Stjórn fiskveiða
Þriðjudaginn 09. maí 1989

     Sjávarútvegsráðherra (Halldór Ásgrímsson):
    Herra forseti. Aðeins til þess að svara þessari fyrirspurn var það trú ríkisstjórnarinnar og margra annarra sem hafa fylgst með þeim samningum sem nú hafa staðið yfir að það væru allar líkur á því að sú kjaradeila mundi leysast um síðustu helgi eða upp úr henni. Því miður hafa þær vonir brugðist og nú stöndum við frammi fyrir því að mikil óvissa ríkir um framvindu þessa máls og veit enginn á þessari stundu hvenær sú deila leysist.
    Á ríkisstjórnarfundi í morgun ræddi ríkisstjórnin með hvaða hætti væri hugsanlegt að koma í veg fyrir þann skaða sem fyrirsjáanlegur er af þessu verkfalli. Þetta á við um skólana, landbúnaðinn, sjávarútveginn og ýmislegt annað í okkar þjóðfélagi.
    Það er alveg ljóst að það verður ekki komið í veg fyrir fyrirsjáanlegan skaða með neinum varanlegum hætti nema með því að verkfallið leysist. Hins vegar má áreiðanlega draga úr honum með ýmsum hætti. Það er því verið að athuga það núna með hvaða hætti það má verða ef svo illa vildi til að verkfallið drægist á langinn, en það liggur ekki fyrir nein niðurstaða um það. Ríkisstjórninni er alveg ljóst að það er í mörgum tilfellum mikil hætta á ferðum, en ég vænti þess að þeim aðilum sem standa í þessum deilum sé það jafnframt ljóst því að þeir bera mikla ábyrgð og það gengur ekki í okkar þjóðfélagi að vera ávallt að varpa ábyrgðinni yfir á aðra eins og gerist í allt of miklum mæli. Menn hafa oft staðið í verkfallsátökum í þessu landi og það er alltaf sú tilhneiging að varpa ábyrgðinni yfir á stjórnvöld. það hefur vissulega oft tekist og stjórnvöld þurft að grípa þar inn í. En það er ástand sem enginn má treysta á og það á ekki síst við um þá deilu sem nú ríkir að viðkomandi aðilar verða sjálfir að finna til þeirrar ábyrgðar sem þeir standa frammi fyrir.