sannleikann.
    Það er nauðsynlegt í þessu samhengi að skoða hvaða breytingar urðu á mörkuðunum sem höfðu þau áhrif að útfærsla þeirrar stefnu sem við stóðum að sem samþykktum kvótann á sínum tíma ... (Gripið fram í.) Ég gerði það, hv. þm. Ég gerði það síðar. Ég er að tala um núverandi kvóta. Það voru fleiri atriði sem menn þurfa að hafa í huga en þau sem hv. þm. kom inn á og þar kem ég sérstaklega inn á markaðsmálin og einnig inn á það efnahagsumhverfi sem núv. stjórnarflokkum hefur ekki tekist að breyta til hins betra fyrir þessa verksmiðjugrein og við fengum því miður ekki svigrúm til að breyta sl. haust vegna þess að Alþb. þurfti að komast til valda með þeim hörmulegu afleiðingum sem við horfum upp á í dag. Það er ekki bara í þessu máli. Það er hægt að ræða um önnur mál sem eru miklu alvarlegri og ég mun gera það á eftir vegna þess að það snertir sjávarútvegsmálin. Það er í sambandi við fiskeldið og

það verkfall sem núna stendur yfir og þessir flokkar hafa ekki leyst. Til hvers halda menn að þeir hafi völd í landinu? Þeir hafa þau til þess að leysa vandamálin og hjálpa fólkinu til að ná sátt en ekki efna til átaka og illinda og ekki að halda þannig á málum að fólk vilji ekki semja við þá. Eins og málum er háttað nú eru hundruð og þúsundir manna sem vildu semja við ríkisstjórnina um sín
kjör og sína stöðu. Þetta fólk fær ekki samninga vegna þess að það hefur ekki umgengist með réttum hætti frá því að samningaviðræður hófust. Það þarf að sýna skilning og umburðarlyndi þegar menn eru að reyna að semja um kaup og kjör og stöðu fólks. (Gripið fram í.) Það stendur ekki á því, hv. þm. Eiður Guðnason, að hinn almenni launamaður hafi skilning á því að hann vilji semja um sína stöðu þannig að hann geti lifað og starfað í landinu eins og hv. þm. vilja gera. ( SkA: Þetta hefði Sjálfstfl. átt að vita fyrir nokkrum árum.) Ég vil bara minna hv. þm. Skúla Alexandersson á að það hefur aldrei komið og kom aldrei fyrir á meðan Sjálfstfl. var við völd að verkfall þeirrar tegundar sem þjóðin horfir upp á í dag væri í landinu. Það hefur aldrei skeð fyrir. Nei, aldrei. (Gripið fram í.) Nei. Ég bið hv. þm. þá að koma upp á eftir og nefna slík verkföll.
    En það varðar annan þátt útvegsmála sem er fiskeldi. Ég mun víkja að því á eftir. ( St G: Fiskeldi?) Fiskeldi, já. Ég ætla að víkja að því hvernig þessari hæstv. ríkisstjórn hefur gersamlega mistekist að halda þannig á málum að fólk búi við afkomuöryggi og atvinnuvegirnir gangi með eðlilegum hætti. En markaðina þarf að skoða líka þegar verið er að ræða um kvótann. Það þarf að skoða hver er markaðsstaðan. Hvaða áhrf hefur hún á nýtingu kvótans? Hvaða áhrif hafa markaðirnir á möguleika einstakra vinnslugreina? Það verður að skoða þetta allt í samhengi. Það er ekki hægt að taka út einn og einn þátt og segja eins og sagt var áðan. Menn verða að skilgreina þá hvað felst í rangri stefnu í sjávarútvegsmálum í það heila tekið. Ég vek athygli hv. þm. á því að það var stjórnarstuðningsmaður sem vakti sérstaka athygli á því að það hefur verið röng sjávarútvegsstefna á Íslandi í mörg ár. Hvern er hv. þm. sérstaklega að gagnrýna? Hann er að gagnrýna þann mann sem ég mundi segja að væri eini þungavigtarmaðurinn í þessari hæstv. ríkisstjórn. Ég er ekki að verja hann út af fyrir sig. Ég vil bara að málin séu rædd í réttu samhengi og öll málsatvik séu tekin inn í myndina þannig að menn geti gert sér grein fyrir því hvernig á að breyta rangri stefnu í rétta. En það er ekki von að hv. þm. sem koma úr röðum alþýðubandalagsmanna og Alþfl. vilji ræða þetta í þessu samhengi. Það viljum við sjálfstæðismenn. Við viljum nálgast umræðuna á málefnalegum grundvelli.
    Þetta með markaðina, sem hefur haft mikil áhrif á það hvernig kvótarnir væru nýttir vegna þess að það skiptir höfuðmáli að þeir sem eru við veiðarnar fái sem mest fyrir sitt erfiði, er grundvallaratriði og grundvallarstaðreynd. Það skiptir höfuðmáli fyrir

