Söluskattur
Þriðjudaginn 09. maí 1989

     Frsm. fjh.- og viðskn. (Páll Pétursson):
    Herra forseti. Á þskj. 1047 liggur fyrir álit fjh.- og viðskn. varðandi frv. til laga um breytingu á lögum um söluskatt á þskj. 816.
    Nefndin hefur fjallað um frv. og leggur til að það verði samþykkt óbreytt eins og Ed. afgreiddi það. Hér er um þingmannafrumvarp að ræða og ég verð nú að segja að það er nokkuð áhættusamt að flytja mál með þeim hætti sem hér er gert og eðlilegra hefði verið að þetta mál hefði verið flutt sem stjfrv. og líklegra til að ná fram að ganga með þeim hætti. Það varð hins vegar niðurstaða nefndarinnar að mæla með þessu máli. Það er verið að létta söluskatti af sérhæfðum tækjum til garðyrkju, þ.e. að gefa heimild til þess.
    Undir þetta rita nefndarmenn en Ingi Björn Albertsson gerir það með fyrirvara.