Búfjárrækt
Þriðjudaginn 09. maí 1989

     Pálmi Jónsson:
    Herra forseti. Frv. þetta eins og það kemur frá hv. Ed. er verulega breytt frá því það var lagt fram og sést að hv. Ed. hefur tekið af skarið og breytt frv. í samræmi við það sem lagt var til á aukafundi búnaðarþings í síðasta mánuði. Ég held að það komi í ljós að hv. Alþingi sjái sér fært að breyta málum þannig að um þau geti orðið sæmilegur friður og taki ráðin af hæstv. ríkisstjórn og hæstv. ráðherra sem vildi koma þessu máli fram með allt öðrum hætti, þeim hætti að fella niður öll framlög til félagsstarfs í búfjárrækt í landinu og hafa það gjörsamlega opið sem áður hafði verið í lögum, en í þetta frv. eins og það kemur frá hv. Ed. er þó sett tiltekið lágmark sem síðan er gert ráð fyrir að verði vísitölutryggt í meðferð þessara mála til frambúðar.
    Ég fagna því að hv. Ed. skyldi taka á málinu með þessum hætti og, eins og ég sagði, taka ráðin af hæstv. ríkisstjórn og hæstv. ráðherra varðandi þær fyrirætlanir sem birtust í frv. eins og það var lagt fram upphaflega. Það sannast að ferð þeirra bændahöfðingja til aukaþings á búnaðarþingi hefur ekki verið til einskis hvað þetta snertir þar sem þeir sáu sig knúða til þess að stofna til ferðar hingað til Reykjavíkur til aukafundar á afbrigðilegum tíma í búnaðarþingi til þess að snúast til varnar gegn núv. hæstv. ríkisstjórn í málefnum landbúnaðarins.