Stjórn fiskveiða
Þriðjudaginn 09. maí 1989

     Skúli Alexandersson:
    Herra forseti. Vegna þess að hv. 14. þm. Reykv. notaði svo mikinn hluta af ræðu sinni til að fjalla um það sem ég sagði í dag í þessari umræðu langar mig til þess að nefna aðeins einn þátt af því sem hann nefndi þar. Ég skal vera mjög stuttorður.
    Það er hin langa ræða um útflutning á ferskum fiski og að allt væri nú komið í íslenskum sjávarútvegi svo sem raun ber vitni vegna þess að það væru jafnvel 200 þús. tonn ... ( GHG: Það eru 109.200 nákvæmlega.) 109.200 tonn nákvæmlega. ( GHG: Og svo er frystitogarafiskurinn.) Svo er frystitogarafiskurinn, já. Alveg rétt. Ekki rengi ég að hann hafi sagt það, hv. þm., sem hann upplýsir nú. Ef þetta er af hinu vonda, sem ég ætla ekki að kveða upp úr um, er það vegna þess að eitthvað hefur misfarist í stefnunni. Ekki endilega fiskveiðistefnunni sem ræðumaður taldi að ég hefði fyrst og fremst verið að tala um og hún væri grundvöllur alls þess hvernig komið væri. Ekki gerði ég lítið úr því hvað hún væri vond. En hitt er líka að efnahagsstefnan í landinu var þannig að þróunin hefur verið sú að meira og minna af ferskfiskinum okkar, hráefninu okkar hefur verið flutt út óunnið. Það er ekki vegna fiskveiðistefnunnar. Það er m.a. vegna stefnu þeirrar ríkisstjórnar sem hv. þm. studdi og hv. þm. Þorsteinn Pálsson stjórnaði.