íslenska þjóð að fiskimennirnir beri það úr býtum sem mögulegt er og það sé hægt að hámarka þeirra tekjur. Um þetta eru allir sammála.
    Það sem gerðist og hefur gerst á undangengnum árum er að á sama tíma sem þessi mikla fjárfesting verður í landi í fiskiðnaðinum, á sama tíma sem við þurfum að búa við þrengri kvóta breytast allar markaðsaðstæður. Þær breytast þannig í stórum dráttum að það má segja að markaðir fyrir frystar afurðir hafi verið í hámarki eiginlega fram til ársins 1987. Þá var verð mjög hátt í stórum dráttum á frystum sjávarafurðum á þeim mörkuðum sem helst keyptu frystar sjávarafurðir og borguðu í dollurum, þ.e. þá var dollarinn mjög sterkur en þeir markaðir sem við seldum helst til voru dollaramarkaðir. Þetta var mjög hagkvæmt. En það sem gerist er að dollarinn veikist mjög mikið á sama tíma sem aðrir gjaldmiðlar eins og þýska markið og sterlingspundið styrkjast verulega.
    Það gerðist einnig um sömu mundir að það verður ég segi ekki fiskþurrð í Norðursjónum, en a.m.k. fiskimið nálægari Vestur-Evrópu urðu mun lélegri en áður var. Það kom minni fiskur upp úr sjó í Norðursjónum og á helstu fiskimiðum kringum Bretlandseyjar. Það þýddi að eftirspurn eftir ferskum fiski jókst mjög mikið. Þetta vitum við allir. Þar af leiðir að sjómenn og fiskimenn vildu beina því sem mest inn á markaði sem gáfu hátt verð, enda kom það vel út fyrir útgerðina. Einnig gerist það að saltfiskur hækkar verulega í verði. Allt hefur þetta hliðaráhrif á stöðu frystihúsanna í landi. Síðan bætist við að frystitogurum fjölgar þannig að það magn sem fer á land til vinnslu minnkar enn frekar.
    Þetta eru þau atriði sem mér finnst að menn verði að taka með þegar verið er að ræða um stefnuna í fiskiðnaðar- og sjávarútvegsmálum og eru að ræða kvótann.
    Á sama tíma gerist það, virðulegi forseti, að það efnahagsumhverfi sem þessi atvinnugrein þarf að starfa við, þ.e. innri aðstæður, breytist til hins verra þannig að kostnaðarhækkanir verða verulegar og miklar og öll lán eru meira og minna verðtryggð.
    Niðurstaðan er sem sagt í stórum dráttum sú að það er ekkert eitt atriði sem hefur ráðið hér úrslitum. Það eru mörg samhangandi atriði eins og gefur að skilja. Ég hef reynt að ræða um nokkur atriði sem mér finnst nauðsynlegt að menn hafi í huga þegar verið er að fjalla um þessi mál.
    Ég fyrir mitt leyti get tekið undir það, sem hv. þm. Skúli Alexandersson sagði, að vegna þess hverjir sitja nú að völdum á Íslandi, það eru flokkar sem hafa engan skilning á sjávarútvegi og fiskiðnaði, er hæstv. sjútvrh. eins og fangi. Þótt hann vildi breyta um stefnu hefur hann greinilega ekki fengið þann
skilning hjá stjórnarstuðningsmönnum sem þyrfti til að geta beint áherslum inn á þær brautir sem ég gat um áðan. Það er fyrst og fremst sú stefna, sem Framsfl. og Sjálfstfl. voru sammála um á sl. ári allt þar til samstarfið rofnaði haustið 1988, að það yrði auðvitað númer eitt og tvö að skapa sjávarútvegi og fiskiðnaði

rétt rekstrarskilyrði. Þessir flokkar og sérstaklega Sjálfstfl. voru með tillögur um hvernig þetta skyldi gert. Þær fengu ekki hljómgrunn.
    Nú er spursmálið þetta. Ég er ekki að biðja ráðherrann um að svara þessu núna. Hann getur gert það síðar en ég óska eftir að hann geri það sem fyrst samt því þetta er mjög þýðingarmikið atriði. Hvað ætlar hæstv. sjútvrh. að sitja lengi í ríkisstjórn þar sem hann getur ekki leiðrétt þá stefnu í sjávarútvegsmálum sem er alveg lífsspursmál að verði gert hið fyrsta? Hér hafa stjórnarstuðningsmenn að honum fjarstöddum lýst því yfir að sú stefna sem hann er neyddur til að framkvæma í núverandi ríkisstjórn sé röng.
    Ég vona fyrir mitt leyti að þessi ágæti maður, sem er verðmætur fyrir íslenskan sjávarútveg og fiskiðnað vegna þess skilnings og þeirrar þekkingar sem hann hefur á þessum málum, geti sem fyrst svarað minni spurningu og þá með viðeigandi hætti sem er ekki nema á einn veg, þ.e. að þessi ríkisstjórn fari frá og efnt verði til kosninga og mynduð ný ríkisstjórn sem framkvæmir rétta stefnu í sjávarútvegsmálum.